Færsluflokkur: Evrópumál
13.9.2010 | 00:44
Skrýtnasti flokkurinn
Evrópusamtökin eru skrýtin pólitísk hreyfing, líklega sú skrýtnasta í heimi. Aðal baráttumál félagsmanna er að svipta þjóð sína forræði í eigin málum og koma því undir fjarlægt vald. Meira að segja formleg yfirráð yfir verðmætustu auðlind sinni og öllum rétti til löggjafar í orkumálum, svo dæmi séu nefnd.
En við búum við skoðanafrelsi, sem betur fer. Evrópusamtökin eiga fullan rétt á sínum skoðunum eins og aðrir. Og dýrmætt málfrelsið gefur öllum rétt til að tjá skoðanir sínar. Evrópusamtökin hafa því stjórnarskrárvarinn rétt til að hafa rangt fyrir sér og fara með fleipur.
Til að vinna skoðunum sínum fylgi beita samtökin öllum ráðum. Síðustu dagana hafa árásir á íslensku krónuna verið áberandi og allt frá rafvirkja til ritstjóra lagt hönd á plóg. En hvaða skoðun sem við höfum á Evrópumálunum getum við öll verið sammála um nokkur atriði:
- Krónan hefur aldrei átt sæti á Alþingi Íslendinga.
- Krónan hefur aldrei samið fjárlög.
- Krónan samdi ekki frumvarpið sem varð að Ólafslögum og færði okkur verðtrygginguna, sem enn er í gildi.
- Krónan hefur aldrei tekið ákvörðun um að fella gengið.
- Krónan hefur aldrei verið fjármálaráðherra og ekki viðskiptaráðherra heldur.
- Krónan átti ekki sæti í einkavæðingarnefnd.
- Krónan var hvorki í stjórn Kaupþings né Íslandsbanka. Ekki einu sinni í Landsbankanum.
Samt tala menn iðulega um krónuna eins og hún sé lifandi vera, með sjálfstæðar skoðanir og mikil völd og vilji láta illt af sér leiða. Að hún sé óværa sem þarf að koma fyrir kattarnef. Að léleg stjórn efnahagsmála sé þessari kynjaveru að kenna, en ekki valdhöfum.
Blóraböggull er handhægt vopn
Þegar á móti blæs er gott að geta bent á blóraböggul. Allt er betra en að finna sekt hjá sjálfum sér. Þá er svo einfalt að gera gjaldmiðilinn að sökudólgi í miðju óörygginu sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Einmitt á meðan fólk sér kjör sín og eignir rýrna er rétti jarðvegurinn fyrir svona boðskap. Og ef menn geta slegið tvær flugur í einu höggi og unnið vondum málstað fylgi í leiðinni, þá er þetta alveg kjörið.
Með því er líka hægt að færa fókusinn frá hinni raunverulegu stefnu Evrópusamtakanna, sem er að gefast upp á að ráða eigin málum. Slagorð um uppgjöf og aumingjaskap er ekki líklegt til vinsælda. Þess vegna hafa menn líka búið til orðaleppa eins og "að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum" til að nota um uppgjafarstefnuna.
En ekkert er nýtt undir sólinni. Það eru mörg dæmi um að skaðlegar hugmyndir fái hljómgrunn. Milljónir manna trúðu á yfirburði kommúnismans fyrir örfáum áratugum. Svo kannski er ég að hafa félagsmenn Evrópusamtakanna fyrir rangri sök. Kannski er þetta fólk sem trúir því, í hjartans einlægni, að það sé einhver vitglóra í því fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Enginn illvilji í garð þjóðarinnar, bara venjulegt velviljað fólk sem heldur að það sé að gera rétt.
Við verðum bara að treysta á að skynsemin hafi betur.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.9.2010 | 12:36
Íslenska krónan árið 1922
Reglulega er lækkun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku notuð sem rök fyrir því að nú þurfi að leggja hana af og taka upp "sterka mynt" í staðinn, evruna. En í þá umfjöllun vantar ávallt það sem mestu máli skiptir. Þess í stað er hamrað á því að frá því að leiðir gjaldmiðlanna skildi árið 1922 hafi verðgildi dönsku krónunnar tvöþúsundfaldast gagnvart þeirri íslensku.
ÁRIÐ 1922 voru Íslendingar ein fámennasta og fátækasta þjóð Evrópu. Fáeinum áratugum síðar var þjóðin orðin ein sú ríkasta. Risastökk frá örbyrgð til allsnægta, sem hefði verið útilokað með ónýta mynt.
ÁRIÐ 1922 var höfuðstaður Íslands fátæklegur kaupstaður í Kvosinni en Kaupmannahöfn var borg með 6-sinnum fleiri íbúa en Ísland.
ÁRIÐ 1922 lágu þjóðvegir um alla Danmörku, dönsku járnbrautirnar höfðu þá gengið í 78 ár og Kastrup flugvöllur var í smíðum; einn fyrsti alþjóðaflugvöllurinn fyrir farþegaflug í heiminum.
ÁRIÐ 1922 stóð vegakerfið á Íslandi saman af nokkur malarvegum og troðningum. Hér var ekkert flugfélag og enginn Íslendingur með réttindi til atvinnuflugs.
ÁRIÐ 1922 var háskólinn í Köben meira en fjögurra alda gamall en á Íslandi var háskóli enn aðeins draumur. Húsakostur danskra var prýðilegur, en á Íslandi var hann mun lakari og sumir bjuggu enn í torfbæjum. Og þannig mætti áfram telja.
EN ... ÁRIÐ 2010 búa Íslendingar við áþekk kjör og Danir í nútímalegu samfélagi með öllum þægindum 21. aldarinnar. Framfarirnar á Íslandi eru meiriháttar. Kreppan setur tímabundið strik í reikninginn, en afrekið er staðreynd.
Á 88 árum hefur danska krónan tvöþúsundfaldast í verði gagnvart krónunni okkar, en framfarir og uppbygging eru a.m.k. hundrað sinnum meiri hér en í Danmörku á sama tíma.
Krónan var látin fylgja pundinu í fjórtán ár með slæmum árangri. Ef íslenska krónan hefði fylgt þeirri dönsku alla tíð hefði ekki orðið neitt risastökk en við ættum tvöþúsund sinnum sterkari krónu.
Vill einhver skipta?
31.8.2010 | 11:01
Auðlindir. Hvaða auðlindir?
Þegar einhver setur sig á móti því að færa formleg yfirráð yfir fiskimiðunum úr landi er jafnan stutt í afbakanir. Þá kemur iðulega þessi klassíska spurning frá aðildarsinnum: Hefur ESB nokkurn tímann "sölsað undir sig" auðlindir annarra aðildarríkja?
Svarið er auðvitað nei, því ESB hefur ekki afskipti af öðrum auðlindum en fiski. Það hefur aldrei reynt á neitt viðlíka framsal forræðist yfir eigin auðlindum og yrði við inngöngu Íslands. Aldrei!
Í auðlindamálum er aðeins eitt sem við þurfum að velta alvarlega fyrir okkur. Það er sú auðlind sem er ólík öllum hinum: Fiskurinn í sjónum. Eina auðlindin sem felld er undir yfirþjóðlega stjórn í Brussel.
Formaður Evrópusamtakanna setur allar auðlindir undir einn hatt í blaðagrein og flaggar sölsa-undir-sig "rökunum", hvort sem það er vísvitandi afbökun eða þekkingarleysi.
Illugi Jökulsson skrifaði bloggfærsluna "Hvar eru þessar auðlindir?" Þar er málinu stillt upp eins og spurningu um hvort útlendingar líti eitthvað sem við eigum hýru auga. Að "hið illa ESB ásælist auðlindir okkar" eins og hann orðar það. Eins og málið snúist í alvörunni um það.
Að ráða eigin málum
Um miðja 19. öld börðust Íslendingar fyrir því að fá að ráða meiru um eigin mál en að hafa í besta falli 4% atkvæðavægi í Köben. Nú, einni og hálfri öld síðar, er til fólk sem telur í lagi að færa formleg yfirráð yfir okkar dýrmætustu auðlind til yfirþjóðlegrar stjórnar, þar sem við hefðum 0,06% atkvæðavægi.
Framsal gæti verið í lagi ef hagsmunirnir væru þeir sömu, aðstæður nákvæmlega eins og atkvæðavægi í takt við aflamagn eða mikilvægi greinarinnar. En svo er aldeilis ekki.
ESB er stór innflytjandi á fiski en Ísland er útflutningsríki. ESB rekur sjávarútveg sem olnbogabarn í landbúnaði en á Íslandi er hann meginstoð. ESB veitir margvíslega styrki til útgerðarinnar en á Íslandi þarf hún að vera arðbær (og má aldrei detta inn í styrkjakerfi). Innan ESB er mikilvægi sjávarútvegs hverfandi en á Íslandi afgerandi. Fleira mætti telja.
Hagsmunirnir Íslands og ESB eru gerólíkir, nánast eins og svart og hvítt. Það er flestum Evrópuþjóðum beinlínis framandi að litið sé á fiskimið sem auðlind.
Þegar hagsmunir rekast á (og það mun gerast) er ólíklegt að eitthvert aðildarríkjanna eigi mikla samleið með þeim íslensku. Hvort er þá líklegra að hagsmunir 0,06% íbúanna verði undir eða ofaná!
Það sem ætti að vera til umræðu í auðlindamálum er HVERS VEGNA í ósköpunum við ættum að setja okkar verðmætustu auðlind undir kerfi sem var hannað fyrir allt annað umhverfi, er meingallað og hefur reynst öllum illa.
Kemur einhver auga á vitglóru í því?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.8.2010 | 01:20
Það er bannað að segja satt
Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur gert sig sekan um alvarleg mistök. Honum varð það á að segja satt, já meira að segja allan sannleikann, um aðlögunarferlið sem Samfylkingin setti í gang.
Ráðherrann á að segja þjóðinni að "kaffispjallið í Brussel" séu bara könnunarviðræður til að "sjá hvað er í boði". Það eru réttu umbúðirnar - framleiddar í Stimplagerð Samfylkingarinnar - og jafn innantómar og Velferðarbrúin, Fyrningaleiðin, Skjaldborgin o.s.frv., o.s.frv.
Jón Bjarnason má ekki láta það þvælast fyrir sér þótt einhver Egill bloggari bendi á skjalfestan sannleikann frá kommissar í Brussel. Ef hann vill halda embættinu verður hann að skilja, að þegar Evrópusambandið ber á góma, er stranglega bannað segja fólki satt.
Nú verður Jón að bæta ráð sitt og fylgja handriti Steingríms: "Já, Jóhanna, ég skal samþykkja hvað sem er ef þú leyfir mér að sitja áfram í stólnum". Það myndi styrkja stöðu hans innan ríkisstjórnarinnar ef hann lýsti sig reiðubúinn til að svíkja kvaða kosningaloforð sem er.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2010 | 10:11
Íþróttaálfinum stolið út Latabæ
ESB hefur eytt meira en tveimur milljörðum í ávaxtarannsóknir þar sem komist var að því að það er hollt að borða ávexti. Þá vitum við það. Stór hluti peninganna fór í að hanna ofurhetjuna Mr. Fruitness, sem er lítið annað en grænklædd stæling á íþróttaálfinum í Latabæ.
Íþróttaálfurinn er hugarsmíð Magnúsar Scheving. Hann er ráðagóð hetja með krafta í kögglum, sem er ætlað að hvetja börn til að borða hollan mat; grænmeti og ávexti.
Mr. Fruitness er hugasmíð möppudýranna í Brussel. Hann er ofurhetja með yfirnáttúrulega krafta, sem er ætlað að hvetja börn til að borða hollan mat; grænmeti og ávexti.
Verkefnið sem gat af sér Mr. Fruitness var kallað IsaFruit og stóð yfir í fjögur ár. Alls komu um 200 vísindamenn að verkinu. Niðurstöður voru nýverið kynntar með pompi og prakt í Brussel.
Ein af helstu niðurstöðunum er að það má minnka líkur á að epli skemmist með því að dýfa þeim í 50-52 gráðu heitt vatn í 40 sekúndur og að það er gott fyrir kólesterólið að borða tvö epli á dag. En stærsti og dýrasti afrakstur verkefnisins er Mr. Fruitness.
Að sjálfsögðu hefur verið búinn til ESB vefsíða á fimm tungumálum um Mr. Fruitness. Smellið hér og njótið. Þar er hægt að taka þátt í leik og fá uppskriftir.
Sannar sögur frá Brussel
Þær eru ófáar sögurnar frá Brussel sem eru með svo miklum ólíkindum að margir telja þær hreinan uppspuna. Þær væru efni í stóran greinaflokk og þessi um stóru ávaxtarannsóknina er dagsönn. Margir telja að svona verkefni eigi alls ekki að vera á verksviði ESB og eru ósáttir við að peningum sé eytt í þau á sama tíma og aðildarríkjum er gert að spara á öllum sviðum.
Það tekur glansinn af verkefninu að stærsti afraksturinn er svo mikil stæling á íþróttaálfinum úr Latabæ, að jaðrar við hugverkastuld. Sá grænklæddi úr Möppudýragarði tekur þó líklega ekki lýsi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.8.2010 | 14:58
ESB - alls konar fyrir aumingja
Þegar allt um þrýtur má alltaf reyna að kaupa atkvæði. Það var gert á Nýfundnalandi með sorglegum afleiðingum, ESB hefur gert þetta í A-Evrópu og hikaði ekki við að brjóta gróflega eigin reglur þegar kosið var (aftur) um dulbúnu stjórnarskrána á Írlandi.
Nú hefur heil tylft ráðamanna í Brussel sagt okkur að það verða engar varanlegar undanþágur, þýsk-franska töframyntin reynist jaðarríkjunum fótakefli og lýðræðinu var úthýst með Lissabon samningnum. Um leið var sambandinu breytt í sambandsríki og vægi smæstu ríkjanna skert um meira en 90%. Og nú eru menn smátt og smátt að sjá að það sem kallað var viðræður er í raun aðlögunarferli.
En þegar rökin gufa upp og undanhald ESB-sinna er orðið eins og ítalskur skriðdreki, með einn gír áfram og fimm afturábak, verður gripið til styrkjanna. Að veifa peningum framan í fólk. Það falla alltaf einhverjir fyrir ölmusum.
Stærsti "styrkurinn" eru milljarðarnir sem ESB ætlar að verja til að greiða sinn hluta af aðlögun Íslands. Það þarf að höggva tær og tálga hæla svo allir geti notað sömu stærð af skóm. Þetta er að sjálfsögðu kallað styrkur í glansmynda- og áróðursskyni. Honum var gaukað að okkur um leið og ESB samþykkti nýjar reglur um merkingar á eggjabökkum!
Svo dúkka þeir upp hver af öðrum: Lagadeildin fær einn og Matís fær annan. Og HÍ fær styrk vegna þátttöku í verkefni um fiskveiðistjórnun. Það hlýtur að ganga vel í landann. Nýlega birti svo Fréttablaðið grein um nauðsyn ESB-styrkja fyrir framtíð íslenskrar menningar, sem þó hefur staðið traustum fótum, fjölbreytt og blómleg, frá því löngu fyrir daga Evrópusambandsins. Fleiri ölmusur má finna með hjálp Google.
En hverjir borga svo styrkina?
Jú auðvitað, við sjálf. Þetta er allt í plati. Greiðslur Íslands til ESB yrðu alltaf talsvert meiri en það sem kæmi til baka sem framlög og styrkir. Tölulegar upplýsingar hjá Eurostat, sem koma beint frá Evrópusambandinu sjálfu, sýna þetta glögglega. Hagræðið, sem aðildin á að færa, slagar ekki nema upp í þriðjung af kostnaði, samkvæmt úttekt fyrrum kommissars Gunthers Verheugen og framkvæmdastjórnar ESB. Skrifræðið étur upp ávinninginn og gott betur.
Þeir sem trúa því að það sé einhver glóra í því að framselja forræði yfir eigin velferð til fjarlægrar valdastofnunar munu samt tala um styrki og ávinning.
Aðildarsinnar ættu að fá lánað slagorð frá grínaranum Gnarr: "ESB - alls konar fyrir aumingja." Því það falla alltaf einhverjir fyrir ölmusum. Og sanniði til, næstu mánuðina munum við reglulega heyra fréttir um að "við fáum alls konar styrki frá ESB", en þeim fylgja ekki upplýsingar um að peningarnir séu sóttir í okkar eigin vasa.
![]() |
Ný staða í ESB-málinu með „aðlögun“ í stað umsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2010 | 22:03
Vaxa "knérunnar" í ESB?
Í grein í Fréttablaðinu í dag segist greinarhöfundur ekki ætla "að höggva í sömu knérunna". Þessi klúðurslega afbökun á þekktu orðasambandi segir mér að höfundur viti ekki hvað knérunnur er, en hann heldur sig vita það. Þess vegna finnst honum ekkert að því að birta svona vitleysu á prenti, undir fullu nafni og mynd að auki.
En ég ætla ekki að skrifa mola um málfar, heldur innihald greinarinnar, en þar er m.a. umfjöllun í sama "gæðaflokki" um ESB og auðlindirnar.
Höfundur greinarinnar er Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, sem hvatt hefur til "málaefnalegrar umræðu um Evrópusambandið". Maður skyldi ætla að formaðurinn þekkti nokkuð til reglna ESB.
Í grein sinni segir formaðurinn meðal annars:
Hefur Evrópusambandið sölsað undir sig auðlindir Pólverja, til dæmis skógana eða kolanámurnar? Svarið er nei, enda hefur Evrópusambandið engan rétt til þess. Það sem ég hef aldrei skilið eru þau rök nei-sinna að Evrópusambandið ætli sér að sölsa undir sig auðlindir Íslands, þegar ljóst er að það hefur aldrei gert það í öðrum aðildarlöndum.
ESB stjórnar því ekki hvernig þjóðir nýta námur og nytjaskóga, en er hins vegar með sameiginlega sjávarútvegsstefnu sem öll aðildarríki verða að falla undir. ESB stjórnar eingöngu nýtingu á auðlindum sjávar (og að einverju örlitlu leyti nýtingu beitilanda), en hefur ekki afskipti af öðrum auðlindum. Að bera námur og nytjaskóga saman við fiskveiðar er því algerlega út í hött. Eins og að bera saman epli og skrúfjárn.
Hvernig má það vera að formaður Evrópusamtakanna birti svona vitleysu á prenti, sem innlegg í ESB umræðuna? Mér detta tvær skýringar í hug.
1) Að höfundur skrifi gegn betri vitund í þeim tilgangi að draga upp glansmynd af ESB. Svona skrif gera ekki annað en að leggja stein í götu málefnalegrar umræðu um Evrópusambandið.
2) Að höfundur þekki í raun ekki sérstöðu sjávarútvegs í auðlindamálum ESB, en haldi sig gera það. Þess vegna finnist honum ekkert að því að birta svona vitleysu á prenti, undir fullu nafni og mynd að auki.
Ég satt að segja veit ekki hvort er verra.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.8.2010 | 23:46
Hlutfallslega stöðugt klúður
Fiskveiðistjórnun ESB er óhagkvæmt, óarðbært og illa útfært klúður sem skilið hefur eftir sig sviðna jörð, og embættismenn þurfa að axla ábyrgð. Þetta sagði fulltrúi eins kommissaranna í síðustu framkvæmdastjórn ESB. Í fyrravor kom svo út Grænbók um kerfið þar sem boðuð er endurskoðun á því, enn eina ferðina. Það hefur verið í endurskoðun í á annan áratug, en breytist aldrei neitt.
Í dag ritaði Jón Steindór Valdimarsson grein í Fréttablaðið sem er áhugaverð. Hann gerir Grænbókina og hið meingallaða kerfi að umtalsefni. Hann bendir réttilega á að 27 ríki "komi að borðinu" sem kunni að skýra erfiðleikana við endurskoðun þess þótt öllum sé ljós að kerfið sé eitt allsherjar klúður.
Í Grænbókinni er m.a. velt upp þeirri hugmynd að leggja regluna um hlutfallslegan stöðugleika af, en samkvæmt stefnuriti Samfylkingarinnar er sú regla hinn óbrigðuli öryggisventill sem íslenska þjóðin getur reitt sig á við inngöngu í Evrópusambandið (sjá hér, bls. 67).
Helstu gallar reglunnar eru taldir upp í Grænbók ESB:
- Hún hefur leitt til kvótaskipta milli aðildarríkja eða útflöggunar útgerða.
- Markmið um stjórnun veiðigetu hefur gert heildarmyndina enn óskýrari.
- Verulegt misvægi er á milli úthlutaðs kvóta, raunverulegrar þarfar og nýtingar flotans.
- Reglan tryggir ekki lengur að veiðiréttur haldist hjá viðkomandi veiðisamfélagi.
- Hún dregur úr möguleikum sjávarútvegsins til að nýta eigin getu og taka upp nýjar aðferðir og tækni við veiðar.
- Reglan veldur óeðlilegum þrýstingi á aukningu heildarkvóta.
- Hún veldur brottkasti langt umfram það sem ásættanlegt getur talist.
- Reglan er alvarlega gölluð og nær ekki fram markmiðum sínum.
Allt þetta telur Jón Steindór upp í grein sinni. Síðan greinir hann frá samantekt sem framkvæmdastjórn ESB gaf út í apríl í vor, í kjölfar viðbragða við Grænbókinni. Niðurstaðan er - ótrúlegt en satt - að mikill meirihluti styður að halda reglunni um hlutfallslegan stöðugleika og telur hana hornstein sjávarútvegsstefnu ESB. Bingó! Hið meingallaða klúður lifir áfram.
Þessu fagnar Jón Steindór í niðurlagsorðum, undir fyrirsögninni Reglan blívur. Eftir að hafa skrifað meira en 80 dálksentímetra lýsingu á hversu gallað og misheppnað kerfið er, endar hann greinina á stuttri málsgrein þar sem hann telur sér trú um að í þetta sinn muni samt eitthvað lagast og klikkir út með setningunni "Það er þróun sem ætti að vera Íslendingum að skapi."
Það eina sem ég get séð að skýri niðurstöðu greinarinnar og hina ótrúlegu kúvendingu í síðustu tveimur setningunum er að höfundurinn er í samtökunum Sterkara Ísland, sem aðhyllist aðild Íslands að ESB. Þetta hlýtur að flokkast undir ofurtrú á málstaðinn eða einhvers konar blindu. En greinin er fín, allt fram að síðustu málsgrein.
Evrópumál | Breytt 5.8.2010 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2010 | 12:56
"Ef við göngum í evruna ..."
Evrópusamtökin bentu í gær, á bloggsíðu sinni, á tvö viðtöl í erlendum fjölmiðlum og var annað þeirra tekið af BBC við dr. Baldur Þórhallsson. Í textanum er hinn viðmælandinn, Frosti Sigurjónsson stjórnarmaður í Heimssýn, ekki nefndur. Eftir að hafa hlustað á viðtalið við þá Baldur og Frosta efast ég um að Evrópusamtökin hafi hlustað á það, því framganga Baldurs er síður en svo málstað aðildarsinna til framdráttar.
Tvisvar í viðtalinu talar hann um að ganga í evruna!
if we would join the euro ...
our only solution is membership of the euro ...
Rauði þráðurinn í málflutningi Baldurs eru krónan-er-dauð "rökin". En það er hrópandi mótsögn í málflutningi prófessorsins. Fyrst segir hann að það sé lífsspursmál fyrir Ísland að fá evruna: "we desperately need the euro". Og í næstu andrá að við þurfum ekki að bíða í áratug eða meira, því Ísland geti tekið upp evruna eftir 4-5 ár.
Þá er spurningin:
Ef möguleikar Íslands á efnahagslegri endurreisn eru svo stórkostlegir að við gætum uppfyllt öll Maastricht-skilyrðin eftir aðeins 2-3 ár, hver á þörfin fyrir þýsk-franska mynt? (Það þarf að uppfylla skilyrðin í 2 ár samfellt áður en hægt er að skipa um mynt.) Það myndi kalla á hraðferð að grískri fyrirmynd, sem hefur reynst hörmulega, vægast sagt.
Ég mæli eindregið með að menn hlusti á viðtalið. Þátturinn er langur, svo dragið sleðann á 33:25 mínútur, þar hefst viðtalið. Vek sérstaka athygli á lokaspurningunni (What´s in it for Brussels?) og svari Baldurs við henni. Viðtalið er tæpar 7 mínútur að lengd. Frosti kemur vel út og hefði að ósekju mátt fá meiri tíma.
Vissulega nefnir prófessorinn fleira en að ganga í evruna, s.s. þátttöku í samstarfi þjóðanna, að við tilheyrum Evrópu og eigum sameiginlega arfleifð, en stóri áherslupunkturinn er: Við verðum að ganga í evruna.
Í viðtengdri frétt varar Uffe Ellamann-Jensen hins vegar við því að líta á inngöngu í Evrópusambandið sem efnahagsleg bjargráð.
![]() |
Segir of snemmt að fara í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.2.2010 | 12:29
"... halda að þau séu sjálfstæð og fullvalda ríki"
Aðildarumsókn Íslands að ESB bar örugglega á góma í einkaheimsókn Jóhönnu, eða svo segir Össur. Þangað vilja þau koma þjóðinni, sem þá yrði að taka upp evruna. En hvernig reynist töframyntin evra, öðrum ríkjum en Þýskalandi og Frakklandi?
"Gleymdu skuldabyrði Grikklands og Spánar, því útlitið með skuldastöðu á evrusvæðinu í heild er ekki fallegt þessa dagana" segir á vefnum Business Insider. Blaðamaðurinn Vincent Fernando segir réttilega að ríkin á Evrusvæðinu séu hvorki sjálfstæð né fullvalda, þó þau kunni að halda það.
Countries within the euro currency system may think that they are independent sovereign nations, but in reality they're all joined at the hip in one of the most significant ways -- monetarily.
Seðlabanki Evrópu hefur 16 höfuð, enda eiga öll Evruríki að "eiga rödd við borðið" eins og það heitir á brusselsku. Gallinn er að 14 hausar hafa verið tungustýfðir og aðeins sá franski og sá þýski hafa mál.
Evran hentar eflaust prýðilega fyrir stóru ríkin tvö sem leggja línurnar, en er sem myllusteinn um háls hinna þegar ekki ríkir glampandi góðæri.
Einnig er fjallað um þetta mál á Financial Times (hér) og á vefnum Tilveran í ESB er umfjöllun í Glugganum undir fyrirsögninni "Er myntbandalag líka skuldabandalag?"
---------- ---------- ----------
Enn eru til menn sem vilja misnota kreppuna og slæga stjórn síðustu ára til að knýja fram uppgjöf íslensku þjóðarinnar og koma henni inn í Evrópuríkið. Af því að við séum Hvorki frjáls né fullvalda hvort sem er, sé réttast að gefast upp. Uppgjöfin er kölluð "að deila fullveldi sínu" upp á kratísku. Grein Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu í dag er sorglegt dæmi um þennan hættulega þankagang.
![]() |
Jóhanna í einkaheimsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)