20.4.2009 | 18:02
Einangrun innan ESB
"Einangrun eða ESB" segir í fyrirsögn greinar á sem birt var á vef ungra jafnaðarmanna í liðinni viku. (Vekur athygli að móðurskip ungliðanna, samfylkingin.is, er hýst erlendis! Hefur Samfylkingin enga trú á íslenskum fyrirtækjum eða vill hún bara ekki taka þátt í að efla atvinnu.) Í inngangi er velt upp tveimur spurningum, sem sagðar eru hinir "skýru valkostir" og þeirra verði kjósendur að spryja sig áður en gengið er til kosninga.
Vil ég að Ísland loki sig af?
Vil ég að Ísland sé hluti af alþjóðasamfélaginu?
Svar: Ég vil að Ísland sé áfram virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna, en alls ekki að Ísland loki sig af inni í ESB. Sú einangrunarstefna er ekki góð.
Auðvitað veit ég að greinarhöfundur meinti þetta ekki svona, enda ungur jafnaðarmaður. Allir ungir jafnaðarmenn eiga að styðja uppgjafarstefnu Samfylkingarinnar sem gengur út á að byggja "velferðarbrú til Brussel". Þeim ber líka að trúa því að innganga í ESB sé "stefna í peningamálum" og að án inngöngu breytist Ísland í Kúbu norðursins. Það er línan.
Spurningarnar tvær eru byggðar á einni af nokkrum helstu klisjum sem notaðar eru í gagnrýni einangrunarsinna í garð þeirra sem vilja að Ísland standi áfram utan ESB. Hinar varða fullveldið, meintan dauða krónunnar, áhrifaleysi á lagasetningu og fleira. Nýjasta trikkið í hræðsluáróðrinum er að segja "annars verðum við rekin úr EES". Þá eigum við að vera hrædd og halda að við færumst hálfa öld aftur í tímann. Bretar reyndu að kalla fram þessi árhrif 1975 með löndunarbanni í þorskastríðinu. Læt duga að sinni að fjalla um "einangrunina".
Í hverju felst svo einangrunin?
Ísland á aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum, sem varða flesta þætti samfélagsins og mannlífsins: Viðskipti, atvinnu, menningu, listir, umhverfismál, mannréttindi, heilbrigðismál, náttúruvernd, öryggismál og fjölda marga málaflokka aðra. Þó Íslendingar taki ákvörðun um að bæta ekki 60. klúbbnum við verður okkur ekki úthýst úr hinum 59. Við verðum áfram í þeim og virkir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Og getum áfram átt full og óhindruð samskipti við stór lönd og smá í öllum heimsálfum.
Ef við hins vegar göngum í ESB breytist þetta, ekki síst á sviði viðskipta.
Núna eru t.d. í gildi fríverslunarsamningar EFTA við Kanada, S-Kóreu og fleiri lönd. Ísland, sem EFTA ríki, á aðild að þeim en þessi lönd eru ekki með samninga við ESB. Að auki á EFTA í viðræðum við nokkur ríki til viðbótar, m.a. Indland og Rússland, auk viðræðna sem Kínverjar stofnuðu til við Ísland um fríverslunarsamning.
Ef Ísland gengur í ESB er okkur ekki lengur leyfilegt að gera frjálsa viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem Ísland myndi þar með tilheyra tollabandalagi sambandsins og samningar þess gilda fyrir Ísland.
Innganga í ESB er ekki tímabundin redding. Hvort skyldi vera betri kostur til framtíðar, þegar endurreisa þarf Ísland, að þurfa að láta öll erindi ganga í gegnum Brussel eða hafa fullt vald til að eiga frjáls samskipti við allan heiminn?
20.4.2009 | 14:01
Klámhundurinn Benedikt
Jóhanna vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax eftir kosningar og hefja viðræður í júní. Hún fékk heldur betur stuðning við málstaðinn í Silfri Egils í gær. Orðið "kreppuklám" kom upp í hugann þegar hlustað var á makalausan málflutning Benedikts Jóhannessonar. Þetta orð hefur verið notað um þá sem reyna að vera krassandi í málflutningi sínum og mála skrattann á vegginn. Maðurinn klæmdist út í eitt.
Ef marka má orð Benedikts er ESB gerspilltur klúbbur þar sem klíkuskapur og fyrirgreiðsla skipta öllu máli. Ekki lögin og reglurnar. Það þarf að hafa samband við "réttu mennina" til að redda málunum, nokkuð sem í daglegu tali er kallað spilling. Svona svipað og þegar bankar voru einkavæddir á Íslandi og "réttu mennirnir" máttu kaupa.
Það sem Benedikt sagði m.a. var:
Svíar eru að taka við forsæti í ESB og við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Finninn Olli Rehn er stækkunarstjóri ESB, við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Maltverjar fara með sjávarútvegsmál. Þeir eru smáþjóð eins og við svo við verðum að flýta okkur inn á meðan. Annars gætu kannski Spánverjar tekið við og við óttumst þá.
Hvers konar bull er þetta?
Er Benedikt í alvöru að segja að þjóðerni kommissara í Framkvæmdastjórn ESB skipti einhverju máli? Að það sé geðþótti embættismanna sem ráði úrslitum en ekki lög og reglur? Hvaða rugl er þetta í manninum? Nema að hann sé að upplýsa okkur um að grunnsamningar Evrópusambandsins séu bara upp á punt en stóru strákarnir í Brussel ráði.
Er þetta kannski ekki bull?
Ef Benedikt er ekki að bulla er ástæða til að hafa verulega áhyggjur af því sem hann sagði um sjávarútvegsmál. Svo miklar að Íslendingum er hollast að halda sig eins langt í burtu frá ESB og mögulegt er. Það hefur verið margítrekað að Íslendingar muni sitja einir að veiði í lögsögu sinni þó að við göngum inn og því sé ekkert að óttast. Svo kemur þessi Benedikt og segir að við þurfum að flýta okkur því annars gæti spænskur kommissar tekið við sjávarútvegsmálum!!!
Óttast hvað?
Að spænskum útgerðum verði þá úthlutað veiðiheimildum við Ísland? Geta þeir þá tekið geðþóttaákvarðanir til að hygla spænskum útgerðum? Verða allar reglurnar sem búið er að hamra á ógildar um leið og Spánverjar taka við?
Þetta er hræðsluáróður af síðustu sort. Sannkallað kreppuklám. Það er í samræmi við Moggagrein Benedikts þar sem hann setur fram dómsdagsspá í sjö tölusettum liðum. Segir m.a. að núna vilji enginn lána Íslendingum peninga, en lítur framhjá að það gildir um önnur lönd líka, um allan heim. Það er kreppa sem teygir sig til allra heimshorna. Svo segir hann að við veðum fátæk þjóð í höftum ef við flýtum okkur ekki inn í ESB á meðan "réttu mennirnir" ráða. Svo spáir hann "seinna hruni" til að gera þetta verulega flott (líklega misskilið eitthvað það sem Robert Wade sagði í nóvember).
Auðvitað er þetta krassandi, enda rataði greinin bæði á visir.is og eyjan.is. Djúsí kreppuklám vekur meiri viðbrögð en málefnaleg umræða. Klámið selur.
Nú er stutt í kosningar og kannski eiga fleiri eftir að nota sömu meðöl. En í augnablikinu fær Benedikt að njóta þess að vera "Klámhundur ársins" í kreppumálum, hingað til.
![]() |
ESB-viðræður í júní? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2009 | 09:31
Bannað að tala um EVRUNA
Hvernig dreifir maður jafnaðarstefnu? Samkvæmt frétt mbl eru Samfylkingarkonur að "dreifa jafnaðarstefnu auk íslenskra rósa og birkis".
Stefna Samfylkingar, eins og kunnugt er, gengur út á að byggja velferðarbrú til Brussel. Umræðan hefur því miður snúist allt of mikið um efnahagsmál og evruna.
Það væri mikill fengur í því ef bæði andstæðingar og fylgjendur ESB myndu boða til fundar þar sem skipst yrði á skoðunum. Frummælendur og fyrirspurnir, allt í þágu þess að upplýsa fundargesti um sambandið sjálft.
Þessi fundur ætti að vera þannig að það væri bannað að tala um evruna.
Hvers vegna?
Jú, til þess að fá einu sinni umræðu um sjálft Evrópusambandið. Hvað það er og hvernig það virkar. Nokkrar af helstu spurningunum væru:
- Hvaða valdaafsal felst í inngöngu?
- Hver fær völdin í hendur og hvernig er farið með þau?
- Hvað felst í orðunum "formleg yfirráð" yfir t.d. auðlindum?
- Hvers vegna er kjörsókn aðeins 46% þegar kosið er til Evrópuþingsins?
- Hvers vegna er lýðræði í ESB svona lítið/máttvana?
Og hver er tilgangurinn?
Að menn líti aðeins upp úr krepputalinu sem mengar ESB umræðuna hættulega mikið. Hætti í smá stund að tala um ESB sem gjaldmiðil eða inngöngu sem reddingu á kreppunni. Beini sjónum að því hver staða okkar innan sambandsins yrði 10 árum eftir að kreppan er búin og gleymd.
Kynna t.d. hver áhrif okkar yrðu á ákvarðanatöku, frumvarpasmíði og lagasetningu í samanburði við þau áhrif sem við höfum núna í gegnum EFTA og hina sameiginlegu EES nefnd. Kynna hvernig samskiptum við lönd utan ESB yrði háttað eftir inngöngu, hvaða reglur gilda um viðskipti við þau lönd og fleira í þeim dúr.
... og svo Lissabon:
Síðast en ekki síst að kynna þær breytingar sem eru boðaðar í Lissabon samningnum.
- Hvers vegna er verið að hverfa frá einróma samþykki í mörgum málaflokkum?
- Hver er tilgangurinn með hinu nýja embætti utanríkisráðherra ESB?
- Af hverju á að setja "þjóðhöfðingja" yfir Evrópusambandið?
- Er til bóta að færa löggjöf á sviði orkumála til Brussel?
- Af hverju á Framkvæmdastjórnin að geta aukið vald sitt án umboðs frá kjósendum?
- Er hægt að semja við ESB á meðan örlög Lissabon samningsins eru í óvissu?
Það væri miklu meiri fengur fyrir íslenskan almenning að fá svona umræðu heldur en þann hanaslag sem tekur mest pláss þessa dagana. Sá slagur er mjög litaður af kosningaskjálfta. En því miður geri ég mér ekki miklar vonir um alvöru umræður af þessu tagi. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að Samfylkingin sé á móti vegna þess að meiri upplýsingar um ESB myndu þýða minna fylgi við inngöngu.
Fordæmið er til og það er vítið sem Samfylkingin vill varast. Það er þegar Stjórnarskrá Evrópusambandsins var borin undir þjóðaratkvæði 2005. Forseti Frakklands vildi treysta almenningi, lét prenta samninginn og bera í hvert hús í Frakklandi. Á innan við viku jókst andstaðan um 10 prósentustig. Stjórnaskráin var felld.
![]() |
Dreifa blómum og birki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2009 | 14:52
Evran, fíbbl og atvinnuleysi
Ekki get ég séð að upptaka evru í samvinnu við AGS sé betri en upptaka evru með inngöngu í ESB. En það er einfaldlega óhjákvæmilegt að atvinnuleysi mun aukast á Íslandi við inngöngu í ESB og upptöku evru. Þetta útskýrir Eiríkur Bergmann prýðilega í svari sem Illugi Jökulsson birtir á DV-blogginu sínu í gær.
Eiríkur Bergmann, sem er í Samfylkingunni og dósent á Bifröst, er "einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum" að sögn Illuga, sem jafnframt bendir á að þurfi að gæta að fræðimannsheiðri sínum "svo varla fer hann að ljúga einhverju að okkur!"
Kíkjum aðeins á hvað einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum segir um málið.
Inngangan sjálf hefur ekki áhrif á atvinnustig. Atvinnuleysi er mismunandi eftir löndum innan ESB og Ísland er þegar virkur þátttakandi á innri markaði ESB. Þess vegna hefur innganga ekki áhrif á atvinnustig, ekki freka en á hitastig á Fróni.
"Á hinn bóginn; ef Ísland myndi einnig taka upp evru ..."
Hægan, hægan!!
Hvað á hann við með EF? Það fer ekki framhjá neinum að evran er stóra markmiðið í ESB stefnu Samfylkingarinnar. Til þess er leikurinn gerður. ESB aðild er ítrekað kynnt sem "stefna í peningamálum". Hvað um það, höldum áfram með svarið.
Á hinn bóginn; ef Ísland myndi einnig taka upp evru, þá þarf að vera hægt að mæta áföllum í efnahagslífinu með nafnlaunalækkunum í stað þess að færa raunlaun niður í gegnum verðbólgu eins og jafnan hefur verið á Íslandi.
Án svoleiðis sveigjanleika, að geta lækkað nafnlaun í frjálsum samningum á vinnumarkaði, gæti evran mögulega haft í för með sér aukið atvinnuleysi.
(leturbreyting mín)
Getur einhver séð fyrir sér að laun á Íslandi (eftir kreppu) verði lækkuð í frjálsum samningum á vinnumarkaði? Það þarf ekki annað en að skoða viðbrögðin við orðum Katrínar Jakobsdóttur um daginn, um launalækkun sem nauðvörn í kreppu.
Ímyndum okkur niðurskuð á kvóta eða bara sýkta síld. Forsætisráðherra tilkynnir að þar sem við höfum ekki lengur okkar eigin gjaldmiðil og engin tök á að laga gengið að breyttum aðstæðum hafi stjórnvöld áveðið - í fullri samvinnu við öll launþegasamtök í landinu - að lækka laun um 7%. Allir segja já, já og eru sáttir.
Það þarf ekki að útskýra fyrir þeim sem komnir eru yfir fermingu, að þetta myndi aldrei ganga. Sátt um lækkun launa með handafli, sem eðlilegar aðgerðir í efnahagsstjórn! Aldrei. Samdrátturinn kæmi fram í atvinnuleysi eins og reynsla fjölmargra ESB þjóða sýnir. Staða þeirra er vissulega misjöfn, en sérstaða Íslands í atvinnumálum er slík að hætt er við að atvinnuleysisdraugurinn sæti sem fastast hér á Fróni.
Í kosningaloforðum Samfylkingar er talað um að skapa ný störf, koma öllum vinnufúsum höndum til starfa og útrýma atvinnuleysi. Um leið er talað um að ganga í ESB og taka upp evruna sem leiðir af sér aukið atvinnuleysi. Þetta rímar ekki vel saman.
Í lokin á samantekt Eiríks Bergmann kemur svo skýring í anda Árna Páls Árnasonar, sem telur að erfiður efnahagur evru-landanna sé ekki evrunni að kenna, heldur vegna þess að fólk kjósi yfir sig fífl. Einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum tekur í sama streng þegar hann útskýrir hvers vegna evran leiði til atvinnuleysis:
En þá er líka við lélega stjórnmálamenn að sakast, en ekki gjaldmiðilinn, - sem ætti samkvæmt reynslu annarra ríkja að auka til muna aga í innlendri hagstjórn.
Þá vitum við það. Ef við erum með íslenska krónu og allt fer í steik, er það krónunni að kenna. Ef við erum með þýsk/franska evru og allt fer í steik, er það stjórnmálamönnunum að kenna. Eða öllu heldur kjósendum sem eru svo mikil fífl og kjósa yfir sig fífl.
Þó að Eiríkur Bergmann sé einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum get ég bara ekki samþykkt að í Portúgal, á Ítalíu, Írlandi, Grikklandi, Spáni og mörgum öðrum ESB löndum séu eintóm fífl við stjórn. Þessi lönd glíma, eins og Ísland, við mikla erfiðleika í efnahagsmálum. Það er nærtækara að líta á það sem þessi lönd eiga sammerkt í peningamálum: Þau eru öll með gjaldmiðil sem þau hafa enga stjórn yfir. Pikkföst í handjárnum evrunnar.
Sem sagt:
Ef evran kemur til Íslands þá fer atvinnuleysið aldrei. Einn helsti sérfræðingur landsins í ESB-fræðum hefur útskýrt þetta prýðilega.
![]() |
Vilja upptöku evru í samvinnu við AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2009 | 14:56
Mynd segir meira en 1.000 orð
Í myndatexta með viðtengdri frétt stendur: "Fánar Evrópusambandsins blakta utan við höfuðstöðvar Framkvæmdastjórnar ESB í Brussel."
Og hvaða fánar eru þetta? Bretlands, Danmerkur, Hollands, Grikklands, Póllands, Ítalíu, Þýskalands ... ?
Þeir eru, talið frá vinstri:
Fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB, fáni ESB og fáni ESB.
Fánar hinna þjóðanna 14 sjást ekki á myndinni.
Þetta er í fullkomnu samræmi við hinar boðuðu breytingar í Lissabon samningnum: Að breyta ESB úr sambandi 27 sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki.
![]() |
5 sérálit nefndar um Evrópumál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.4.2009 | 09:41
Nú þyngist ESB trúboðið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.4.2009 | 19:59
Æ, æ, kjaftshöggið gleymdist
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2009 | 15:57
EVRAN að kæfa gríska ferðaþjónustu
8.4.2009 | 14:34
Töfralausn #4 fyrir Joð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2009 | 17:42
"Stríðið gegn Íslandi"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2009 | 11:18
ESB - fyrir þá sem vilja gefast upp
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.4.2009 | 00:26
Skítt með stjórnarskána
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2009 | 18:38
Tvennar ESB kosningar eru nauðsyn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2009 | 16:58
Skammarleg meðferð á gömlu fólki
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2009 | 00:55
Að flytja (út) vald
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)