Færsluflokkur: Evrópumál

Össur í alvöru útrás

Til viðbótar við orkuútrás ætti Össur að boða stórfelldan útflutning á pólitískum patentlausnum. Enda glaðvaknaður og búinn að yrkja vísu. Margar þjóðir þurfa sárlega á lausnum að halda og aðstoð Össurar mynda bæta ímynd okkar.

Hann ætti að byrja á Írlandi.

Það er virkilega dapurt að fylgjast með fréttum frá Írlandi þessa dagana. Ástandið þar er orðið verra en hér, þrátt fyrir að þar hafi ekki orðið neitt bankahrun (á yfirborðinu). Og ástandið heldur bara áfram að versna.

Einhver góðhjartaður íslenskur krati ætti að benda frændum okkar á hina einu sönnu lausn; að sækja um aðild að ESB og taka upp evruna. Bara við að sækja um aðild hefst batinn.

Það er sama hvort maður les Irish Independent, Irish Times, Wall Street Journal, Daily Telegrahp, The Independent eða eitthvað annað, allar fréttir frá Írlandi eru um versnandi ástand og engin batamerki.

Þetta hefði aldrei farið svona illa á Írlandi ef þeir væru í ESB og með evruna. Össur segir það.

----------  ----------  ----------

Eina tæknilega vandamálið er að Írland gekk í Efnahagsbandalagið 1973 og er búið að vera með evruna frá því hún var tekin upp 1999/2002. En vel vakandi Össur finnur örugglega lausn á því.

 


mbl.is Össur boðar orkuútrás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

64% vilja "kíkja í pakkann"

Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins vilja vilja 64% landsmanna ljúka aðildarviðræðum við ESB og kjósa um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fréttin er á forsíðu undir fyrirsögninni "Viðhorfið gjörbreytt"

Prófessor í stjórnmálafræði er spurður út í niðurstöðurnar

Kannski sýnir þetta hvað viðhorf fólks í allri þessari Evrópuumræðu virðast vera flöktandi. Kannski er þetta vísbending um það frekar en að einhver kúvending hafi orðið eða að fólk hefur áttað sig á því að það er ekki valkostur að bakka út úr viðræðunum þegar þessi ferð er hafin og engin áhætta fólgin í því að halda viðræðum áfram.

Hittir hann ekki einmitt naglann á höfuðið? Fólk telur að málið sé komið svo langt á veg að ekki sé hægt að bakka út úr því. Raunverulega er viðhorf meirihlutans: Við verðum að láta okkur hafa það.


Einnig er athyglisverð grein á bls. 12 í sama blaði undir fyrirsögninni "Þjóðarframleiðsla ykist um 6 til 7% innan ESB". Fyrirsögnin er greinilega valin með tilliti til áróðursgildis, enda lesa margfalt fleiri fyrirsagnir en greinarnar sjálfar.

Sterkasti punkturinn í greininni er nefnilega að það þurfi að verja fiskimiðin við Ísland með öllum tiltækum ráðum. Meðal annars segir þetta:

En það má alls ekki leyfa rányrkju ESB á íslenskum miðum

Þessar tölur eru háðar því skilyrði að fiskveiðimálunum sé ekki klúðrað.

... vandamálið er að hjá ESB hafa þeir veitt meira en stofnarnir þola og þeir eru að eyðileggja auðlindina.

Spá um aukna þjóðarframleiðslu er ekki annað en spá. Því var líka spáð (og fullyrt) að viðskipti milli landa myndu þrefaldast með tilkomu evrunnar. Nú eru mörg ríki búin að nota evruna í áratug og spáin gekk ekki eftir. Evrudraumurinn er loftkastalinn sem hrundi.

Á miðri síðunni er dreginn út einn áherslupunktur, sem er þessi: Það er alveg ljóst að það er hægt að ganga úr bandalaginu aftur. Í þessu leynast skilaboð um að það sé allt í lagi að prófa að vera smá í Evrópusambandinu.

Það er alltaf kostulegt þegar bent er á skilnaðar-klausu Lissabon sáttmálans sem einn af kostunum við ESB. Margir þeirra sem rýnt hafa í hana segja að það sé efnahagslegur ómöguleiki að komast út, eftir að ríki er gengið í bandalagið og búð að taka upp evruna.

En þessi klausa og fyrirsögnin (bls. 12) eru skólabókardæmi um hvers vegna menn vilja ráða yfir fjölmiðlum. Það er hægt að hafa mikil áhrif á umræðuna og skoðanamyndun. Ekki síst þegar blað er borið frítt inn á hvert heimili.

 


Slæmar fréttir og verri fréttir

Þegar ég kíkti á RSS fréttastraum fyrir fréttir af stjórnmálum í Evrópu, gáfu fyrirsagnirnar sem við blöstu ekki bjarta mynd af ástandi og stjórnarháttum í Brussel. Þetta eru ýmist slæmar fréttir eða verri, en engar sem þegnarnir geta glaðst yfir. Í besta falli að eitthvað hlutlaust slæðist með, stöku sinnum.
 

Frétt #1 er um vanda Írlands. Sumir telja að þar sé næsta Grikkland í uppsiglingu, enda staða þeirra orðin verri en staða Íslands!

Frétt #2 er líka um Írland, að landið þurfi að fá hjálp strax til að forðast erfitt efnahagslegt dauðastríð (long, ardouos, slow deth).

Frétt #3 er um að 17 fyrrum kommissarar séu enn á launum hjá Evrópuríkinu, þrátt fyrir að vera komnir í önnur vel launuð störf. Þar er það Joe Borg sem toppar spillingarlistann, sá sami og flutti erindi í Reykjavík um helgina.

Frétt #4 segir að Belgar vilji nota tækifærið, meðan þeir gegna forystu, til að stofna nýtt embætti evrópsks saksóknara, sem er í andstöðu við nokkur ríki. Menn geta haft ólíkar skoðanir á hvort það er slæm frétt, eins og allar hinar.

Frétt #5 er um að kostnaður við sendiráð Evrópuríkisins sé komin 5.200 milljónum króna fram úr áætlun. Það er frú Ashton, barónessan sem enginn kaus, sem opnar sendiráð um allan heim, enda lítur hún á ESB sem eitt sjálfstætt ríki.

Frétt #6 er svo um að stækka þurfi björgunarpakka Grikklands og teygja til ársins 2013, en þar flækist töframyntin evra fyrir öllum lausnum.

Frétt #7 segir að Bretar séu ósáttir við að lengja fæðingarorlofið, sem þeir hafa ekki efni á, en skipanir séu væntanlegar frá Brussel - sem ræður.

Frétt #8 er síðan um að Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Portúgalar telja evruna ekki góðan kost: "a bad thing for their economy"

Og þetta eru aðeins átta fyrstu tenglarnir á mánudagskvöldi. Þetta er bara dæmigerður dagur fyrir Evrópusambandið, draumaríki íslenskra krata. Þetta er hin raunsanna lýsing á samvinnu sem breytist í ríki sem er að kikna undan eigin skrifræði.

 


Samninginn á vestfirsku (fyrir Össur)

"Fyrr í þessum mánuði hófst vinna hjá þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytis við að þýða Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins yfir á íslensku" segir í Fréttablaðinu í dag, en verkinu á að ljúka eftir áramótin.

Nú hefur Össur upplýst að hann getur talað með vestfirskum hætti. Hann telur sig fullnuma í málinu þótt stutt stopp hans vestra, við líffræðikennslu fyrir þrjátíu árum, rati ekki í afrekaskrána góðu.  

Nú legg ég til að þýðingarmiðstöðin stígi skrefinu lengra. Þýði sáttmálann á vestfirsku og svo verði hann lesinn upphátt fyrir ráðherrann. Það gæti hugsanlega dugað til að stoppa hann á sinni vondu vegferð til Brussel, ef hann sofnar ekki undir lestrinum.

Ég skal skrifa umsögn á minni hreinræktuðu vestfirsku, en ábyrgist ekki að hún verði prenthæf.

 


Á meðan Össur sefur ...

makrillÁ meðan Össur sefur svefni hinna ráðvilltu í New York, útskýra íslenskir embættismenn fyrir 15 manna sendinefnd frá Brussel að Ísland sé strandríki. Kannski fundu þeir ekki Ísland á kortinu, en þeir eru að reyna semja um makrílveiðar.

RÚV birt frétt af fundinum. Í hana vantar reyndar að ef við værum innan ESB þá værum við ekki að veiða neinn makríl, nema kannski fáein tonn, samkvæmt hugsanlegu góðfúslegu leyfi frá Brussel.


Á meðan Össur sefur í New York reyna íslenskir bændur að átta sig á mótsögnum um ESB ferlið.

Össur hafði sagt að þetta væru bara "samningaviðræður" og að ekkert breyttist fyrr en kannski seinna. Það væri engin aðlögun í gangi.

Michael Leigh, fulltrúi stækkunarstjóra ESB, segir þvert á móti að gangurinn í viðræðunum stjórnist alfarið af því hversu hratt aðlögunin gengur. Eðlilega vilja bændur fá að vita hvað er rétt.


össur bullarÁ meðan Össur sefur segir hann enga vitleysu, eins og á blaðamannafundinum í Brussel í júlí, þegar embættismenn þurftu tvisvar að leiðrétta draumkenndar lýsingarnar á dásemdum Evrópuríkisins.

Hann er undantekningin sem sannar regluna í yfirskrift þessarar bloggsíðu: Enginn er verri þótt hann vakni - nema Össur. 

Vonum að íslenskir bændur fái svör sín áður en Össur rumskar. Einnig að íslenskum embættismönnum takist að útskýra fyrir brusselsku makrílnefndinni að Ísland sé eyja og að fiskurinn sem börnin mokuðu upp við bryggjur landsins í sumar sé makríll. Það eru milljón tonn af honum í íslenskri fiskveiðilögsögu.

 


mbl.is Allt um garð gengið þegar þjóðin kýs?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB virkar ekki

internal_marketInnri markaður Evrópusambandins skilar ekki árangri.

Ef einhver ESB andstæðingur hefði sagt þetta væri hann umsvifalaust sagður fara með áróður. En hér er það Michel Barnier sem talar, sjálfur innrimarkaðs kommissar ESB. Þetta kom fram á fundi hans með fréttamönnum á mánudaginn.

Hann segir að þegnar Evrópuríkisins finni ekki lengur að innri markaðurinn - helsta stolt Evrópusamrunans - sé þeim til hagsbóta. Ísland er þátttakandi í þessu starfi og væri fróðlegt ef gerð væri vönduð úttekt á áhrifum þess hér á landi, allt frá kjúklingabringum til bankahruns.

He indicated citizens no longer realise that the internal market, long considered among the EU's most cherished achievements, "improves their lives."

Flestar hugmyndir sem Barnier nefnir til bóta varða banka- og fjármálastarfsemi. Frásögn af fundinum má sjá hér.

Barnier hefur áður setið í ríkisstjórn Evrópuríkisins. Það var 1999-2004, áður en austurblokkin gekk í ESB og meðan ríkin voru aðeins 15. Hann segir að stærsti munurinn sé að nú sé allt þyngra í vöfum og taki lengri tíma.

Það er ekki nýtt að Brusselbáknið sé óskilvirkt. Nú er t.d. unnið að breytingum á landbúnaðarstefnunni fyrir tímabilið 2014-20 (sem hljómar eins og sovésk fimm ára áætlun). Mönnum verður lítt ágengt, eins og venjulega. Kvörtun kommissarsins kemur því tæplega á óvart.

 


"Lucky old Iceland"

Sannleikurinn á einni mínútu?

Þetta stutta ávarp er vel þess virði að rifja það upp. Það er frá fundi Evrópuþingsins í Strasbourg 7. júlí sl., þar sem umsókn Samfylkingarinnar um aðild Íslands að ESB var rædd.

Það er breski Evrópuþingmaðurinn Nigel Farage sem talar. Hann er fulltrúi hreyfingarinnar Europe of Freedom and Democracy og hefur setið á Evrópuþinginu síðan 1999.

 


Harry Potter bjargar ekki Íslandi

harry_potterÞað er hægt að spara heimilum stórfé með því að taka upp evru, sagði utanríkisráðherra í DV-grein nýlega og vísaði í útreikninga kaupfélagsstjóra úr Borgarfirði. Hann boðaði töfralausn þar sem vextir lækka, útgjöld minnka, allir græða og - hókus pókus ... það kostar ekkert; enginn tapar.

En efnahagsbati og stöðugleiki er ekki eitthvað sem kemur í gjafaumbúðum frá Brussel. Það er sök sér þótt kaupfélagsstjóri trúi á Harry Potter lausnir en ekki boðlegt að ráðherra prediki þær á prenti. Þær virka nefnilega ekki í alvörunni.

Í sunnudagspistli á Telegraph.co.uk fjallar Evans-Pritchard um fjárhagsvanda Portúgals og Írlands, einnig AGS, evruna og myntbandalagið. Meðal annars er vitnað í Simon Johnson, fyrrum yfirhagfræðing AGS, sem utanríkisráðherra ætti frekar að veita athygli en kaupfélagsstjóranum með reiknistokkinn, sem þó er eflaust drengur góður.


portugalPortúgal

Á Íslandi tók það fégráðuga glæpamenn nokkur ár að setja hagkerfið á hliðina með því að ræna bankana innanfrá. Í Portúgal þurfti enga bankaræningja, það tók aðeins áratug að setja landið á hausinn í evrulandi. Fyrri hluti greinarinnar í Telegraph er um hrikalegan vanda Portúgals.

Fyrir hálfum örðum áratug voru erlendar skuldir landsins engar, þ.e. nettóstaðan var í plús. Svo kom evran. Glaðir Portúgalar "kíktu í pakkann" og vextir lækkuðu mikið. En nú vita þeir að vaxtalækkun fæst ekki frítt, skuldir ríkisins eru orðnar 109% af landsframleiðslu.

The brutal truth is that Portugal lost competitiveness on a grand scale on joining EMU and has never been able to get it back.

Þetta eru einmitt vondu fréttirnar fyrir Portúgal. Án eigin gjaldmiðils er torfundin leið út úr vandanum, hvað sem Össur og kaupfélagsstjórinn segja. Harry Potter lausnir virka nefnilega ekki í alvörunni.


irelandÍrland

Þeir sem aðhyllast upptöku evrunnar á Íslandi hafa margoft bent á Írland sem "sönnun" þess að hér hefði allt farið betur ef við værum í ESB og með evruna. Össur utanríkisráðherra er einn af þeim.

Nú heyrast þessar raddir ekki lengur (nema frá stöku krata), enda sannleikurinn hægt og bítandi að koma í ljós. Vandi Íra er enn að aukast og hann vex hratt. Skuldir blása út en greiðslugetan minnkar. Rétt eins og í Portúgal þá er evran sem myllusteinn um háls Íra.


En hvað um Ísland?

Fyrir meira en tveimur árum lýsti forseti Tékklands evrunni sem "hagfræðitilraun sem mistókst". Í lok greinar sinnar segir Evans-Pritchard að með evrunni hafi evrópska myntbandalagið  hugsanlega "skapað ófreskju". Á Íslandi er þessi sama evra boðuð sem allra meina bót.

Það er ábyrgðarhluti þegar ráðherra boðar töfralausnir sem eru ekki til. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir bætta hagstjórn, vandaða stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð. Harry Potter bjargar ekki Íslandi. Ef Össur trúir á Potter, evruna og jafnvel jólasveininn líka, ætti hann að nýta hæfileika sína á öðrum sviðum en í pólitík. Við höfum ekki efni á annarri hagfræðitilraun sem er dæmd til að mistakast.

 


ESB tapaði (óvænt) hjá SÞ

rompuy og ashton"Við munum sigra í þessum kosningum á næsta ári" sagði fulltrúi utanríkisráðherra Evrópuríkisins, þegar ESB var hafnað hjá Sameinuðu þjóðunum á þriðjudaginn.

Höfnunin kom Brusselvaldinu mjög á óvart, enda líta ráðamenn þar svo á að ESB sé ekki bara "samráðsvettvangur sjálfstæðra ríkja" heldur fullgilt sjálfstætt ríki. Á þeim grundvelli var sótt um. 

Lítið sem ekkert er fjallað um þessa eðlisbreytingu í íslenskum fjölmiðlum, þrátt fyrir að Ísland eigi í "aðildarviðræðum" við ESB.

Lissabon samningurinn á að "gera Evrópusamrunann straumlínulagaðan", meðal annars var stofnað til tveggja nýrra embætta; forseta og utanríkisráðherra. Í rökréttu framhaldi af því var sótt um sæti hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem ESB hefði sömu stöðu og Kína, Rússland, Bandaríkin og önnur sjálfstæð ríki. 

Fyrsti utanríkisráðherra Evrópuríkisins er breska barónessan Catherine Ashton, sem enginn kaus. Hún var handvalin af ríkisstjórn Barrosos, forsætisráðherra ESB. Háttvirtir kjósendur, 500 milljón þegnar Evrópuríkisins, kusu Barroso ekki heldur.  

barroso belginn og baronessan
Ætlun þeirra er að forseti leiðtogaráðs ESB fái að ávarpa þingið eins og aðrir þjóðarleiðtogar. Forsetinn heitir Van Rompuy, óþekktur Belgi sem enginn kaus, enda vissi hann ekki sjálfur að hann væri í framboði. Hann var handvalinn í bakherberjum Barrosos.

En þríeykið Barroso, Belginn og barónessan munu ekki gefa sig. Þótt þau byggi vinnu sína á þrí-felldri stjórnarskrá ætla þau að sjá til þess að á næsta ári verði ESB samþykkt sem fullgilt sjálfstætt ríki á alþjóðavettvangi.

 

Þegar þeim hefur tekist ætlunarverk sitt verður fróðlegt að heyra skilgreiningar stjórnmálafræðinga. Menn geta þá velt fyrir sér hvort ESB uppfylli öll eigin skilyrði og þessari teórísku spurningu: Ef ESB sækti um inngönu í ESB, yrði því þá hafnað?

Svarið er nánast örugglega já.

 


"God bless his political memory"

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, er ekki besti vinur utanríkisráðherra í dag. Össur segir forsetann ekki hafa umboð til að gera neitt annað en það sem Alþingi ákveður. 

Össur er eflaust búinn að steingleyma því þegar hann sjálfur laumaðist úr landi sem ferðamaður í fyrrasumar - án vitneskju þingsins, ríkisstjórnarinnar og utanríkisnefndar - og leitaði stuðnings við mál sem Alþingi hafði ekki afgreitt.

Forseti ÍslandsÓlafur Ragnar stóð sig mjög vel í viðtali á Bloomberg í dag.

Það var kröftugt hvernig hann lýsti yfirgangi Gordons Brown, bæði þegar hann sagði Ísland gjaldþrota og þegar hann beitti hryðjuverkalögum. Inn á milli skaut Ólafur frábærri athugasemd: "God bless his political memory".

Össur utanríkisráðherra ætti að vera Ólafi Ragnari þakklátur. Hann var óhræddur við að segja það sem flestir hugsa og ráðamenn áttu að segja fyrir löngu, en gerðu ekki.

Ólafur Ragnar hafði meira umboð til að tala í dag en Össur hafði á Möltu í fyrra, 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu er nokkuð skýrt umboð.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband