Íslenska krónan árið 1922

Reglulega er lækkun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku notuð sem rök fyrir því að nú þurfi að leggja hana af og taka upp "sterka mynt" í staðinn, evruna. En í þá umfjöllun vantar ávallt það sem mestu máli skiptir. Þess í stað er hamrað á því að frá því að leiðir gjaldmiðlanna skildi árið 1922 hafi verðgildi dönsku krónunnar tvöþúsundfaldast gagnvart þeirri íslensku.


ÁRIÐ 1922
voru Íslendingar ein fámennasta og fátækasta þjóð Evrópu. Fáeinum áratugum síðar var þjóðin orðin ein sú ríkasta. Risastökk frá örbyrgð til allsnægta, sem hefði verið útilokað með ónýta mynt.

Reykjavik1920ÁRIÐ 1922 var höfuðstaður Íslands fátæklegur kaupstaður í Kvosinni en Kaupmannahöfn var borg með 6-sinnum fleiri íbúa en Ísland.

ÁRIÐ 1922 lágu þjóðvegir um alla Danmörku, dönsku járnbrautirnar höfðu þá gengið í 78 ár og Kastrup flugvöllur var í smíðum; einn fyrsti alþjóðaflugvöllurinn fyrir farþegaflug í heiminum.

ÁRIÐ 1922 stóð vegakerfið á Íslandi saman af nokkur malarvegum og troðningum. Hér var ekkert flugfélag og enginn Íslendingur með réttindi til atvinnuflugs.

ÁRIÐ 1922 var háskólinn í Köben meira en fjögurra alda gamall en á Íslandi var háskóli enn aðeins draumur. Húsakostur danskra var prýðilegur, en á Íslandi var hann mun lakari og sumir bjuggu enn í torfbæjum. Og þannig mætti áfram telja.

EN ... ÁRIР2010 búa Íslendingar við áþekk kjör og Danir í nútímalegu samfélagi með öllum þægindum 21. aldarinnar. Framfarirnar á Íslandi eru meiriháttar. Kreppan setur tímabundið strik í reikninginn, en afrekið er staðreynd. 

Á 88 árum hefur danska krónan tvöþúsundfaldast í verði gagnvart krónunni okkar, en framfarir og uppbygging eru a.m.k. hundrað sinnum meiri hér en í Danmörku á sama tíma.

Krónan var látin fylgja pundinu í fjórtán ár með slæmum árangri. Ef íslenska krónan hefði fylgt þeirri dönsku alla tíð hefði ekki orðið neitt risastökk en við ættum tvöþúsund sinnum sterkari krónu.

Vill einhver skipta?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Ekki ég en ég vil skipta út þessum vitleisingum sem drulla yfir krónuna með allskyns dellu og rökleysu.

Vilhjálmur Árnason, 11.9.2010 kl. 20:02

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Takk fyrir samantektina, hún minnir okkur á sögu sem vill oft gleymast.

Páll Vilhjálmsson, 11.9.2010 kl. 20:06

3 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ekki er ég sagnfróður en það þarf ekki sagnfræðing til að sjá í gegnum svona bullyfirreið.

Framfarir Íslands á síðustu öld byggjast á framförum sem orðið hafa í evrópu og ameríku aðallega og hefði aldrei getað orðið ef íslendingar hefðu átt að kynda eimreið nútímaframfara.

Þó að snýkjudýrið fitni margfalt í þörmum hýsilsins þýðir það ekki að snýkjudýrið gæti lifað svona af eigin rammleik. Nútíma íslandssagan er saga snýkjudýrsins.

Hún er full af aumkunarverðum lægðum í siðferði og hagvísi. Við getum byrjað á stríðsgróðanum (ekki gjaldþroti Íslandsbanka árið 1929) sem byggði upp hugsjónalausu hagsmunastjórnmál þar sem stjórnarflokkarnir héldu sínum mönnum á jötunni innan ríkisfyrirtækja, banka og stjórnsýslu að ógleymdu réttarkerfinu.

Marshallaðstoðin sem var óviðeigandi snýkjur og í raun mútur til að smyrja inngönguna í Nató. Við höfum útrýmt síldinn, stórskaðað þorskstofninn og getum ekki selt lambakjöt (aular). Við þurfum síðan ekki að rekja aulaháttinn í öllum sérlausnum efnahagsmála einsog verðtryggingu, kvótakerfi sem nota bene var aldrei markaðsvætt, geðveikislegum virkjunar og álversframkvæmdum síðusta áratugar sem komnar er í gjaldþrot bæði efnahagslega og hugmyndafræðilega, stærsta bankagjaldþrot einnar þjóðar í sögunni (erlendir fjarfestar tapa 7 þúsund milljörðum), AGS inná gafli að reyna að tína saman þræðina fyrir óstarfhæfan þingheim sem hefur "by proxy" ríkisstjórn sem getur ekkert gert nema "þokað málum áfram" mánuð eftir mánuð af því að það er ekki til mannvit á alþingi eða í apparatinu yfirleitt til að taka á neinum málum.

- Að bera GJALDÞROTA þjóð nútímans við dani líðandi stundar og halda því fram að þetta séu bara smá óþægindi sem maður hristir af þér einsog slæma þynnku með því að væla fyrst á götuhornum heimsborganna og síðan bera sig mannalega eftir afréttaranum.

Danir eru ekki gjaldþrota. Danir bjuggu alltofmargir við lélega húsakost langt framyfir stríð. Uppbygging þeirra hefur kostað þá mikla vinnu og fórnir og áföll en þó ekki jafn geðveikislegt rugl samanborið við vegferð íslenskara hrunpólitíkusa.

Það góða við ísland er það sama og hefur verið um aldir. Það eru endurnyjanlegar auðlindir sem geta fært okkur tekjur, það er mannauður sem getur menntað sig erlendis og forframað annars frekar einþykkan lýð og tortrygginn með uppbyggingu í menntun og heilbrigði og sæmilegum húsakosti. Velferðarkerfið var komið á legg 2007 en núna er það á fallanda fæti og þaðer ekki af elli kellingu sem það sígur á annað knéð.

Grunnurinn af þessu var náttúrulega allur lagður af Dönum síðustu 200 árin sem þeir réðu einhverju hér og lengur þar sem við vorum algerlega háðir þeim fram að seinni heimsstyrjöld með allt sem máli skifti og tókum upp stjórnkerfi þeirra og lög nánast óbreytt til að byrja með bæði með fullveldinu og síðan í stjórnarskrá lýðveldisins.

- Þetta smáborgaralega gort ykkar sem húkið í kút í einangrun útí horni með lygasöguna um æðislega íslenska hrunið ættuð að losa ykkur úr spennitreyjunni sjálfir því ekki ætla ég að slepppa ykkur út af þessu prívat geðveikrahæli ykkar.

Gísli Ingvarsson, 11.9.2010 kl. 23:07

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kærar þakkir Haraldur. Þakka kærlega fyrir þessa þörfu áminningu.  

Síðasta ríkisgjaldþrot Danmerkur var árið 1813.

Allt það sem Danir hafa bundið mynt sína við hefur hrunið:

  • Silfurmyntfóturinn frá 1838 hundi 
  • Gullmyntfóturinn frá 1873 hrundi
  • Myntbandalag Skandinavíukrónu bundið gullfæti hrundi 1914  (sjá; Gengið á gullfótum yfir silfur Egils)  
  • Alþjóðlegi gullfóturinn hrundi í kreppunni 1930
  • Fastgengi við Pundið hrundi 
  • Bretton Woods hrundi í byrjun 1970
  • EMS hrundi 1992

Það eina sem á eftir að hrynja núna er EMU (myntbandalag Evrópusambandsins). Við hvaða staur á þá að binda dönsku krónuna?

Þetta læsta gengisfyrirkomulag hefur ekki fært Danmörku kosti eða neitt ríkidæmi því Danmörk er að hrapa neðar og neðar á lista ríkustu landa OECD. Veran í EMU hefur ekki fært Danmörku neitt annað er massíft atvinnuleysi áratugum saman og 4. lélegasta samanlagða hagvöxt í OECD síðustu 10 árin. Búist er við að Danmörk muni fá þriðja lélegasta hagvöxt í OECD löndum hin næstu 10 ár og hrapa enn neðar í ríkidæmi.

Reiknivélar hafa verið fundnar upp - og svo er það internetið. Það tók til dæmis ekki langa útreikningar fyrir erlenda ferðamenn að uppgötva hagstætt gegni íslensku krónunnar þegar hún gaf réttilega eftir þegar bankakerfið hrundi. Mikið held ég að Grikki langi í svona krónu - og Íra

Gunnar Rögnvaldsson, 12.9.2010 kl. 00:25

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur öllum innlitið og athugasemdirnar.

Mér þykir Gísli gera lítið úr vinnu forfeðra okkar og -mæðra, allt frá aldamótabörnunum sem lögðu í púkk til að stofna Eimskip til athafnamanna dagsins í dag. Fólksins sem lagði vegi, byggði brýr og hafnir, stofnaði háskóla, skóp innviði samfélagsins, byggði upp heilsugæslukerfi o.s.frv. Fólksins sem byggði frystihús og smíðaði togara til að skapa verðmæti úr sjávarfanginu.

Stríðið og Marshall aðstoðin voru mikil lyftistöng, en strax árið 1953 kom til harðra orðaskipta á Alþingi yfir því að búið væri að "sólunda stríðsgróðanum", svo ekki verða afrek næstu 50 ára þar á eftir skýrð með honum.

Í færslunni er dregin upp lítil mynd af Íslandi sem var og og borin saman við það Ísland sem við þekkjum. Það þarf ekki að vera "sagnfróður" til að skilja muninn. Staðreyndirnar tala sínu máli. Samanburðurinn við Danmörku er að gefnu tilefni en ekki aðalatriði.

Fimm ár eru aðeins augnablik í lífi þjóðar. Það má ekki láta fimm ára rugl sem endaði í bankahruni 2008 skyggja á myndina. Við höfum gert alls konar mistök í gegnum tíðina og spilling hefur stungið sér niður eins og alls staðar þar sem teflt er um peninga og völd. En hundrað ára heildarmyndin er glæsileg og framhjá því má ekki líta.

Árið 1925 kostaði enskt pund 22 krónur og 15 aura. Fjórtán árum síðar, árið 1939 kostaði enskt pund ennþá 22 krónur og 15 aura. Gengi krónunnar var geirneglt við pundið allan tímann, sem er ígildi þess að nota erlenda mynt. Reynslan af því var slæm, staðreyndirnar tala sínu máli hér líka.

Það getur verið dýrt að vera með eigin gjaldmiðil, en hvað kostar að henda honum? Getur verið að það sé órjúfanlegur hluti af sjálfstæði þjóðar og fullveldi að hafa óskoruð yfirráð yfir gjaldmiðli sínum? Það er of seint að átta sig á því eftir að honum hefur verið hent.

Haraldur Hansson, 12.9.2010 kl. 02:29

6 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Sæll Haraldur.  Þessi pistill þinn er alveg snilld.  Þú byrjar á að lýsa því hvernig Ísland var þegar það var frumstætt samfélag árið 1922.  Þá var ísland frumvinnslusamfélag. Lifði á því að selja óunna vöru, en var að sjálfsögðu samfélag sjálfsþurftabúskapar.

Núna er krónan 1 tvöþúsundasti af verðmæti sínu þá.  Laun hafa tvöþúsundfaldast og allt verðlag hefur tvöþúsundfaldast. Það eina sem hefur breyst er að krónan, innistæður í íslenskum krónum hafa rýrnað.  Þetta heitir óðaverðbólga og allir vita að í óðaverðbólgusamfélagi borgar sig ekki að gera það sem borgar sig. Sóun er hagkvæm og óarðbærar fjárfestingar verða arðbærar fyrir þann sem annars myndi tapa peningum í bankanum. Þeir skaðast sem eru ábyrgir og spasamir. Þeirra peningum er hent. Viltu í raun ekki skipta?

Af hverju hafa lífskjör okkar batnað svona mikið síðan 1922? Það er ekki krónunni að þakka heldur þrátt fyrir veikan gjaldmiðil og lélaga stjórn peningamála í landinu.

Það þarf ekki að segja af hverju við búum við svona góð kjör í dag, en ég verð samt að telja upp það helsta; stríðið Marshallaðstoðin nýsköpunartogarar, útfærsla landhelginnar betri skip, Virkjanir fallvatna, stóriðja, uppbygging ferðaþjónustu.  

Við íslendingar höfum verið opnir fyrir nýjungum á mörgum sviðum, höfum verið svo heppnir að geta sent marga í nám til annarra Norðurlanda og Evrópulanda.

Við virðum störf forfeðra okka og mæðra, sem bjuggu við svo miklu krappari kjör en við. Ég held samt að ef við ætlum áfram að sækja fram verðum við að gera samfélag okkar í ríkara mæli byggt á fullvinnslu og fjölbreyttari útflutningsmöguleikum.

Þar erum við svo enn og aftir komin að kjarna málsins, sem er er krónan gott tæki í alþjóðlegu umhverfi og myndi aðild að ESB kannski vera góður kostur?

Jón Halldór Guðmundsson, 12.9.2010 kl. 11:51

7 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka þér athugasemdina Jón Halldór, en mér sýnist þú skrifa svolítið "á ská" við innihald færslunnar. Jafnvel eins og hún sé vörn fyrir verðtryggingu og óðaverðbólgu, en því fer víðs fjarri.

Reynsla okkar af því að festa gengið við erlenda mynt er slæm. Spurningin er því hvort hægt hefði verið að ná þessum mikla árangri án eigin myntar. Ég tel svo ekki vera.

Þegar verðbólgan var sem mest voru gengisfellingar tíðar, til að rétta hlut útflutningsgreina. Við skulum gefa okkur að það hafi verið gert af illri nauðsyn og menn hafi ekki kunnað betri ráð. En það var ekki ákvörðun krónunnar að nota þetta "verkfæri", hvað þá að nota það óhóflega. Ekki frekar en verðtryggingin sem átti að vera tímabundin nauðvörn vegna taps sparifjáreigenda. Hún hélt í fjögur ár gagnvart launum og í kjölfarið kom misgengið mikla. Aftur eru það pólitískar ákvarðanir og umdeild hagstjórn. Að skella skuldinni er gjaldmiðilinn er rangt.

Spurning þín í lokin er fullgild og má bæta við þær sem ég setti fram í athugasemdinni á undan.

Haraldur Hansson, 12.9.2010 kl. 17:15

8 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Sæll aftur.

Þegar þessi gjaldmiðill okkar er notaður á svo flottan hátt sem hagstjórnartæki með gríðarlegur gengisfellingum. Óðaverðbólga sem af því hlaust leiddi til sóunar að sumra mati.

Það eru kostir við slíkt, en einnig ókostir.

Verðbætur á lán landsmanna eru hvorki meira né minna nú í dag búnar að gera stóranhluta þjóðarinnar öreiga. Ég lít á þær sem afleiðingar peningastefnu og veiks gjaldmiðils. Þetta kann að vera rangt hjá mér.

Annars er oft gaman að lesa skrif þín og þakka ég þér þau.

Jón Halldór Guðmundsson, 12.9.2010 kl. 23:15

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Eigum við ekki að segja að ekki megi gera gjaldmiðilinn ábyrgan fyrir mannanna verkum? Vísa annars bara í næstu færslu.

Haraldur Hansson, 13.9.2010 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband