Færsluflokkur: Evrópumál

Nýir ráðherrar niðurskurðarmála

Hugmyndirnar eru margar, það vantar ekki. Allt frá því að refsa ríkjum með því að flagga fána þeirra í hálfa stöng yfir í að taka af þeim atkvæðisréttinn. Umfang evruvandans er ekki að fullu komið fram en ljóst að hann er mikill. Alveg hrikalegur.

Sumar hugmyndirnar eru sóttar til Bandaríkjanna. Ein er um eins konar rannsóknarrétt; nefnd Evrópuþingsins sem gæti kallað þingmenn og embættismenn til yfirheyrslu, eins og gert er í Washington. Önnur er að sameina embætti forsetanna í eitt og leyfa íbúum að kjósa. Það krefst lýðræðis, sem á ekki upp á pallboðið hjá ESB og verður aldrei gert.

hrun_evrunnar

Á óskalistanum sem Spiegel birti er lagt til að refsa ríkjum fyrir ábyrðarleysi í fjármálum með því að beita þau sektum eða skipa þeim niðurskurðarráðherra (austerity kommissioner). Jafnvel svipta þau atkvæðisrétti, sem væri í takt við brusselskt „lýðræði".

Þegar allt er saman tekið lýsa sundurlausar hugmyndirnar algeru ráðaleysi. Engin alvöru lausn á evruvandanum er í sjónmáli. Á meðan „Merkozy" tekur ekki ákvörðun heldur stjórnlaus evran áfram að skemma og skaða.  


Kletturinn, Gylfi, evran og ankerið

KletturinnFyrir tveimur vikum líkti Gylfi Arnbjörnsson evrunni við "klett í hafinu". Í Evrulandi steyta nú jaðarríkin hvert af öðru á því hættulega blindskeri og hljóta af ómældan skaða. Hann var samt ekki að reyna að vera fyndinn.

Í gær bætti hann um betur.

Í ávarpi á þingi Starfsgreina- sambandsins kom hann aftur með klettinn. Fyrst sagði hann "krónan á sér ekki viðreisnar von" eins og Samfylkingarmenn eiga að segja og mærði síðan evru-klettinn og ESB eftir handriti flokksins. Ætli hann sé að búa sig undir prófkjör? 

Síðan hrökk þetta líka gullkorn af vörum hans:


Við eigum einfaldlega að nota aðild að Evrópusambandinu sem það ankeri sem við þurfum til þess að draga okkur upp úr þeim hjólförum sem við erum í.
 

Sko. Gylfi. Ankeri eru þung, alveg níðþung. Menn nota þau til sjós, kasta út ankerum svo skip reki ekki á meðan vélin er stopp. Það er ekki hægt "að draga sig upp úr hjólförum" með ankeri. Kannski meinti hann eitthvað annað en það sem hann sagði.

Að ganga í Evrópusambandið er einmitt eins og að stoppa vélarnar og láta þjóðarskútuna liggja við ankeri. Standa í stað. Senda svo fullveldið í land og sjá það aldrei aftur. Það er meiri þörf á að létta ankerum og koma vélinni í gang. Fá hjólin til að snúast, eins og það heitir.


mbl.is Samstaða mikilvæg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrusvaðið

Ekki furða að Norðmenn vilji ekki líta við evrunni. Í þessari stuttu frétt koma fram fjölmargir punktar sem hver um sig jafngildir falleinkunn. Nokkrir þeir helstu eru þessir:

  • Dvínandi trú á að evrusvæðið lifi af í núverandi mynd
  • Nokkur evruríki ná ekki að greiða skuldir sínar
  • Evrópski Seðlabankinn er ekki líklegur til stórræðanna
  • Leiðtogar finna ekki lausn á skuldavanda evrusvæðisins
  • Almenningur vill ekki auka fullveldisafsal ríkjanna
  • Versta efnahagkreppan síðan í Kreppunni miklu
  • Greiðslufall Grikklands er óhjákvæmilegt
  • Enginn lánveitandi til þrautarvara

Enn er til fólk sem trúir að í því felist einhver efnahagsleg bjargráð að ganga í ESB og einangra Ísland bak við tollamúra á einu lélegasta hagvaxtarsvæði í heimi.

Og taka upp evru!

Förum að dæmi Norðmanna, stöndum utan Evrópusambandsins og lítum ekki við evrunni.


mbl.is Feginn að hafa ekki evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-herinn er víst á dagskrá

eu_milLamandi evruvandinn er svo alvarlegur að hann hefur skyggt á flestar aðrar fréttir úr Evrópusambandinu, vikum saman.

Meðal annars fréttir af árformum um sameiginlega hernaðarmiðstöð (EU military headquarters). Áform sem þó eru komin á rekspöl. Fimm af stærstu ríkjum Evrópusambandsins vilja nú setja á stofn sameiginlegan her.

Af stærstu ríkjunum eru aðeins Bretar á móti, en þar í landi er mikið rætt um að „endurheimta fullveldið" sem hefur lekið til Brussel á löngum tíma. Trúlega er andstaða Breta lituð af því.

euarmyÞað var ekki lítið ráðist á bændur, þegar þeir sögðust ekki vilja að íslensk ungmenni ættu á hættu að vera kölluð í ESB-herinn í framtíðinni. Þá var því vísað á bug af aðildarsinnum sem fjarstæðu. En nú er herinn kominn á dagskrá í fullri alvöru, þótt fréttir af því rati ekki inn í fréttatíma RÚV. Enginn veit hver niðurstaðan verður.

Áhyggjur bænda voru hreint ekki út í loftið.

Meira að segja stjórnlagaráðið kveikti á perunni og setti bann við herskyldu íslenskra ungmenna inn í tillögu sína að nýrri stjórnarskrá.
 


NEI þýðir NEI (nema "þeir" vilji að það þýði JÁ)

Í gær sagði hún Slóvakía litla NEI. Hún vill ekki láta þröngva sér til samvinnu. Hún er of lítil og veikburða fyrir verkefnið. Menn, sem eiga mikið undir sér, munu gera út „sendinefnd" til Bratislava, snúa upp á höndina á henni af brusselskri kurteisi og útskýra hvað er henni fyrir bestu.

„Annars er úti um evruna" segir sendinefndin. Ef hún hrynur þá myndi það "eyðileggja jafnvel fjármálakerfi heimsins" segja Soros og hópur fyrrverandi ráðamanna.

„Nei þýðir Nei" sagði í góðu slagorði hér um árið. En það er ekki algilt. Nei þýðir ekki annað en það sem "þeir" vilja að það þýði. Slóvakía litla getur ekki breytt því. Nú þarf Radicova forsætisráðherra að finna leið til að segja Já.

VG er eina vonin

Eina von Radicovu til að þóknast „sendinefndinni" er að finna slóvakíska útgáfu af VG. Einhvern flokk sem er tilbúinn að selja sálu sína; segja bara Já og fá stóla og góð embætti í staðinn.

Sendinefndin kann sitt verk. Þaulæfð í fantaskap kom hún fram vilja sínum á Írlandi. Hún heimsótti líka forseta Tékklands og las honum pistilinn. Honum hafði orðið það á í hátíðarræðu að hvetja til alvöru lýðræðis í ESB, sem féll í grýttan jarðveg í Brussel.


Þegar Þjóðverjar hafa hátt, skjálfa hinir.

Þegar Pólverjar hafa hátt, segir forseti Frakklands þeim að hafa lágt.

Þegar Frakkar kjósa rangt, hrynja stjórnarskrárdrög ESB. 

Þegar Írar kjósa rangt, eru þeir látnir kjósa aftur.
 

Þetta er tilvitnun í 14. grein Tómasar Inga Olrich í vönduðum greinarflokki um Evrópusambandið. Nú má bæta við: Þegar Slóvakía segir Nei verður hún látin "hugsa sig um" og segja Já.
 


mbl.is Evran gæti leitt til hruns á heimsvísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindur ber haltan

Eftir enn einn neyðarfundinn þar sem ákveðið var að fresta því að halda annan neyðarfund um að taka ákvörðun síðar, er allt í steik í Evrulandi. Þetta er orðið bæði sorglegt og hættulegt.

Presseurope birti þessa mynd þar sem blindur Sarkozy ber halta Merkel á bakinu.
 

haltur_blindur


Eftir að slóvakíska þingið sagði NEI í dag við „björgunarpakkanum" er ástandið orðið mjög alvarlegt. Slóvakía, fátækasta ríki innan ESB, átti að leggja talsverða fjárhæð í sjóðinn; peninga sem Slóvakar eiga ekki til.

Radicova forsætisráðherra lagði ríkisstjórnina undir og nú er hún í raun fallin. Síðasta hálmstráið er að henni takist að vinna hugmyndinni aukið fylgi á næstu dögum og láta kjósa um „pakkann" aftur. Þegar lítil ríki í ESB segja nei eru þau alltaf látinn kjósa aftur.
 

merkel_sarkozy_barroso


Þangað til sitja þau hnípin, milli vonar og ótta. Merkel segir ekkert, Sarkozy sér ekkert og Barroso heyrir ekkert og veit ekkert heldur.

 


mbl.is Slóvakar fella björgunarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnaleikföng og bjánarnir í Brussel

Það er langt síðan ég hef skemmt mér jafn konunglega og við lestur kommenta frá lesendum breskra vefmiðla. Þau voru um fréttir af nýjustu afrekum möppudýranna í Brussel, sem sett hafa reglur um barnaleikföng.


FishingGameReglurnar eru hver annarri vitlausari: Hámark skal sett á hávaða af barnahringlum, börnum yngri en 8 ára er bannað að blása í blöðrur og ekki má selja partýflautur þeim sem eru yngri en 14 ára.

Þá er leikfangavaralitur bannaður og ekki má nota segulstál í leikföng. Þar með hverfa litlir leikfangakranar og gamall fiskaleikur úr búðarhillunum. Svo geta leikfangabangsar orðið óhreinir og hættulegir og við því þarf að bregðast. Er þá ekki allt upp talið, en vatnsbyssur eru ekki bannaðar. Ekki ennþá.

Öryggisfulltrúi, sem hefur eftirlit með framleiðslu leikfanga, segir að þetta muni auka enn á pappírsfjallið sem framleiðendur glíma við. Kostnaður við prófanir og vottun eykst, sem leiðir til verðhækkana.
 

Bjánarnir í Brussel

Peter Oborne fékk skammir fyrir að kalla embættismann „the idiot in Brussels" í beinni á BBC. Sá var talsmaður kommissars Rehn og talaði eins og vélmenni. Núna, hins vegar, þykir blaðmönnum sjálfsagt að tala um „the idiots in Brussels" þegar þeir skrifa fréttir af afrekum möppudýranna.

barn_bladraLesendur eru sammála. Einn segir þetta sömu möppudýr og fyrirskipuðu að setja skuli aðvörunina „Gæti innihaldið hnetur" á hnetupakka. Annar spyr hvort ekki verði skylda að stappa allan mat fyrir börn yngri en 8 ára í öryggisskyni.

Ekki kenna ESB um, segir einn lesandinn. Þetta er ekki þeim að kenna heldur stjórnmálamönnunum okkar, sem hafa ekki burði eða kjark til að koma okkur út úr Evrópusambandinu


Mæli með grein á Mail og kommentum lesenda. Líka er fjallað um afrek möppudýranna á Express, Telegraph og fleiri miðlum.
  


Maðurinn sem rústaði evrunni

Ætlar þú að skrá nafn þitt á spjöld sögunnar sem maðurinn sem rústaði evrunni? Þannig hljóðar fyrsta spurningin í viðtali sem Spiegel átti við Richard Sulik, slóvakískan þingmann. Viðhorfið sem tónninn lýsir er ekki geðfellt.

Írland þekkir þetta líka. Írska þjóðin gekk til kosninga undir brusselskum hótunum þegar hún var þvinguð til að kjósa aftur og samþykkja Lissabon sáttmálann. Tékkar hafa einnig fengið að kenna á yfirgangi valdhafanna í Brussel.


Mr. Sulik, do you want to go down in European Union history as the man who destroyed the euro?
 

Richard Sulik er 43 ára hagfræðingur, sérfróður um skattamál. Hann situr á þingi fyrir einn af stjórnarflokkunum. Sulik er á móti „björgunarpakkanum" og færir fyrir því prýðis góð rök. Atkvæðagreiðsla um málið fer fram í þinginu á þriðjudaginn.

SlovakiaSlóvakar unnu sig nýlega út úr efnahagsþrengingum, af fádæma dugnaði. Svo tóku þeir upp evru 2009. Nú er þess krafist að þeir leggi til peninga (sem þeir eiga ekki) til að hjálpa öðrum að gera það sama og þeir þurftu að gera hjálparlaust. Það vill Sulik ekki, enda gengur slík „aðstoð" gegn 125. grein Lissabon sáttmálans.

Í Slóvakíu eru tekjur manna lægstar í Evrópusambandinu. Slóvakar eiga að borga mest, hlutfallslega,  miðað við þjóðartekjur.

Aðeins Slóvakía og Malta eiga eftir að samþykkja „björgunarpakka" Evrulands. Eru einhverjar líkur á að slík smáríki í ESB fái að taka sínar ákvarðanir, án afskipta, sem sjálfstæð fullvalda ríki? Ó nei, fyrsta spurningin í viðtalinu segir allt sem segja þarf. Hún endurspeglar hugarfar stóru ríkjanna í ESB gagnvart þeim minni.

Í dag sátu Merkel og Sarkozy fund um evruvandann, en hin evruríkin 15 sem eiga „rödd við borðið" sitja heima. Þeim verður sagt hvað þau eiga að gera.
 


mbl.is Dexia-bankanum skipt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgin magnast - skaðlegt kerfi heldur velli

EUobserver birti áhugaverða fréttaskýringu um fiskveiðistefnu ESB, sem eru niðurstöður úr sjálfstæðri rannsókn ICIJ blaðamanna. Fyrirsögn greinarinnar er „ESB styrkir magna græðgi spænska flotans". Íslenska samninganefndir hlýtur að taka þessa rannsókn til skoðunar.


overfishOfveiði í áratugi hefur stórskaðað útgerð í ESB löndunum. Boðaðar endurbætur á sameiginlegu fiskveiðistefnunni reyndust miklar umbúðir um lítið innihald. Vindurinn er farinn úr seglunum og líklegt að engu verði breytt, eins og venjulega.

Gallað og skaðlegt kerfið heldur velli.


Hundruð milljarða fara í styrki til að byggja skip, gera þau út til veiða og loks til að úrelda þau. Spánn er stærsti styrkþeginn og ofvaxinn flotinn sogar til sín styrki í vonlausan taprekstur. Litlar 928.000 milljónir króna frá aldamótum, auk 320.000 milljóna í afslátt af sköttum á eldsneyti. Spánverjar eru stærstir en hinir engu skárri. Evrópskir skattgreiðendur borga brúsann.


Íslensk útgerð má aldrei fara inn í styrkjakerfi.
Um leið og tekið væri við fyrstu evrunum myndi atvinnugreininni byrja að hnigna. Afleiðingarnar fyrir íslenskt samfélag yrðu miklar og neikvæðar.


Vönduð greining ICIJ blaðamannanna er mjög fróðleg lesning. Lýst er inn í skúmaskot hins spillta styrkjakerfis ESB. Ekki neinn gleðilestur fyrir aðildarsinna, en þeir ættu samt að kynna sér niðurstöðuna. Kannski þeir rumski.

 


Jæja Össur, var evran bara þýðingarvilla?

Þegar Össur kom heim af fundi í Brussel, fyrr á árinu, færði hann þjóðinni fréttir sem hann taldi góðar. Það væri að vísu erfitt sumar framundan fyrir evruna, en hún kæmi sterkari út úr þeim hremmingum strax í haust.

Og núna er komið haust. Október.

Var þetta kannski bara þýðingarvilla?Össur_Rehn

Sjálfur Olli Rehn evruráðherra fullvissaði Össur um að allt yrði í allra besta lagi. En Rehn er finnskur og Össur brusselskur og alltaf hætta á tungumálaörðugleikum.

Olli Rehn á frábæran talsmann sem er engu síðri en hann sjálfur, en ég veit ekki hvaða tungumál hann talar.

Heilsa evrunnar hefur aldrei verið verri. Hún er búin að vera og "Evra 2" í smíðum í Brussel. Reikningurinn hleypur á billjónum. Eða trilljónum. 

Mikið er nú gott að fá þennan styrk.

Össur hlýtur að nýta eitthvað af styrknum góða til að láta þýða svörin frá Olli Rehn. Þá getur hann eytt misskilningnum og útskýrt örlög evrunnar fyrir þjóðinni.

Jafnvel æft sig í að segja satt í leiðinni.

 


mbl.is Fá 233 milljón styrk frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband