Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

VARÚÐ: Hættuleg skepna í framboði

Stundum grípa menn til hræðsluáróðurs og þá helst þeir sem hafa vondan málstað að verja. Fyrir fimm árum var sett nýtt met í lágkúru í þeim efnum þegar Icesave hákarlinn var kynntur til sögunnar. Á bak við hann stóð Áfram hópurinn sem auglýsti grimmt og eyddi milljónum og aftur milljónum í að berjast gegn málstað Íslands.

icesave_hakarlOg nú er sjálfur Iceave hákarlinn kominn í framboð. Hann var settur í nýtt gervi og gengur undir dulnefninu "Viðreisn".

Að Icesave hákarlinum stóðu m.a. Benedikt Jóhannesson, Hanna Katrín Friðriksson og Dóra Sif Tynes, sem nú eru öll í framboði fyrir hákarlinn Viðreisn. Þeim þótti sanngjarnt verð fyrir farmiða til Brussel að dæma þjóðina til fátæktar í nokkrar áratugi. Þeirra stóri draumur er enn að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Hákarlinn reynir að telja kjósendum trú um að Málið eina sé ekki eina málið. Beina athyglinni frá því með vaxtalækkun, launajafnrétti og öðru sem gagnast í atkvæðaveiðum. Og auðvitað myntráð (sem er reyndar búið að prófa og virkar ekki). Bara ekki beina kastljósinu að esb þráhyggjunni.

  • Fyrir fimm árum börðust þau gegn þjóðinni og nú segjast þau ætla að vinna fyrir hana. Á ég að treysta því? Nei takk.
  • Fyrir fimm árum höfðu þau rangt fyrir sér og það benda engin skynsamleg rök til annars en að þau hafi kolrangt fyrir sér núna líka.

Þarna er enn sama fólkið með sömu hættulegu hugmyndirnar um brusselska sæluríkið. Það þarf heldur betur að biðja Guð að blessa Ísland ef hákarlinn kemst til áhrifa.


Hvers vegna "C"?
Eitt af því sem einkennir fólk með esb þráhyggju er að það hefur enga trú á að íslenska þjóðin geti sem best ráðið sínum málum sjálf. Hún þurfi brusselskar hækjur. Það er eitthvað svo táknrænt fyrir vantrú Viðreisnar á þjóðinni að velja listabókstafinn C, sem er ekki notaður í íslensku.


(MYND: Viðreisn æfir kafsund, án dulargervis.)
 

 


Þegar Össur fór norður og niður

Frá kosningunum 2009 hefur Össur Skarphéðinsson verið fyrsti þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Hann færði sig yfir Miklubraut fyrir kosningarnar á laugardaginn og nú verður hann fjórði þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Hann fór því bókstaflega norður og niður.

Það er skemmtilega táknrænt fyrir þann dóm sem hæstvirtir kjósendur felldu yfir esb-þráhyggju Samfylkingarinnar. Allt síðasta kjörtímabil hefur Össur starfað sem sérlegur áróðursfulltrúi Brusselveldisins, þótt hann hafi þegið laun sem utanríkisráðherra Íslands.

Nú hafa kjósendur sent hann og Samfylkinguna alla í frí. Það er þreyttasti þingflokkur landsins, sá eini þar sem engin endurnýjun varð. Bara sama gamla þreytta liðið. Þau verða að fara að vilja kjósenda og sitja saman í skammarkróknum næstu fjögur árin. Og lengur, ef þau láta ekki af þráhyggjunni.
 


Kjósendur slátruðu ESB trúboðinu

Nú stendur XS undir nafni og er orðin Extra Small. Þegar ljóst var að Samfylkingin myndi setja nýtt Evrópumet í fylgistapi var talað um hamfarir og slátrun í sjónvarpssal. Báðar þær nafngiftir komu frá samfylkingarfólki. 

Ánægjulegasta niðurstaðan úr kosningunum er að kjósendur slátruðu ESB trúboðinu. Það er við hæfi að eini flokkurinn sem keyrði sína baráttu á ESB-aðild skyldi setja hið vafasama Evrópumet.


mbl.is Stjórnarflokkarnir tapa tæpum 28%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að standa undir nafni - eða skammstöfun

Því miður virðist ekki alveg nægur tími til að koma fylgi Bjartrar framtíðar undir 5% fyrir kjördag. Hún mældist með 19% fylgi í janúar, en getur þakkað það töfum á þinglokum að kosningabaráttan er of stutt til að náist að þurrka þau út í tæka tíð.

Stærsta stefnumálið er að tryggja tveimur Samfylkingarmönnum þægilega innivinnu og að hlaupa á eftir móðurflokknum í Málinu eina. Þetta innantóma naflaframboð, sem hefur hvorki stefnu né skoðun á neinu sem skiptir máli, mun ekki tryggja neinum bjarta framtíð.

Fari fylgið undir 5% myndu þau þó standa undir skammstöfun. Framboðið notar skammstöfunina BF í merki sínu. Ef skammstöfunin BF er stimpluð á niðursuðudós eða tómatsósuflösku þýðir hún „Best fyrir" sem táknar síðasta neysludag.

Björt framtíð er álíka skaðlaus fyrir kjördag og hún yrði gagnslaust eftir kosningar. Stimpillinn BF 27.04.2013 myndi smellpassa ef þetta naflaframboð missir nóg fylgi til að koma ekki inn manni. Það er ennþá smá von.

 
Þegar maður veit ekki enn hvað skal kjósa er ágætt að nota útilokunaraðferðina. BF er eitt af þeim framboðum sem ég er búinn að útiloka, en 14 listar eru í boði í mínu kjördæmi.
 


Engar skoðanir kannaðar

Í síðustu vinnuviku voru birtar niðurstöður úr fimm skoðanakönnunum á fimm dögum um fylgi flokkanna í komandi kosningum. Nú eru fjórir dagar til kosninga og engar fréttir af fylgiskönnunum í fjóra daga.

Fékk einhver kaupandi svo slæma niðurstöðu að hann vill ekki birta hana af ótta við skoðanamyndandi áhrif? Eða eru allir að bíða fram á síðustu stundu til að geta státað af því að hafa komist næst úrslitum? Ætli seinni skýringin sé ekki líklegri.


Tvær ESB kannanir

Hins vegar er Félagsvísindastofnun búin að kanna hug manna til þess að „ljúka viðræðum" annars vegar og að ganga í Evrópusambandið hins vegar. Sem fyrr er meirihluti fyrir því að „ljúka viðræðum" og á sama tíma vill ívið stærri meirihluti, um 65% þeirra sem taka afstöðu, ekki ganga í ESB.

Svipað var uppi á teningunum í síðustu viku. Könnun 365 sýndi að meirihluti vill „ljúka viðræðum" á meðan könnun MMR sem birtist sama dag sýndi að 69% þeirra sem tóku afstöðu er á móti aðild. Sú niðurstaða rataði einhverra hluta vegna ekki inn í fréttatímana.

En ESB málið er bara ekki efst á dagskrá núna. Það er meira spennandi að sjá eitthvað um fylgi flokkanna nú þegar kosningar eru að bresta á. Nýtt þing og ný ríkisstjórn mun ákveða um framhald Evrópumála og vonandi virða leikreglur lýðræðisins og leyfa þjóðinni að taka þátt í þeirra ákvörðun.


mbl.is Meirihluti á móti inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þannig stjórna jafnaðarmenn

Samfylkingin á besta slagorðið í þessari kosningabaráttu. "Þannig stjórna jafnaðarmenn" er einfalt og grípandi með beina vísun í hið nýlengda nafn flokksins og í fortíðina.

Samfylkingin á líka bestu auglýsingarnar. Það er sterk og ákveðin lína í öllum auglýsingum, hvort sem er í sjónvarpi, blöðum eða biðskýlum strætó. Allt "lúkkið" er flott hjá þeim.

Ekki er hægt að vinna kosningar á umbúðunum eingöngu. Innihaldið þarf að höfða til "kaupandans" og hann þarf að treysta seljandanum. Það er einkum vitnisburður reynslunnar sem skemmir markaðssetningu krata. Hann þurrkar út allt traust á seljandanum.


Hvernig stjórna jafnaðarmenn?

Ef kíkt er á tvö af stærstu baráttumálum Samfylkingarinnar síðustu misserin, gætu auglýsingatextar vegna þeirra verið einhvern veginn svona:



Stjórnarskráin
Við vildum færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Eftir vænan skammt af klúðri tókst okkur að setja saman stjórnlagaráð sem skilaði tillögu. Við gerðum ekkert í málinu mánuðum saman og hentum því svo í þingið korteri fyrir þinglok. Þar sigldi það í strand og ekkert breyttist. Þannig stjórna jafnaðarmenn.

Kvótakerfið
Fyrning kvótans var okkar leið. Eftir vænan skammt af klúðri var sett saman sáttanefnd sem skilaði tillögum, sem allir gátu fellt sig við. En í staðinn völdum við aðra leið og boluðum ráðherra úr ríkisstjórn. Málinu var hent í þingið korteri fyrir þinglok. Þar sigldi það í strand og ekkert breyttist. Þannig stjórna jafnaðarmenn.


Ég læt öðrum eftir að stinga upp á texta fyrir Málið eina - hraðferðina sem átti að ljúka fyrir tveimur árum. Þótt það mál hafi misst allt aðdráttarafl er það enn fyrsta, annað og þriðja mál á dagskrá krata. Þótt stór meirihluti vilji ekki fylgja þeim til Brussel skal þjösnast áfram. Þannig stjórna jafnaðarmenn.

Ef við bætum svo Icesave á afrekalistann er skiljanlegt að nýtt Evrópumet í fylgistapi sé í uppsiglingu.


mbl.is Yrði eitt mesta fylgistapið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð hinna tapsáru

Ólafur Ragnar hlaut einungis stuðning 35% atkvæðabærra manna í landinu, er haft eftir Ólínu Þorvarðardóttur í viðtengdri frétt. Hún telur það ekki sannfærandi og líkir því við að fá gula spjaldið.

Þetta eru viðbrögð ýmissa andastæðinga ÓRG, sem að mestu eru Samfylkingarfólk og esb-sinnar.

  
Hvað mun þetta sama fólk segja þegar kosið verður um esb-aðild?

Þegar kosið verður um aðild að esb verður það margfalt stærra mál. Það sem þá er undir er stjórnskipan landsins til framtíðar en ekki skipan í eitt embætti í fjögur ár.

Verður þá gerð krafa um meirihluta atkvæðabærra manna? Ef kjörsóknin verður t.d. 80% og af þeim segja 52% já, munu þau telja það fullnaðarsigur? Eða telst tillagan felld þar sem "einungis tæp 42% atkvæðabærra manna í landinu" samþykktu fullveldisframsal?

  
Krafan um meirihluta atkvæðabærra manna

Fordæmið er til. Þegar greidd voru atkvæði um stofnun lýðveldisins fyrir tæpum sjö áratugum voru setta reglur sem tryggðu að a.m.k. 56,25% atkvæðabærra manna þyrfti til að samþykkja aðskilnaðinn frá Danmörku. Þetta var (réttilega) talin svo mikil breyting að ekki væri stætt á öðru.

Þá þurfti a.m.k. 75% kjörsókn svo kosningarnar væru gildar og tillagan um stofnun lýðveldisins þurfti að fá aukinn meirihluta, eða a.m.k. 75% greiddra og gildra atkvæða. Það að bylta stjórnskipan með inngöngu í esb er svo mikil breyting að ekki ætti að gera minni kröfur þegar þar að kemur.

Nú þegar esb-kratar eru uppteknir af því að reikna niður sigur Ólafs Ragnars er kannski rétti tíminn til að ganga frá reglum um aukinn meirihluta í bindandi þjóðaratkvæði um esb-uppgjöfina.


mbl.is Segir kosningu Ólafs ekki sannfærandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamaldags þrætustjórnmál eru algjör lífsnauðsyn

     
"Gamandags þrætustjórnmál skila okkur engu" sagði frambjóðandinn og leggur til að við sameinumst og vinnum öll í sátt. Auðvitað hljómar þetta þægilega, því allir vilja sátt. En það er nú bara þannig að daginn sem "gamaldags þrætustjórnmálum" verður úthýst, byrjar samfélaginu að hnigna.

Í lýðræðisþjóðfélagi þurfa að fara fram rökræður. Ólík sjónarmið verða að fá pláss. Þó að reynt sé að klína á þetta neikvæðum stimpli eins og "gamaldags þrætustjórnmál" er rökræðan nauðsynleg. Það er stundum hundleiðinlegt að heyra pólitíkusa rífast og þræta. Sérstaklega þá sem eru á annarri skoðun en maður sjálfur.

En samt eru það "gamaldags þrætustjórnmál" sem eiga hvað drýgstan þátt í framförum vestrænna samfélaga undanfarin 200 ár. Þau eru alger lífsnauðsyn.

Til þess að lýðræðið virki verður að vera til stjórnarandstaða. Það er hlutverk hennar að efast og gagnrýna. Þannig skapast frjór jarðvegur fyrir hugmyndir, skapandi umræðu og framfarir. Það tekst ekki alltaf og lýðræðið er alls ekki fullkomið, en samt miklu betra en allir aðrir kostir. 

 

Þar sem engin þrætustjórnmál er að finna

Í gömlu Sovétríkjunum var engin stjórnarandstaða. Ekkert pláss fyrir efann og engin "gamaldags þrætustjórnmál". Grunngildin féllu hvert af öðru; jafnréttið, lýðræðið, frelsið og mannréttindin. Svo fór Sovétið á hausinn, í sameign þjóðarinnar og laust við öll þrætustjórnmál.

Annað ljótt en nýrra dæmi er Evrópusambandið. Að frátöldum 4,5% smáflokki er þar engin virk stjórnarandstaða. Lýðræðið er á hröðu undanhaldi og efnahagurinn á niðurleið. Evrópusambandið er dæmt til að klúðra og klúðra, hér eftir sem hingað til. Það vantar öll "gamaldags þrætustjórnmál" í Brussel, þess vegna virkar það ekki.

      

Forsetaframbjóðandinn Þóra, sem vill að við sameinumst, er svo upptekin af því að segja það sem hljómar vel til atkvæðaveiða að hún kemur ekki auga á hvað það er rangt. Höldum áfram að þræta smá og rífast, það skilar árangri. Sagan kennir okkur það ... þó það sé stundum bæði þreytandi og leiðinlegt.

 


Að auglýsa frá sér fylgið

Í könnun Félagsvísindastofnunar í apríl var Þóra Arnórsdóttir með afgerandi forystu. Hún var þá með 49% stuðning en Ólafur Ragnar 35%.

Núna, tveimur mánuðum og óteljandi auglýsingum síðar, hefur þetta snúist við og Ólafur Ragnar kominn með afgerandi forystu. Þóra komin niður í 33,6% og Ólafur Ragnar upp í 50,8%.

Sterk tengsl við Samfylkinguna hljóta að skaða Þóruframboðið, en það skýrir þó ekki þetta mikla hrun. Að mínum dómi hefur ótrúleg auglýsingaherferð verið framboðinu enn skaðlegri. Það er hægt að fara yfir strikið í þeim efnum. Ekki síst þegar umbúðirnar eru sóttar í stimplagerð Samfylkingarinnar.

En það eru ekki skoðanakannanir sem ráða úrslitum, heldur sjálfar kosningarnar. Á morgun kemur í ljós hvort hægt er að snúa vinningsstöðu upp í tap með því að auglýsa frá sér fylgið.

 


mbl.is Spennan lýtur að kjörsókninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Ólafur Ragnar væri ekki í framboði ...

Ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs væri Þóra Arnórsdóttir ekki í framboði heldur. Það kemur æ betur í ljós að framboð hennar er mótframboð - og mótframboð eingöngu.

Hin fjögur hefðu trúlega boðið sig fram og mjög líklega einhverjir fleiri.

Samtökin Betri kost á Bessastaði voru stofnuð gagngert til að fella Ólaf Ragnar og þau fundu kandídatinn Þóru. Auglýsingastofu-framboð hennar ber það með sér að til þess var stofnað af andstæðingum sitjandi forseta. Hlutur Samfylkingarinnar er augljóslega nokkur.

Auglýsingar og persónudýrkun í 2007-stíl

Síðustu daga hefur framboð Þóru verið auglýst grimmt, ólíkt hinum. Heilsíður í blöðum, plaköt í strætóskýlum og auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi. Greinilega nóg af peningum. Það er engin furða að sumum blöskri og kalli á opið bókhald.

Það nýjasta er að bjóða upp á Þóru-boli og Þóru-daginn og svo er pylsuveisla og Þóru-andlitsmálning fyrir börnin! Rétt eins og Justin Bieber væri á ferð. Það lýsir örvæntingu þegar stuðningsmenn ætla að veðja á persónudýrkun og mátt peninganna á lokasprettinum. Þetta er nú bara kona sem er þekkt andlit úr sjónvarpi og stóð sig ágætlega í vinnunni.

Þegar allt er saman tekið er á framboðinu sorglegur 2007-stíll, sem er illa úr takti við tíðarandann. Ætli framboð hennar kosti ekki 50 sinnum meira en öll hin til samans. Eða meira. Jafnvel hinn orðvari Björn Valur er orðinn tvístígandi í stuðningi sínum og segir „Þóru-bolir eru ekki beint heillandi vegvísir í kjörklefann". Ef Þóru sjálfri finnst þetta í lagi er hún ekki verðug þess að gegna embætti forseta.


Ég hef endanlega gert upp hug minn. Ég ætla að kjósa Ólaf Ragnar. Þrátt fyrir langa setu er hann betri kostur á Bessastaði. Framganga hans síðustu misserin sýnir að hann veldur embættinu og er traustsins verður. Það er einmitt það sem skiptir mestu máli.


mbl.is Frambjóðendur opni bókhaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband