Færsluflokkur: Bloggar
1.12.2008 | 19:56
Lykilorustan verður meðal almennings
Styrmir Gunnarsson var annar þriggja ræðumanna á fundi Heimssýnar. Ég segi annar þriggja af því að Kári í DeCode forfallaðist. Og hann er alveg hörku ræðumaður. En þetta er ekki nein einkasamkoma Sjálfstæðisflokksins eins og einhver kynni að ráða af fréttinni á Mbl. Hinn ræðumaðurinn var Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG og kynnir var Bjarni Harðarson, brotthrakinn framsóknarmaður og bóksali. Þarna var líka fólk úr öðrum flokkum og utan flokka.
Þó afstaða Sjálfstæðisflokksins muni vissulega vega þungt mun almenn umræða í samfélaginu vega þyngst. Enda alls óvíst að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram við völd eftir næstu kosningar. Góð og hlutlaus upplýsingamiðlun skiptir hér mestu. Þetta ESB dæmi er stórt mál. Alveg risa stórt mál. Styrmir fór í gegnum söguna, 100 ár aftur í tímann, með viðkomu á árinu 1943 í aðdraganda stofnunar lýðveldisins og allt til dagsins í dag.
Það er óskandi að Heimssýn standi líka fyrir fundum þar sem eru framsögumenn, fyrirspurnir og umræður. Meiri upplýsingar eru lykilatriði. Komist þær til skila treysti ég dómgreind íslenskra kjósenda til að velja rétta leið þegar þar að kemur.
![]() |
Lykilorusta um ESB-aðild háð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ímyndaðu þér að það sé laugardagur. Þú situr fyrir framan sjónvarpið að horfa á enska boltann í beinni. Pizzan er á leiðinni og þú ert rétt búinn að opna bjór númer tvö. Ekkert getur bætt þetta augnablik, nema kannski stærri flatskjár. Þá birtist daman þín í dyrunum og spyr:
"Hvað heldurðu eiginlega að þú sért að gera?"
Er þetta venjulega spurning?
Nei, þetta er sérstök trikk-spurning sem konur nota til að hafa stjórn á karlmönnum. Trikkið er, að það skiptir engu hverju þú svarar, innan hálftíma eruð þið saman í Húsasmiðjunni að velja rétta sturtuhengið. Kannski gardínur.
Hvernig virkar þetta?
Það veltur á eðli spurningarinnar. Konur eiga vænan forða af trikk-spurningum sem ekki er til neitt rétt svar við. Hér er eitt algengt dæmi:
"Finnst þér að ég hafi fitnað?"
Öll svör við þessari spurningu verða túlkuð sem já. "Nei", þýðir já. "Ég veit það ekki", þýðir já. "Það skiptir engu", þýðir já. Minnsta hik, er hreint og klárt já. Eini raunhæfi möguleikinn er að segja "nei". Þú verður að segja það snöggt og örugglega eins og þú sért að tala um viðurkennda staðreynd en ekki skoðun. Þetta virkar ekki, en allir aðrir kostir eru verri.
Það eru til nokkrar aðrar spurningar þar sem "nei" er eina leyfilega svarið og nokkrar þar sem fumlaust og öruggt "já" er nauðsynlegt. Í þessum tilfellum er ekki líklegt að útskýringar borgi sig. Heldur ekki tilraun til að vera fyndinn. Skoðaðu þennan hjálparlista:
Ávallt skal svara "nei"
Hrífstu stundum að annarri?
Ertu orðinn þreyttur á mér?
Er ég nokkuð fyrir sjónvarpinu?
Hugsarðu ennþá um hana?
Ávallt skal svara "já"
Elskar þú mig ennþá?
Dreymir þig stundum dagdrauma um mig?
Finnst þér hárið á mér fínt svona?
Því miður eru yfirheyrslur kvenna oft þannig að hjálparlistar um Já og Nei duga ekki. Þær geta orðið býsna flóknar, jafnvel farið út í gátur. Til dæmis þessa:
"Hvora skóna finnst þér að ég ætti að fara í?"
Nú eru góð ráð dýr. Þið eruð að fara út að borða og þegar orðin frekar sein. Þá kemur hún, klædd í kjól og skó, leggur aðra skó á gólfið og varpar fram þessari lúmsku gátu. Að svara henni er flóknara en að leysa þetta með eggið og hænuna.
Ef þú velur skóna sem hún er í ertu að reka á eftir henni. Ef þú velur hina er það af því að þú heldur að þú eigir að segja það. Sumir karlmenn gera þau mistök að stinga upp á þriðja skóparinu, en það er ekkert annað en árás á smekk hennar. Eða tilefni fyrir hana til að gera árás á þinn. Undir engum kringumstæðum skaltu leggja til að hún fari í annan kjól, þú gætir allt eins sagt: Þú ert feit.
En hvers vegna er hún að spyrja þig? Hún veit að þú veist ekki hvorir skórnir eru betri og hún veit að þér er alveg sama. Þetta er hluti af valdabaráttunni, sem heldur áfram þangað til þú ert orðinn húsvanur. Þetta kemur upp með reglulegu millibili, t.d. þegar hún tekur þig með sér að kaupa handklæði eða bollastell
Í þeim tilfellum ætti "ééég veit það ekki" að duga, en það máttu alls ekki nota við stóra skó-vandamálið. Þá missir þú af borðinu og kvöldmatnum. Það sem þú gerir er þetta: Þú biður hana að prófa að fara í hina skóna og segir svo að skórnir sem hún var í séu betri. Með þessu ertu laus. En því aðeins að þú segir ekki orð þegar hún velur seinna skóparið af því það passar betur við kjólinn. Næsta spurning:
"Hvernig sérðu samband okkar þróast?"
Þessi er erfið og gæti leitt þig út í langar samræður. Hér dugir ekki að reyna að komast undan með fyndni og segja "áfram" eða "upp". Þessi spurning veldur árekstri. Hún vill fá heiðarlegt og hjartnæmt svar um rómantískt samband og að þið eigið saman rósrauða framtíð. Þú vilt fá einfaldari spurningu. Ekki er hægt að sleppa undan þessari árás öðru vísi en að nefna eitthvað af því sem þú veist að hún vill heyra, nema þú kunnir leiðina út úr vandanum.
Til þess þarftu að læra þekkja þennan flokk spurninga; þ.e. spurningar sem svara skal með annarri spurningu. Svokölluð spurninga-svör. Þegar menn þekkja þær er næsta auðvelt að blaka frá sér yfirvofandi yfirheyrslum. Hér eru nokkur góð dæmi:
Hún: Hvernig sérðu samband okkar þróast?
Þú: Hvernig sérð þú samband okkar þróast?Hún: Finnst þér hún falleg?
Þú: Hún hver?Hún: Viltu giftast mér?
Þú: Í hvaða bíói er hún sýnd?Hún: Hvað myndirðu gera ef ég væri ólétt?
Þú: Hvað, ertu ólétt?
Hún: Af hverju spyrðu! Finnst þér ég feit?
Úpps! Þarna lentum við í vandræðum. Þetta hefðir þú átt að sjá fyrir og nota frekar eitthvað fáránlegt svar.
Hún: Hvað myndirðu gera ef ég væri ólétt?
Þú: Hvað ef ég væri óléttur?
Auðvitað er þetta bull en þú vinnur þér smá tíma til að finna betra svar. Þá er gott að nota hjálparlista fyrir spurninga-svör sem hægt er að nota við ýmist tilefni. Þau innihalda meðal annars:
Hvers vegna spyrðu? Hvað telst vera mikið?
Ætti ég að vera það? Hvað áttu við?
Skiptir það máli? Varstu að tala við mig?
(Ath. að Ertu byrjuð á túr? er ekki í þessum flokki.)
Kíkjum næst á stærðfræðispurningu:
"Hvað hefurðu sofið hjá mörgum?"
Í þetta sinn getur þú einfaldlega sagt henni satt (nema sannleikurinn sé meira en 12) eða þú getur giskað á töluna sem þú heldur að hún búist við. Eins og gildir um öll reikningsdæmi er mun auðveldara að svara ef maður kann formúlu. Eins og þessa:
Fjöldinn sem hún hefur sofið hjá + fjöldinn sem hún veit að þú hefur sofið hjá + fjöldinn sem þú hefur sofið hjá. Svo deilir þú í summuna með 2. Þegar útkoman hefur verið námunduð í næstu heilu persónu færðu út tölu sem ætti að vera í lagi. Ef útkoman er stærri en tólf, þá segirðu bara tólf.
Þessi formúla virkar svo lengi sem hvorugt ykkar hefur atvinnu af kynlífi. Höldum áfram.
"Af hverju ertu með þetta tuð?"
Þessi klassíska perla er ekki spurning. Henni er beitt ef þú kvartar yfir smáatriðum; búðarhnupli eða bílstjórum sem keyra of hratt, eða yfir hávaða á djamminu og að aldrei séu lausir stólar. Henni á ekki að svara.
Ef þú svarar með því að benda henni á að hún sé alltaf að kvarta yfir öllu sem þú gerir gæti hún átta sig á hvað þú ert vonlaus og sparkað þér. Og talandi um það ...
"Ertu að segja að þú viljir slíta sambandinu?"
Konur eru eins og lögfræðingar, þær spyrja sjaldan spurninga nema vita svarið fyrirfram. Hvernig kvenkyns lögfræðingar spyrja veit ég ekki og ég vil ekki vita það. Málið er að þegar kona spyr þig þessarar spurningar veit hún að svarið verður "nei". Annars hefði hún aldrei spurt.
Jafnvel þó þig langi til að segja já muntu segja nei. Það er alls ekki hægt að varpa þessari spurningu til baka því þú veist aldrei hverju hún myndi svara. Ef þú ert að reyna að slíta sambandinu þarftu samt að segja nei og fara í gegnum allan segja-upp-pakkann. En ef þú vilt ekki slíta því er best að skipta um umræðuefni. Kíkjum á eitthvað léttara.
"Tekurðu eftir einhverri breytingu?"
Þessi er ívið léttari. Hún er í sérstökum flokki með tveimur öðrum spurningum sem eru "Ertu búinn að gleyma hvaða dagur er?" og "Heyrirðu það sem ég er að segja?" Þar sem þetta eru spurningar sem er auðveldara að svara rangt en rétt er best að nota bara fíflaskap.
Hún: Tekurðu eftir einhverri breytingu?
Þú: Keyptirðu nýja svuntu?
Hún: Ertu búinn að gleyma hvaða dagur er?
Þú: Nei, það er þriðjudagur.Hún: Heyrirðu það sem ég er að segja?
Þú: Já, ég veit það elskan.
Hahh fyndið? Það er ekki þín sök ef hún nær þessu ekki. Ef hún vill fá betri svö þarf hún að fara að spyrja betri spurninga. Spurninga eins og:
"Hefurðu litið á sjálfan þig nýlega?"
Þessi spurning og hin óvelkomna frænka hennar, "Hver heldurðu eiginlega að þú sért?" eru til að minna þig á að hún var hálfpartinn að aumka sig yfir þig þegar þið byrjuðuð saman. Líklega kallaðir þú þetta yfir þig sjálfur með því að segja að Brad Pitt væri að verða þybbinn eða að Jack Nicholson þurfi ekki að bíða eftir munngælum þangað til hann á afmæli. Þú þarft ekki að svara þessum spurningum. Þú getur reynt að afsaka þig, en betra er nýta réttinn til að vera ekki fullkominn - og brosa. Næsta spurning:
"Heldurðu að þú verðir mér alltaf trúr?"
Eins og flestar sálfræðispurningar sem virðast dúkka upp, alveg upp úr þurru, dúkkar þessi spurning ekki upp, alveg upp úr þurru. Þetta er dulbúið tékk á trúmennsku þinni og líklega til að athuga hvort þú hafir verið henni trúr við eitthvað sérstakt tilefni. Hér er nauðsynlegt að afrugla spurninguna og svörin þín líka, því að þau eru líka dulkóðuð. Ráðlegt er að kynna sér helstu þýðingar áður en spurningunni er svarað:
Hún spyr: Heldurðu að þú verðir mér alltaf trúr?
Þú svarar: Já.
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Hann er að fela eitthvað.- eða, þú svarar: Það veltur á ýmsu.
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Ég vissi það!- eða, þú svarar: Hvers vegna spyrðu?
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Drullusokkur!- eða, þú svarar: Ég vet það ekki, en hvað um þig?
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Hvað veit hann mikið?
Það eru til nokkur önnur tilbrigði sem ekki verður farið yfir hér. Þegar hér er komið sögu ertu hvort sem er í vondum málum. Það skiptir ekki öllu máli hvað þú segir svo lengi sem þú roðnar ekki.
Lítum næst á spurningar sem kerfjast þess að þú beinlínis ljúgir:
"Á hvað varsu að horfa?"
Hún meinar "þú varst að horfa á rassinn á þessari ljóshærðu". Og þú sem hélst að þú værir orðinn svo góður í að horfa án þess að hreyfa hálsinn. Bara gjóa augunum svo ekkert bæri á. Augljóslega er ekki hægt að svara með því að segja satt. Heiðarlegt svar gæti vissulega losað þig úr sambandinu sem er ekki ráðlegt nema þú sért áður búinn að tryggja þér annan samastað. Það kann að virðast einfalt að svara þessari spurningu með lygi, en þegar menn hafa sofnað á verðinum er vörnin orðin erfiðari.
Hér eru dæmi um algeng mistök sem menn gera þegar þeir eru spurðir "á hvað varstu að horfa?"
Of nákvæmt: "Hvað naglarnir eru farnir að ryðga á póstkassanum þarna."
Ekki nógu nákvæmt: "Þetta þarna."
Of gott til að vera satt: "Demantshálsfestina í glugganum, hún færi þér svo vel."
Of satt til að vera gott: "Gegnsæja undirkjólinn í glugganum, hann færi þér svo vel."
Of augljóst: "Ekkert."
Allt of augljóst: "Ljóskuna þarna með stóru ... ég meina, ekkert."
Hér er svo önnur þar sem beita þarf smá túlkunum:
"Hvað eigum við að gera í málinu?"
Þessi spurning brýst fram þegar í vanda er komið, líklega óleysanlegir erfiðleikar í sambandinu. Það sem hér þarf að túlka er hið dularfulla "við" í miðri spurningunni. Orðið þýðir oftast "þú", þ.e. hvað ætlar þú að gera í málinu?
Við sérstakar aðstæður getur "við" líka þýtt "við erum í þessu saman" til dæmis í merkingunni að þú berir jafn mikla ábyrgð og hún á því að hún missti bíllyklana niður í ræsið eða því að hún geymi tjakkinn og varadekkið í bílskúrnum svo að því verði ekki stolið.
Við þannig aðstæður er eina svarið sem þér dettur í hug "við ætlum að hætta saman, vertu bless". Líklegast er að þú segir samt ekkert. Þá er ákveðin hætta á því, eftir stutta þögn, að hún láti hina skelfilegu spurningu vaða:
"Af hverju segir þú ekki eitthvað?"
Hvort þú svarar þessari spurningu eða ekki veður þú að ákveða sjálfur. En það er ein spurning sem þú mátt aldrei svara. Segðu ekki orð. Láttu frekar eins og þú hafir ekki heyrt spurningun. Gakktu burt, gerðu eitthvað. Bara ekki svara þegar hún spyr:
"Finnst þér að ég ætti að krúnuraka mig?"
Ef þú segir eitthvað, þá verður allt þér að kenna. Þó hún segi "Britney gerði það og Shinead O'Connor líka" skaltu ekki svara neinu. Því ef hún lætur verða af því og ef hún sér eftir því (sem hún mun gera) af því að henni finnst það svo mislukkað (og það er mislukkað) þá er það allt þér að kenna. Þess vegna verður þú að passa að segja ekki neitt.
En sértu alveg búinn á því getur þú reynt að muldra eitthvað (ef þú ert búinn að tryggja þér annan samastað). Þá er þín besta von að hún komi heim krúnurökuð, horfi í augun á þér og spyrji: "Finnst þér þetta gera mig feita?" því þá veistu að þú ert einn á báti. Game over.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2008 | 09:19
ESB - Hænan er óæt, svo éttu fisk
Ein leið til að auka fiskneyslu er að leggja í auglýsingaherferð um hvað fuglakjöt sé vont. Korni er neytt ofan í gæsir með trekt og hænsnafóður er drýgt með fugladriti. Svo eru þessi grey alin í þröngum búrum og maður getur fengið salmonellu og allt.
Önnur leið er að auglýsa hvað fiskur er hollur og góður. Á grillið líka. Svo má láta uppskriftir að gómsætum réttum úr sjávarfangi fylgja. Maður skyldi ætla að seinni kosturinn gæfi betri raun en samt er það svo að í umræðunni um ESB er "fuglaleiðin" sorglega fyrirferðarmikil. Áberandi meira hjá með-hópnum.
Dæmi um þetta eru þau skilaboð sem menn lesa úr áliti Gylfa Zoega í Mogganum í gær: Annað hvort sættum við okkur við úrelt höft eða göngum í ESB. Þetta, eitt og sér, er röksemdafærsla á borð við "hænan er óæt, svo éttu fisk, það er ekki um annað að velja".
Ein áberandi rök eru að utan ESB verðum við einangruð. Viðmælandi í Silfrinu talaði meira að segja um að "leita aftur inn í samfélag þjóðanna" af því að fólk kallar á lausn og leiðsögn.
En hversu einangruð erum við?
Ísland á aðild að Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra, einnig að EES og þar með ríka samvinnu við ESB, erum í NATO og eigum aðild að Evrópuráðinu, EFTA-dómstólnum, Norðurlandaráði, Schengen og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Ísland á líka aðild að alþjóðastofnunum varðandi menntamál, matvæli, verslun, sakamál, sjómælingar, barnahjálp, heilbrigðismál, mannréttindi, tolla, umhverfismál, viðskipti, öryggismál, flugmál, hafrannsóknir, náttúruvernd og fleira. Alls um 60 alþjóðastofnanir. Að halda því fram að það þurfi að ganga í ESB til að "leita aftur inn í samfélag þjóðanna" er býsna mikið út í bláinn.
Ég leita að uppskrift að fiskrétti en ekki hallmælum um hænuna. Þessi uppskrift þarf að vera með viðeigandi meðlæti, það er nefnilega hægt að spilla góðri matseld með vondu meðlæti. Hráefnið í það mætti vera fiskveiðistefna, landbúnaðarstefna og Lissabon samningur. Ég hef ekki áhuga á fleiri óætum hænum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2008 | 20:57
Algjör nauðsyn að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn
Það eina sem er betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn en að klofna í tvennt, er að klofna í þrennt. Eða fernt. Því fyrr sem hann klofnar, því betra fyrir flokkinn. Því lengur sem það dregst, því betra fyrir andstæðingana. Gerist það ekki mun hann þurfa að nota allt næsta kjörtímabil til að líta í spegil og skoða á sér naflann.
Flokkshollusta, sem var dyggð í gær, er orðin að fótakefli í dag.
Þeir dyggu Sjálfstæðismenn sem skrifa varnarræður fyrir flokkinn sinn eru að gera honum óleik. Koma í veg fyrir nauðsynlegan klofning. Það að beina sjónum að bandarískum bréfum, græðgi bankamanna og vondum Bretum gerir ekki annað en að hefta umræðu um kjarna málsins: Traust.
Traust almennings til flokkanna er að engu orðið. Það er erfitt að endurvekja það, sér í lagi fyrir stærsta flokkinn sem stjórnað hefur hátt í tvo áratugi. Til þess þarf hann að fara í gegnum uppgjör sem felur í sér klofning, málamiðlanir, mikla endurskoðun og endurnýjun í forystuliði. Þetta verður aldrei gert án átaka.
Klofningurinn er þegar farið að læðast upp á yfirborðið. Fyrsta dæmið var að flýta landsfundi og setja ESB í nefnd. Núna hefur Friðrik Sophusson blandað sér í þá umræðu og segir það "skyldu flokksins" að bjóða upp á kosti í Evrópumálum. Annað dæmi er Heimdallur, sem tók óvænta afstöðu varðandi stjórn seðlabankans og ráðherraskipan í ríkisstjórninni.
Það er óhugsandi annað en að kosið verði á næsta ári. Stóru kosningamálin verð ESB, gjaldmiðillinn og uppgjör við bankahrunið. Þá skiptir öllu máli hversu ærlegir flokkarnir eru í uppgjöri sínu við fortíðina. Flokksagi af gamla skólanum á ekki við í því uppgjöri því pólitík gærdagsins virkar ekki lengur. Það hefur of mikið breyst og þessa dagana er verið að skrifa merkan kafla í sögu þjóðarinnar.
Fái óánægjan að koma fram strax hefur flokkurinn tíma til að miðla málum og finna leiðir sem flokksmenn geta sameinast um. Verði henni haldið niðri af misskilinni hollustu við flokkinn verður það á endanum of seint. Þá klofnar hann bókstaflega.
Ég kaus ekki Sjálfstæðisflokkinn síðast og geri það ekki næst. En það skiptir samt alla máli hvernig hann tekur á sínum málum núna því þessi flokkur á eftir að vera afl í íslenskum stjórnmálum um langa framtíð. Mestu skiptir hvernig hann gerir upp við fortíðina sem í augum almennings er lituð af spillingu og klíkuskap. Eins og reyndar gildir um fleiri flokka. Þeir þurfa allir að ávinna sér traust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2008 | 16:29
Falin framtíðarspá
Hvort er villan í myndatextanum með þessari frétt óvart eða viljandi? Samkvæmt textanum sýnir hún íslenska dollara og bresk pund. Eða er þarna falin framtíðarspá?
Okkur er óhætt að gleyma þessu með evruna.
![]() |
LÍÚ vill einhliða upptöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2008 | 14:17
Hvenær verða hattar í matinn?
Það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær einhver þarf að éta hattinn sinn og segja "jæja þá, við skulum þá bara kjósa". Í DV viðtali vill formaður Samfylkingar ekki loka á kosningar á nýju ári og er aftur farin að hreyfa við kröfunni um breytingar á stjórn Seðlabankans.
Á hægri vængnum hafa Heimdellingar stigið djarft spor. Þeir vilja greinilega fara í þá naflaskoðun sem öllum er nauðsynleg, en ekki bara sitja hjá og gagnrýna mótmælendur fyrir að mótmæla. Þetta er allt í áttina, það verður kosið í júní.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2008 | 11:02
Er þá Ólafur Ragnar búinn að kvitta?
Næturfundur Alþingis endaði á því að lög voru samþykkt í morgunsárið. Seðlabankinn er nú þegar búinn að gefa út reglur "á grundvelli laga sem samþykkt voru á Alþingi laust fyrir kl. 5 í morgun".
Samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar þarf forseti lýðveldisins að staðfesta samþykkt lagafrumvörp til að veita þeim lagagildi. Var Ólafur Ragnar á bakvakt í nótt? Þetta er sannkölluð hraðafgreiðsla.
![]() |
Nýjar gjaldeyrisreglur í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2008 | 18:41
Mótmælafundur hægri manna
Mótmæli vegna hrunsins mikla eru ekki einkamál vinstri mann. Eða ættu ekki að vera það. Nú hefur Heimdallur tekið tappann úr og það verður ekki aftur snúið. Ályktun þeirra um breytingar í Seðlabanka, FME og ríkisstjórninni er skýr og blátt áfram. Og djörf! Næsta skref hlýtur að vera að þeir geri sig meira áberandi í málefnalegri umræðu. Ég reikna með að sjá mótmælafund hægri manna auglýstan innan tíðar. Eða borgarafund.
Málflutningur hægri manna eftir hrun hefur aðallega verið þrenns konar: Að gera lítið úr mótmælum með því að tengja þau við skrílslæti og eggjakast. Að gera mótmælin tortryggilegt vegna þess hver talar en ekki hvað er sagt. Að stimpla fundi sem halelújasamkomur í einkaeign Vinstri grænna, femínista og fólks á vinstri vængnum.
Vissulega eru til málefnaleg framlög frá mönnum á bláa kantinum og sumt vel skrifað. Meðal annars umræður um ESB og gjaldmiðilsmál. Eflaust eitthvað fleira gott sem hefur farið fram hjá mér, þó ég lesi mikið og hlusti. Og það er einmitt kjarninn: Farið fram hjá mér.
Mótmælafundir á Austurvelli fara ekki framhjá neinum. Borgarafundur í Háskólabíói ekki heldur. Það á heldur ekki að fara fram hjá neinum hver framtíðarsýn hægri manna er fyrir Nýja Ísland. Fyrir áttavilltan mann eins og mig væri fengur í að skoða allt litrófið. Allar raddir eiga að heyrast og það þarf ekki að bíða eftir að landsfundur gefi línuna.
Það verður kosið og tíminn líður hratt. Ef menn á hægri vængnum einblína á það að gera alla hina tortryggilega falla þeir á tíma. Ná ekki að móta stefnu sína og eiga þá ekki önnur vopn en gamla hræðsluáróðurinn. Ég efast um að það vopn virki lengur svo vakning Heimdellinga gæti verið fyrsta skrefið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2008 | 23:16
Djöfulli ertu í ljótum kjól. Má bjóða yður salat?
Háskólabíó var fullt út úr dyrum. Þangað hafði ráðamönnum verið boðið til að vera viðmælendur svo fólkið gæti talað við þá milliliðalaust. "Fundurinn er til að spyrja og fá svör, til að upplýsa okkur um hvað er að gerast á Íslandi í dag" sagði fundarstjóri. Þung áhersla var lögð á að við værum ekki bara mótmælendur heldur viðmælendur. Dónaskapur og frammíköll ættu ekki erindi í þetta boð. Hann var sýndur í beinni á RÚV.
Gestgjafinn á fundinum var almenningur, gestirnir voru ráðherrar og þingmenn. Sjálfboðaliðar sáu um undirbúning og framkvæmd. Fundarstjóri brýndi fyrir fólki að sýna gestum sínum kurteisi. Við erum nefnilega enginn skríll. "Við fengum fólk í heimsókn og við "treatum" það eins og gestina okkar" sagði hann. Fólk var beðið um að vera gagnort, málefnalegt, kurteist og skemmtilegt.
Ég var ekki alveg sáttur við hvernig þessi fundur þróaðist. Það kemur fram í næstsíðustu færslu sem var skrifuð strax og fundinum lauk. Eftir að hafa skoðað fundinn aftur ákvað ég að blogga um hann aftur. Og það verður að fylgja að fundarmenn töluðu á eigin ábyrgð, Gunnar fundarstjóri sagði í byrjun að hann vissi ekki um hvað fólk ætlaði að tala. Ræður voru því ekki ritskoðaðar.
Byrjunin var glæsileg. Erindið sem Þorvaldur Gylfason flutti var mjög gott, skýrt, greinargott og vel flutt. Honum dugðu ekki þær 5-7 mínútur sem framsögumönnum voru ætlaðar. Það var ekki vegna orðlenginga heldur þurfti hann að gera mörg hlé á máli sínu vegna lófataks sem hann uppskar verðskuldað frá áhorfendum. Enginn framsögumaður notaði minna en tvöfaldan áætlaðan tíma.
Silja Bára Ómarsdóttir flutti sín rök fyrir því að við verðum að fá að kjósa. Benedikt Sigurðarson gerði snaggaralega úttekt á verðbótum fyrr og nú. Síðan kom Margrét Pétursdóttir verkakona. Hún átti fína spretti en var líka ókurteis. Það var snjallt hvernig hún sýndi hversu auðvelt er að standa upp úr stólunum. En það var að sama skapi fádæma ókurteist að lýsa áhyggjum af "norska skógarkettinum sem liggur í kjöltu seðlabankastjóra, malandi undan strokum hans." Hún var að tala um forsætisráðherra, einn af gestunum í boðinu.
Ef þú býður fólki í mat, sestu ekki til borðs með hópi gesta og segir við einn þeirra: "Djöfulli ertu í ljótum kjól! Má bjóða yður salat?" Sá gestur mun ekki þiggja hjá þér heimboð aftur. Alla vega ekki ótilneyddur. Þannig "treatar" maður ekki gestina sína. Við viljum ekki láta kalla okkur skríl, sagði einhver.
Mörgum fannst þetta "rosalega gott hjá henni". Fyndið og bara "gott á 'ann". Og fjölmiðlarýnir Fréttablaðsins í dag hrósar fundarstjóra fyrir "að láta skömmustulega stjórnamálamennina fá það óþvegið." En það er bara ekki hlutverk fundarstjóra. Þeim var jú boðið sem viðmælendum.
Það er einmitt þetta með fundarstjórnina. Hún er kúnst. Hlutverk fundarstjóra er að sjá til þess að spyrjendur geti spurt og viðmælendur þeirra svarað. Ekki að taka afstöðu eða láta menn fá það óþvegið. Sjálfsagt að vera á léttu nótunum og koma með smá grín. En ekki ef grínið er meinfyndni sem undantekningalaust er beint að öðru liðinu.
Fundarstjóri á ekki að bera upp tillögu með kommentinu "við reyndar treystum ykkur ekki". Og hann grípur ekki fram í fyrir iðnaðrráðherra með "ég þarf ekkert að vita þetta ég get lesið um það í blöðunum". Eða segja að dómsmálaráðherra hafi ekki getað mætt af því að "það er sprungið á löggubílnum, eða eitthvað". Og hann á alls ekki að grípa spurningu sem beint er til ráðherranna og segja: "Ég get svarað fyrir þau, þetta heitir að hlusta ekki." Þó að það sé fyndið. Ráðherrarnir voru viðmælendur og þannig "treatar" maður ekki gestina sína.
Það voru teknar nokkrar spurningar í einu og svo svarað. Undir lokin, þegar tíminn var að klárast, var hins vegar ein spurning í einu og svarað jafn harðan. Það gaf miklu betri raun og vona ég að ef leikurinn verður endurtekinn að sá háttur verði hafður á. Þá týnast síður spurningar eins og fín spurning frá Lilju seint á fundinum sem spurði hversu margar undirskriftir þyrfti til að stjórnin færi frá. Henni var aldrei svarað og aldrei beint til ráðherra. Já, hversu marga þarf til að knýja fram stjórnarskipti? En þjóðaratkvæði?
Undir lokin kom seðlabankastjóri til tals. Um hann sagði fundarstjóri: "Við skulum bara hætta að hlusta á Davíð. Það er lang einfaldasta lausnin á því máli, hættum að hlusta á Davíð. Leyfum honum bara að vera þarna. Og svo bara talar hann og talar og það hlustar enginn á hann."
Nei, herra fundarstjóri, það er ekki í lagi að leyfa honum að vera þarna. Og nei, herra fundarstjóri, við megum ekki leyfa honum að tala og tala. Hvers vegna? Ég skal koma með þrjár vísbendingar: Kastljós, morgunverðarfundur, Bretland.
Þrátt fyrir þennan útásetning tek ég ofan fyrir þeim sem stóðu að fundinum. Það er þrekvirki hjá þessum hópi, sem byrjaði smátt í Iðnó, að fylla Háskólabíó og fá ráðamennina til að mæta. Virkilega glæsilegt framtak. En það má alltaf gera betur. Jafnvel miklu betur.
Það á ekki að nota svona fund til að velgja ráðamönnum undir uggum. Menn hafa fjölmörg tækifæri til þess, á útifundum, blogginu, blaðagreinum og víðar. Það sem af er kreppu höfum við að eins fengið eitt tækifæri til að tala beint við ráðamenn og það var í Háskólabíói á mánudaginn. Bjóðist annað tækifæri þarf að nýta það betur.
Það kom heldur lítið út úr fundinum. Það má gagnrýna ráðamenn fyrir sum svör þeirra og viðbrögð og gestgjafarnir fóru heim lítils vísari. En ráðamenn fundu að það er þung undiralda og megn óánægja í samfélaginu. Þeir fengu skýr skilaboð um það og leið ekki vel á sviðinu. Kannski var það eini áþreyfanlegi árangur fundarins. Ég er ekki viss um ráðherrarnir vilji koma aftur en munu líklega mæta samt, tilneyddir, vegna þrýstings í samfélaginu.
Kannski hljóma þessi skrif eins og vörn fyrir ríkisvaldið og það er ekki sérlega svalt þessa dagana. En svo er ekki, heldur hugsað sem gagnrýni í von um að betur takist til næst. Bendi í því sambandi á fyrri færslur eins og þessa um hvers vegna ég mæti á Austurvöll á laugardögum, þessa um hugmyndir mínar um breytingar í stjórnkerfinu og kosningar, og ekki síst þessa um hvað ég óttast að muni gerast ef engu verður breytt. Árangurinn næst ekki nema við "treatum" gesti okkar á tilhlýðilegan hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2008 | 20:12
Of margþætt verkefni?
Frumvarpið um rannsóknarnefndina er komið fram og uppskrift að skipun hennar. Þetta verkefni hefði átt að byrja fyrir sex vikum síðan, en betra seint en aldrei. En er ekki verkefnaskráin of margþætt fyrir þriggja manna nefnd?
Umboðsamður Alþingis er væntanlega fulltrúi almennings í nefndinni, einn dómari úr Hæstarétti auk sérfræðings sem ekki kemur fram hvernig verður valinn. Það sem ég hnýt um eru fyrstu tveir töluliðirnir á "verkefnaskránni", sér í lagi þessi númer 2.
Það að gera úttekt á reglum íslenskra laga er tímafrekt nostur. Ef svo á að bera þetta saman við reglur annarra landa er hætt við að það taki mikinn tíma sem maður hefði haldið að væri betur varið í beinar rannsóknir. Úttekt og stöðuskýrslu er hægt að fela tveimur lögfræðingum að skila til nefndarinnar.
Fær nefndin kannski að ráða starfsmenn? Það kemur ekki fram, en hún má óska alls kyns gagna. Ef þrír menn eiga að vinna öll verkefnin sem talin eru upp er hætta á að athyglin dreifist á of marga þætti. Fókusinn þarf að vera á því sem skiptir máli.
Það er mikil tortryggni í garð fjármálafyrirtækja og ekki minnkaði hún í vikunni þegar starfsmaður hjá Virðingu (sem enginn hafði heyrt minnst á) náði að skolað út 250 milljónum. Þá er eðlilegt að menn gruni stærri félög um eitthvað misjafnt, félög sem hafa margfalt meiri veltu til að fela það sem er á svig við lagabókstafinn.
Það sem er sérlega gott við frumvarpið er að nefndinni eru gefnar mjög rúmar rannsóknarheimildir og leyfi til að skoða allt, þingið og ríkisstjórnina líka. Bankaleynd og önnur þagnarskylda gildir ekki um rannsóknarnefndina.
![]() |
Rannsóknarfrumvarpi dreift |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)