Má bjóða þér banka með kaffinu?

Nú er stjáklað í rústum bankanna og leitað að góðum stað fyrir nýjan hornstein. Á meðan reynum við að átta okkur á hver á hvað. Hver á bankana og hvað eiga bankarnir? Sagt er að mikil völd geti falist í því að ráða yfir þeim.

Vegna skuldsetningar "eiga" bankarnir m.a. alla útgerðina í landinu. En ríkið á víst ekki bankana, það mun vera misskilningur. Það eru kröfuhafarnir, sem eru erlendir bankar. Í fyrirtækjapakka ríkisstjórnarinnar er lýst "vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum". Og forsætisráðherra bætir því við að þeir geti þess vegna eignast bankana að fullu. Hann segir ekkert því til fyrirstöðu.

En hvers vegna ættu stórir bankar í Sviss og Þýskalandi að vilja eignast hlut í fallít bönkum á Íslandi? Ef íslenskur banki skuldar þýskum kröfuhafa hundrað milljarða vill hann fá kröfuna greidda. Það er ekki til galdralausn sem lætur skuldirnar hverfa; ekkert að borga, bara láta þá fá einhver hlutabréf. Kröfuhafinn tekur ekki hlutabréf í staðinn fyrir peninga nema í þeim liggi verðmæti.

Hver eru helstu verðmætin í eignasafni bankanna?

Í síðasta mánuði kom hingað fulltrúi kröfuhafa frá Þýskalandi. Hann vildi vita um framvinduna í starfi skilanefndanna og sagði að hagsmunir bankanna og kröfuhafa færu saman. Að leysa vandann. Það er eðlilegt að menn vilji gæta eigna sinna og hann taldi að vel kæmi til greina að breyta kröfum í eignarhlut.

Það sem hann sagði í framhaldinu er umhugsunarvert. Hann sagði að besta leiðin fyrir Ísland út úr kreppunni væri að auka iðnað og þess vegna þurfi að virkja. Hvers vegna er bankamaður sem kom til að "huga að eignum sínum" að gefa fjölmiðlum álit sitt á framtíðarstefnu Íslendinga í iðnaðar- og orkumálum? Hvernig tengist það eignum hans?

Er samningsstaða okkar og þeirra jöfn? Spurningin er kannski þessi: Eru það þeir sem neyðast til taka hlutabréf í staðinn fyrir greiðslu af því að þeir eiga ekki annarra kosta völ, eða erum það við sem neyðumst til að láta af hendi bankana af því að við erum gjaldþrota og höfum ekki annað að bjóða?

Kannski er ekkert slæmt við að erlend fjármálafyrirtæki leggi undir sig bankastarfsemi hér. En á meðan almenningur fær ekki upplýsingar um hvaða eignir er verið að sýsla með, rétt eins og það sé leyndarmál, er full ástæða til tortryggni. Hvaða gjald erum við að greiða fyrir bankahrunið?


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband