ESB-UMMÆLI VIKUNNAR

"Það sem maður eignast fyrirhafnarlaust, það er manni sama um." sagði síðari viðmælandi Gísla Einarssonar í þættinum Út og suður á sunnudaginn. Hún heitir Sigríður Jónsdóttir og er bóndi í Arnarholti í Biskupstungum. Auk búmennskunnar er hún kennari, hönnuður og ljóðskáld með meiru.

Undir lok viðtalsins berst ESB í tal og þetta svar Sigríðar eru ummæli vikunnar.

Gísli: "Skil ég það rétt að þú setjir Evrópusambandið og fíkniefni í sama flokk?"

Sigríður: "Ég geri það já. Nema þetta er ekki skilgreindur sjúkdómur og ekki til meðferðarstofnanir varðandi þessa Evrópusambandsfíkn."

Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Sigríður sagði umræðuna um að ganga í Evrópusambandið sprottna af minnimáttarkennd. Hugmyndin sé af sömu rót og þegar menn vildu rífa gömul hús af því að þau voru byggð af vanefnum. Skömmuðust sín fyrir þau, vildu losna við þau og byggja nýtt og betra.

Að vilja ganga í Evrópusambandið stafi af sjálfsfyrirlitningu, sem leiði til þess að einstaklingurinn rífi sjálfan sig niður. Til þess noti menn ýmsar leiðir, svo sem ofát, áfengisneyslu og misnotkun fíkniefna. Villuskoðanir um Ísland innan Evrópusambandsins séu af sömu rót.

Þetta var hressilegt viðtal, sem má sjá og heyra hér

Það er margt fleira athyglisvert í samtalinu við Sigríði. Gísli ræðir við hana um fullkomið frelsi, trú, búskap, þröstinn sem stritar fyrir ungana sína og um ástina, sem verður til af fyrirhöfn. Líka um baráttu gegn innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm. "Það er svo fljótlegt að eyðileggja hluti" sagði Sigríður um það, og gæti átt við margt annað líka.

Lokasvarið í viðtalinu er svo punkturinn yfir i-ið:
Gísli: "Hver er þín framtíðarsýn?"
Sigríður: "Það er að verða 85 ára með karlinum mínum."

Framtíðarsýnin þarf ekki endilega að vera hnattræn.


mbl.is Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Mjög gott dæmi um þá öfgakenndu og óupplýstu umræðu sem fram fer um þessi mál víða.

Jón Ingi Cæsarsson, 9.7.2009 kl. 09:17

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég sá einmitt lokin á þessu viðtali og þótti framtíðarsýnin einstaklega jarðbundinn, en gríðarlega stór og falleg.

Haraldur Baldursson, 9.7.2009 kl. 10:07

3 identicon

Þeir sem eru ekki sammála Jóni Inga Cæsarssyni eru óupplýstir öfgamenn. Hann nefnir m.a. í bloggi sínu að hinir upplýstu pólitíkusar í Noregi hafi tvívegis reynt að koma Noregi í ESB, en hin óupplýsta öfgafulla þjóð hafi stoppað það. 

Kv. Jón Þorsteinsson

Jón Þorsteinsson (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 10:12

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér kærlega fyrir ábendinguna á þáttinn Haraldur. Virkilega gaman að sjá bæði viðtölin. Já einmitt - minnimáttarkenndin, minnimáttarkenndin kemur út í ýmsum myndum. Akkúrat. En hún sást ekki hjá hvorugum hinna góðu viðmælenda

.

Mikið svakalega finnst mér gott að vera svona gersamlega óupplýstur. Algert myrkur hvert sem ég fer. Darth Vader í ESB. Boohhh!

.

Það tekur ekki nema augnablik að eyðileggja hluti sagði Sigríður. Svo mikið er alveg víst!

Gunnar Rögnvaldsson, 9.7.2009 kl. 10:37

5 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Umræðan á Íslandi hefur verið óupplýst og öfgakennd... það eru flestir sammála um... en ég talaði ekki um óupplýsta öfgamenn Jón Þorsteinsson.

Umræðan hefur verið svarthvít og lítið farið fyrir upplýsingagjöf og faglegri, upplýsnandi umræðu en það breytist nú. Viðbragð þitt er eimitt svona viðbragð sem ég hef stundum kallað afturhaldsviðbragðið..

hræðsla við breytingar er skiljanleg en að vilja ekki ræða breytingar er hættulegt.

Jón Ingi Cæsarsson, 9.7.2009 kl. 10:57

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Jón Ingi.

Þarna talar greind kona, íslendingur með rætur, sem er sátt við lífið og af henni skín lífshamingja.

Og þú þarf endilega koma því hér að þér finnist hún öfgafull og heimsk, af því að hún er ekki í samfylkingunni ???????

Það er ágæt regla að byðjast afsökunar þegar manni verður á messunni. Að malda í móinn gerir bara ilt verra.

Guðmundur Jónsson, 9.7.2009 kl. 11:46

7 identicon

Íslendingar geta auðvitað fundið sér hundrað ástæður fyrir að vilja ekki ganga í ESB, en að líta á ósk um þátttöku í sambandinu sem vott um minnimáttarkennd skil ég ekki. Vissulega væri hægt að færa rök fyrir hinu gagnstæða, þ.e. að óttinn við inngöngu stafaði af minnimáttarkennd (hræðslan við að við höfum ekkert að segja, ekki verðið tekið mark á okkur, við verðum keyrð í kaf af stærri þjóðum, -- þ.e. sú tilfinning að þjóðin ráði ekki við að starfa náið með öðrum fullvalda þjóðum) en þó dettur mér ekki í hug að halda því fram að það sé einhver meginástæða hjá andstæðingum aðildar. En orð eins og þessarar konu eru því miður innihaldslaust orðagjálfur eins og svo margt sem um sambandið er sagt, bæði með og á móti.

Halldór Jónsson (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 11:57

8 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk allir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Mig grunar að einn eða tveir sem hér tjá sig hafi ekki séð viðtalið. Mæli með því að menn horfi á það allt, ESB hlutinn er bara rétt í lokin. Konan virkar bæði jarðbundin og skynsöm og ekki líkleg til að tjá sig um stórmál án þess að kynna sér það.

Vissulega er þetta með sjúkdóminn myndlíking hjá henni.

Ég tel samt að því miður eigi líkingin við rök að styðjast. Eins og sumir ESB sinnar (ekki allir þó) haga máli sínu, þá er ofurtrúin sem þeir lýsa á ágæti þess að gera Ísland að hluta af Evrópuríkinu farin að stappa nærri þráhyggju. Og þráhyggja er veila.

Haraldur Hansson, 9.7.2009 kl. 12:21

9 identicon

Það eru sem sagt bara skoðanir Evrópusinna sem eru "þráhyggja" og "sýki" en skoðanir andstæðinganna eru "jarðbundnar" og bera vott um "skynsemi". Er ekki hugsanlegt að sínum augum líti hver á silfrið? 

Pétur (IP-tala skráð) 9.7.2009 kl. 13:21

10 Smámynd: Haraldur Hansson

Nei Pétur, það er ekkert "sem sagt bara" til í þessu.

Ef andstæðingur ESB notar rökin: "Þá koma útlendingar og veiða allan fiskinn frá okkur og hirða allar orkuauðlindirnar" er það slakur málflutningur eða hræðsluáróður. Sem er ekki gott. Ef því er haldið ítrekað fram getur það verið þráhyggja í einhverri mynd.

Ef hann hins vegar segir: "Þá færast hin formlegu yfirráð yfir stjórn fiskveiða til Brussel og ég tel það of mikla áhættu fyrir fiskiveiðiþjóð. Þá færist líka löggjafarvald á sviði orkumála til Brussel og ég tel skynsamlegra að við ráðum þeim málaflokki sjálf" þá eru það góð og gild rök, bæði skynsöm og jarðbundin. Bara til að nefna tvö dæmi.

Það þarf hins vegar ekki að blaða lengi í fjölmiðlum til að finna ástæður fyrir þeirri skoðun sem bóndinn í Arnarholti lýsir.

Haraldur Hansson, 9.7.2009 kl. 16:25

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kjósið aftur og aftur og aftur, ef ykkur líkar ekki raunveruleikinn. Kjósið þangað til ykkur finnst koma rétt úr úr kosningunum

Hinir svokölluðu "ómálefnalegu rök" ESB-andstæðinga eru samt ekki eins grótesk og raunveruleikinn hérna í sjálfu Evrópusambandinu

Þetta fellur undir stjórn ESB þegar lönd eru í ESB og með evru

********** (100%) Fiskveiðar

********** (100%) Landbúnaður

********** (100%) Verslun og viðskipti

********** (100%) Yfirríkislöggjöf

********** (100%) Utanríkismálastefna

********** (100%) Peningastefna

********** (100%) Gjaldmiðill og gengi

********** (100%) Stýrivextir

********* (90%) Lagasmíði

******** (80%) Viðskiptaeftirlit

********* (70%) Innflytjenda- og flóttamannalöggjöf

**** (40%) Varnarmál

*** (30%) Skattar

Sjá nánar: Er Bretland ennþá sjálfstætt og fullvalda ríki?. Athugið að Bretland er með undanþágu hvað varðar utanríkisstefnu. Ofaní þetta kemur svo hin nýja stjórnarská ESB sem mun opna fyrir sameiginlegum skatta- og fjármálum og tilurð stórríkis ESB.

Gunnar Rögnvaldsson, 9.7.2009 kl. 18:07

12 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég hugsa nú reyndar að þessi kona hljóti nú eitthvað að hafa fiktað í fíkniefnum undanfarið, allavega var hún ekki lítið skrítin í þessu viðtali.

Jón Gunnar Bjarkan, 9.7.2009 kl. 23:39

13 Smámynd: Himmalingur

Er líf , fyrir og eftir ESB?

Kveða til þín Haraldur minn!!!!!

Himmalingur, 9.7.2009 kl. 23:48

14 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Kærar þakkir fyrir að vekja athygli á þessu viðtali og þessum ummælum. Eitt af því sem fylgir fíkninni er afneitun og mér sýnist einn úr hópi athugasemdamanna haldinn slíku, en aðeins einn reyndar. Leyfði mér að vekja athygli á blogginu þínu á Facebook og vona að félagar mínir þar skoði það.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.7.2009 kl. 02:09

15 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Gunnar: Evrópustjörnunum á eftir að fjölga á yfirlitinu þínu. Með Lissabon samningnum verða tvö embætti sameinuð í eitt og búinn til utanríkisráðherra ESB. Þar með (ásamt öðrum breytingum) stefnir í varnarmál verða meira "sameiginleg" en hingað til.

Svo eru það skattamálin. Það var skipuð 42-manna skattanefnd árið 2004, þegar tíu ný ríki bættust í ESB. Hún er búin að skila 13 skýrslum og í fjórum orðum er niðurstaðan: Þetta er ekki hægt.
Ég fullyrði að viðbrögðin við því verði að auka vald Brussel í þeim málaflokki og talan verði komin í 50% innan áratugar.

Haraldur Hansson, 10.7.2009 kl. 12:39

16 Smámynd: Haraldur Hansson

Anna: Ég er nánast ekkert á Facebook og þekki lítið til þar. En þér er velkomið að benda á bloggið, enda orðið opinbert um leið og textinn er kominn á netið.

Jón og Jón: Takk fyrir innlitið, en ég hefði kosið málefnalegri athugasemdir.

Hilmar: Auðvitað er líf eftir ESB, bara ekki eins gott. Líklega verð ég kominn á eftirlaun þegar aðildin fer að bíta (ef við villumst þarna inn). En það verður næsta kynslóð, börn hennar og barnabörn sem sitja uppi með skaðann. Já og bestu kveðjur til þín sömuleiðis!

Haraldur Hansson, 10.7.2009 kl. 12:45

17 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Staðreyndin er nú bara að þeir sem vilja að ísland gerist aðili að samstari fullvalda lýðræðisríkja evrópu þurfa ekkert að halda sínum málstað fram.  Það er alveg nóg að and-sinnar "tjái sig" þá flykkist meginpartur þjóðarinnar yfir til skynsemi aðildarsinna.  Flykkjast alveg.

Skrifiði meir and-sinnar.  Skrifið meir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.7.2009 kl. 14:20

18 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Frábært viðtal Gísla Einarssonar við Sigríði Jónsdóttur.  Þar fer greinilega hörku dugleg, vel upplýst og greind kona.

Tómas Ibsen Halldórsson, 10.7.2009 kl. 15:27

19 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er mikilvægt að Jón Frímann fari ekki í heimsókn til hennar Sigríðar Jónsdóttur bónda í Arnarholti með það fyrir augum að "upplýsa" hana. Miklar líkur eru nefnilega á að hann yrði saltaður ofaní tunnu og gefinn henni svöngu Gunnu út um allar trissur í ESB. Svo hag Jóns Frímanns væri sennilega best borgið fyrir utan Arnarholt

Gunnar Rögnvaldsson, 10.7.2009 kl. 16:37

20 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér fannst ástæða til þess að benda fólki sem er meira á Facebook en blogginu á að lesa þennan pistil og samkvæmt undirtektum þar og beint til mín þá líkaði fólki lesturinn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.7.2009 kl. 02:07

21 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sá einmitt þetta viðtal og dáðist að þessum heilbrigðu lífsviðhorfum Sigríðar. Eitt sinn sagði góður og viskumikill maður að besta fíkniefnið væri að vera hamingjusamur.

Hamingjan er heimatilbúin og kostar mest af öðru en peningum og veraldlegum gæðum.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.7.2009 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband