Færsluflokkur: Bloggar
6.12.2008 | 13:43
Þetta endar með rothöggi
Þegar seðlabankastjóri flutti ræðu á frægum morgunverðarfundi 18. nóvember hófst bardagi sem stendur enn. Og nú er farinn að færast hiti í leikinn. Davíð sagði, ríkisstjórnin svaf. Geir svaraði, seðlabankinn sagði ekki neitt. Það var fyrsta lotan.
Nú heldur atið áfram. Davíð sló fram 0% yfirlýsingunni en Geir svaraði, að þetta hafi kannski verið símtal. Og nú fylgir Geir sókn sinni eftir og opnar á Evrópuviðræður, sem hann styður samt ekki sjálfur. Skyldi þetta enda með rothöggi.
Hannes, hornamaður Davíðs, hefur sig lítið í frammi í augnablikinu en Þorgerður, sem vill engin hornkerling vera, fylgist með úr stúkunni enda bardaginn bæði spennandi og skemmtilegur. Össur fylgist líka með en er ekki skemmt, hann heldur að það sé eitthvað rotið við þetta. Björgvin og Ingibjörn eru líka orðin nett pirruð.
Það skrýtna við þennan bardaga er að ef Geir tapar þá fær hann samt verðlaunin. Stjórnin springur og ný stjórn mynduð, jafnvel án kosninga. Þá getur Geir myndað nýja stjórn með Vinstri grænum, vegna andstöðu beggja við aðild að Evrópusambandinu. Geri verður áfram forsætisráðherra en Davíð víkur.
Það ætti að vera hægt að veðja á þennan bardaga á Lengjunni.
![]() |
Aðildarviðræður koma til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2008 | 10:33
Hurðaskellir í Evrulandi - nýr þröskuldur
Hvað eru þá eiginlega mörg ár þangað til Ísland á einhverja möguleika á evru? Maður hlýtur að spyrja sig eftir lestur makalausrar greinar í Mogganum í dag. Á blaðsíðu 39 er grein eftir mann sem heitir Erik Berglof og er yfirhagfræðingur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.
Þetta er mjög sérstök grein. Bæði er það fyrirsögnin Evrudyrunum skellt (og ekkert spurningarmerki á eftir) og svo hvernig maðurinn skrifar greinina. Hann talar ítrekað um hræsni. Hér er dæmi:
"Burtséð frá þeirri hræsni vestrænna ríkisstjórna, að setja sig á háan hest í þessu máli, um leið og þær eru að bjarga bönkum út af yfirgengilegu klúðri í sínu regluverki, er þessi tillaga meingölluð"
Hin meingallaða tillaga sem hann talar um er að bæta við nýju Maastricht skilyrði. Að sjötta skilyrðið verði "gæði bankakerfis". Þetta telur hann hækka þröskuldinn svo mjög að dyrunum að Evrulandi verði skellt.
Erik er að fjalla um fund bankamanna úr öllum heimshornum, sem haldinn var í Frankfurt. Það er óvenjulegt að embættismaður sem ber titilinn "yfirhagfræðingur" noti svona málfar í fræðilegum skrifum. Hann segir m.a. að bankamenn hafi "baðað sig í ljómanum af tíu ára tilvist evrunnar". Og aftur talar hann um hræsni:
"Að gera gæði bankakerfis að nýju skilyrði fyrir aðild að evru er ekki bara hræsni, það gerir illt verra."
Greinin snýr að mestu að vanda banka í A-Evrópu sem flestir eru undir stjórn vestrænna banka. Vandi þeirra er mikill, hann er að miklu leyti "búinn til af vestrænum bönkum" og eftirlitsmenn hafa brugðist í að vara við öfgum. Hljómar það kunnuglega?
Móðurfélögin hafa takmarkaða getu til að styðja við dótturfyrirtæki sín í A-Evrópu. Svo spurningin er hvaða bankar það séu sem á að bjóða eignarhlut í þeim íslensku? Hvaða styrk munu þeir hafa til að styðja við dótturfélög á Íslandi?
Hvað þýðir þessi hurðarskellur fyrir Ísland? Ef skipta á út krónunni fyrir evru og fara réttu leiðina er hún löng og tímafrek. Ef það tæki Ísland fast að áratug að uppfylla núgildandi Maastricht skilyrðin fimm og ef hið nýja skilyrði verður sá þröskuldur sem Erik Berglof lýsir, er varla hægt að búast við evru á Íslandi fyrr en 2023. Kannski síðar.
Það er þá ekki um annað að velja en að hvetja íslensku krónuna til dáða!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 20:28
Minnkandi þolinmæði Samfylkingarmanna
Í nýrri skoðanakönnun MMR minnkar stuðningur kjósenda Samfylkingar við ríkisstjórnina um heil 10 prósentustig frá því í október. Það er ekki lítið. Greinilegt að Davíðsmál eru farin að reyna á þolrifin og ekki nema rétt helmingur Samfylkingar sem styður ríkisstjórnina.
Það hlýtur bara að vera tímaspursmál hvenær spennan á stjórnarheimilinu verður óbærileg. Ég hef haldið mig við að spá kosningum 20. júní en ef svo fer sem horfir verður kosið fyrr.
Það er ekki nema þriðji hver kjósandi sem styður ríkisstjórnina og er það mikið fylgishrun frá því í október. Þetta er merki sem má ekki líta framhjá. Tólfti hver kjósandi á Íslandi vill fá nýjan stjórnmálaflokk og Íslandshreyfingin virðist vera að komast á blað aftur.
Skyldi Guðni snúa aftur og Davíð? Jafnvel Jón Baldvin? Væri það ekki alveg úr takt að endurvinna gamla refi fyrir Nýja Ísland?
![]() |
Vilja nýja stjórnmálaflokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2008 | 13:33
EVRA: Einföld lausn sem kostar ekkert!
Hvers vegna er þetta ekki bara drifið af í einum grænum? Það er alltaf verið að benda á góðar lausnir en samt gerist ekket.
Virtur sérfræðingur segir að besti kosturinn sé að taka upp evru einhliða.
Virtur sérfræðingur segir okkur að það væri algjört glapræði.
Virtur sérfræðingur segir að krónan sé okkar sterkasta vopn í kreppunni.
Virtur sérfræðingur segir okkur að taka upp dollar.
Virtur sérfræðingur segir að það eigi að fastbinda krónuna við sterkan gjaldmiðil.
Virtur sérfræðingur segir okkur að sækja um í ESB til að koma krónunni í skjól, til að byrja með.
Getur verið að ástæðan fyrir því að ekkert gerist sé að þetta sé bara ekki svona einfalt. Ef til væri patentlausn sem kostar ekkert, þá væri engin kreppa.
Í Fréttablaðinu í gær, á bls. 30, er grein eftir Michael Emerson, sem er virtur sérfræðingur. Hann veltir fyrir sér einhliða upptöku evru. Í grein hans eru fjórar meginspurningar og nokkrar aðrar sem fljóta með. Auðvitað á að skoða þá hugmynd, eins og aðrar. Öll umræða er góð.
Ég mæli með að menn lesi þessa grein og rýni vel í svörin. Telji síðan hvað eru margir lausir endar. Ég ætla ekki að skrifa einhvern langhund um þá grein, en bendi á tvo punkta í niðurstöðum Emersons.
" ... má segja að EES + evra jafngildi nánast fullri aðild. Hversu hyggileg þessi leið er í pólitískum skilningi skal ósagt látið"
... myndu Íslendingar gera sér bjarnargreiða með því að taka um evru (einhliða) skömmu áður en þeir sæktu um inngöngu"
Samkvæmt Emerson er því um tvennt að velja: Annað hvort að taka upp evru einhliða eða sækja um aðild að ESB. Þetta tvennt fer mjög illa saman að hans mati. Eftir þessu að dæma munu þeir sem styðja aðild Íslands að ESB væntanlega standi harðir á móti einhliða upptöku evrunnar.
![]() |
Einhliða upptaka evru tæki 4 vikur og kostaði 80 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.12.2008 | 15:29
Hvað er þessi vindhani að derra sig?
Hefur hann umboð frá Íslendingum? Þykist hann geta tekið ákvarðanir fyrir okkar hönd? Ætlar hann kannski að taka að sér að sjá um þingkosningar líka, mynda ríkisstjórn og breyta stjórnarskránni? Hann er kannski að reyna að koma Íslandi inn í ESB á 6 mánuðum svo við getum haldið jól á næsta ári, sem stolt sambandsríki.
Svo er kvartað yfir því að Davíð tali ógætilega. Þó að Matti Vanhanen sé forsætisráðherra Finnlands, og eflaust hinn vænsti piltur inni við beinið, þarf einhver að stoppa ruglið í honum. Jafnvel þó hann þykist vera einhver Íslandsvinur og "meini vel".
Við erum varla komin á byrjunarreit í að kynna okkur hvað ESB er, hvað þá meira. Og svo getur ESB breyst mikið innan skamms (sbr. þetta) og hreint ekki víst að sambandið verði góður kostur fyrir fámenn ríki eftir þá breytingu.
![]() |
Biður ESB að undirbúa aðild Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.12.2008 | 13:40
Glæpastarfsemi og nauðsynleg bankaleynd
Bankaleynd á fullan rétt á sér og getur verið nauðsynleg fyrir fólk og fyrirtæki sem á í heiðarlegum bankaviðskiptum. En hún getur líka "þvælst fyrir" þegar menn fara ekki eftir leikreglum og afla þarf upplýsinga um fjármál þeirra.
Þegar ætluð sakamál eru til rannsóknar, hvort sem er skattrannsókn eða lögreglurannsókn, hafa til þess bær yfirvöld heimild til að fá þessar upplýsingar. Bankaleynd getur ekki komið í veg fyrir það. Viðskiptanefnd Alþingis hefur ekki slíka heimild og því var fullkomlega eðlilegt að bankastjórarnir þrír bæru fyrir sig bankaleynd þegar þeir voru kallaði á fund hennar um daginn vegna fjölmiðlakaupa Rauðsólar.
Þó að það sé líka eðlilegt að viðskiptanefnd vilji kanna mál sem þetta verður hún að lúta lögum.
Á fundi viðskiptanefndar Alþingis í dag bar Davíð Oddson fyrir sig bankaleynd og gat því ekki upplýst um vitneskju sína um ástæður þess að Bretar beittu hryðjuverklögum gegn íslenskum fyrirtækjum ytra. Er ekki rétt að huga aðeins að því hvað Davíð sagði, frekar en hver svaraði? Eða öllu heldur hvers vegna hann bar fyrir sig bankaleynd og þá um leið hvað svar hans þýðir.
Ef íslensk fyrirtæki og/eða íslenskir ríkisborgarar liggja undir grun um meiriháttar glæpastarfsemi er það háalvarlegt mál. Sér í lagi þegar það snertir alla landsmenn.
Þó skoðanir séu skiptar um Davíð Oddsson hljótum að ætla að hann fari að settum reglum þegar hann er kallaður formlega, sem embættismaður, fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Og að hann hafi ekki borið fyrir sig bankaleynd nema að vel athuguðu máli.
Úr því að bankaleynd átti við í þessu sambandi hjóta upplýsingarnar að varða fjármálagjörninga og/eða starfsemi fyrirtækja á því sviði. Sem væru þá Landsbankinn og Kaupþing. Þeir gjörningar hljóta að hafa vakið sterkan rökstuddan grun hjá Bretum um stórfelld lögbrot úr því þeir sáu ástæðu til að beita hryðjuverkalögum.
Þegar lögin um öryggi og varnir gegn hryðjuverkum voru sett í Bretlandi voru þau mjög umdeild meðal almennings. Margir óttuðust misbeitingu og aðrir töluðu um skert persónufrelsi. Þessi heimild er því vandmeðfarin og ólíklegt að stjórnvöld brenni sig á því að beita slíku neyðarúrræði nema brýn ástæða sé til. Það er ótrúverðugt að afgreiða þetta með því að Gordon Brown hafi notað lögin í pólitískum tilgangi til að setja undir fylgisleka.
Fyrir leikmann sem fylgist með málinu í gegnum fjölmiðla verður þetta tæpast skilið öðruvísi en svo að íslensku bankarnir séu sterklega grunaðir af Bretum um mjög alvarleg lögbrot; meiriháttar glæpastarfsemi.
Rannsóknarnefndin sem verið er að setja á laggirnar fær víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar. Heimildir sem viðskiptanefnd Alþingis hefur ekki. Meðal annars mun bankaleynd ekki eiga við gagnvart henni. Það hlýtur að verða hennar fyrsta verk að komast að því hvað gerðist í Bretlandi og leiddi til hryðjuverkalaga, vegna þess hve gífurleg áhrf þau höfðu á þróun mála. Áhrif sem allir Íslendingar finna fyrir og munu finna fyrir næstu árin.
Lærdómurinn sem draga á að svörum Davíðs er þessi:
Rannsóknarnefndin þarf að taka til starfa strax. Hún þarf að vinna hratt og vel og komast til botns í þessu stóra og grafalvarlega máli. Og hún þarf að upplýsa almenning um sannleikann, undanbragðalaust, eins fljótt og mögulegt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2008 | 11:19
Er þetta löglegt hjónaband?
Síðast þegar Davíð átti sviðið var það vegna upplýsinga um afskipti hans af hjónabandi forsetans. Nú þegar upplýst hefur verið að Gróusögurnar um framboðshótanir Davíðs voru engar Gróusögur veltir maður fyrir sér hvort "hjónaband" hans og Geirs sé löglegt. Eða öllu heldur boðlegt. En hvað gerist innan veggja heimilisins vitum við ekki, það er nefnilega bankaleynd.
Um daginn þýddi ég gamalt breskt bréf um samskipti kynjanna og setti hér á bloggið. Þó þetta sé bara bresk gamaldags karlremba er alveg hægt að ímynda sér að hún eigi við samskipti "hjónanna" þar sem Davíð fer með kvenhlutverkið.
Ef Geir vill losna úr sambandinu er spurning hvort hann geri eitthvað í því eða bíði eftir því að Davíð komi krúnurökuð heim!
![]() |
Davíð ber fyrir sig bankaleynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 08:46
Nú á Geir aðeins einn kost: Að reka Davíð!
Fyrst þegar það kvisaðist að Geir Haarde þorði ekki að reka Davíð vegna þess að hann hótaði að stofna nýjan flokk tók maður því sem hverri annarri kjaftasögu. Það væri útilokað að í þessari miklu krísu væri hagur flokksins settur í fyrsta sæti. En það var engin kjaftasaga. Nú hefur hún verið staðfest og það ærlega, af Davíð sjálfum í blaðaviðtali.
Vegna þessarar hótunar er allt í klemmu. Seðlabankastjóri situr enn í óþökk þjóðarinnar. Það er gert grín að Íslendingum um allan heim. Það þarf enginn að axla ábyrgð. Ekki einn einasti maður úr stjórnkerfinu hefur þurft að stíga til hliðar.
Og ástæðan er að flokksins vegna er ekki hægt að hreyfa við þeim sem ætti að víkja fyrst.
Með þessari makalausu yfirlýsingu er Davíð búinn að still Geir Haarde upp við vegg. Ef Geir ætlar að halda andlitinu og einhverjum trúverðugleika verður hann að víkja Davíð úr embætti. Hann getur hvorki boðið sjálfum sér né þjóðinni upp á það að vera fjarstýrt úr Svörtuloftum. Og það með hótunum. Það er niðurlæging fyrir embætti forsætisráðherra. Þannig lítur það út frá sjónarhóli þjóðarinnar og það er óásættanlegt með öllu.
![]() |
Davíð: Þá mun ég snúa aftur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Á föstudaginn var birt frétt á vef Financial Times, sem segir að nefnd á vegum írska þingsins telji engar lagalegar hindranir fyrir því að bera Lissabon samninginn aftur undir þjóðaratkvæði, jafnvel óbreyttan. Samningnum var hafnað af írsku þjóðinni 12. júní á þessu ári. Samþykkt hans gæti haft áhrif á afstöðu Íslendinga til inngöngu í ESB.
Reiknað hafði verið með að Brian Cowen, forsætisráðherra, myndi reyna að fá kosið aftur um Lissabon samninginn (EU new reform treaty) seint á næsta ári en nú er talið að því verði flýtt vegna kreppunnar. Ég hef ekki séð fjallað um þetta í íslenskum fjölmiðlum, má vera að það hafi farið framhjá mér.
The report by the Oireachtas (Irish parliament) sub-committe on the country's future in the European Union, said "No legal obstacle appears to exist to having a referendum either on precisely the same issue as that dealt with on June 12 or some variation thereof".
Þetta minnir á kosningar um opnun útibúa ÁTVR víða um land á sínum tíma. Ef áfengisútsölu var hafnað þá var kosið aftur. Og aftur. Eftir að sjoppan var samþykkt var aldrei kosið aftur. Það hefur aldrei verið kosið um lokun áfengisútsölu. Skyldi einhvers staðar einhvern tímann verða kosið um úrsögn úr ESB? Stefna Cowens er alveg klár; Írar skulu samþykkja Lissabon!
Það sem er áhugavert fyrir okkur Íslendinga, sem viljum skoða ESB aðild, er sú mikla breyting sem Lissabon samningurinn mun hafa í för með sér, enda er hann í eðli sínu stjórnarskrá. Við samþykkt hans mun ESB breytast úr sambandi 27 sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki. Það verður meira að segja kjörinn þjóðhöfðingi; forseti nýja ríkisins.
Ireland's vote in the summer pitched the EU into crisis, blocking institutional reforms such as the creation af a full-time president and fully fledged diplomatic service.
Það sem menn hafa helst áhyggjur af er hið aukna vald sem "ríkisstjórn" ESB fær í hendur, afnám neitunarvalds í ýmsum málaflokkum og að atkvæðavægi verði miðað við höfðatölu aðildarríkjanna. Það óttast menn að geti orðið fámennari ríkjum óhagstætt. Sumir taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja það verða fámennum ríkjum fjandsamlegt.
Það er alla vega klárt að íslenskir kjósendur eiga heimtingu á góðum hlutlausum upplýsingum um ESB til að geta byggt afstöðu sína á þegar kemur að kosningum. Þetta er ekkert smámál, varðar framtíð okkar allra og má ekki verða að flokkspólitísku trúaratriði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2008 | 18:05
Má bjóða þér banka með kaffinu?
Nú er stjáklað í rústum bankanna og leitað að góðum stað fyrir nýjan hornstein. Á meðan reynum við að átta okkur á hver á hvað. Hver á bankana og hvað eiga bankarnir? Sagt er að mikil völd geti falist í því að ráða yfir þeim.
Vegna skuldsetningar "eiga" bankarnir m.a. alla útgerðina í landinu. En ríkið á víst ekki bankana, það mun vera misskilningur. Það eru kröfuhafarnir, sem eru erlendir bankar. Í fyrirtækjapakka ríkisstjórnarinnar er lýst "vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum". Og forsætisráðherra bætir því við að þeir geti þess vegna eignast bankana að fullu. Hann segir ekkert því til fyrirstöðu.
En hvers vegna ættu stórir bankar í Sviss og Þýskalandi að vilja eignast hlut í fallít bönkum á Íslandi? Ef íslenskur banki skuldar þýskum kröfuhafa hundrað milljarða vill hann fá kröfuna greidda. Það er ekki til galdralausn sem lætur skuldirnar hverfa; ekkert að borga, bara láta þá fá einhver hlutabréf. Kröfuhafinn tekur ekki hlutabréf í staðinn fyrir peninga nema í þeim liggi verðmæti.
Hver eru helstu verðmætin í eignasafni bankanna?
Í síðasta mánuði kom hingað fulltrúi kröfuhafa frá Þýskalandi. Hann vildi vita um framvinduna í starfi skilanefndanna og sagði að hagsmunir bankanna og kröfuhafa færu saman. Að leysa vandann. Það er eðlilegt að menn vilji gæta eigna sinna og hann taldi að vel kæmi til greina að breyta kröfum í eignarhlut.
Það sem hann sagði í framhaldinu er umhugsunarvert. Hann sagði að besta leiðin fyrir Ísland út úr kreppunni væri að auka iðnað og þess vegna þurfi að virkja. Hvers vegna er bankamaður sem kom til að "huga að eignum sínum" að gefa fjölmiðlum álit sitt á framtíðarstefnu Íslendinga í iðnaðar- og orkumálum? Hvernig tengist það eignum hans?
Er samningsstaða okkar og þeirra jöfn? Spurningin er kannski þessi: Eru það þeir sem neyðast til taka hlutabréf í staðinn fyrir greiðslu af því að þeir eiga ekki annarra kosta völ, eða erum það við sem neyðumst til að láta af hendi bankana af því að við erum gjaldþrota og höfum ekki annað að bjóða?
Kannski er ekkert slæmt við að erlend fjármálafyrirtæki leggi undir sig bankastarfsemi hér. En á meðan almenningur fær ekki upplýsingar um hvaða eignir er verið að sýsla með, rétt eins og það sé leyndarmál, er full ástæða til tortryggni. Hvaða gjald erum við að greiða fyrir bankahrunið?
![]() |
Bjarga á fyrirtækjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)