Færsluflokkur: Evrópumál

Bannað að gagnrýna ESB

Þessi upptaka er með hreinum ólíkindum.

Hún er frá Evrópuþinginu í Strasbourg í gær, miðvikudaginn 25. nóvember. Og þar sem tengslin milli IceSave og ESB verða ljósari með hverjum deginum (hér) ættu menn að velta fyrir sér orðum Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í dag með hliðsjón af þessari ræðu.

Ræða Farage er um 5 mínútur og mjög áhugaverð, hann ræðir m.a. um "kjör" tveggja lítt þekktra einstaklinga í stór embætti hjá Evrópuríkinu. Viðbrögð forseta þingsins og orðaskipti þeirra tveggja sem á eftir fylgja eru athyglisverð og aðfinnslur forseta vægast sagt sérstakar.

 

Farage uppskar ávítur fyrir ræðuna. Rifjuðu menn upp mál sem rekið var fyrir European Court Of Justice (C 274/99) af því tilefni, en samkvæmt úrskurði telst það vera móðgandi og ósæmileg hegðun að gagnrýn Evrópusambandið. Já, það er bannað að gagnrýna ESB!

Það er alveg klárt að Samfylkingin er ekki að hugsa um IceSave (hér) heldur að komast inn í Evrópuríkið. Ríkið sem vill banna gagnrýni, sniðganga lýðræðið og afnema atkvæðisrétt fámennustu aðildarhéraðanna (hér).

 


mbl.is Frostavetur falli Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-skatturinn sem Jóhanna nefndi ekki

Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnir réttilega þau mistök sem gerð hafa verið í pólitík og hagstjórn á liðunum árum og leiddu til hrunsins. Það kemur ekki á óvart að miðpunkturinn í þeim bjargráðum sem hún boðar er innganga Íslands í Evrópuríkið.

Í ræðu sinni talaði hún um hagsmunamál sveitarfélaganna og nefndi Finnland sem dæmi. Hún benti á styrki sem Finnar hafa fengið frá Brussel (hér). En það sem hún nefndi ekki er meðal annars þetta:

  • Finnar borga miklu meira til ESB en þeir fá til baka.
  • Vera Finna í ESB hefur kostað þá 668 þúsund milljónir króna til þessa.
  • Aðal orsök erfiðleika Finna í dag er að þeir hafa ekki sinn eigin gjaldmiðil og neyðast til að nota evruna.

Tölulegar staðreyndir um kostnað Finna af ESB-aðild má lesa hér.

Kostnaður finnsku þjóðarinnar er nú orðinn €3.619 milljónir, eða 668.200 milljónir króna á fjórtán árum. Séu öll ESB-Norðurlöndin skoðuð kemur í ljós að Danir og Svíar greiða enn meira en Finnar fyrir ESB aðildina. Nettó kostnaður þessara þriggja landa á síðasta ári var að meðaltali um €150 á hvert mannsbarn.

Ef vera Íslands í Evrópuríkinu yrði okkur jafn dýr jafngildir þetta 110 þúsund krónum í ESB-kostnað á hverja íslenska fjölskyldu á ári. Þeir peningar verða ekki sóttir annað en í vasa íslenskra skattgreiðenda. Þykir mörgum nóg komið þótt ekki verði bætt á ESB-skatti, til að fá að vera með í klúbbi sem hentar okkur engan veginn.

Þá er ótalinn stærsti skatturinn sem Samfylkingin vill leggja á þjóðina.

 


mbl.is Gagnrýnir stjórnarandstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þingmenn mættu

Í fyrirsögninni er ég ekki að tala um mætingu, heldur það að mega. Að mega hafa sjálfstæða skoðun á stórmálum. Að mega komast að sinni eigin niðurstöðu. Að þingmenn (allra flokka) megi meta hvert mál á faglegum forsendum en láti ekki flokksaga ráða atkvæði sínu.

Segjum sem svo að stjórnin hefði ákveðið að leggja aðildarumsókn að ESB í dóm Alþingis, en ekki fyrr en á síðari hluta kjörtímabilsins þegar aðkallandi kreppumálum væri lokið. Hefði það haft áhrif á afgreiðslu IceSave nú?

Alveg örugglega. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, tók af öll tvímæli í samtali við Reuters fréttastofuna, eins og DV greindi frá í vikunni.

Nú um stundir er stuðningur við aðild að Evrópu (sic!) lítill vegna Icesave. Það væri betra að koma þessu máli frá í næstu viku til að við getum haldið áfram.

Þetta er einmitt kjarni málsins. Hvort niðurstaðan er góð eða slæm skiptir ekki máli. Í augum Samfylkingar er IceSave eitthvað sem þarf "að koma frá" svo hún geti haldið áfram að koma Íslandi inn í Evrópuríkið.

Umsóknin truflar faglega og þinglega meðferð á IceSave. Það gæti reynst þjóðinni hrikalega dýrkeypt. Allir 20 þingmenn Samfylkingar mun greiða atkvæði með ríkisábyrgð á IceSave, alveg sama hverjar forsendurnar eru. Það er óverjandi. En ég dreg stórlega í efa að meirihluti þeirra myndi gera það ef aðildarumsóknin væri ekki til staðar.

Þetta gæti orðið dýrasti aðgöngumiði í heimi.

 


mbl.is Mótmæla Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítt þekktir leiðtogar

Þegar breska barónessan Catherine Ashton var skipuð viðskiptaráðherra ESB í október í fyrra töluðu sumir Evrópuþingmenn um það sem "móðgun við Evrópuþingið" að skipa einstakling sem hafði enga reynslu af viðskiptamálum.

Baroness AshtonÍ Bretlandi lýstu menn furðu sinni á því að lítt þekkt kona, sem aldrei hefur verið kosin af neinum, skyldi vera skipuð í stöðuna. Breska þingið fékk ekki að fjalla um skipan hennar, en Ashton er þó sögð hafa staðið sig prýðilega í starfi, þótt nýliði sé.

Gordon Brown þurfti, að ósk Barrosos, að tilnefna konu í starfið, þegar Peter Mandelson fékk að snúa aftur heim til Bretlands í fyrra. Hann var þá búinn að afplána fjögurra ára útlegð í Brussel. Þangað fór hann eftir að hafa neyðst til að segja af sér embætti í annað sinn (hér) og settist beint í ráðherrastól.

Eftir að Herman Van Rompuy, forsætisráðherra Belgíu, var valinn í hið nýja embætti forseta Ráðherraráðsins, þurfti að gæta jafnvægis. Hann er hægrisinnaður karl frá litlu ríki. Það þurfti því vinstri sinnaða konu frá stóru ríki í hitt nýja valdaembættið. Barónessan breska varð fyrir valinu, þrátt fyrir að hafa enga reynslu af utanríkismálum. Þar vó þungt að gæta þurfti að kynjahlutföllum.

Núna, eftir ársdvöl í Brussel, er Ashton barónessa að taka við einu af valdamestu embættum í Evrópu, sem verður til 1. desember þegar Evrópuríkið verður formlega stofnað. Þar mun hún starfa í friði fyrir kjósendum, í anda "lýðræðisins" sem praktíserað er í Brussel.

Þetta er vissulega forvitnileg byrjun í hinu nýja Evrópuríki, að skipa tvo lítt þekkta einstaklinga í tvö ný og mjög valdamikil embætti. Varla þarf að taka fram að það var handvalið í bæði embættin fyrir luktum dyrum.

 


mbl.is Van Rompuy fyrsti forseti ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

José vantar konur!

Það er ekki bara á Íslandi sem menn glíma við kynjakvótann. Á sunnudaginn verður ríkisstjórn Barrosos búinn að sitja full fimm ár og hann vinnur nú við að setja saman nýja stjórn. Sjálfur verður hann áfram í embætti og nú sem forsætisráðherra nýja Evrópuríkisins.

barrosoÞegar 8 aðildarhéröð af 27 eiga eftir að tilnefna sína kommissara í "Barroso 2", eru aðeins þrjár konur komnar á blað. Þetta veldur José Manuel Barroso þungum áhyggjum. 

José vantar konur.

Á meðan leita leiðtogarnir 27 að fyrsta forseta Evrópuríkisins, en nokkrir koma til greina. Einn kandídatinn er kona, svo ef hún verður kjörin léttir það aðeins áhyggjum af José forsætisráðherra.

Öll aðildarhéröðin 27 verða að sverja Evrópuríkinu hollustueið. Hann hljómar svona:

(Memeber states) declare that the flag with a circle of twelve golden stars on a blue background, the anthem based on the "Ode to Joy" from the Ninth Symphony by Ludwig van Beethoven, the motto "United in diversity", the euro as the currency of the European Union and Europe Day on 9 May, will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it.

Barroso og félagar hljóta að bæta nýja forsetanum inn í hollustueiðinn ... our leader the president of the European Union ...

 

 


mbl.is Barist um forsetaembætti ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrasta símanúmer í heimi

Nokkrum sinnum á undanförnum dögum hef ég séð vitnað í Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra USA, þar sem hann sagði: Who do I call if I want to call Europe? 

telephone_oldKissinger vissi auðvitað að Evrópa var ekki land eða ríki og sagði þetta í hæfilegri alvöru. En núna, þremur og hálfum áratug síðar, er spurningin ekki jafn röng. Nýja Evrópuríkið telur 27 af löndum Evrópu og mun fá sinn eigin utanríkisráðherra þegar það verður stofnað eftir tvær vikur.

Í dag er Hillary Clinton utanríkisráðherra USA. Embættið þar heitir „Secretary of State" en titillinn í nýja Evrópuríkinu er miklu veglegri: „The High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy". Hvorki meira né minna. Enda búið að skrifa heilu kaflana inn í samninga Evrópuríksins um nýja ráðherrann.

Hillary Clinton veit hvert hún á að hringja.

Undir nýja ráðherrann, sem svarar í símann í Evrópuríkinu, munu strax færast um 1.800 starfsmenn og síðar munu fleiri bætast við. Kostnaðurinn við að koma upp hinu nýja embætti er eitthvað á annan milljarðinn, mælti í €vrum. Líklega dýrasta símanúmer í heimi.

Undir hann heyra líka sendiskrifstofurnar, sem verða að sendiráðum Evrópuríkisins. Þau fyrstu líklega í New York, Kabúl og Addis Ababa en alls verða þau 160. Yfirmennirnir (senior diplomats) verða framvegis sendiherrar (ambassadors) og starfsmenn nýja ráðherrans alls um 6-7 þúsund.

telephone_ClintonEf Hillary Clinton vill hringja í Evrópuríkið hringir hún í dýrasta símanúmer í heimi.

Nema hún þurfi að hringja til fullvalda ríkis utan Evrópuríkisins, t.d. Noregs eða Sviss, þá reddar ritarinn því.

Ef hún þarf að hringja til Íslands er það Össur sem svarar í gemsann.


Sumir líta e.t.v. á það sem kost við að færa völd frá aðildarríkjunum til ráðherrans með símann að núna veit frú Clinton hvert hún á að hringja en gerir ekki meinlaust grín eins og Kissinger um árið.


Kaldal á hvolfi

Leiðari Fréttablaðsins í dag er helgaður Heimssýn, sem er hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Félagsskapur fólks sem telur að hag Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins og hélt aðalfund sinn um helgina.

Höfundur leiðarans, Jón Kaldal, byrjar á því að segja Heimssýn vera "með sérstakari söfnuðum landsins". Svona stimplagerðar er oft gripið til af þeim sem annað hvort hafa fátækleg rök eða vondan málstað að verja. Þá er gert lítið úr andstæðingnum til að forðast sjálft málefnið.

Ýmislegt fleira í þessum dúr fylgir síðan; um hægri og vinstri, skynsemi og trúarhita, en leiðarann má lesa hér.

Það er síðasta setningin sem er mest úr takti við raunveruleikann. Hún er um þá hugmynd að draga aðildarumsókn til baka og hljómar svona: 

Ómögulegt er að skilja af hverju Ragnar og skoðanasystkini hans vilja koma í veg fyrir að málið fái að hafa þann sjálfsagða og lýðræðislega gang.

Þetta er rugl.

Hér snýr skrifarinn hlutunum á hvolf. Það er einmitt vegna þess að málið á að fá sjálfsagðan og lýðræðislegan framgang að menn vilja draga umsóknina til baka núna.

Lýðræðisleg ákvörðun verður ekki tekin nema menn fái að kjósa (innan þings eða á landsvísu) þar sem viðhafðar eru frjálsar og sanngjarnar kosningar. Það var ekki gert. Í atkvæðagreiðslu á Alþingi 16. júlí greiddu nokkrir þingmenn atkvæði með tillögu um aðildarumsókn við þvingaðar aðstæður: Undir hótunum um stjórnarslit. Pólitíkst ofbeldi af þessu tagi er afbökun á lýðræðinu.

Ríkjandi stjórnvöld, sama hvaða flokkar eiga í hlut, geta ekki tekið meiriháttar ákvarðanir sem varða afdrif þjóðarinnar nema hafa til þess skýrt umboð. Löggjafi og ríkisstjórn eiga að vinna í umboði þjóðarinnar. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur ekki það skýra umboð frá þjóðinni sem ætti að vera sjálfsögð krafa í lýðræðisríki. Ekki síst þegar um svo stórt mál er að tefla.

Við þetta bætis að utanríkisráðherra hefur legið svo mikið á að hann hefur anað áfram með málið, gegn þeim tilmælum sem fram koma í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis.

Vönduð stjórnsýsla, fagleg vinnubrögð og lýðræðið sjálft hafa verið fótum troðin í þessu máli. Ef menn meintu eitthvað með kröfunni um Nýja Ísland, þá ætti að vinna þetta mál með allt öðrum hætti og fyrst og fremst að hafa lýðræðið í heiðri.

Hugmynd Heimssýnar gengur því út á að tryggja að málið fái alvöru lýðræðislegan framgang en ekki að koma í veg fyrir það eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins telur. Af skrifum hans verður ekki annað séð en að hann hafi ekki verið á fundi Heimssýnar á sunnudaginn.

 


ESB verður lagt niður eftir 19 daga

state of europe

Á sama tíma og Ísland sækir um inngöngu, er Evrópusambandið lagt niður. Í staðinn verður Evrópuríkið stofnað. Það gerist eftir nítján daga.

1. desember tekur Lissabon-stjórnarskráin gildi og þjóðhöfðingi Evrópuríkisins verður kjörinn. Þó ekki af þegnum ríkisins í lýðræðislegri kosningu, heldur af evrópsku stjórnmálastéttinni.

Art. 47 TEU: "The Union shall have legal personality".

Þessi 6-orða setning er líklega stysta lagagreinin sem kemur með Lissabon samningnum. Hið nýja ESB, Evrópuríkið, fær stöðu lögpersónu, þ.e. verður sjálfstætt ríki. Ríki með forseta og stjórnarskrá, löggjafarvald og ríkisstjórn, dómstóla og seðlabanka. Og með sinn eigin fána, þjóðsöng, mynt og her.

Evrópuríkið er næsta skrefið í þróuninni sem hófst 1951 með stofnun Kola- og stálbandalagsins. Síðan tók Efnahagsbandalagið við 1957, þvínæst Evrópusambandið 1993 og núna Evrópuríkið 2009. Þetta er stærsta skrefið í þessu ferli. Það gengur út á pólitískan samruna, en ekki efnahagslega samvinnu eins og kratar vilja telja okkur trú um.

 


mbl.is Fyrsti fundur ESB-nefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

With a spoonful of sugar ...

Að ganga í Evrópuríkið er fyrir íslenska þjóð eins og að fara í stríð gegn sjálfri sér.

Og tapa.

Tímalínan fyrir Ísland:

  • 2009 - Ísland sækir um aðild að ESB, sem er svo lagt niður*.
  • 2011 - Embættismenn undirrita "glæsilegan samning".
  • 2012 - Íslendingar ganga í Evrópuríkið.
  • 2014 - Atkvæðisréttur Íslands er afnuminn (hér).
  • 2015 - Þeir sem sögðu "já" skammast sín og fara með veggjum.
  • 2016 - Of seint að bakka. IceSave bankar uppá!

Aðal talsmaður Samfylkingarinnar fyrir ESB aðild, talar um inngöngu sem "augnabliks geðveiki". Ef þjóðin heldur sönsum og heldur friðinn við sjálfa sig er hægt að komast hjá þessum mistökum.

Það er ekki hægt að fegra þetta neitt með ölmusum frá Brussel. With a spoonful of sugar ...

* 1. desember tekur Lissabon samningurinn gildi og Evrópuríkið stofnað í stað ESB.

 


mbl.is Ísland fái aðild að umsóknarsjóði ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland svipt sjálfsforræði

Að svipta einstakling sjálfsforræði er líklega stærsta löglega inngrip sem hægt er að gera í líf einstaklings, sem ekki hefur gerst brotlegur við lög. Að svipta heila þjóð sjálfsforræði gerist ekki nema lönd séu hernumin í stríði, eða ef ógnarstjórn af einhverju tagi tekur völdin, oft í kjölfar valdaráns.

Það sem taflan (neðri myndin) sýnir er ekki algjör svipting á sjálfsforræði. En þau lönd sem verst fara út úr skerðingu á atkvæðisrétti í Ráðherraráði ESB fara óþægilega nærri því. Með Lissabon samningnum er vægi atkvæða sex stærstu ríkjanna aukið verulega á kostnað hinna. Breytingin tekur gildi í lok kjörtímabilsins sem hófst í sumar.

 council_voting

Þau ríki sem eru með minna en milljón íbúa fara langverst út úr Lissabon samningnum. Ef Ísland væri nú þegar í klúbbnum væri skerðingin á atkvæðavægi Íslands 92,6% - hvorki meira né minna; færi úr nánast engu niður í akkúrat ekkert. Aftasti dálkurinn sýnir breytinguna. Aukið vægi er í bláu en skert vægi í rauðu.

Hin mikla aukning á atkvæðavægi Þýskalands skýrist af því að landið hefur sama atkvæðavægi og Frakkland, Bretland og Ítalía þrátt fyrir mun fleiri íbúa. Það á að leiðréttast með Lissabon. (Smella á myndina til að fá hana stærri.)

 

voting_changes 

Eftir breytinguna þarf 55% aðildarríkja og 65% íbúafjölda til að samþykkja ný lög. Vægið verður uppfært árlega samkvæmt íbúaþróun. Ef fjölmennt ríki eins og Tyrkland gengur í ESB minnkar atkvæðavægi smáríkjanna enn frekar.

Á sama tíma og vægi stóru ríkjanna er aukið verulega eru vetó-ákvæði (neitunarvald) felld úr gildi í fjölmörgum málaflokkum. Þetta öryggistæki smáríkjanna er tekið burt.


DÆMI - Sjávarútvegur:
Til að varpa ljósi á áhrifaleysi Íslands (0,06%) innan ESB, þá hefðu þau fimm ríki sem ekki eiga landamæri að sjó og stunda ekki sjávarútveg, 108-sinnum meira vægi en Ísland við afgreiðslu mála um sjávarútveg. HUNDRAÐ-OG-ÁTTA SINNUM MEIRA. Samt eru þetta ekkert af stóru ríkjunum!

Stórt kerfi býður upp á baktjaldamakk með atkvæði og menn geta velt fyrir sér hvort Ísland eða Spánn hafi meira að bjóða ríkjum eins og Austurríki og Ungverjalandi í slíkum hrossakaupum. Það er hægt að líta til Alþjóða hvalveiðiráðsins eftir dæmum.

Sjávarútvegur er aukabúgrein í landbúnaði innan ESB. Sjávarútvegur er það sem Íslendingar þurfa að byggja á til framtíðar. Að setja stjórn hans undir yfirþjóðlegt vald, þar sem við höfum ekkert að segja, er algjört brjálæði. Það er aðeins hænufeti frá því að svipta Ísland sjálfsforræði. 

Algjör og undantekningalaus undanþága fyrir íslenskan sjávarútveg er frumskilyrði fyrir því að menn geti svo mikið sem gælt við þá hugmynd að leyfa krötum að verða okkur til skammar með bjölluati í Brussel.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband