Færsluflokkur: Evrópumál

ESB: Fagur fiskur í sjó ...

Mogginn flytur frétt um að Ísland hafi staðið í vegi fyrir samþykkt á ESB-lögum um þjónustu. Á sama tíma birtir Vísir.is aðra frétt um fiskveðiréttindi innan ESB. Skyldi vera ástæða fyrir Ísland að standa í vegi fyrir breytingum sem þar eru boðaðar?

Ég ætla ekki að skrifa eitt einasta orð um þá frétt. Þá myndi einhver ESB sinni koma með upphrópanir um hræðsluáróður. Í staðinn læg ég hana fljóta með hérna, orðrétt og óbreytta. Aðeins leturbreytingar eru mínar. 

Fréttin af visir.is

 

Ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB

Ekki er tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum innan ESB samkvæmt reglunni um hlutfallslegan stöðugleika. Þetta eru niðurstöður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem reifaðar eru í svokallaðri Grænbók um sjávarútvegsstefnu sambandsins. Skýrslan var kynnt fyrr í vikunni.

Bendir framkvæmdastjórnin á að þess hafi orðið vart að ríki innan ESB stæðu í viðskiptum sín í milli með veiðiheimildir. Mikið ósamræmi væri orðið milli þess hve miklar veiðiheimildir aðildarríkin hefðu og raunverulega veiðigetu skipaflota þeirra. Framkvæmdastjórnin telur því mikilvægt að endurskoða regluna um hlutfallslegan stöðugleika.

Bendir framkvæmdastjórnin á þrennskonar lausnir í stað reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Í fyrsta lagi væri mögulegt að taka upp framseljanlegar veiðiheimildir. Önnur leið væri að halda reglunni í meginatriðum, en taka upp sérstaka þjóðarkvóta sem yrði í samræmi við þarfir skipaflota hverrar þjóðar. Þriðja leiðin væri að taka upp 12 mílna landhelgisreglu sem tryggði aðildarríkjum einkarétt á veiði innan þeirra landhelgi.
 


mbl.is Frestuðu samþykkt á ESB-lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Er ekkert plan B?"

Jóhanna tekur af öll tvímæli, innganga í ESB það sem Samfylkingin snýst um. Á framboðsfundi RÚV komu spurningar frá áhorfendum. Ein þeirra var: "Eruð þið ekki með neitt plan B?"

Henni var beint til Samfylkingar. Hvað þeir ætluðu að gera ef aðrir vildu ekki fara í aðildarviðræður eða innganga í ESB væri ekki samþykkt af þjóðinni. Bankamálaráðherrann fyrrverandi rappaði svolítið um efnið og í ljós koma að Samfylkingin er ekki með neitt plan B. Eingöngu plan e-s-B.


Þetta kom líka vel í ljós á vinnustaðafundi í gær. Þá fékk minn vinnustaður tvo frambjóðendur S-lista í heimsókn í hádeginu. Ágætis fólk, bæði tvö. Frá því að þau heilsuðu og kynntu sig liðu 37 sekúndur þar til þau sögðu "... ganga í ESB og taka upp evru".

Mestur hluti fundartímans fór í að tala um ESB. Undir lokin náðu önnur mál loks að komst að. Það voru skuldir heimilana, greiðslubyrði lána og skjaldborgin sem sumir segjast ekki hafa séð. Þau ræddu við fundargesti um málið og svo kom lausnin: Við leysum þetta með vextina og verðtrygginguna með því að ganga í ESB og taka upp evru.

Það er auðvitað kostur í stöðunni að vera ekki með neitt plan B. Að standa bara og falla með bjargfastri trú sinni og vera í stjórnarandstöðu ef ekki vill betur. Það felst vissulega heiðarleiki í því.


mbl.is Til Evrópu með VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarbrú til Brussel

Nú talar Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptráðherrann sem svaf á vaktinni þegar bankakerfið hrundi, um að Evrópustefnan verði að var á hreinu. Ég er ekki hissa á því, það er eina stefna Samfylkingarinnar.

Þegar Jóhann Sigurðardóttir mætti í sitt fyrsta Kastjósviðtal sem forsætisráðherra, svaraði hún átján spurningum með "við munum skoða það".

Núna fyrir helgina svara hún, eins og aðrir flokksleiðtogar, 24 spruningum Fréttablaðsins. Flestum þeirra er svarað með "Já, ef það reynist hagkvæmt" eða "Já, ef menn telja það skynsamlegt". Engin hrein svör, bara önnur útgáfa af "við munum skoða það"

Ég finn stundum til með Jóhönnu af því að ég tel hana ærlegan stjórnmálamann. Hún er eini stjórnmálamaðurinn í Samfylkingunni. Fyrir tveimur árum vildi hún fara varlega í Evrópumálum, en eftir að hún neyddist til að taka að sér formennsku í Samfylkingunni, hefur hún ekki átt annars kost en að kyrja trúboðið með öllum hinum. Dæmd til að vera forsöngvari.


Það voru samt fjórar spurningar Fréttablaðsins sem Jóhanna gat svarað hreint og hiklaust. Þær voru:

  • Að sækja strax um aðild að ESB
  • Að taka upp evruna
  • Að byggja álver
  • Að afturkalla kvótann í áföngum

Auðvitað eru engar forsendur til að byggja álver á næstunni og því óhætt að lofa því. En þetta með kvótann er magnað. Helgi Hjörvar upplýsti (líklega óvart) að Samfylkingin hefði ekki ætlað að hafa neina stefnu um sjávarútveg. Einhverjir ákváðu að bjarga andlitinu á landsfundi og rissuðu upp "fyrningaleið" í flýti. Þannig á að ná kvótanum af útgerðinni í áföngum, líka þeim sem greiddu hann fullu verði og þáðu ekki gjafakvóta.

Fyrningaleiðin hentar vel til að veikja varnirnar. Taka kvótann, koma útgerðinni örugglega á hausinn og leggja landsbyggðina í rúst. Þá er eftirleikurinn auðveldari, að koma allri þjóðinni inn í ESB. Þetta er grunnurinn sem uppgjafarstefna Samfylkingarinnar stendur á; að byggja velferðarbrú til Brussel og leggja niður Ísland, eins og við þekktum það.

Það er ekkert hættulegra fyrir framtíð Íslands en uppgjafarstefna Samfylkingarinnar.


mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einangrun innan ESB

"Einangrun eða ESB" segir í fyrirsögn greinar á sem birt var á vef ungra jafnaðarmanna í liðinni viku. (Vekur athygli að móðurskip ungliðanna, samfylkingin.is, er hýst erlendis! Hefur Samfylkingin enga trú á íslenskum fyrirtækjum eða vill hún bara ekki taka þátt í að efla atvinnu.) Í inngangi er velt upp tveimur spurningum, sem sagðar eru hinir "skýru valkostir" og þeirra verði kjósendur að spryja sig áður en gengið er til kosninga.

Vil ég að Ísland loki sig af?

Vil ég að Ísland sé hluti af alþjóðasamfélaginu?


Svar: Ég vil að Ísland sé áfram virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna, en alls ekki að Ísland loki sig af inni í ESB. Sú einangrunarstefna er ekki góð.

Auðvitað veit ég að greinarhöfundur meinti þetta ekki svona, enda ungur jafnaðarmaður. Allir ungir jafnaðarmenn eiga að styðja uppgjafarstefnu Samfylkingarinnar sem gengur út á að byggja "velferðarbrú til Brussel". Þeim ber líka að trúa því að innganga í ESB sé "stefna í peningamálum" og að án inngöngu breytist Ísland í Kúbu norðursins. Það er línan.

ESBSpurningarnar tvær eru byggðar á einni af nokkrum helstu klisjum sem notaðar eru í gagnrýni einangrunarsinna í garð þeirra sem vilja að Ísland standi áfram utan ESB. Hinar varða fullveldið, meintan dauða krónunnar, áhrifaleysi á lagasetningu og fleira. Nýjasta trikkið í hræðsluáróðrinum er að segja "annars verðum við rekin úr EES". Þá eigum við að vera hrædd og halda að við færumst hálfa öld aftur í tímann. Bretar reyndu að kalla fram þessi árhrif 1975 með löndunarbanni í þorskastríðinu. Læt duga að sinni að fjalla um "einangrunina".


Í hverju felst svo einangrunin?

Ísland á aðild að 59 alþjóðlegum stofnunum, sem varða flesta þætti samfélagsins og mannlífsins: Viðskipti, atvinnu, menningu, listir, umhverfismál, mannréttindi, heilbrigðismál, náttúruvernd, öryggismál og fjölda marga málaflokka aðra. Þó Íslendingar taki ákvörðun um að bæta ekki 60. klúbbnum við verður okkur ekki úthýst úr hinum 59. Við verðum áfram í þeim og virkir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Og getum áfram átt full og óhindruð samskipti við stór lönd og smá í öllum heimsálfum.

Ef við hins vegar göngum í ESB breytist þetta, ekki síst á sviði viðskipta.

Núna eru t.d. í gildi fríverslunarsamningar EFTA við Kanada, S-Kóreu og fleiri lönd. Ísland, sem EFTA ríki, á aðild að þeim en þessi lönd eru ekki með samninga við ESB. Að auki á EFTA í viðræðum við nokkur ríki til viðbótar, m.a. Indland og Rússland, auk viðræðna sem Kínverjar stofnuðu til við Ísland um fríverslunarsamning.

Ef Ísland gengur í ESB er okkur ekki lengur leyfilegt að gera frjálsa viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem Ísland myndi þar með tilheyra tollabandalagi sambandsins og samningar þess gilda fyrir Ísland. 

Innganga í ESB er ekki tímabundin redding. Hvort skyldi vera betri kostur til framtíðar, þegar endurreisa þarf Ísland, að þurfa að láta öll erindi ganga í gegnum Brussel eða hafa fullt vald til að eiga frjáls samskipti við allan heiminn? 

 


Klámhundurinn Benedikt

Jóhanna vill sækja um aðild að Evrópusambandinu strax eftir kosningar og hefja viðræður í júní. Hún fékk heldur betur stuðning við málstaðinn í Silfri Egils í gær. Orðið "kreppuklám" kom upp í hugann þegar hlustað var á makalausan málflutning Benedikts Jóhannessonar. Þetta orð hefur verið notað um þá sem reyna að vera krassandi í málflutningi sínum og mála skrattann á vegginn. Maðurinn klæmdist út í eitt. 

Ef marka má orð Benedikts er ESB gerspilltur klúbbur þar sem klíkuskapur og fyrirgreiðsla skipta öllu máli. Ekki lögin og reglurnar. Það þarf að hafa samband við "réttu mennina" til að redda málunum, nokkuð sem í daglegu tali er kallað spilling. Svona svipað og þegar bankar voru einkavæddir á Íslandi og "réttu mennirnir" máttu kaupa.

Það sem Benedikt sagði m.a. var: 

Svíar eru að taka við forsæti í ESB og við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Finninn Olli Rehn er stækkunarstjóri ESB, við verðum að flýta okkur inn á meðan. Ekki missa af lestinni. Maltverjar fara með sjávarútvegsmál. Þeir eru smáþjóð eins og við svo við verðum að flýta okkur inn á meðan. Annars gætu kannski Spánverjar tekið við og við óttumst þá.

Hvers konar bull er þetta?

Er Benedikt í alvöru að segja að þjóðerni kommissara í Framkvæmdastjórn ESB skipti einhverju máli? Að það sé geðþótti embættismanna sem ráði úrslitum en ekki lög og reglur? Hvaða rugl er þetta í manninum? Nema að hann sé að upplýsa okkur um að grunnsamningar Evrópusambandsins séu bara upp á punt en stóru strákarnir í Brussel ráði. 

Er þetta kannski ekki bull?

Ef Benedikt er ekki að bulla er ástæða til að hafa verulega áhyggjur af því sem hann sagði um sjávarútvegsmál. Svo miklar að Íslendingum er hollast að halda sig eins langt í burtu frá ESB og mögulegt er. Það hefur verið margítrekað að Íslendingar muni sitja einir að veiði í lögsögu sinni þó að við göngum inn og því sé ekkert að óttast. Svo kemur þessi Benedikt og segir að við þurfum að flýta okkur því annars gæti spænskur kommissar tekið við sjávarútvegsmálum!!!

Óttast hvað?

Að spænskum útgerðum verði þá úthlutað veiðiheimildum við Ísland? Geta þeir þá tekið geðþóttaákvarðanir til að hygla spænskum útgerðum? Verða allar reglurnar sem búið er að hamra á ógildar um leið og Spánverjar taka við?

 

Þetta er hræðsluáróður af síðustu sort. Sannkallað kreppuklám. Það er í samræmi við Moggagrein Benedikts þar sem hann setur fram dómsdagsspá í sjö tölusettum liðum. Segir m.a. að núna vilji enginn lána Íslendingum peninga, en lítur framhjá að það gildir um önnur lönd líka, um allan heim. Það er kreppa sem teygir sig til allra heimshorna. Svo segir hann að við veðum fátæk þjóð í höftum ef við flýtum okkur ekki inn í ESB á meðan "réttu mennirnir" ráða. Svo spáir hann "seinna hruni" til að gera þetta verulega flott (líklega misskilið eitthvað það sem Robert Wade sagði í nóvember). 

Auðvitað er þetta krassandi, enda rataði greinin bæði á visir.is og eyjan.is. Djúsí kreppuklám vekur meiri viðbrögð en málefnaleg umræða. Klámið selur. 

Nú er stutt í kosningar og kannski eiga fleiri eftir að nota sömu meðöl. En í augnablikinu fær Benedikt að njóta þess að vera "Klámhundur ársins" í kreppumálum, hingað til.

 


mbl.is ESB-viðræður í júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að tala um EVRUNA

Hvernig dreifir maður jafnaðarstefnu? Samkvæmt frétt mbl eru Samfylkingarkonur að "dreifa jafnaðarstefnu auk íslenskra rósa og birkis".

Stefna Samfylkingar, eins og kunnugt er, gengur út á að byggja velferðarbrú til Brussel. Umræðan hefur því miður snúist allt of mikið um efnahagsmál og evruna.

Það væri mikill fengur í því ef bæði andstæðingar og fylgjendur ESB myndu boða til fundar þar sem skipst yrði á skoðunum. Frummælendur og fyrirspurnir, allt í þágu þess að upplýsa fundargesti um sambandið sjálft.

Þessi fundur ætti að vera þannig að það væri bannað að tala um evruna.

Hvers vegna?
Jú, til þess að fá einu sinni umræðu um sjálft Evrópusambandið. Hvað það er og hvernig það virkar. Nokkrar af helstu spurningunum væru:

  • Hvaða valdaafsal felst í inngöngu?
  • Hver fær völdin í hendur og hvernig er farið með þau?
  • Hvað felst í orðunum "formleg yfirráð" yfir t.d. auðlindum?
  • Hvers vegna er kjörsókn aðeins 46% þegar kosið er til Evrópuþingsins?
  • Hvers vegna er lýðræði í ESB svona lítið/máttvana?


Og hver er tilgangurinn?
Að menn líti aðeins upp úr krepputalinu sem mengar ESB umræðuna hættulega mikið. Hætti í smá stund að tala um ESB sem gjaldmiðil eða inngöngu sem reddingu á kreppunni. Beini sjónum að því hver staða okkar innan sambandsins yrði 10 árum eftir að kreppan er búin og gleymd.

Kynna t.d. hver áhrif okkar yrðu á ákvarðanatöku, frumvarpasmíði og lagasetningu í samanburði við þau áhrif sem við höfum núna í gegnum EFTA og hina sameiginlegu EES nefnd. Kynna hvernig samskiptum við lönd utan ESB yrði háttað eftir inngöngu, hvaða reglur gilda um viðskipti við þau lönd og fleira í þeim dúr.

... og svo Lissabon:
Síðast en ekki síst að kynna þær breytingar sem eru boðaðar í Lissabon samningnum.

  • Hvers vegna er verið að hverfa frá einróma samþykki í mörgum málaflokkum?
  • Hver er tilgangurinn með hinu nýja embætti utanríkisráðherra ESB?
  • Af hverju á að setja "þjóðhöfðingja" yfir Evrópusambandið?
  • Er til bóta að færa löggjöf á sviði orkumála til Brussel?
  • Af hverju á Framkvæmdastjórnin að geta aukið vald sitt án umboðs frá kjósendum?
  • Er hægt að semja við ESB á meðan örlög Lissabon samningsins eru í óvissu?


Það væri miklu meiri fengur fyrir íslenskan almenning að fá svona umræðu heldur en þann hanaslag sem tekur mest pláss þessa dagana. Sá slagur er mjög litaður af kosningaskjálfta. En því miður geri ég mér ekki miklar vonir um alvöru umræður af þessu tagi. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að Samfylkingin sé á móti vegna þess að meiri upplýsingar um ESB myndu þýða minna fylgi við inngöngu.

Fordæmið er til og það er vítið sem Samfylkingin vill varast. Það er þegar Stjórnarskrá Evrópusambandsins var borin undir þjóðaratkvæði 2005. Forseti Frakklands vildi treysta almenningi, lét prenta samninginn og bera í hvert hús í Frakklandi. Á innan við viku jókst andstaðan um 10 prósentustig. Stjórnaskráin var felld.

 


mbl.is Dreifa blómum og birki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EVRAN að kæfa gríska ferðaþjónustu

"Hátt gengi evrunnar gagnvart breska pundinu og gjaldmiðlum ríkja í Austur-Evrópu hefur dregið úr samkeppnishæfi Grikkja gagnvart nágrannaríkjunum svo sem Tyrklandi og Egyptalandi sem eru með sinn eigin gjaldmiðil..." segir m.a. í þessari frétt.

Bara að Grikkir væru nú með gömlu drökmuna sína ennþá, þá væri þetta ekki svona erfitt hjá þeim. En hún hefur líklega verið ónýt, gagnslaus og dauð.

Annars finnst mér alltaf truflandi að sjá talað um ferðaþjónustu sem "ferðamannaiðnað". Bæði í fyrirsögninni og fréttatexta er talað um þessa iðnframleiðslu.

 

 


mbl.is Erfið staða grísks ferðamannaiðnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill eiga Ísland?

Bilyana Ilieva Raeva heitir kona nokkur frá Búlgaríu. Hún er formaður Íslandsnefndar Evrópuþingsins. Í viðtengdri frétt er vitnað í þingmanninn og þar eru tvær setningar sem eru nokkuð sláandi. 

"Þá geti þeir (Íslendingar) hugsanlega fengið tímabundna undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB"

" ... en ekki sé útilokað að gera sáttmála um að Ísland fái undanþágu að hluta eða að fullu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, að minnsta kosti yfir eitthvað tímabil."

Með því að nefna undanþágu er Raeva að gefa til kynna að sjávarútvegsstefna ESB falli ekki að Íslenskum hagsmunum.

Fiskveiðar eru algjör aukabúgrein hjá ríkjum ESB, sem gengur fyrir styrkjum og vegur ekki nema eitt lítið prósent. Hér á Íslandi þarf sjávarútvegurinn að vera rekinn á arðbæran hátt og verða ein af okkar meginstoðum til framtíðar.

Eftir bankahrunið verður mikilvægi fiskveiða enn meira og því skiptir miklu máli hvernig til tekst að endurskipuleggja útgerðina og hugsanlega stokka upp kvótakerfið. Verði útvegurinn rammaður inn í sjávarútvegsstefnu sem ekki hentar og settur á styrki, mun það draga úr honum mátt á fáum árum. Þá verður hann ekki sú stoð sem hann þarf að vera. 

Það er því alveg ótrúlegt að tilboð Raevu hljóði upp á að ekki sé útilokað að hugsanlega sé hægt að fá tímabundna undanþágu. Skilur hún ekki hina miklu sérstöðu Íslands í fiskveiðimálum, eða er hún bara að gera þetta viljandi til að fæla Íslendinga pent og endanlega frá ESB? Miðað við hversu áfjáðir Olli Rehn og félagar eru í að fá Ísland í klúbbinn verður fyrri skýringin að teljast líklegri.

Ef taka ber orð formanns Íslandsnefndar Evrópuþingsins alvarlega er hægt að hætta strax að hugsa um inngöngu Íslands í ESB og beina kröftunum annað.


mbl.is Vill Ísland í Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meintur lýðræðishalli ESB

Í viðtengdri frétt er sagt frá erindi sem Björg Thorarensen, lagaprófessor við Hásóla Íslands, hélt á málþingi um löggjafarvald Evrópusambandsins og lýðræði. Þessi sama Björg afþakkaði að taka sæti dóms- og kirkjumálaráðherra í nýju ríkisstjórninni og kaus að vinna að nýrri stjórnarskrá.

Margt fróðlegt kemur fram í erindi Bjargar og löngu tímabært að fjallað sé um stjórnkerfi ESB, en umræðan hingað til hefur mest snúist um gjaldmiðil og fiskveiðar. Einnig hefur inngöngu í Evrópusambandið verið veifað framan í fólk sem lausn á kreppunni.

Það er ekki bara meintur lýðræðishalli innan Evrópusambandsins sem Björg gerir að umtalsefni. Það sem er jafnvel enn athyglisverðara, og kemur fram í lok fréttarinnar, eru athugasemdir hennar um lýðræðishalla hér heimafyrir.

Ég tel að stærsta verkefnið framundan sé að endurreisa Alþingi sem raunverulegt og leiðandi afl í stjórnskipulaginu og leiðrétta þann lýðræðishalla sem íslenska stjórnkerfið stendur sjálft frammi fyrir.

Björg telur rétt að umræðan um framsal á fullveldi Íslands eigi ekki að fara fram fyrr en eftir að tekist hefur að "endurreisa Alþingi" eins og hún orðar það.

 Fyrst þegar því marki er náð er tímabært að þjóðin taki yfirvegaða afstöðu til þess hvort rétt sé að framselja löggjafarvald til yfirþjóðlegrar stofnunar.

Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að eitt af því sem nýja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lofað (eða hótað) er að gera breytingar á stjórnarskrá til að liðka fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Innganga hefði í för með sér svo mikla breytingu á íslensku þjóðfélagi, til frambúðar, að það er ábyrgðarhluti að gefa pólitíkusum færi á að stytta sér leið í þeim efnum. Skiptir þá ekki máli hvort menn eru með eða á móti inngöngu.


mbl.is Lýðræðishallinn heimafyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engar ESB-viðræður 2009

Aftur er áherslan í fréttum af Framsóknarþingi á „aðildarviðræður við ESB". Samkvæmt samþykktum ESB verða ekki fleiri ríki tekin í klúbbinn fyrr en búið er að lögfesta Lissabon samninginn. Í færslunni hér á undan leyfði ég mér að fullyrða að það geti ekki orðið á þessu ári og þar með tómt mál að tala um að fara í aðildarviðræður 2009.

Ástæðurnar eru:

  • Samningurinn var felldur á Írlandi, en til stendur að láta Íra kjósa um hann aftur, líklega í október.
  • Tékkneska þingið hefur ekki tekið samninginn til afgreiðslu.
  • Í Þýskalandi er til meðferðar kæra hjá stjórnarskrárdómstóli og er niðurstöðu að vænta á næstu mánuðum. Vinnist málið þarf að bera samninginn undir þjóðaratkvæði í Þýskalandi.
  • Tékkar (og mig minnir Pólverjar líka) ætla ekki að staðfesta samninginn formlega fyrr en niðurstaða liggur fyrir á Írlandi, til að koma í veg fyrir að Írum verði stillt upp við vegg. Það stóð til að þvinga þá til að meðtaka samninginn ef 26 af 27 þjóðum segðu já eða yfirgefa Evrópusambandið ella. Á júrókratísku er það kallað „voluntary exit".
  • Ef gerðar verða breytingar á samningnum, til að mæta kröfum Íra, þarf að líkindum að leggja breyttan samning fram til samþykktar í öllum hinum 26 ríkjunum aftur.
  • Ef allt gengur að óskum stjórnenda ESB er hægt að ganga formlega frá gildistöku samningsins í nóvember eða desember í fyrsta lagi. Samningurinn tæki þá gildi 1. janúar 2010, en gildistökuákvæðin miðast við ársbyrjun.
  • Ef eitthvað af þessu gengur gegn óskum stjórnenda ESB verður enn lengri bið á að ný ríki gangi í sambandið, enda myndi það kalla á pólitísk viðbrögð og breytingar fyrst.

Sjá nánar um marklausar viðræður.

Líka þarf að hafa í huga að ESB er að glíma við kreppu þessa stundina, að það verða kosningar til Evrópuþings í sumar og að ný framkvæmdastjórn tekur við völdum í nóvember.

Á meðan ESB er enn í þessari klemmu er vandséð hvernig alvöru aðildarviðræður eiga að geta farið fram, sama hvað Framsókn segir.

 


mbl.is Heim í heiðardalinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband