Færsluflokkur: Bloggar
12.12.2008 | 21:56
Töframixtúra sem læknar allt
Það er til blogg sem heitir því sérstaka nafni "Þetta hefði ekki gerst ef Ísland væri í ESB". Þar er borin fram mixtúran sem læknar öll mein. Hún samanstendur af sex punktum um það sem er slæmt á Íslandi og öðrum sex sem eru miklu betri í Evrópusambandinu.
Skipt er um haus og sporð ef þurfa þykir, líklega undir yfirskininu að góð vísa verði aldrei of oft kveðin. Dropinn holar steininn. Var vissulega frumlegt þegar Kató gamli notaði þessa taktík fyrir um 2.200 árum.
Á öldum fyrr kölluðust þeir loddarar sem fóru með hestvagna sína milli byggða og buðu undralyf. Þessar mixtúrur áttu að duga sem meðal við höfuðverk, gigt, magakveisu, svefnleysi, getuleysi og hverju sem er.
Sex af síðustu átta færslunumá þessu ef-og-hefði-bloggi innihalda mixtúruna góðu (með lítilsháttar tilbrigðum). Færslurnar eru að jafnaði tengdar við fréttir á Mbl um Evrópu og krónuna og mixtúran birt aftur og aftur. Og aftur.
Ef ekki finnst viðeigandi frétt deyja menn ekki ráðalausir. Einn tengillinn er við frétt um falsaða dánartilkynningu frá fanga á Litla-Hrauni. Og hver er tengingin? Jú fyrirsögnin fréttarinnar er "Grín sem gekk of langt" og það dugði til að skrifa eina blogglínu og nota hana sem yfirskift á reseptið og birta mixtúruna. Aftur.
Já, það hefur hver sína aðferð. Hinn nafnlausi ef-og-hefði bloggari gengur örugglega aldrei af evru trúnni, en bloggið hans er sérstakt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2008 | 19:23
AÐILDARVIÐRÆÐUR: Til hvers?
Spillingarliðið burt! segja menn og ekki að furða. Ein leið til að losna undan spillingunni er að ganga í ESB, eða svo er sagt. Drífa sig í aðildarviðræður til að sjá "hvað er í boði" og kjósa svo. Gott og vel.
En það er ekki bara samningurinn. Það eru aðrir þættir sem eru aðildarviðræðum óviðkomandi. Til dæmis traust, sem menn hrópa á mitt í allri íslensku óreiðunni.
Framkvæmdastjórn ESB, eða European Commission, fer með framkvæmdavaldið. Hún er skipuð 27 mönnum, einum frá hverju aðildarríki (verður fækkað í 18 ef Lissabon sáttmálinn tekur gildi). Hæfasta fólkið frá hverju landi velst í stjórnina og þarf að hafa óflekkað mannorð.
Eða svo skyldi maður ætla. Hér eru þrjár mínútur frá fundi á Evrópuþinginu sem áhugavert er að skoða.
http://www.youtube.com/watch?v=YWSYMpuCFaQ
Framkvæmdastjórn ESB er skipuð fólki sem hefur svo vafasama fortíð að það er "ekki einu sinni óhætt að kaupa af þeim notaðan bíl", hvers lags traust sækjum við þá til nýrra valdhafa í Brussel?
Og spillingin. Hér hefur bankahrunið afhjúpað spillingu. Í ESB þarf ekki bankahrun til, bara að fylgjast með fundi á Evrópuþinginu.
Virðing fyrir lýðræðinu: Fundurinn í Brussel í kjölfar þjóðaratkvæðisins á Írlandi 12. júní er mjög forvitnilegur, viðbrögð ESB þegar þjóðir bregðast ekki rétt við "lýðræðislegum fyrirskipunum".
Nú skal láta Íra kjósa aftur af því að þeir kusu ekki "rétt" síðast. Það er öll virðingin sem ESB sýnir lýðræðinu. Það er fróðlegt fyrir alla Íslendinga að gefa sér fáeinar mínútur til að fylgjast með viðbrögðum ESB við "óhlýðni" Íra:
http://www.youtube.com/watch?v=ktbcUGja3VU
Þarf eitthvað að ræða þetta?
![]() |
Írar sagðir reiðubúnir að kjósa á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2008 | 08:40
Sláttuvélanefnd ESB
Eitthvað þarf allt þetta fólk að gera. Starfsmenn ESB voru orðnir 52.627 í ágúst (Statistical Bulletin of the EU) og fjölgar að jafnaði um 3% á ári. Enda eru verkefnin margvísleg og oft þarf að sætta ólík sjónarmið.
Í síðustu færslu var litið á fréttir um breytingar á reglugerðum um grænmeti og ávexti. Í færslunni þar á undan var lítillega minnst á nefnd sem fjallaði um takmörkun á hávaða frá garðsláttuvélum. Hér verður kíkt nánar á þá ágætu nefnd og lýkur þar með trílógíunni um skemmtilegar nefndir og regluverk í ESB.
Þó ég hafi ekki getað fundið niðurstöður nefndarinnar gef ég mér að hún hafi nú lokið störfum. Hún hét fullu nafni "Working Group on Noise Restrictions on Lawn Mowers (and other outside equipment)" og hóf störf á níunda áratugnum. Þessi fjölskipaði hópur vann árum saman að lausn vandans um hávaða í sláttuvélum og er gott dæmi um það vandasama verk að sætta mismunandi sjónarmið. Hún kom nokkuð við sögu fyrir kosningar í Bretlandi í júní 1999.
Low-minded Europe will be grinding on with its work. The European Working Group on Noise Restrictions on Lawn Mowers (and other outside equipment) will meet to decide whether to lower the permissible number of decibels for Flymos and the like. The everyday working of the single market trundles on.
Vandi nefndarinnar var fyrst og fremst að sætta ólík sjónarmið. Það er ekkert áhlaupaverk þegar Bretar, Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir eiga allir fulltrúa í nefndinni. Enda starfaði hún vel á annan áratug. Helstu vandamál nefndarinnar voru:
1) Hversu mörg desibil skal miða við?
2) Skal mæling miðast við fullt vélarafl eða t.d. 85%?
3) Á að miða við manninn sem stýrir sláttuvélinni eða vegfaranda?
4) Ef miðað er við vegfaranda, skal þá mælt innan garðs eða utan?
5) Í hvaða hæð skal mælirinn vera og í hversu mikilli fjarlægð frá vélinni?
6) Skal setja sambærilegar reglur fyrir aðrar vélar, t.d. utanborðsmótora?
Hugsanlega er nefndin enn að störfum þó ég hafi ekki getað fundið hana. Það er ekki auðvelt að finna eina nefnd í hópi þeirra 1.175 starfshópa sem starfa á vegum ESB. Að jafnaði eru 38 í hverjum hópi. Sá fjölmennasti, "Lifts Directive Working Group" telur 84 nefndarmenn (fleiri en Alþingi!). Þessir nefndarmenn eru ekki taldir með í starfsmannatölum sem nefndar voru í byrjun.
Ef Ísland gengur í ESB munu reglur um sláttuvélar örugglega skila sér til okkar, ekkert síður en þegar börnum var bannað að selja merki á sjómannadaginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 21:13
Gúrkuregla ESB numin úr gildi
Í júlí á næsta ári falla úr gildi nokkrar af reglum ESB um það hvernig náttúran á að skila af sér framleiðslu sinni. Reglur um hvernig gúrkur, gulrætur, plómur o.fl. eiga að líta út heyra þá sögunni til en "bananareglan" lifir áfram. Einnig verða áfram í gildi reglur um m.a. epli, appelsínur, jarðarber og tómata.
Það þarf ekki lengur að henda mat af því að hann er ljótur. Alls eru það 26 tegundir grænmetis og ávaxta sem þetta á við um enda "engin glóra að henda góðum mat" segir Mariann Fischer Boel, kommisar í Framkvæmdastjórn ESB.
Gúrkureglan (EEC No 1677/88), sem margir telja þjóðsögu eina, er til í alvöru og mælir fyrir um að agúrkur megi ekki bogna um meira en 10mm fyrir hverja 10 cm lengdar. Hún fellur úr gildi.
Bananareglan (EC 2257/94), verður til áfram, en þar segir m.a. "... the grade, i.e. the measurement, in millimeters, of the thickness of a transverse section af the fruit between the lateral faces and the middle, perpendicularly to the longitudinal axis ..."
Leyft verður að selja bæði "ófullkomna" banana og hinar tegundirnar á bannlistanum ef vörurnar eru sérmerktar og ætlaðar til matseldar.
Kveikjan að þessum skrifum er athugasemd sem ég fékk við síðustu færslu. Þar skrifaði ég af algjöru alvöruleysi um reglugerð ESB um ljósaperur. Hún var sett í göfugum tilgangi, að spara orku. Mér fannst hún bara svo fyndin. Mér finnst þetta gúrkudæmi fyndið líka þó ekkert jafnist á við textann um bananana!
Og bara til að halda því til haga: Ef einhver kynni að halda að það sem sagt var um sláttuvélar í færslunni hér á undan sé bara bull úr mér, þá er ekki svo. Nánar um það skemmtilega mál í næstu færslu.
Bloggar | Breytt 11.12.2008 kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2008 | 10:28
Ljósaperuráðherra ESB
Olli Rehn segir að Ísland geti keppt um að verða 28. ríki ESB, eins og hann sé að tala um íþróttamót. Þetta sagði hann í gegnum gervihnött við fólk í HR í morgun. Við vorum ánægð með silfrið á OL í handbolta og ég væri ekkert ósáttur við að koma á eftir Króötum í mark í þessari "keppni".
Rehn segir líka að "á næstu árum" verði fiskveiðistefna ESB endurskoðuð, sem er hið besta mál. Ekki kom fram hvort átt væri við framseljanlegar veiðiheimildir. Verst er að hann fær ennþá martraðir þegar hann hugsar um kreppuna í Finnlandi. Karl anginn.
Bara að við Íslendingar fáum ekki martraðir. Þá er ég ekki að hugsa um ESB, heldur hitt, að á meðan sú umræða fær jafn mikla athygli og raun ber vitni er verið að gefa í nýtt spil: "Útrásarvíkingarnir - part two". Fyrsti hluti þess heitir Exista, Noa Noa og Next.
Í tíufréttum RÚV í gærkvöldi var skemmtileg frétt um starfið í ESB. Sænsk kona dásamaði spar-perur. Hún upplýsti að nú væru í smíðum nýjar reglur um notkun á ljósaperum í ESB. Strax á næsta ári verður bannað að selja 100 watta perur til heimabrúks.
Ef við göngum í ESB legg ég til að við sækjumst eftir embætti ljósaperuráðherra. Sækjum líka fast að fá fulltrúa í nefndinni sem vinnur að smíði reglugerðar um hávaðmengun frá vélknúnum garðsláttuvélum.
![]() |
Ísland gæti keppt um að verða 28. ríki ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2008 | 12:21
Tökum bara 1262 á þetta!
Gamli sáttmáli 1262. Fyrir Nýja Ísland þarf Nýja sáttmála. Það gekk svo ljómandi vel í fyrra skiptið, tók ekki nema 682 ár að endurheimta sjálfsvirðinguna. Nú er hægt að játast undir Evrópu í hvelli, getum klárað dæmið á rúmum tveimur árum. Þá getum við haldið upp á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar á viðeigandi hátt.
Við þurfum að flýta okkur að taka upp evruna. Enda snýst umræðan um það og ekkert annað. Ef ekki löglega þá einhliða. Það á bara eftir að klára nokkur smámál, segja þeir. Sjávarútvegur, landbúnaður, skattar, orkumál og eitthvað fleira léttvægt. (ESB er ekki með 40 þúsund manns í vinnu við það eitt að föndra við evrur.)
Til að redda okkur út úr kreppunni, sem stendur yfir í augnablikinu, er ekkert betra en að ganga í Sambandsríkið Evrópu og vera agnarsmár partur af því næstu 682 árin.
Og nú má enginn tala um að fara sér hægt, það er eitthvað svo 2007. Svipað og að gagnrýna útþenslu bankanna. Það er hallærislegt, bara afturhaldsseggir gera svoleiðis. Og alls ekki hafa orð á því að ESB er ekki gjaldmiðill.
Allar nánari upplýsingar er að finna á island.esb
![]() |
Lýsa yfir fullum stuðningi við formanninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2008 | 22:05
VERÐBÆTUR: Bylmingshögg á báða vanga
Það var í göfugum tilgangi að tekin var upp verðtrygging með Ólafslögum fyrir fyrir tæpum þrjátíu árum. Það var til að verja bæði sparifé og útlán fyrir rýrnun vegna verðbólgu. Settur var plástur á afleiðingarnar þegar ekki gekk að kveða niður drauginn. Það var gert meira en áratug síðar með þjóðarsáttinni 1991.
Í millitíðinni varð "misgengið" til, þegar hætt var að verðtryggja laun en ekki lán. Þá voru sett lög um greiðslujöfnun 1985, sem voru síðan uppfærð núna 17. nóvember. Inn í þau var bætt "greiðslujöfnunarvísitölu" (já 9 atvkæða orð) til að mæta misgenginu hinu nýja. Nú erum við með Nýja banka og nýtt misgengi á Nýja Íslandi.
Nýja misgengið er vegna loftbólu sem belgdi út bæði krónuna og fasteignaverð. Þessi bóla varð ekki til af sjálfu sér heldur var hún manngerð. Nú er hún sprungin og hvoru tveggja gengur til baka. Þá fá íbúðarkaupendur bylmingshögg á báða vanga þegar verðið fer niður en skuldirnar upp.
Auðvitað þarf að aðstoða fólk sem verður fyrir barðinu á hinu nýja misgengi. Það er ekki forsvaranlegt að fjöldi fólks missi eignir sínar. Margir hafa komið fram með hugmyndir, t.d. Benedikt Sigurðarson, Hallur Magnússon og Gylfi Magnússon, auk nýju laganna frá 17. nóvember.
En það er rangt að tala um verðtrygginguna sem geranda. Samt er mjög áberandi í umræðunni að þetta sé "allt út af verðtryggingunni." Sumir vilja kenna smæð krónunnar um en að mínum dómi eru það menn sem (mis)nýttu sér smæð hennar til að hagnast, sem bera stærsta sök.
Þegar bönkum var hleypt á íbúðalánamarkaðinn 2004 hófst hin mikla hækkun fasteignaverðs og stjóð í þrjú ár. Hún var fjármögnuð með peningum sem nú hefur komið í ljós að voru ekki til. Það verður að reisa varnir - með alvöru reglum - gegn því að menn geti aftur leikið sér þannig í Matador með fólk og eignir þess. Annars verður bara endurtekið efni eftir nokkur ár.
Umfjöllun um þessa hlið málsins er lítil en því meira talað um að kasta krónunni og taka upp evru. Það er einfaldlega óraunhæft að tala um það sem lausn núna, því að hér verður engin evra næsta áratuginn. Það þarf að miða viðbrögðin við veruleikann en ekki óskhyggju.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2008 | 17:58
Möppudýragarður
Þegar pælt er í gegnum texta um ESB er það hreinasta torf á köflum. Áður en maður veit af er maður búinn að fótbrjóta sig í kjaftinum. Hér er til gamans listi yfir helstu stofnanir og stöður innan þeirra, samninga, reglur og embætti.
Ef þú vilt æfa þig fyrir "heimanámið" sem framundan er vegna kynningar á ESB er það ágætis byrjun að sjá hve marga af þessum liðum þú þekkir. Veistu hver er hlutverkaskiptingin á milli commission, counsil og parlament? Veistu hvað allt þetta er á íslensku? Eða hvað er til af aðgengilegu efni á íslensku um Evrópusambandið?
- European Union (EU)
European Community
Common Foreign and Security Policy (CFSP)
Police and Judicial Co-operation in Criminal Matters (PJC)
European Parliament
European Counsil
European Commission
Charter of Fundamental Rights
European Constitution
The Laeken declaration
Berlin Declaration
Ioannina Compromise
Single European Act
Common Foreign and Security Policy (CFSP)
Copenhagen Criteria
Schengen Agreement
Treaty establishing the European Community (TEC, Rome)
Treaty on the Functioning of the European Union (TFEU)
Treaty of Amsterdam
Treaty of Nice
Treaty on European Union (TEU, Maastricht)
Treaty of Lisbon (Reform Treaty)
Treaty on the Functioning of the European Union
Commission of the European Communities
The European Convention
Action Committee for European Democracy (ACED)
Intergovernmental Conference (IGC)
European Convention on Human Rights
Western European Union (WEU)
European Defence Agency
Eurozone
Europol
Eurojust
President of the European Union
President of the European Commission
Vice-President of the Commission
High Representative for Foreign Affairs
Representative for Foreign Affairs and Security Policy
High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy
European Commissioner for External Relations and European Neighbourhood Policy
Union Foreign Minister
EU Council's Presidency
President-in-Office of the European Council
Presidency of the Council of the European Union
Secretary-General of the Council
European Central Bank
European Court of Justice
European Defence Agency
Court of Justice of the European Communities
European Court of Human Rights
Area of Freedom, Security and Justice (AFSJ)
Court of First Instance
Á listanum er ekkert um efnisþætti eins og vöruflutninga, fiskveiðistefnu, samkeppnisreglur og menningu svo dæmi séu tekin. Það að ganga í ESB snýst um margt annað en nýjan gjaldmiðil. Umræðan þarf að fara að snúast meira um þá þætti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2008 | 15:05
Nýtt félag: HOLLVINIR KRÓNUNNAR
Mín fyrstu laun voru 7 krónur og 50 aurar fyrir að selja nokkur blöð fyrir Halldór gamla á bókasafninu. Þá fékk ég bæði rauðan fimm króna seðil og túkall. Þennan stóra. Líka tvo 25 aura peninga, enda var 50 aurinn ekki kominn þá.
Þetta var áður en Evrópusambandið bannaði börnum að selja merki. Svo seldi ég merki á sjómannadaginn og fékk mikla peninga. Flottast var að fá 25 króna seðil af því að það var mynd af Ísafirði á framhliðinni. Vestmannaeyjar voru á bakhlið.
Það var ekki lítið spennandi þegar fyrsti 5.000 króna seðillinn kom, ég fékk einn svoleiðis í fermingargjöf. Álkrónan kom en stoppaði stutt, hún hvarf þegar núllin tvö voru klippt burt. Það voru líka seðlar sem gerðu stuttan stans, græni 500 kallinn með Hannesi Hafstein og Kjarvals seðill upp á 2.000 krónur. Það kom aldrei aftur 5 króna seðill. En við fengum rauðan 500 króna seðill, sem er notaður í dag.
Blessuð Krónan okkar. Hún á sér fáa vildarmenn þessa dagana og ef hrakspár ganga eftir skilja leiðir þjóðar og Krónu áður en langt um líður.
Aldrei hefur Krónan gengið gegnum jafn erfiða tíma og síðustu misseri. Vondir menn hafa farið illa með hana. Fjárglæframenn, vopnaðir afleiðum, vafningum og glæpsamlegri græðgi, hafa svívirt hana með misgjörðum sínum. Þeim dettur ekki í hug að biðjast afsökunar eða sýna iðrun heldur kenna þeir Krónunni um glæpinn. Nema hvað? Samt er hún bara gjaldmiðill en var aldrei starfsmaður í seðlabanka eða fjármálaeftirliti.
Nú er blessuð Krónan svo grátt leikin að hún þykir ekki boðleg lengur fyrir smjörgreidda glæpamenn á stuttbuxum og því þarf að skipta henni út. Drengirnir þurfa nýtt leikfang og heimta evru, sem er bæði útlensk og sexý. Þess vegna segja þeir okkur að krónan sé dauð. Það er ekki hægt að nota hana í neitt nema kannski til að kaupa lýsi og slátur. Þeir bíða líka færis á að sparka fjallkonunni og deita Evu.
Ég legg til að stofnað verði nýtt félag: HOLLVINIR KRÓNUNNAR. Menn geta þá gengið í félagið hver á sínum forsendum; sumir til að fylgja Krónunni til grafar og aðrir bara út á rómantíkina. Kannski finnast líka ennþá menn sem trúa að Krónan sé ekki dauð og vilja standa vörð um heiður hennar. Væri ekki fésbókin ágætis vettvangur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.12.2008 | 18:03
Er búið að rassskella Heimdall?
Fyrir tíu dögum sendi Heimdallur frá sér djarfa ályktun. Þar kröfðust ungir sjálfstæðismenn breytinga á stjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Þeir fóru meira að segja fram á að báðir stjórnarflokkarnir gerðu breytingar á ráðaherraliði sínu. Krafa Heimdellinga var mjög skýr og birt í öllum fjölmiðlum.
Þegar ályktunin kom datt manni í hug að einhver eldri væri með í ráðum, sæti jafnvel undir stýri meðan allir ungliðarnir voru sendir út að ýta. En núna heyrist hvorki hósti né stuna. Samt hefur ekki verið nein lognmolla á þeim sviðum þar sem ungliðarnir kröfðust breytinga.
Ungir framsóknarmenn gerðu kröfur um breytingar á stjórn síns flokks og Guðni sagði af sér. Þegar ungir sjálfstæðismenn létu í sér heyra hélt maður að unga fólkið ætlaði nú að láta til sín taka í kreppunni og standa fyrir nauðsynlegri naflaskoðun. En Heimdallur, þessi útvörður ásanna, gelti bara einu sinni.
Voru ungliðarnir kallaðir fyrir og teknir á beinið af Flokknum? Er kannski búið að rassskella Heimdall og segja honum að sitja og bíða stilltur eftir landsfundi? Það má vera að þeir séu að stilla saman strengi sína í Evrópumálum en það er skrýtið að þeir þegi þunnu hljóði yfir öllu öðru sem er að gerast. Af nógu er að taka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)