Skítt með stjórnarskána

Frá því fyrir áramót verið hefur rætt um stjórnlagaþing. Tilgangurinn er að semja nýja stjórnarskrá til þess m.a. að efla Alþingi og styrkja lýðræðið. Þannig skal uppræta vonda stjórnsýslu og tryggja að lagafrumvörp verði ekki öll smíðuð í ráðuneytunum og stimpluð á Alþingi. Skerpa skal á þrískiptingu valdsins, tryggja almenn mannréttindi og setja fram aðrar þær reglur og tilmæli sem stjórnarskrá er ætlað að geyma. Svo á að afgreiða útkomuna með þjóðaratkvæði.

Það er hið besta mál.

Þessa dagana þrefa menn á þingi um breytingar á stjórnarskránni sem hafa ekkert með stjórnlagaþing að gera, heldur að ná fram breytingum til að búa í haginn fyrir hið eina pólitíska baráttumál Samfylkingarinnar; að ganga í Evrópusambandið.

Þessu er pakkað í huggulegar umbúðir, með einu ákvæði um auðlindir, örðu um þjóðaratkvæði og viðauka um stjórnlagaþing. Ef skoðaðar eru breytingartillögur og nefndarálit mætti ætla að frumvarpið hafi verið rissað upp í flýti. Mætti reyndar setja skýrari ákvæði um tímafresti en gert er í nefndarálitinu.

Það er 2. greinin sem er stóra málið. Þó það sé kannski ekki verra að breyta stjórnarskrá með lagasetningu og þjóðaratkvæði en með núgildandi reglum, þá eru það ástæðurnar sem að baki liggja sem taka af þessu allan glansinn. Auk þess á Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að hafa virðingarsess umfram önnur lög. Það er ekki við hæfi að breyta henni eins og verið sé að afgreiða lög um vörugjald af nagladekkjum.

Ef minnihlutastjórn, sem starfar í þrjá mánuði, getur knúið fram slíkar breytingar á stjórnarskránni, er þá einhver þörf fyrir stjórnlagaþing? Ef þingið getur reddað svona snúningum með bakhöndinni, til hvers að kosta milljarði til stjórnlagaþings sem fengi bara að þrefa um forsetaembættið og þjóðkirkjuna? Og hvað ef stjórnlagaþingið kæmist að annarri niðurstöðu en Alþingi?

Það er einhver falskur tónn í þessu. Er ekki tilgangurinn með stjórnlagaþingi einmitt sá að koma vinnunni upp úr flokkspólitískum hjólförum? Að valdhafar semji ekki við sjálfa sig? Samt á að gera þetta svona.
mbl.is Bullandi ágreiningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband