Færsluflokkur: Evrópumál

Ráðherra sagði satt!

"Landbúnaðarskýrslan er trúnaðarmál" segir í viðtengdri frétt og það það mjög í anda ESB. Ef innihaldið hentar ekki Evrópusambandinu er sannleikanum haldið leyndum. Það má líta á feluleikinn með skýrslu Háskóla Íslands sem æfingu í Brusselskum Evrópufræðum.

Það er ekki vel séð í Brussel þegar embættismenn segja satt. Síst af öllu ef þeir eru hátt settir og tala um „lýðræðið" innan ESB. Hér er eitt alveg nýtt dæmi.

Fulltrúi Íra í Framkvæmdastjórn ESB er Charlie McCreevy, fyrrum fjármálaráðherra landsins. Hann er ráðherra málefna innri markaðarins (Internal Market and Services Commissioner). Fyrir mánaðamótin sat hann ráðstefnu endurskoðenda í Dublin.

Ég held að stjórnmálamenn í Evrópu viti að ef sama spurning hefði verið borin undir þjóðaratkvæði í löndum þeirra hefði niðurstaðan í 95% landanna orðið „nei" líka.

McCreevyÞetta sagði McCreevy um Lissabon samninginn. Honum varð það á að segja satt og hefur mátt þola gagnrýni fyrir. Írar verða látnir kjósa aftur um samninginn í október af því að þeir kusu ekki „rétt" í fyrra, að mati ESB. Írar eru eina þjóðin innan ESB sem fékk að kjósa, en venjulega fá þegnar Evrópuríkisins aldrei að kjósa um neitt sem skiptir máli.

Niðurstaða kosninganna í október liggur fyrir. Meirihlutinn mun segja já þar sem ríkisstjórn Evrópuríkisins er staðráðin að spara sig hvergi og sjá þannig til að „mistökin" frá því í fyrra endurtaki sig ekki. Þeir gerðu þetta líka 2002 og kunna handtökin.

ESB hótar Írum
Eftir þessi mistök er ljóst að McCreevy verður ekki á ráðherralistanum sem José Manuel Barroso, forsætisráðherra Evrópuríkisins, leggur fram í haust. Og það sem meira er, ef Írar gera ekki eins og þeim er sagt og kjósa "já" er líklegt að þeir fái engan fulltrúa í Framkvæmdastjórn ESB. Þessi dæmigerða ESB hótun gegn lýðræðinu kemur fram í máli Barrosos í Irish Times í gær.

 


mbl.is Landbúnaðarskýrslan sögð trúnaðarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TÖFRALAUSN ER FUNDIN

Það þarf nákvæmlega sömu stafina til að rita orðin töfralausn og launastörf.*

Töfralausn á kreppu er ekki til. Síst af öllu felst hún í því að gefa fullveldið upp á bátinn og skríða inn í Evrópuríkið. Það er ekki "aðgerð í efnahagsmálum" eins og sumir vilja meina.

Leiðin út úr kreppu er gömul og vel þekkt: Að skapa atvinnu, nýta auðlindirnar, afla gjaldreyis og eyða ekki um efni fram. Lausnin er til og það þarf enga töfra.

Vissulega skekkir IceSave deilan myndina, en ef stjórnvöld vilja í alvöru að Ísland vinni sig út úr kreppunni á áherslan að vera á launastörf. Hætta leitinni að töfralausn sem aldrei finnst og gleyma Evrópusambandinu.

Athyglisverðast í viðtengdri frétt eru fyrsta og síðasta setningin:

Engar tölur eru fyrirliggjandi um áætlaða skuldabyrði vegna Icesave-samkomulagsins og verður leyndinni ekki aflétt fyrr en að lokunum fundum í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd á morgun.
og
Að því loknu hefst síðari umræða um mögulega aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

 
Þessi mál eru iðulega tvinnuð saman, ekki síst vegna aðkomu ESB að IceSave deilunni. Það er óskiljanlegt að umsókn um aðild Íslands að ESB sé á dagskrá Alþingis á sama tíma og IceSave deilan er óútkljáð.
ESB er beinn þátttakandi í þeirri deilu eins og alls ekki hlutlaus, eins og málsgögnin bera með sér.

 

*  Eins konar ps:
Þetta með töfralausn vs launastörf er fengið úr hinni frábæru krossgátu í Sunnudagsmogga. Mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af orðaleikjum, krossgátum og annarri hugarleikfimi.

 

 


mbl.is Leynd ekki aflétt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-UMMÆLI VIKUNNAR

"Það sem maður eignast fyrirhafnarlaust, það er manni sama um." sagði síðari viðmælandi Gísla Einarssonar í þættinum Út og suður á sunnudaginn. Hún heitir Sigríður Jónsdóttir og er bóndi í Arnarholti í Biskupstungum. Auk búmennskunnar er hún kennari, hönnuður og ljóðskáld með meiru.

Undir lok viðtalsins berst ESB í tal og þetta svar Sigríðar eru ummæli vikunnar.

Gísli: "Skil ég það rétt að þú setjir Evrópusambandið og fíkniefni í sama flokk?"

Sigríður: "Ég geri það já. Nema þetta er ekki skilgreindur sjúkdómur og ekki til meðferðarstofnanir varðandi þessa Evrópusambandsfíkn."

Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Sigríður sagði umræðuna um að ganga í Evrópusambandið sprottna af minnimáttarkennd. Hugmyndin sé af sömu rót og þegar menn vildu rífa gömul hús af því að þau voru byggð af vanefnum. Skömmuðust sín fyrir þau, vildu losna við þau og byggja nýtt og betra.

Að vilja ganga í Evrópusambandið stafi af sjálfsfyrirlitningu, sem leiði til þess að einstaklingurinn rífi sjálfan sig niður. Til þess noti menn ýmsar leiðir, svo sem ofát, áfengisneyslu og misnotkun fíkniefna. Villuskoðanir um Ísland innan Evrópusambandsins séu af sömu rót.

Þetta var hressilegt viðtal, sem má sjá og heyra hér

Það er margt fleira athyglisvert í samtalinu við Sigríði. Gísli ræðir við hana um fullkomið frelsi, trú, búskap, þröstinn sem stritar fyrir ungana sína og um ástina, sem verður til af fyrirhöfn. Líka um baráttu gegn innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm. "Það er svo fljótlegt að eyðileggja hluti" sagði Sigríður um það, og gæti átt við margt annað líka.

Lokasvarið í viðtalinu er svo punkturinn yfir i-ið:
Gísli: "Hver er þín framtíðarsýn?"
Sigríður: "Það er að verða 85 ára með karlinum mínum."

Framtíðarsýnin þarf ekki endilega að vera hnattræn.


mbl.is Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ESB spillingarbæli?

Hve margir lesa frétt með fyrirsögninni Afsögn í Króatíu? Ekki margir. Fyrirsögnin er látlaus en innihaldið er grafalvarlegt.

Ivo Sanader forsætisráðherra sagði af sér. Ástæðan: Seinkun á aðild Króatíu að Evrópusambandinu. Í svari/skýringu ráðherrans segir:

ég játa að ég tók ekki boðum um störf innan Evrópusambandsins

Ef valdamiklum ráðamanni er boðinn vænn bitlingur fyrir að "liðka fyrir" framgangi mála, hvað kallast það? Mútur?

Mútugreiðslur


Síðan kemur athugasemd Sanaders:

Evrópusambandið og verkefnið um evrópskan samruna eiga ekki möguleika ef mútur eru viðurkennd aðferðafræði innan Evrópusambandsins 

Takið eftir: ef mútur eru viðurkennd aðferðafræði innan Evrópusambandsins

Forsætisráðherra Króatíu leit þetta svo alvarlegum augum að hann sagði af sér. Þetta hlýtur að teljast alvöru frétt á Íslandi, nú þegar svo mikið er rætt um að gera landið að hluta af Evrópuríkinu.

Takið líka eftir: verkefnið um evrópskan samruna

Hér eru notuð réttu orðin. Í Lissabon samningnum er lagt fyrir auknum pólitískum samruna þar sem yfirþjóðlegt stjórnvald er eflt. Það er fámennum aðildarríkjum ekki í hag.

Ef heimildir Morgunblaðsins eru réttar hefði afsögn Sanaders átt að kalla á miklu meiri athygli en eina litla "felufrétt" undir fyrirsögninni Afsögn í Króatíu. Ég neita að trúa að Mbl "feli" viljandi fréttir sem eru óþægilega fyrir málstað þeirra sem vilja byggja velferðarbrú til Brussel.

Ivo Sanader var boðinn bitlingur. Við skulum vona að enginn íslenskur ráðamaður hafi fengið brusselskt tilboð.

 

 


mbl.is Afsögn í Króatíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

UNDIRMÁLSLÁN - alveg óborganlegt

Íslendingum "stendur til boða" risavaxið myntkörfulán með eigin ríkisábyrgð. Skuldbindingu sem aldrei er hægt að standa undir, sama hvernig ráðherrar reyna að reikna í sig kjark. Það yrði stórasta undirmálslán í heimi. En hvað gerist ef ríkisábyrgð vegna IceSave samninga er hafnað?

Það þýðir ekki að Ísland neiti að borga
Það þýðir ekki að Ísland neiti að semja

Menn óttast meiriháttar erfiðleika ef við segjum nei. Það er ekki flókið að kynda undir hræðslu eftir þá kúgunartilburði sem Bretar hafa sýnt, með ESB sem bakhjarl í pólitísku ofbeldi. En ég fullyrði þó að gífuryrði um refsiaðgerðir og "algjöra einangrun" eigi ekki við rök að styðjast. Það er eins og stjórnvöldum sé mikið í mun að standa gegn þjóð sinni og hræða hana til Kúbu.

Útgangspunkturinn hlýtur að vera: Hvað getum við greitt?

OkurlánariTil hvers að semja um eitthvað sem fyrirfram er vitað að ekki verður hægt að standa undir? Það er ekki heiðarlegt. Slík undirmálslán eru rót heimskreppunnar.

Miklu heiðarlegra er að segja við Breta og Hollendinga "Við viljum standa við allar okkar skuldbindingar að lögum, en því miður, þetta getum við ekki". Leggja svo til að samið verði aftur.

Það er farsælast að semja og skýra þá réttarstöðuna í leiðinni. Þann samning sem Íslendingar hafa sett stafina sína undir er aldrei hægt að réttlæta. Minnisblöð og þvingaðar viljayfirlýsingar fyrri ríkisstjórna breyta engu þar um.

Þó forsendur í fyrri færslu (sjá hér) séu "vægar" er útkoman samt sú að það er algjörlega útilokað að Ísland geti staðið undir afborgunum. Með samþykkt ríkisábyrgðar er verið að dæma íslensku þjóðina til þrenginga og jafnvel fátæktar næstu 20-30 árin. Lengur ef fólksflótti verður mikill.

Þessi IceSave samningur er óborganlegur, en því miður ekki í hinni hefðbundnu jákvæðu merkingu þess orðs.


Skaðleg flokkspólitík?

Það er eitt í þessu dæmi öllu sem ástæða er til að óttast. Það er flokkspólitíkin. Í umræðunni hafa menn skipst með og á móti ríkisábyrgð nokkurn veginn eftir flokkslínum. Það væri skelfilegt ef við sætum uppi með sligandi drápsklyfjar af því að einhverjir þingmenn ákváðu að greiða atkvæði með flokknum sínum en ekki með þjóðinni. Af því að flokkurinn þurfti að líta vel út. Og þjóðin tapar.

 


mbl.is Getum staðið við Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Super Mario í nýjum ESB bankaleik

EURO_propagandaESB leggur mikið upp úr ímyndinni. Skýrasta dæmið er Adonnino nefndin (1984) sem vann að hugmyndum um sameiginleg tákn Evrópusambandsins. Hún lagði m.a. til fána, þjóðsöng, Evrópudag, frímerki, sjónvarpsstöð, lottó, vegabréf og bílnúmer. Margt af þessu kom til framkvæmda.

Á hverju ári eyðir Evrópusambandið €350 milljónum í „kynningarstarf". Já, hvorki meira né minna en 63 milljörðum króna í áróður! Það er hærri fjárhæð en Coca Cola Company ver til auglýsinga.

Bæklingar, kynningar, vefsíður, ráðstefnur, barnaefni, auglýsingar o.s.frv.. Í fréttum RÚV í gær sáum við tölvuleik af heimasíðu seðlabanka Evrópu sem gengur út á „að fá evruna". Ég sá ekki betur en þarna væri gamla Gameboy hetjan Super Mario komin í bankaleik, klædd jogging-galla.

Smellið hér og spilið skemmtilegan evruleik Seðlabanka Evrópu.
Leikurinn er í boð áróðurssjóðs ESB, samstarfsaðila Samfylkingarinnar á Íslandi.

Í ár mun óvenju há upphæð renna til Írlands. Þá verða Írar látnir kjósa aftur um samninginn sem þeir felldu í fyrra. Hinir digru „kynningarsjóðir" verða nýttir til að fullvissa Íra um að þeir þurfi að kjósa „rétt" í þetta sinn. Þeir fái samt að ráða reglum um fóstureyðingar, varnarmál og skatta.

Á næstu fjórum mánuðum veður vel æfðum frösunum dembt yfir Íra. Hvað sé „Írlandi fyrir bestu", að þeir verði að vera „virkir þátttakendur", að þeir megi ekki „einangrast í samfélagi þjóðanna" og svo öll „efnahagsrökin" sem kom málinu ekkert við.

Þeir þola ekkert frjálst lýðræði, herrarnir í Brussel. Þeir gerðu þetta líka 2002.

Ef Alþingi heimilar utanríkisráðherra að sækja um ríkisborgararétt í Evrópuríkinu, fyrir alla Íslensku þjóðina, hverjar eru þá líkurnar á að áróðurs-evrur renni til Íslands á næsta ári?

 


"Það hlýtur að vera EITTHVAÐ gott við ESB"

Í meðfylgjandi viðtali er spurt hvort ekki sé eitthvað gott við ESB. Viðmælandinn er þingmaðurinn Daniel Hannan, sem á sæti á Evrópuþinginu fyrir breska Íhaldsflokkinn. Svar hans er í stuttu máli: Nei, ekkert!

Svör þingmannsins eru skýr og athyglisverð, en viðtalið er 3ja mín. langt. Hannan er líka spurður hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon samninginn (reform treaty), sem Gordon Brown, formaður bresku Samfylkingarinnar, sveik breska kjósendur um þrátt fyrir hátíðleg loforð.



Að loknu viðtalinu eru nokkrir breskir borgarar teknir tali. Þeir kvarta yfir skertu fullveldi og sterku Brusselvaldi. Einn segir að Norðmenn hafi valið réttu leiðina með veru utan sambandsins og aðild að EES.

Bretarnir kvarta líka yfir því að ESB sé ekki lengur það efnahagsbandalag sem þeir gengu í á sínum tíma heldur pólitískt sambandsríki Evrópu (political Federal state of Europe). Einn vill láta endurskoða málin og hverfa aftur til efnahagssamvinnu en ekki fara inn í Evrópuríkið (Federal Europe) sem nú er í burðarliðnum. 

Daniel Hannan hefur skrifað greinar í Fréttablaðið þar sem hann varar Íslendinga sterklega við því að ganga í ESB. Það sem fram kemur í þessu myndbandi eru allt atriði sem Íslendingar ættu að skoða núna. Ekki bíða, ráfa inn í ESB í kreppu og vera svo vitur eftirá. Það er of seint.

 


Hvers vegna 17. júní?

Hvers vegna höldum við 17. júní hátíðlegan? Það er ekki vegna þess að þann dag árið 1397 var Eiríkur af Pommern krýndur fyrsti konungur Kalmarsambandsins. Heldur vegna þess að þann dag árið 1811 fæddist Jón Sigurðsson, á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Eiríkur var aðeins unglingur þegar hann tók við völdum og varð konungur Íslands. Ísland hafði þá lotið stjórn erlendra konunga allt frá því að Gamli sáttmáli var gerður 1262.

Jón SigurðssonJón Sigurðsson var óumdeildur leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þó íslenska þjóðin væri sú fámennasta og fátækasta í Evrópu, var Jón sannfærður um að henni farnaðist betur ef hún réði sínum málum sjálf. Með bjartsýnina að vopni og óbilandi trú á land og þjóð barðist hann fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands. Að losa þjóðina undan erlendum yfirráðum.

Þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldið á Þingvöllum 1944, rúmum sex áratugum eftir daga Jóns, kom aldrei annar dagur til greina en 17. júní. Fæðingardagur frelsishetjunnar frá Hrafnseyri.

Nú, 65 árum síðar, er átakanlegt að hlýða á forsætisráðherra landsins flytja þjóðhátíðarræðu. Í stað þess að blása þjóð sinni bjartsýni í brjóst og benda á þá möguleika og tækifæri sem sannarlega eru til, talar ráðherra um að ákvarðanir séu erfiðari og þungbærari en orð fá lýst. Í stað þess að leita lausna er vonast eftir flóttaleið. Í stað þess að segja "vér mómælum allir" að hætti Jóns er sagt "við verðum að borga IceSave". Bjartsýni, kraftur og trú fá ekkert pláss í boðskap ráðherrans.

Uppgjöfina vill ráðherrann fullkomna með því að gera Nýja sáttmála. Ekki við Hákon gamla eða Kalmarsambandið, heldur við portúgalskan valdamann, breskan verðandi forseta og Evrópusambandið.

islenski-faninnVerði það raunin er hið raunverulega innihald 17. júní horfið. Þó fólk geti farið í skrúðgöngur og haldið á fána er merkingin farin. Þessi dagur stendur fyrir sjálfstæði og fullveldi. Fyrir bjartsýni og trú. Fyrir framtak og óttaleysi. Fyrir elju og dugnað. Hann er tileinkaður Jóni Sigurðssyni. Ef gengið er gegn öllu sem hann stóð fyrir er það ekki við hæfi að halda þjóðhátíð á fæðingardegi hans.

Ég óska öllum Íslendingum til hamingju með daginn. Þjóðhátíðardag Íslendinga. Ég vona að 17. júní verði áfram dagurinn okkar, um alla framtíð. Ekki 9. maí, þjóðhátíðardagur Evrópuríkisins, heldur 17. júní. Og ég vona að það verði íslenski fáninn sem blaktir við hún, en ekki blá evrópsk dula með gulum stjörnum.

 


mbl.is Lýðveldið veikara en nokkru sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: Þú fattar ekki eftirá!

Það er ljóst á fréttum dagsins að nauðasamningar um IceSave eru forsenda fyrir lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum, ólíkt því sem tveir norrænir ráðherrar sögðu í síðustu viku. Samningarnir tengjast einnig hinni ólæknandi ESB-veiru sem hrjáir Samfylkinguna, en forsætisráðherra gleðst yfir því að njóta stuðnings starfsbræðra sinna á hinum Norðurlöndunum í því máli.


En hvað viljum við? Það er stuðningur þjóðarinnar sem ræður úrslitum. Vill meirihluti Íslendinga virkilega ganga í ESB og vera þar til frambúðar?

  - þar sem þingkosningarnar eru grín, með 43% kjörsókn

  - þar sem kommissararnir eru ekki kjörnir af þegnunum

  - þar sem ókosnir sérfræðingar í 3.094 vinnuhópum móta farveginn

  - þar sem úrslit lýðræðislegra kosninga eru ekki tekin til greina

  - þar sem Ísland hefði 0,064% vægi

  - þar sem kjósendur eiga aldrei kost á að kjósa um stefnu

  - þar sem menn eins og Berlusconi eru í hópi þeirra valdamestu

  - þar sem Gordon Brown býður okkur velkomin

  - þar sem Eva Joly nær ekki að reka Barroso (því miður)

  - þar sem þeir stóru og sterku ráða, hvað sem skipuritið segir

  - þar sem valdið er fjarlægt og andlitslaust

  - þar sem lýðræði er ekki til

Nei takk, ekki ég.


Því miður virðist enginn áhugi meðal stjórnvalda að leggja í vandaða kynningu á Evrópusambandinu svo allir geti tekið upplýsta afstöðu. Ekkert frekar en að upplýsa þingmenn um innihald nauðasamningana um IceSave. Heldur skal sótt um undir því yfirskini að þetta séu "bara viðræður" og að við fáum að kjósa um samning seinna.

Ef við villumst inn í Evrópusambandið erum við komin til að vera. Til frambúðar. Þar sem aðrir en við sjálf ráða ferðinni í málum okkar. Þá verður ekki aftur snúið, sama hversu ósátt við erum. Þá dugir ekki að berja búsáhöld. Það er of seint að fatta eftirá.


mbl.is Ekki ríkisábyrgð á leynisamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn endurtekið ESB-efni

Ef spurt er:
 - Ertu fylgjandi aðildarviðræðum við ESB? segir meirihlutinn

Ef spurt er:
Ertu fylgjandi því að sækja um aðild að ESB? segir meirihlutinn NEI

Samt er þetta sami hluturinn. Það þarf að sækja um fyrst, svo koma viðræður.

Það er endalaust hægt að þræta um hvort spurning sé skýr og allir skilji hana eins. Sama gildir um könnun Heimssýnar í vikunni, sumir töldu spurninguna ekki nógu skýra. Misvísandi niðurstöður í mörgum könnunum sýna, svo ekki verður um villst, að það er rík þörf fyrir því að dreifa góðum upplýsingum til almennings. Hlutlausum, vönduðum og málefnalegum.

EvruklinkBesta ráðið er að dreifa upplýsingariti inn á hvert heimili. Skipa má 5 manna ritstjórn á vegum Alþingis, þar sem ættu sæti tveir ESB-sinnar og tveir ESB-andstæðingar ásamt hlutlausum ritstjóra. Hann hlýtur að vera til. Í bæklingnum má taka saman allt það helsta um stjórnskipan innan Evrópusambandsins, hvað felst í valdaframsali, upplýsingar um ætlaðan hag af sambandsaðild og kostnað við hana og meginreglur og stefnu í helstu málaflokkum. Þá er líka von til þess að ekki verði einblínt um of á evruna, heldur líka fjallað um þætti sem skipta meira máli.

Það væri innlegg í málefnalega umfjöllun.

Í framhaldinu gæti hver og einn tekið upplýsta afstöðu í málinu. Þar með væri stjórnvöldum ekkert að vanbúnaði að sækja umboð til þjóðarinnar með lýðræðislegum hætti. Ef þjóðin segir já er hægt að sækja um aðild og vinna að málinu að fullum krafti með óskorað umboð.

En því miður virðast þeir sem vilja komast til Brussel vera hræddir við bæði upplýsingar og lýðræðið. Það er ekki merki um traustan málstað. 


mbl.is 58 prósent fylgjandi ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband