Hlutfallslega stöðugt klúður

Fiskveiðistjórnun ESB er óhagkvæmt, óarðbært og illa útfært klúður sem skilið hefur eftir sig sviðna jörð, og embættismenn þurfa að axla ábyrgð. Þetta sagði fulltrúi eins kommissaranna í síðustu framkvæmdastjórn ESB. Í fyrravor kom svo út Grænbók um kerfið þar sem boðuð er endurskoðun á því, enn eina ferðina. Það hefur verið í endurskoðun í á annan áratug, en breytist aldrei neitt.

Í dag ritaði Jón Steindór Valdimarsson grein í Fréttablaðið sem er áhugaverð. Hann gerir Grænbókina og hið meingallaða kerfi að umtalsefni. Hann bendir réttilega á að 27 ríki "komi að borðinu" sem kunni að skýra erfiðleikana við endurskoðun þess þótt öllum sé ljós að kerfið sé eitt allsherjar klúður.

Í Grænbókinni er m.a. velt upp þeirri hugmynd að leggja regluna um hlutfallslegan stöðugleika af, en samkvæmt stefnuriti Samfylkingarinnar er sú regla hinn óbrigðuli öryggisventill sem íslenska þjóðin getur reitt sig á við inngöngu í Evrópusambandið (sjá hér, bls. 67).

Helstu gallar reglunnar eru taldir upp í Grænbók ESB:

  • Hún hefur leitt til kvótaskipta milli aðildarríkja eða útflöggunar útgerða.
  • Markmið um stjórnun veiðigetu hefur gert heildarmyndina enn óskýrari.
  • Verulegt misvægi er á milli úthlutaðs kvóta, raunverulegrar þarfar og nýtingar flotans.
  • Reglan tryggir ekki lengur að veiðiréttur haldist hjá viðkomandi veiðisamfélagi.
  • Hún dregur úr möguleikum sjávarútvegsins til að nýta eigin getu og taka upp nýjar aðferðir og tækni við veiðar.
  • Reglan veldur óeðlilegum þrýstingi á aukningu heildarkvóta.
  • Hún veldur brottkasti langt umfram það sem ásættanlegt getur talist.
  • Reglan er alvarlega gölluð og nær ekki fram markmiðum sínum.

Allt þetta telur Jón Steindór upp í grein sinni. Síðan greinir hann frá samantekt sem framkvæmdastjórn ESB gaf út í apríl í vor, í kjölfar viðbragða við Grænbókinni. Niðurstaðan er - ótrúlegt en satt - að mikill meirihluti styður að halda reglunni um hlutfallslegan stöðugleika og telur hana hornstein sjávarútvegsstefnu ESB. Bingó! Hið meingallaða klúður lifir áfram.

Þessu fagnar Jón Steindór í niðurlagsorðum, undir fyrirsögninni Reglan blívur. Eftir að hafa skrifað meira en 80 dálksentímetra lýsingu á hversu gallað og misheppnað kerfið er, endar hann greinina á stuttri málsgrein þar sem hann telur sér trú um að í þetta sinn muni samt eitthvað lagast og klikkir út með setningunni "Það er þróun sem ætti að vera Íslendingum að skapi."

Það eina sem ég get séð að skýri niðurstöðu greinarinnar og hina ótrúlegu kúvendingu í síðustu tveimur setningunum er að höfundurinn er í samtökunum Sterkara Ísland, sem aðhyllist aðild Íslands að ESB. Þetta hlýtur að flokkast undir ofurtrú á málstaðinn eða einhvers konar blindu. En greinin er fín, allt fram að síðustu málsgrein.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessi öfugsnúna orðræða er ekki ný af nálinni. Þegar aðildarumsókn að ESB var afgreidd á þingi, þá gerði Svandís Svavarsdóttir grein fyrir atkvæði sínum á þann hátt að þylja upp langan lista lasta ESB og klykkti svo út með að segja "ég segi JÁ". 

Allir sem á hlýddu stóðu eftir gapandi af undrun. Hún hefur síðan verið harður fylgismaður þess að greiða götu okka inn í sambandið m.þ.a. greiða Icesave. 

Ragnhildur Kolka, 5.8.2010 kl. 21:48

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er mjög athyglisverð grein hjá þér, Haraldur.

En tekurðu ekki eftir því, hvenær viðbrögð meðlimaríkjanna við Grænbókinni áttu sér stað eða voru birt? Það var ekki fyrr en í apríl á þessu ári, 2010, sem framkvæmdastjórn ESB gaf út samantekt á athugasemdum 350 aðila sem sýndu viðbrögð við bókinni, en þeirra á meðal voru flest meðlimaríkin.

Ykkur Jóni Steindóri sést báðum yfir þýðingu þessarar staðreyndar. – En hvaða máli skiptir tímasetningin? getur einhver spurt. – Jú, nánast öllu máli. Þetta kom á mjög hentugum tíma fyrir Brusselmenn – og tíma að þeirra vali! Þá voru liðnir 9 mánuðir síðan Össur og hans stjórnarskrárbrjótandi samherjar á Alþingi sóttu um inngöngu Íslands í ofurríkið á meginlandinu og umræðan loksins að fara að hefjast hér fyrir alvöru um þessi mál. Brusselmenn VISSU, að það yrði áformum þeirra um innlimun og undirokun Íslands til skaða, ef Íslendingar (þ.m.t. þingmenn) teldu, að "reglan" um "hlutfallslegan stöðugleika" væri á útleið eða alls ekki traust í sessi (hún er reyndar bara reglugerðarákvæði, ekki lagaregla). Þess vegna skipti öllu máli að fá ríkin til að segja nei (í bili!) við þeim hugmyndum að hverfa frá þessari "reglu", því að ella myndu þær geta komið í veg fyrir innlimun þessa stærsta mögulega fiskistofna-bita sem bandalagsríkin ættu nokkurn tímann kost á.

Líttu bara á stærð Íslands á þessu sviði:

Spænskur ráðherra Evrópumála kallaði í Rúv-viðtali (við Kristin R. Ólason í Madríd) Spán “heimsveldi í fiskveiðum”, – samt veiða Spánverjar miklu minna en við gerum! Spánverjar veiddu t.d. 808.682 tonn í heild árið 2007, en Íslendingar 1.398.000 tonn. Ef ”Spánn er heimsveldi í fiskveiðum,” þegar hann stendur okkur langt að baki í þeim, hvað á þá að kalla Ísland?! Við vorum 15. mesta fiskveiðiþjóð heims árið 2007 og sú 13. mesta árið 2004 (eins og líka árið 1967). Að sjálfsögðu er slíkt land feitur biti í kjamsandi kjaft nýs stórveldis í álfunni: ESB.

Og býrókratarnir ráðandi í Brussel ætla svo sannarlega ekki að spilla fyrir þessari innlimun lands okkar með því að flagga þeirri staðreynd, að "reglan" um "hlutfallslegan stöðugleika" er í reynd ÓSTÖÐUG og verður sennilega afnumin (með einu pennastriki ráðherraráðsins, þar sem Ísland hefði 0,06% atkvæðavægi!) allnokkrum árum eftir innlimun þessarar smáþjóðar.

ESB-sinnar ættu alltaf að gera ráð fyrir því, að þeir, sem ásælast ríki okkar, séu klókari og kænni en þeir sjálfir.

Viðbótarþanki:

Sjávarútvegsstjóri ESB, Maria Damanaki, talaði í júlí sl. um “einn verðmætasta fiskstofn í Norðaustur-Atlantshafi,” og var það þorskurinn? Nei, bara makríllinn! – Svo halda sumir, að þetta bandalag sækist ekki eftir margfalt verðmeiri fiskistofnum okkar!!! (Nánar um ýmislegt af þessu hér: Süddeutsche Zeitung: "Innganga Íslands styrkir ESB í norðri".)

Þetta er enn staðfest í skrifum nú á ESB-vefsíðu um sjávarútvegsmál, í tengslum við hótanir þeira vegna makrílveiða okkar. (Ég þarf að finna þann texta til að vitna í hann hér!)

Sjá einnig hér, innlegg mitt í dag, 5.8. kl. 17:35, á þessari vefslóð: http://eyjan.is/2010/08/05/telur-adildarvidraedur-vid-esb-hreina-syndarmennsku-stjornvalda/

Með góðri kveðju, – og, PS, þökk til Ragnhildar líka!

Jón Valur Jensson, 5.8.2010 kl. 23:51

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þetta er sorglegt. ESB mun aldrei leyfa okkur að veiða Makríl, nema að nafninu til ef við göngum inn í sambandið.

EN þetta er líka sorglegt af því að með breyttum áherslum í eigin nýtingu getum við sótt amk. 115 milljarða aukinn afla í hafið í kringum Ísland á hverju ári....og hver telur sig þurfa á ESB að halda ?

http://xf.is/index.php?option=com_content&view=article&id=89:sigurjon-torearson&catid=5:greinar&Itemid=4

Haraldur Baldursson, 14.8.2010 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband