Færsluflokkur: Evrópumál

Svíar mega selja snus!

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Eirík Bergmann dósent, sem óhætt er að mæla með. Hún er líka birt á vísi.is.

Þar þylur hann upp allar undanþágurnar sem ríki hafa fengið við inngöngu í gamla Efnahagsbandalagið og síðar Evrópusambandið. Sumarhús í Danmörku, byggingarlóðir á Möltu, sérstakar undanþágur um bómullarrækt og fleira. Þetta er þulið upp til að sýna framá að við getum fengið undanþágur varðandi fiskveiðar, enda heitir grein hans Nr. 1 - Sjávarútvegur.

Og rúsínan í pylsuendanum er:
"Svíþjóð fékk heimild til að selja varatóbakið snus á heimamarkaði."

Þar höfum við það.

Úr því að Svíar mega selja snus og Danir eru ekki neyddir til að selja Þjóðverjum sumarhús, eigum við Íslendingar fullan rétt á undanþágum frá Rómarsáttmálanum og sjávarútvegsstefnunni til að geta ráðið yfir auðlind hafsins sjálfir.Þarf eitthvað að ræða þetta frekar?

Hugmyndir dósentsins að útfærslu koma fram síðar í greininni:

Þetta væri t.d. hægt að tryggja með því að gera fiskveiðilögsögu Íslands að sérstöku stjórnsýslusvæði innan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB. Ekki er um að ræða almenna undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni heldur sértæka beitingu á ákveðnu svæði á grundvelli nálægðarreglu þannig að ákvarðanir um nýtingu á auðlind Íslands sem ekki er sameiginleg með öðrum aðildarríkjum ESB yrðu teknar á Íslandi.

Í þessu liggur hættan.

Það er stórvarasamt að reyna að ramma Ísland inn í hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB, enda er það mjög framandi hugmynd meðal sambandsþjóða að litið sé á fisk sem þjóðarauðlind. Það mun aldrei verða þannig við stóra hringborðið í Brussel. 

Og nálægðarreglan er ekki sá mikli öryggisventill sem Samfylkingin fullyrti í kosningaplaggi sínu Skal gert, eins og Grænbók ESB frá 22. apríl sýnir glögglega.Að ætla föndra eitthvað með fiskimiðin leikur að eldinum sem hæglega gæti skaðað okkur meira en IceSave í fyllingu tímans.

 


mbl.is Íslendingar vilja á methraða í viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur bullar og bullar

Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, segir "að ein ástæða fyrir því að Íslendingar hafi ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé sú að nú standi yfir endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum landsins."

     Hvaða Íslendingar? Ekki þjóðin.

     Var endurskoðun á utanríkisstefnu á dagskrá í kosningabaráttunni?

     Var kosið um það í þingkosningunum 25. apríl?

     Var líka kosið um að segja Ísland úr NATO?

Einn þingmaður VG segir að við höfum kosið um IceSave í apríl. Nú segir Össur að við höfum kosið um endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum. Það er svolítið sérstakt lýðræði að segja kjósendum hvað þeir kusu um, eftir kosningar.

Og ráðherrann bætir um betur (hér): "Við erum ekki að ganga í Evrópusambandið til að bregðast við kreppunni, það er mikill misskilningur."

Nú jæja.

Þó að Samfylkingin hafi fyrir löngu sett stefnuna á Brussel fór ekkert á milli mála í kosningunum í apríl að innganga í ESB var sett fram sem lausn á kreppunni. Ingibjörg Sólrún talaði um hana sem stefnu í peningamálum!

Björgvin G Sigurðsson sagði að aðild að ESB "varðaði leiðina út úr kreppunni". Jóhanna Sigurðardóttir talaði um aðild sem "lykilatriði í efnahagslegri endurreisn". Hver frambjóðandinn á fætur öðrum fullyrti að eina leiðin út úr kreppunni væri að gerast aðili að Evrópusambandinu. Samfylkingin fékk drjúgan hluta atkvæða sinna út á þessa "lausn" á vandanum.

Nú segir Össur að þetta sé mikill misskilningur.


Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er stærsta utanríkismálið í sögu lýðveldisins. Það er svo stórt og viðkvæmt, að sá sem ætlar að stýra því verkefni verður að hafa óskorað traust þjóðarinnar. Ráðherra sem slær fram eftiráskýringum, sem eru í engu samræmi við umræðuna í samfélaginu, rýrir bæði eigið traust og ríkisstjórnarinnar meira en ásættanlegt getur talist. 

 


mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að giftast ódæðismanni

Það er ekki flókið að vera vitur eftirá. En þeir eru nokkrir sem vöruðu sterklega við ofþenslu bankanna og þeim áföllum sem hún myndi á endanum valda. Jóhannes Björn er í hópi þeirra, hann lagði m.a. til hraustlega vaxtalækkun og aðrar varnir átta mánuðum fyrir bankahrun.

Fyrir tveimur vikum birti Jóhannes Björn færslu á síðu sinni vald.org undir yfirskriftinni Bíða og vona. Þar er margt forvitnilegt. Um það bjargræði sem sumir sjá í því að ganga í Evrópusambandið segir hann m.a.:

Nú er líka rætt um að við verðum að ganga í samtök sömu þjóða og eru að kúga okkur þessa dagana. Það er svipuð lógíg og að segja konu sem er þunguð eftir nauðgun að það sé skynsamlegast að hún giftist árásarmanninum ... það einfaldi málið fjárhagslega!


Hann spyr líka hvort þráin eftir evru sé að rugla menn alvarlega í ríminu?

Það er margt athylgisvert í grein Jóhannesar, ekki síst í síðari hluta hennar þar sem hann fjallar um stýrivexti og verðtryggingu. Greinina er að finna hér.

Það er meiri fengur af því að skoða skrif þeirra sem skilja gangverkið og sáu hlutina fyrir, en hinna sem vita þetta allt eftirá. Þess vegna mæli ég með skrifum Jóhannesar. 


mbl.is Ísland fær enga sérmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnvel kratarnir efast

Á vef RÚV var frétt í gær um að innan þingflokks Samfylkingarinnar aukist nú efasemdir um nauðasamningana um IceSave.

Það er merkilegt. Alveg stórmerkilegt.

Þegar jafnvel kratar eru farnir að efast og vilja setja fyrirvara, sem gæti hægt á ESB hraðlestinni til Brussel, þá er eitthvað alvarlegt að. Þetta segir okkur skýrar en nokkuð annað hversu vondir samningarnir um IceSave eru.

Nú er spurning hversu margir þingmenn endurtaka leikinn frá því á fimmtudaginn. Þá kom hver á fætur öðrum og sagði "Ég er á móti og segi ... segi já".

Það er hægt að hafna IceSave af mikilli kurteisi. Ekki með því að segja nei, heldur með því að setja fyrirvara við ríkisábyrgð. Það er diplómatísk höfnun með boði um áframhaldandi viðræður og leit að ásættanlegri niðurstöðu.

Það getur ekki verið ástæða til að óttast harkaleg viðbrögð og refsiaðgerðir. Vestrænum réttarríkjum er ekki stætt á að beita slíku í deilumáli sem þessu. Það er ekki eins og Steingrímur Joð og félagar séu að framleiða efnavopn.


Ef menn í alvöru þora ekki að hafna ríkisábyrgð af ótta við afleiðingarnar, þá er eitthvað virkilega ljótt í trúnaðarskjölunum sem við almenningur fáum ekki að sjá.  


Ótrúleg ummæli

Í annarri frétt RÚV í dag segir:

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu ... að það væri hins vegar ekki kostur í stöðunni fyrir Alþingi að fella samninginn enda hafi verið skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Þetta er makalaust. Lítur forsætisráðherra á Alþingi sem stimpilpúða fyrir stjórn sína? Samningurinn var einmitt gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis vegna þess að Alþingi - og aðeins Alþingi - getur skuldbundið ríkið til að gangast í ábyrgð. Ekki ríkisstjórnin. Ekki samninganefnd. Aðeins Alþingi. Þess vegna er málið til afgreiðslu þar.

Það ætlar seint að ganga á Nýja Íslandi að koma á alvöru skiptingu framkvæmda- og löggjafarvalds.

 


mbl.is Borga tvo milljarða fyrir Breta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brotlent í Brussel

Utanríkisráðherra Hollands hefur tekið af allan vafa (hér) um að IceSave samningarnir og ESB umsókn eru mál sem hanga saman. Og það kyrfilega. Engu skiptir hversu ákaft Össur og Steingrímur mótmæla, staðreyndirnar blasa við.

Nú væri hollt að líta framhjá því, eitt augnablik, hvort menn eru með eða á móti því að Ísland sæki um aðild að ESB. Skoða málin í réttu ESB/IceSave samhengi.

Viðbrögð hollenska ráðherrans undirstrika hvílík mistök það voru að samþykkja aðildarumsókn án þess að ljúka IceSave deilunni fyrst. Þar brást þingið þjóðinni illilega með því að setja hlutina ekki í rétta forgangsröð.

Vilji ESB til að fá Ísland í klúbbinn er augljós, eins og fram kemur í umsöng Carls Bildt (hér). Það hefði átt að vera tromp á hendi Íslendinga. Bildt sér hag ESB í "aðkomu þess að norðurskautssvæðinu" en nefnir hagsmuni Íslendinga ekki einu orði. Með gjörningnum á Alþingi 16. júlí henti þingið trompinu frá sér.

Öflugasti bandamaður Breta og Hollendinga í IceSave deilunni er Samfylkingin. Hinn einlægi ásetningur hennar, að skríða til Brussel með bundið fyrir augun, hefur gert okkar tromp að þeirra. Þeim var fært það á silfurfati.


Svo er það rúsínan í pylsuendanum.

Til að fullkomna hringlandaháttinn segist Ögmundur Jónasson núna aðeins vilja hugsa um þjóðarhag (hér). Hann hefði átt að byrja á því fyrr, áður en hann sagði já við ESB umsókn á fimmtudaginn.

 

Össur er lagður af stað til Stokkhólms. Hann veit að Icelandair ætlar að bjóða upp á beint flug til Brussel fljótlega. Flugtíminn þangað, aðra leiðina, er ekki ýkja langur. Ef allt gengur að óskum krata, mun íslenska þjóðin brotlenda í Brussel um klukkan 20:12 að staðartíma.

 


mbl.is Ræðir við Bildt um ESB umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

111. meðferð á þjóð

Við tvær síðustu færslur hef ég hugsað mig tvisvar um áður en ég smellti á „birta færslu". Ástæðan er að í þeim báðum er talað um pólitískt ofbeldi. Ég kýs að sneiða hjá stóryrðum þegar þau eiga ekki við. Eftir að hafa lesið frásögn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns, sé ég að hikið var ástæðulaust. Þar segir m.a.:

Um hálf ellefu fór ég fram að ná mér í vatnsglas. Þá stóð forsætisráðherra við annan mann á stigapallinum og las óþægum vinstri-grænum þingmanni pistilinn. Sá kom stuttu síðar skömmustulegur inn í þingsalinn. Á eftir honum kom þingvörður sem gerði sér ferð að öðrum andstæðingi ESB innan Vinstri-Grænna sem vill svo til að situr beint fyrir framan mig. Honum var gert að fara á fund fram á stigapalli. Tilgangurinn var augljós. Það var þetta sem Birgittu þótti svo ógeðslegt.

Það er Jóhanna Sigurðardóttir sjálf, sem er kúgarinn í þessari frásögn. Það sorglegt hvernig lýðræðið var afbakað á fimmtudaginn. Því miður kemur ekki á óvart að fjölmiðlar hafa ekki gert neitt mál úr þessu, það virðist reglan þegar Samfylkingin er gerandi í ljótum málum.

Vissulega hafa hrossakaup og baktjaldamakk lengi tíðkast í íslenskri pólitík. En það réttlætir engan veginn þá óhæfu sem fram fór í Alþingi á fimmtudaginn. Fyrir því eru tvær ástæður helstar.

#1 - Við myndum stjórnar var gerð sú málamiðlun að leggja fram þingsályktun um ESB aðild og leggja þannig málið í hendur þingsins. Sérstaklega var tekið fram að heiðursmannasamkomulag væri um að þingmenn væru ekki bundnir af öðru en skoðun sinni og sannfæringu þegar kæmi að atkvæðagreiðslu. Það samkomulag var gróflega brotið.

#2 - Aðild að ESB breytir samfélaginu til frambúðar. Það þýðir breytingu á stjórnkerfinu sjálfu og því hvernig samfélag komandi kynslóðir munu búa við. Það er því ekki hægt að leggja það að jöfnu við baktjaldamakk og hagsmunapot um jarðgöng eða hafnargerð. Það gerir enginn nema skilja ekki hvað umsókn um aðild að Evrópusambandinu er.

Það er sama hversu áfjáðir menn eru í að Ísland verði aðili að ESB, það er ekkert sem réttlætir það pólitíska ofbeldi sem Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin beittu í þinginu á fimmtudaginn. Þeir sem eru fylgjandi aðild verða að sýna þjóðinni þá lágmarks kurteisi að fara eftir leikreglum lýðræðisins. Ef kratar eiga einhverja sjálfsvirðingu til hlýtur kúgun af þessu tagi að skilja eftir óbragði í munni þeirra.

Frásögn Margrétar Tryggvadóttur í heild má lesa hér.

Nú flytur Mbl.is okkur frásögn af erlendum ráðherra sem vill fá Ísland inn í ESB. Það skiptir meira máli að vita hvað íslenska þjóðin vill. Það hefði verið hægt að kanna það ef vilji væri fyrir hendi, með einfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. En Samfylkingunni liggur of mikið á að láta Evrópudraum sinn rætast til að gefa sér tíma til að spyrja þjóðina. Í hennar augum erum við kjósendur ekki þjóðin.

 


mbl.is Vill Ísland inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, þú margspælda fjöregg!

"Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka?" orti Einar Benediktsson. Það tekur ekki langan tíma að eyðileggja hluti.

Það kostaði blóð svita og tár í hundrað ár að öðlast fullveldi og sjálfstæði. Það kostaði kjark að stofna lýðveldi. Það kostaði þrotlausa vinnu að komast úr örbyrgð til allsnægta. Það kostaði djörfung og þorskastríð að ná yfirráðum yfir auðlindinni í kringum landið.

Þorskastríðin voru við Breta. Þá sömu og nú misnota ítök sín í ESB og AGS til að knýja fram nauðasamninga um IceSave. Og ESB tekur fullan þátt í kúguninni. Evu Joly blöskrar framferði Breta en íslenskir kratar svara með því að skríða til Brussel.

Þvílíkur aumingjaskapur!


Nú hafa Jóhanna og Össur skrifað eitt lítið bréf. Þau eiga sér draum og þeim liggur á. Vilja helst eyðleggja aldarlanga vinnu á mettíma. Tveimur árum ef það er mögulegt. Kasta frá sér forræðinu yfir eigin velferð.

Uppgjöf, er þeirra stóri draumur. If you can't beat them, surrender! Össur vill fara með fjöreggið í vasanum til Brussel og selja það fyrir evrur. Barroso fær sér spælegg í morgunmat.

Svo hrósar þessir frjálshyggju-kratar sigri. Sigur þeirra var að knýja fram uppgjöf með pólitísku ofbeldi á Alþingi. Að svína á helmingi þjóðar sinnar. Kljúfa hana á krepputímum.

Nú skal Ísafold syngja: "Ég á mig sjálf - en amma Brussa fjarstýrir mér." Össur og Jóhanna verða klappstýrur. Viljinn til að koma þjóðinni inn í ESB er ólæknandi afbrigði af útrásarfíkn.


Ég veit að það vilja margir sækja um aðild að ESB, gott og vel. En þeir verða að sýna þann manndóm að fara að leikreglum lýðræðisins. Ekki þjösna málum í gegn með kúgunum að brusselskri uppskrift. Það er ekki það Nýja Ísland sem þjóðin vonaðist eftir.


Fyrirsögnin er fengin að láni úr ljóði eftir Þórarinn Eldjárn, man ekki í svipinn úr hvaða bók.


mbl.is Keppa Ísland og Króatía?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með Nýja Ísland

Silvia NóttÞær eru orðnar allmargar bloggfærslurnar sem skrifaðar hafa verið undir fyrirsögninni "Til hamingju Ísland". Þar er vitnað í Silvíu Nótt, fígúru sem gekk út á að vera fyndin með fíflaskap. Það er kannski við hæfi eftir gjörninginn á Alþingi í gær.

Búsáhaldabyltingin var krafa um Nýja Ísland, þar sem spillingunni skyldi úthýst og  virðing Alþingis endurreist. Þar átti allt að vera uppi á borðum og lýðræðið bæði virt og virkt.

Í gær sáum við útkomuna á Alþingi. Svo ég spyr:

Til hamingju með hvað?

Að 32 þingmenn komu í veg fyrir að þjóðin fengi að kjósa um þetta stærsta mál í sögu lýðveldisins?

Að 33 þingmenn studdu - nokkrir gegn vilja sínum - að sækja um aðild Íslands á ESB?

Að lýðræðisumbæturnar á Nýja Íslandi felist í því að hafna beinu lýðræði en þvinga þingmenn til að kjósa "rétt" undir hótunum um stjórnarslit?

Hvað það var átakanlegt að heyra hvern þingmanninn af öðrum biðjast afsökunar á atkvæði sínu?

Að nú er það minnihlutinn sem ræður, í krafti pólitískra þvingana?


Til hamingju með hvað?

Að nú, þegar þjóðin þarf á samheldni að halda sem aldrei fyrr, skuli hún klofin með því að þvinga mál í gegnum þingið með pólitískum skollaleik?

Einn stjórnarliða líkti atkvæðagreiðslunni við spennandi kappleik þar sem tvísýnt er um úrslit. Núna fagnar hann úrslitum. Það spillir örugglega ekki gleði hans að "andstæðingurinn" í leiknum var hálf íslenska þjóðin. Ekki heldur að hann hafði "sigur" með bolabrögðum, svindli og pólitísku ofbeldi. Það eru stigin sem skipta máli, segja þeir í boltanum.


Til hamingju með hvað?

Með ríkisstjórnin sem hefur ekki skýrt og ótvírætt umboð frá kjósendum til að sækja um aðild að ESB en gerir það samt?

Að helmingur þjóðarinnar er með og helmingur á móti? Það er langt frá því að vera sá einhugur sem er nauðsynlegur í slíku stórmáli.

Að Alþingi skuli sækja um að komast í Evrópusambandið, sem beitti sér af fullum þunga gegn Íslandi í IceSave, án þess að útkljá það mál fyrst?

 

Nei, ég sé ekki hvað það er sem maður á að vera að springa úr hamingju yfir. Kannski yfir því að umsókn sé móðgun við Tyrki? Nei, ég held ekki. Ég kaus Vinstri græna vegna andstöðunnar við ESB. Nú hafa liljurnar fölnað og ég vildi að ég gæti tekið atkvæði mitt til baka.

Að sækja um aðild í miðri kreppu er eitruð blanda af uppgjöf og úrræðaleysi.

Svo segja þessir kratar "Til hamingju Ísland!"

Nýja Ísland hvað?

 


mbl.is Aðild Íslands móðgun við Tyrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"ÞJÓÐINA Á ÞING" sögðu þau

Kjörorð Borgarahreyfingarinnar í kosningunum var Þjóðina á þing.

Mikið er fjallað um hvernig fulltrúar O-listans greiði atkvæði í ESB málinu. Nú er ekki pláss í þinghúsinu fyrir þá 227.896 sem hafa atkvæðisrétt. Og enn síður alla þá 319.368 sem búa á Íslandi.

Það sem þau geta komist næst því að setja "þjóðina á þing" er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er eðlilegt að gera í lýðræðisríki þegar mjög stór mál eru til umfjöllunar. Í Sviss var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja skyldi um aðild að ESB.


Aðild að ESB er stærsta mál sem Alþingi hefur fjallað um frá stofnun lýðveldisins. Bara það að sækja um er svo stórt mál að það réttlætir fullkomlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna var það gert í Sviss.

Hvort er Borgarahreyfingin nær því að standa undir kjörorði sínu

  • með því að samþykkja að sækja um aðild án umboðs frá þjóðinni?
  • með því að leyfa þjóðinni að ráða í almennum lýðræðislegum kosningum?


Ef meirihluti þjóðarinnar segir já í kosningum um aðildarumsókn er búið veita stjórnvöldum óumdeilt umboð til að sækja um. Eftir allt fúskið og klúðrið veitir okkur ekki af að temja okkur fagleg vinnubrögð og vandaða stjórnsýslu. Þjóðaratkvæði um aðildarumsókn að ESB væri verðugt fyrsta skref. Það er ekkert hættulegt við lýðræði, því ekki að nota það?

Bara ekki skora sjálfsmark.


mbl.is Rætt verður til þrautar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þráinn skorar sjálfsmark!

Stundum skiptir ekki aðeins máli hvað er sagt heldur líka hvernig það er sagt.

Ef Þráinn Bertelsson styður tillögu Samfylkingarinnar er hann að skora klaufalegt sjálfsmark; ganga þvert gegn því sem Borgarahreyfingin stendur fyrir. Brjóta prinsippið. Hún var stofnuð sem andóf gegn gömlu valdaklíkunni og sem krafa um aukið lýðræði og öflugra Alþingi. Skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar.

Málatilbúnaður Samfylkingarinnar brýtur gegn öllu sem Borgarahreyfingin átti að standa fyrir.

Eftir kosningar knúði Samfylkingin fram málamiðlun við VG um að leggja fram þingsályktun um ESB umsókn og "fela Alþingi að taka ákvörðun". Núna skal tillagan samþykkt undir hótunum um stjórnarslit. Framkvæmdavaldið segir kjörnum fulltrúum á löggjafarþinginu fyrir verkum. Ekki er það til að efla Alþingi eða auka virðingu þess. Þetta er það sem Borgarahreyfingin vildi burt og fá gagnsæi og heiðarleika í staðinn.  

Vissulega vill Þráinn standa við það loforð að leyfa þjóðinni að ráða. Það er bara ekki sama hvernig það er gert. Það væri miklu nær að spyrja þjóðina álits, sem líka er í samræmi við kjörorð Borgarahreyfingarinnar um "þjóðina á þing".

Nema auðvitað að menn hafi ekki verið að meina neitt með tali sínu um Nýja Ísland. Þá hjakka menn bara áfram í gamla farinu. Borgarahreyfingin líka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband