Færsluflokkur: Evrópumál
12.1.2009 | 00:49
Vá! Þeir koma alveg í kippum.
Það er naumast að þeir fjölmenna hingað Skandínavarnir. Undanfarnar vikur hafa þeir komið hver á eftir öðrum til að segja okkur hvað Íslendingum sé fyrir bestu í Evrópumálum. Sumir með inngöngu, aðrir á móti.
Fyrir áramót sendi Uffe Elleman Jensen okkur heilræði, Göran Person kom og talaði alveg ókeypis og finnski forsætisráðherrann Matti Vanhanen ákvað að gera okkur þann greiða að undirbúa umsókn Íslands í byrjun desember.
Peter Örebech miðlaði af norskri reynslu á fundi um sjávarútvegsmál og nú koma norskir fulltrúar til að beita sér gegn aðild Íslands að ESB, líklega af því að það er gott fyrir Noreg.
Eins er með Trostilla ráðuneytisstjórann finnska, hann vill styðja inngöngu Íslands í Evrópusambandið af því að það er gott fyrir Finnland.
Og þeir eru fleiri Finnarnir sem hafa tjáð sig um Ísland og ESB; heimspekingurinn Thomas Wallgern er á móti, djasssöngkonan Johanna Iivanainen er með.
En hvað með Ísland?
Verða ekki Norðmenn að treysta því að við áttum okkur sjálf á hagsmunum sem við eigum sameiginlega með þeim? Og bæði þeir, Finnar, Danir og Svíar að leyfa okkur að velja það sem er gott fyrir Ísland?
Það getur verið fín lína á milli hollráða og afskiptasemi.
Ég held að Íslendingar geti alveg fundið það út hjálparlaust að Evrópusambandið er ekki góður kostur. Í það minnsta ekki á þessum tímapunkti.
![]() |
Sagðir beita sér gegn ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.1.2009 | 10:04
Það lifir enginn við þessa vexti
"Þjóðin á að kjósa um það" segir Þorsteinn í Samherja í viðtali um aðild að ESB. Efnisflokkurinn er Sjávarútvegur í umfjöllun Mbl.is um Evrópumál.
Þorsteinn setur þetta allt í samhengi, sem eðlilegt er; sjávarútveg, atvinnu, gjaldmiðilsmál og vexti. Spurningin sem hann vil kjósa um er þessi: "Hvort er líklegra að efnahagur landsins rétti fyrr úr kútnum með eða án aðildar?"
Þessu er ég algerlega ósammála.
Það skall á kreppa í október 2008. Það er rangt að líta á inngöngu í ESB sem svar við þeirri kreppu, eingöngu. Það þarf að horfa miklu lengra fram í tímann. Það þarf að líta á hver kostnaðurinn er til lengri tíma litið.
Ef vera í slíku sambandi reynist ekki besti kosturinn, þegar litið er 20 eða 50 ár fram í tímann, þá getur verið betra að taka sér 10 ár í að rétta úr kútnum utan þess en 7 ár innan þess. Það dugir ekki að pissa í skóinn.
Það væri súrt að þurfa að líta til baka síðar og útskýra fyrir komandi kynslóðum: Það kom kreppa haustið 2008 og þá ákváðum við að ganga inn til að spara smá vinnu!
Og af því að efnisflokkurinn heitir "Sjávarútvegur" þá er hér ein lítil pæling. Það eru allnokkrar breytingar boðaðar á samningum ESB, t.d. er boðað að fyrsti töluliður í 38. grein Rómarsáttmálans verði svona:
The Union shall define and implement a common agriculture and fisheries policy.
The internal market shall extend to agriculture, fisheries and trade in agricultural products. "Agricultural products" means the products of the soil, of stockfarming and of fisheries and products of first-stage processing directly related to these products. References to the common agricultural policy or to agriculture, and the use of the term "agricultural", shall be understood as also referring to fisheries, having regard to the specific characteristics of this sector.
Það sem er feitletrað eru nýjungar eða breytingar frá núgildandi ákvæðum.
Ef rýnt er í tvær fyrstu setningarnar, hvaða þýðingu hafa þær fyrir útgerð til framtíðar? Ef hægt er að fella dóma í málaflokkum sem ekki heyra undir sambandið, á grundvelli reglna um innri markaðinn, getur það þá átt við um fiskveiðarnar líka? Hversu vel hafa menn rannsakað boðaðar breytingar? Er hugsanlegt að "IceSave gildrur" leynist í smáa letrinu?
Nú má vera að þetta sé allt gott og ekkert að óttast. En það er full ástæða til að skoða málin frá öllum hliðum. Innganga í Evrópusambandið er ekkert grín og alls ekki tjaldað til einnar nætur.
What the large print giveth, the small print taketh away!
![]() |
Þjóðin á að kjósa um aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2009 | 11:29
Ertu nú alveg viss um?
Ekki ætla ég að draga í efa að þær upplýsingar sem fram koma í fréttinni séu réttar. Líka má benda á þetta viðtal um raforkulög, reglur um eignarhald og þau ákvæði sem gilda samkvæmt Rómarsáttmálanum. Það sem mér finnst vanta er að rýnt sé í breytingar sem Lissabon samningurinn veldur og reynt að útskýra þær.
Með honum verða miklar breytingar á samningum sambandsins. Til dæmis breytast fyrstu 27 greinar Maastricht samningsins. Ein þeirra leiðir til þess að löggjöf á sviði orkumála verður færð til stjórnarinnar í Brussel.
Maastricht samningurinn
Eftir Lissabon breytingar mun löggjöf á sviði orkumála falla undir Brusselstjórnina, það sem kallað er shared competence" (sjá staflið (i) í 4. tölulið 2. greinar Maastricht samningsins).
Skýringar Evrópuþingmanna á shared competence" í þessu tilviki eru að landslög víki fyrir lagasetningu ESB og verði ógild (Union law suppresses national competence). Það er snúið að átta sig á hvaða áhrif þetta mun hafa á orkumál á Íslandi, enda engin smáatriði tilgreind í samningnum sjálfum.
Rómarsáttmálinn
Aðal greinin um orkumál er sú 194. Fyrsti töluliður varðar öryggi, framboð, umhverfisvernd, orkusparnað og fleiri þætti. Í 2. tölulið þeirrar greinar segir m.a.:
Such measures shall not affect a Member State's right to determine the conditions for exploiting its energy resources, its choice between different energy sources and the general structure of its energy supply, without prejudice to Article 192(2)(C).
Hvorki viðbót við 122. grein Rómarsáttmálans né breytingin á grein 194 virðast hafa í för með sér breytingar sem gætu reynst íslenskum hagsmunum óhagkvæmar. Aðrar breytingar í samningum og bókunum varða aðallega kjarnorku.
Löggjöfin
Reikna má með að löggjöf taki fyrst og fremst mið af orkumálum á meginlandi Evrópu, orkunetinu þar og framleiðsluháttum. Þeir eru ólíkir þeim íslensku þar sem notaðar nær eingöngu endurnýjanlegar auðlindir; fallvatn og jarðhiti.
Íslenskir fræðimenn á sviði löggjafar og Evrópumála verða að taka upp stækkunarglerið og rýna vandlega í hvað tilfærslan á löggjafarvaldinu til Brussel þýðir. Orkuauðlindirnar munu mala gull á komandi áratugum og skipta miklu um velferð komandi kynslóða Íslendinga.
Það skiptir miklu máli að ganga vandlega úr skugga um að ekki leynist IceSave gildra" í smáa letrinu.
What the large print giveth, the small print taketh away!
![]() |
Aðild að ESB hefði lítil áhrif á auðlindir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2009 | 17:12
Ísland er ekki áhrifalaust utan ESB
Fréttagáttin í morgun vísaði á viðtengda frétt með "Ísland yrði ekki áhrifalaust innan ESB". Er það ástæða fyrir inngöngu? Að vera "ekki áhrifalaus"? Áhrifalaus í hverju? Og áhrif á hvað? En Ísland er ekki áhrifalaust utan ESB heldur. (Fréttagáttin breytti fyrirsögn sinni til samræmis við Mbl.)
Í viðtalinu er rætt við fastafulltrúa Letta í ESB. Hann telur stærsta ávinning Letta vera aðild að innri markaðnum, sem Ísland hefur haft í einn og hálfan áratug. Þetta hlýtur að hafa skipt máli fyrir Letta og nágrannaþjóðir þeirra til að komast í sterkara samband við vesturlönd eftir fall Sovétríkjanna. Aðstæður þjóða eru svo mismunandi. Síðan segir lettneski fastafulltrúinn:
Það er ekkert leyndarmál að lítil ríki þurfa að hafa meira fyrir því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Bretar knúðu fram endurgreiðslur og breytingar í krafti stærðar sinnar. Frakkar knúðu fram Luxemburgar málamiðlunina í krafti stærðar sinnar. Sérstaða Íslands yrði veruleg í stórum málaflokkum, bæði fiskveiðum sem nú lúta Brusselstjórn og í orkumálum sem færast undir Brussel innan tíðar. Ísland myndi aldrei geta knúið neitt fram í krafti stærðar sinnar.
Inngangsorðin í þessari frétt er hollt að lesa tvisvar.
Ísland sem smæsta ríki ESB gæti augljóslega ekki hafa mikil áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Það er þó ekki þar með sagt að Ísland hefði engin áhrif. Reynsla smáríkja er sú að þau geta haft umtalsverð áhrif í afmörkuðum málaflokkum, vandi þau vel til verka.
"Það er þó ekki þar með sagt að Ísland hefði engin áhrif." Það er svo uppörvandi að vita það.
Framsal á ríkisvaldi mun alltaf leiða til tjóns. Hjá því er ekki hægt að komast, sama hvernig menn reyna að gylla myndina. Ísland er búið að prófa það einu sinni og óþarfi að brenna sig á því aftur.
![]() |
Öryggiskennd með aðild að ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2009 | 08:54
Kyngirðu?
Opnaðu munninn og segðu A!
Í skeiðinni er bölvuð ólyfjan, en sætuefni stráð yfir. Rétt eins og Mary Poppins setti sykur á meðalið til að blekkja það ofaní börnin ... in a most delightful way. Til að byrja með virðist mixtúran skaðlaus en þegar frá líður fara einkennin að koma í ljós. Ef þú kyngir.
Okkur er sagt að mixtúran innihaldi nauðsynleg vítamín: Áhrif á stefnumótun, þátttaka í samfélagi þjóðanna, nýr gjaldmiðill, lýðræði, heilbrigðir stjórnarhættir og jafnvel aukið fullveldi. Hún gengur undir nafninu ESB, mixtúran.
En það sem sýnist gull er í reynd gaddavír.
Fjörefnin eru bara sætar Smarties pillur. Áhrif á stefnumótun hverfandi og við erum þegar fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna þó við göngum ekki í klúbbinn. Gjaldmiðillinn er tálbeitan til að blekkja okkur inn, villuljós. Lýðræðið á lítið pláss og stjórnað er að hætti stjórnmálastéttarinnar. Fullveldið er framselt í hendur henni.
Stundum þurfa menn að kyngja stoltinu en það á enginn að þurf að kyngja hverju sem er. Ekki þessu. Bara það að hafa mynd af Baroso með frétt um ESB gerir sambandið fráhrindandi.
Mary Poppins er bara ævintýri, það getur enginn flogið á regnhlíf í alvörunni eða reddað málum með því að smella fingri. Það er heldur ekki til alvöru Poppins-taska sem inniheldur allt sem okkur vanhagar um. Það er allt í plati.
![]() |
Kom á óvart hvað framkvæmdastjórnin er lítil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2009 | 12:18
Svo mælir stækkunarkommissar ESB
Olli Rehn er stjórnmálahagfræðingur og starfar sem stækkunarkommissar í ríkisstjórn ESB. Það er fróðlegt að rýna í svör hans í Moggaspjallinu.
Jafnvel þótt ákveðnar aðferðir hafi virkað í einu ríki þá duga þær ekki endilega í öðru.
Rehn er að tala um aðferðir Finna við að glíma við kreppuna á tíunda áratugnum. Þær grundvölluðust á því að verða hluti af "pólitísku samráði ESB" eins og hann orðar það, og að taka upp evru.
Václav Klaus, sem tók við forsæti í Evrópusambandinu núna um áramótin, talar á svipuðum nótum um evruna. Hann dregur stórlega í efa að einn pólitískur gjaldmiðill geti þjónað hlutverki sínu þegar hagsmunir fjölmargra ólíkra hagkerfa togast á.
Síðan segir stækkunarkommissarinn finnski:
En jafnvel Finnland á enn við erfiðleika að glíma og maður skyldi ekki vanmeta þá.
Einum og hálfum áratug eftir að Finnar meðtóku evrópska fagnaðarerindið eiga þeir í umtalsverðum erfiðleikum. En hann Olli Ilmari Rehn nefndi ekki tölur um atvinnuleysi í heimalandi sínu það sem af er þessari öld, enda myndi það spilla myndinni af sæludögum í Evrópuríkinu.
Þessi sami Olli Rehn vill tæla Ísland inn í Evrópuríkið, enda er það vinnan hans. Hann er stækkunarráðherra. Athyglisvert, þegar maður hugsar út í það, að í ríkisstjórn ESB skuli vera sérstakt stækkunarráðuneyti.
![]() |
Getur Ísland dregið lærdóm af finnsku leiðinni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2009 | 13:07
70,3% Íslendinga vilja meira sólskin
Langflestir þeirra sem vilja breyta veðurfarinu á Íslandi, eða 70,3%, vilja meira sólskin. Þá telja 50,6% nauðsynlegt að draga úr úrkomu á láglendi, minnka meðalvind í júlí og ágúst um 5,3 sekúndumetra og hækka meðalhita um 4 gráður, að jafnaði.
OK. Köstum krónunni og tökum upp evru. Hvað svo?
Nú fárast menn yfir auknum þjónustugjöldum, sem tekin eru upp af illri nauðsyn í kreppunni. Vonandi er hægt að aflétta þeim sem fyrst. Og auðvitað eru allir ósáttir við 7% atvinnuleysi, enda er það skaðvaldur hinn mesti.En við viljum kasta krónunni, helst á næstu 6 mánuðum, til að taka upp evru. Hún á að laga meinið og lækna okkur af kreppunni.
En það er því miður ekki hægt að lækna innanmein með því að setja plástur á hnéð.
Fylgifiskarnir yrðu niðurskurður í þjónustu, aukin gjaldtaka til frambúðar og viðvarandi atvinnuleysi. Erum við bættari með það? Hvers vegna ekki að horfast í augu við að það er ekki raunhæfur möguleiki að taka upp evru hér á landi næstu 10 árin og haga vinnunni í samræmi við það. Sér í lagi aðgerðir til að koma í veg fyrir að fjölskyldur tapi eignum sínum. Kreppan fer ekki af sjálfu sér og evran fjarlægir hana ekki heldur.
Svona umræða gerir ekki annað en að beina athyglinni frá pólitísku gjaldþroti.
![]() |
Langflestir þeirra sem vilja skipta velja evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2009 | 12:40
Hálfur sannleikurinn, eða hvað?
Ég fagna því að Mbl. fari af stað með fræðandi skrif um Evrópusambandið, ekki síst samanburð við EES. Ekki er vanþörf á. Það verður þó ekki hjá því komist að setja ákveðnar spurningar við þann samanburð sem settur er fram í viðtengdri frétt.
Ræður ESB sköttum?
Svarið sem Mbl birtir byggist á óbreyttum reglum. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi voru skattmálin einmitt talin ein af þremur meginástæðum fyrir því að Lissabon samningurinn var felldur.
Sú viðbót sem sett er aftan við 113. grein "and to avoid disortion of competition", óttuðust Írar að gæfi ESB heimild til inngrips. Í skrifum á Írlandi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2007 mátti m.a. finna þetta:
Art. 113 in the Lisbon Treaty is the legal base when the EU shall harmonise the rates for indirect taxes. For direct taxes they may use Art. 115 or the flexibility clause in Art. 352. There is no clear definition on indirect taxes. Corporate tax was normally seen as a direct tax. But the Commission has planned to harmonise the tax base for corporate taxes on the basis of exactly Art. 113.
Írar töldu að ESB gæti breytt hinni lágu 12,5% skattlagningu á fyrirtæki. "The Lisbon Treaty directly invites the Court to outlaw the low Irish tax rate 12,5." Ef þeir töldu ástæðu til að fella Lissabon samninginn, m.a. á þessum forsendum, getur Mbl. þá fullyrt að ESB muni ekki ráða sköttum í framtíðinni?
VSK að hluta á borði ESB
Í skrifum um þennan lið kemur fram að innan ESB verði virðisaukaskattur að vera á bilinu 15% til 25% og að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann muni hækka hér.
En hvað með 7% skattinn íslenska? Lægra þrepið hér á landi var lækkað í 7% 1. mars 2007. Þó Evrópusambandið veiti ákveðnar undanþágur varðandi matvæli þá er 7% skatturinn íslenski ekki einskorðaður við "matarskattinn". Undanþágur frá lægri mörkum, sem hægt er að finna í reglum ESB ná alls ekki yfir þá liði sem í dag falla undir lægra þrepið á Íslandi. Hvernig getur Mbl. þá haldið því fram að virðisaukaskattur myndi ekki hækka á Íslandi?
Ef Mbl. ætlar að vera með fræðandi umfjöllun um EES og Evrópusambandið þarf að taka tillit til þeirra breytinga sem leiða af Lissabon samningnum. Það er sá raunveruleiki sem Ísland myndi búa við þar sem ný ríki verða ekki tekin inn í sambandið fyrr en hann hefur tekið gildi.
![]() |
Munurinn á EES og ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.1.2009 | 20:50
Er "þjóðin" svartsýn eða bara borgararnir?
Þó ég tilheyri þeim 67% sem telja að fjárhagurinn verði þrengri á árinu 2009 en því nýliðna er það samt ekki það sem veldur mestri svartsýni. Heldur er það óttinn við að Ísland stígi fyrsta skrefið í átt að inngöngu í ESB. Þetta Mary Poppins trikk, sem við eigum að samþykkja sem efnahagsreddingu, en gæti reynst ávísun á fátækt.
Ummæli ársins voru þið eruð ekki þjóðin" og þetta er engin vitleysa. Ef Evrópudraumur ráðherrans rætist verður þetta einmitt raunin. Ef rýnt er í þær fjölmörgu breytingar sem leiða af Lissabon samningnum má m.a. finna eina örsmá sem lætur lítið yfir sér, en er samt svo lýsandi:
The Euroepean Parliament shall be composed of representatives of the Union's citizens.
Í skýringum: EP shall represent the "citizens" instead of the "peoples"
Nú skal skilgreina þingmenn sem fulltrúa borgaranna" í Evrópuríkinu en ekki þjóðanna" sem mynda það. Þetta er í takt við það sem á undan er gengið, öll umgjörð miðast við að sambandið verði eitt ríki.
Það má því setja þið eruð ekki þjóðin" í evrópskt samhengi. Ef Ísland verður innlimað í Evrópuríkið verðum við ekki þjóð í augum nýju valdhafanna. Í staðinn verðum við borgarar" í Evrópuríkinu; 0,064% af þegnum 18 manna ríkisstjórnar í Brussel. Utanríkisráðherra var ekkert að bulla, bara með hugann við sína ógnvekjandi framtíðarsýn.
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Að innlimun í Evrópuríkið þýði að atvinnuleysi sé komið til að vera. Að upptaka evru, eða binding við hana á þessum tímapunkti, sé hættuleg breyting sem gæti fært okkur úr öskunni í eldinn. Þá á svartsýni eftir að verða enn meiri ... og varanleg.
![]() |
Íslendingar aldrei verið svartsýnni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 5.1.2009 kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.1.2009 | 17:50
Hollráð eða "þið eruð ekki þjóðin"
Ef stjórnmálamenn vilja gera eitthvað sem varðar breytingar á samskiptum Íslands við Evrópu, þurfa að fara fram kosningar. Núverandi stjórn hefur ekki umboð í slíkt verkefni. Ég myndi sannarlega fagna þingkosningum.
Við höfum því miður ekki farið að góðra manna ráðum undanfarin misseri, ráðum þeirra sem vöruðu við ofvexti bankanna og yfirvofandi hruni. Hvort sem það voru breskir ráðgjafar, danskir bankamenn eða íslenskir fræðimenn. Það er pínlegt í dag þegar skýrslur og ræður þessara manna eru rifjaðar upp.
Er ekki þjóðráð að læra nú af reynslunni?
Ég bendi á hollráð þriggja manna sem sjá hlutina frá öðru sjónarhorni en stjórnmálamenn og þurfa ekki að taka mið af persónulegum og pólitískum frama sínum í næstu kosningum.
Í viðtali í Morgunblaðinu 14. des. lagði Daniel Gross ríka áherslu á að menn gefi sér tíma í Evrópumálin því "annars er hætta á að ríkisstjórnin skrifi undir hvað sem er".
Í sjónvarpsþætti milli hátíða varaði Páll Skúlason við því að menn bíði og voni að það "komi frelsarar hér inn og vísi veginn til framtíðarlandsins".
Í opnugrein í Morgunblaðinu á Þorláksmessu skrifar Bjarni Snæbjörn Jónsson um nauðsyn þess að byggja landið upp áður en menn bindast öðrum þjóðum nánari böndum.
Enginn þessara manna lýsir sig með eða á móti ESB. Það sem er sameiginlegt hjá þeim eru ráðin um að fara varlega.
Ingibjörg Sólrún segir það besta nýársheitið að sækja um inngöngu í ESB. Geir Haarde lék biðleik og bíður eftir landsfundi. Björgvin G. Sigurðsson, sem svaf á verðinum, hafði varla opnað annað augað þegar hann sagði að aðildarumsókn í ESB varðaði leiðina til nýrrar uppbyggingar.
Erum við ekki búin að brenna okkur á ráðum stjórnarinnar? Hvort er nú skynsamlegra að hlýða á hollráð þeirra sem standa utan við pólitíkina eða styðja stefnu þeirra sem segja "þið eruð ekki þjóðin" og eiga sinn hlut í sök á hruninu?
Það verður að kjósa til Alþingis. Nokkrar aðalpersónur verða að taka sér frí. Og vonandi berum við gæfu til þess í leiðinni að hafna aðildarviðræðum við ESB. Þannig getur ný stjórn einbeitt sér að því sem skiptir máli núna; bjarga heimilum, halda uppi atvinnu, endurnýja traust o.s.frv.
Svo geta menn pælt í Evrópuumræðunni síðar, þegar við höfum burði til þess að standa upprétt. Við þessar aðstæður gerir hún ekki annað en að dreifa athyglinni frá veruleikanum sem við er að glíma.
![]() |
Alþingiskosningar samhliða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 5.1.2009 kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)