Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.3.2012 | 22:27
Magnús Orri sagði satt. Alveg óvart.
Magnús Orri Schram er einn af mínum uppáhalds stjórnamálamönnum. Fyrir þá sem ekki eru fylgjandi því sem Samfylkingin stendur fyrir er hann jafnan öruggur liðsauki.
Í viðtali á Mbl-sjónvarpi sagði hann satt. Hvort það voru mismæli eða freudian slip veit ég ekki, en satt var það.
Í viðtalinu segir hann (á 19. sek.) pólitíska andstæðinga vilja koma í veg fyrir skoðanakönnun. Sem er rétt. Þessa skoðanakönnun Jóhönnu kalla ráðherrar "þjóðaratkvæðagreiðslu". Og hún er ekki um eitthvert smámál, heldur sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins.
Okkar maður veit að þjóðaratkvæði ber að taka alvarlega og undirbúa að kostgæfni. Vanda til verka og bjóða skýra kosti. Sú sýndarmennska sem nú skal blásið til er ekki þess verð að kalla þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna kallar hann gjörninginn réttilega skoðanakönnun. Líklega óvart.
Með þessu skemmtilega innleggi nær hann þó ekki að jafna sinn besta árangur til þessa, sem var þegar hann brá sér í hlutverk Birtíngs. En þá var hann líka að rita blaðagrein um málið eina.
Ljótur blettur á störfum Alþingis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.11.2011 | 21:14
Það gengur á með afsögnum
Á Grikklandi er Papandreou hvattur til að segja af sér fyrir að hafa sagt orðið "atkvæðagreiðsla" upphátt þannig að Merkozy heyrði.
Á Ítalíu er Berlusconi hvattur til að segja af sér af því að Merkozy hló að honum í beinni. Líka af því að hann er ríkur og spilltur hórkarl. Strauss-Kahn sagði af sér af þeim sökum.
Ég legg til að Jóhanna tileinki sér þetta ESB-trend og segi af sér.
Ekki að hún sé sek um sömu afglöp og kollegarnir í suður-ESB, enda bæði siðprúð og heiðarleg og myndi aldrei hvetja til kosninga um skuldaklafa á þjóðina. Hún á ekki annað sameiginlegt með þeim skuldabræðrum en að hún veldur ekki embætti sínu.
Í leiðinni mætti hún fá Össur til að segja af sér. Og Steingrím. Og Árna Pál. Og ...
Hvetja Berlusconi til að segja af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.10.2011 | 01:24
Egill Helgason varð sér til skammar
Það er hiti í framsóknarkonum og eflaust fleirum yfir fádæma smekklausu myndbandi. Þar hefur bloggarinn Lára Hanna klippt saman nokkur brot með Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni.
Myndbandið er gert Vigdísi til háðungar, eingöngu. Egill Helgason birti það á vefsíðu sinni, án athugasemda eða mildandi skýringa, undir fyrirsögninni Úr þinginu.
Vigdís Hauksdóttir er ekki fullkomin frekar en ég og þú. Hún getur kannski verið fljótfær og áköf í málflutningi sínum. Hugsanlega stundum seinheppin. En það réttlætir ekki einelti. Ekkert réttlætir einelti.
Myndbandið er ekki um nein málefni, ekki um pólitísk reikningsskil, heldur eru mismæli þingmannsins megin efnið. Inn á milli er svo skotið athugasemdum höfundar, sem taka af allan vafa um tilganginn. Svo endar það á hæðnishlátri.
Tilgangurinn er að hæðast að þingmanninum.
Að niðurlægja. Það er einelti.
Egill Helgason er ekki bara "einhver úti í bæ". Hann stýrir stærsta þjóðmálaþætti íslenskra fjölmiðla og verður því að gera meiri kröfur til sjálfs sín en "óbreyttur bloggari". Birting hans á myndbandinu gefur því aukna vigt. Meiri særingarkraft.
Til að bæta gráu ofan á svart bregst Egill við gagnrýni á fádæma hallærislegan hátt: "Ég gerði nú bara ekkert annað en að linka á þetta myndband."
Ha, ég? Nei, ég er saklaus. Ég setti bara link.
Myndbandið er smekklaust og Láru Hönnu ekki til framdráttar. Birting Egils lýsir hugsunar- eða dómgreindarleysi. Afsakanir hans eru fáránlegar.
Þau Egill og Lára Hanna ættu bæði að skammast sín.
Benti einungis á myndbandið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2011 | 18:12
Sukk og svínarí. Patró og Álftanes.
Er réttlætanlegt að sameiginlegir sjóðir séu notaðir til að draga óreiðumenn að landi? Og verðlauna þá!
Á sukkið á Álftanesi að auka enn á svínaríið í garð byggðarlaga eins og Patreksfjarðar?
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar samkvæmt III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga. Meðal helstu verkefna hans er að sjá um jöfnunarframlög vegna reksturs grunnskóla og þjónustu við fatlaða, en um þriðjungur tekna sjóðsins er hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga.
Í lögunum er heimild til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum", enda geta sveitarfélög orðið fyrir skakkaföllum, tekjutapi eða ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Af texta laganna má ráða að höfundar hans hafi ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að vel stætt sveitarfélag gæti keyrt sig í þrot með allt að glæpsamlegu ábyrgðaleysi, eins og að byggja 2007 sundlaug eða aðrar skýjaborgir.
Patreksfjörður (sem nú er hluti af Vesturbyggð) hefur mátt þola hvað mesta blóðtöku allra byggðarlaga; um 30% fólksfækkun á tveimur áratugum. Það verður ekki skýrt með óábyrgu framferði heimamanna. Hörmulegar samgöngur vega þar drýgst, minnkandi kvóti hefur haft sitt að segja, hrun sparisjóðsins var dýrkeypt og innlausnarskylda í félagslega íbúðarkerfinu er mjög þungur baggi, eins og á öðrum sveitarfélögum þar sem íbúum fækkar.
Vesturbyggð vantar um 270 milljónir til að koma fjármálum sínum í viðráðanlegt horf. Það er baggi sem hefur vaxið á löngum tíma vegna þátta sem heimamenn ráða litlu eða engu um. Skyldi þeim ekki þykja súrt að sjá Jöfnunarsjóð leggja 1.000 milljónir í að draga óreiðumenn á Álftanesi upp úr sundlauginni? Þetta tilboð" kemur nokkrum dögum eftir að fólki í Vesturbyggð var misboðið og gekk af fundi ráðherra um samgöngubætur.
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur líka heimild til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga", en sameining er sett sem skilyrði fyrir milljónunum þúsund. Þau útgjöld er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta með vísun í þá heimild. Að auki á sveitarfélagið að fá að halda sundlauginni dýru og íþróttamiðstöðinni.
Það væri nær að setja myndarlega fjárhæð í vegabætur í Barðastrandarsýslu, sem hefur orðið svo illa útundan í samgöngumálum að það er okkur öllum til skammar.
Ef einhver banki lánaði Álftanesi milljarða af hugsunarleysi eða glannaskap á hann að taka afleiðingum gjörða sinna. Semja sjálfur við skuldarann. Viðhalda kröfum eða afskrifa skuldir og taka á sig tapið sem hann á skilið. Hirða sundlaugina upp í skuld ef með þarf. Það á ekki að vera hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að lina högg bankans.
Í öllum landshlutum eru fámenn sveitarfélög sem ekki njóta hagkvæmni fjöldans. Það er ekki bundið við V-Barðastrandarsýslu. Hjá þeim vega framlög úr jöfnunarsjóði drjúgt. Það hlýtur að rýra getu sjóðsins ef þúsund milljónum er kastað í einhverja dellu eins og að greiða glæpsamlegar skuldir óreiðumanna. Svo er gráu bætt ofan á svart með því að gefa skúrkunum lúxussundlaug í verðlaun.
Það er eitthvað mikið bogið við þetta.
----- ----- -----
Höfundur tengist Patró/Vesturbyggð ekki neitt. Þetta er því ekki blogg um eigin hagsmuni.
6.10.2011 | 22:43
Súkkulaðigosbrunnur þarfnast viðgerðar
Þegar ég horfði á fréttir RÚV í gær, langaði mig að spyrja spurninga, sem vantaði í fréttina. Eins og um áhrif á jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Eða skrifa eitthvað, gagnrýna.
En það var einhver annar fyrri til.
Og þegar einhver annar er ekki aðeins fyrri til að gagnrýna, heldur gerir það líka betur en ég gæti gert, þá er betra að sleppa því bara og segja smelltu hér.
Síðasti hlutinn er hnyttinn.
Álftanes fær milljarð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2011 | 08:45
Ný stjórnarskrá útilokar ESB aðild
Tillögur stjórnlagaráðs, sem kallaðar eru "frumvarp til stjórnskipunarlaga" hafa ekki fengið mikla umfjöllun í samfélaginu. Þó hafa þær þegar valdið deilum um hlutverk forsetans, verði frumvarpið að lögum. Þar eru forsetinn, ráðamenn og stjórnlagaráðsfulltrúi ósammála um túlkun textans.
Stjórnarskrá á að vera stutt, einföld og skýr. Höfundar texta eiga ekki að útskýra "það sem við áttum við", textinn á að standa óstuddur til framtíðar. Ef hægt er að skilja einhverja grein á tvo ólíka vegu er sá texti ónýtur. Leikmenn eiga að geta lesið hann án aðstoðar sérfræðinga.
Ef ákvæði sem varða sjálfstæði, fullveldi og réttarstöðu lýðveldisins Íslands eru óskýr, þá hlýtur að eiga að túlka allan vafa fullveldinu í vil. Í 111. grein er fjallað um framsal ríkisvalds og greinin hljóðar svona:
111. gr. Framsal ríkisvalds
Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér
framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland
á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.
Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.
Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds
samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.
Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér
framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir
þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.
Þessi grein virðist eiga að koma í stað 21. greinar gildandi stjórnarskrár, sem nær til "samninga við önnur ríki" sem "horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins" en heimilar ekki meiriháttar framsal á ríkisvaldi. Framsalinu eru hér reistar býsna strangar skorður. Svo strangar að þegar á allt er litið getur það mikla framsal ríkisvalds sem aðild að ESB krefst tæplega fallið undir þessa grein. Fyrir því eru margar ástæður:
- Setja má stórt spurningarmerki við það hvort aðild Íslands að Evrópusambandinu sé "bara þjóðréttarsamningur".
- Þótt allir kjósi frið verður aðild ekki réttlætt með rökunum "í þágu friðar" þar sem ESB aðild bætir engu við það sem þátttaka í NATO gerir nú þegar í þeim efnum.
- Efnahagssamvinna, ein og sér, getur ekki krafist þess að þjóðin framselji verulegan hluta fullveldisins, sbr. EFTA samstarfið.
- Gífurlegar pólitískar breytingar vofa yfir Evrópusambandinu, svo miklar að tæplega hægt að kalla það "alþjóðlega stofnun" lengur.
Stærsta ástæðan er þó þessi:
Í málum sem varða breytta stjórnskipan og skert fullveldi hlýtur að vera gerð krafa um aukinn meirihluta, annað er óhugsandi. Það er ekki gert í 111. grein. Við lýðveldisstofnunina 1944 þurfti að lágmarki atkvæði 56,25% allra kosningabærra manna til að breyta stjórnskipan landsins og ekki getur átt að gera minni kröfu ef flytja á fullveldið aftur úr landi. Innan ESB er krafist aukins meirihluta í stórum málum; 62% og í sumum tilfellum 74%.
Í 111. grein frumvarpsins er aðeins talað um þjóðaratkvæði þar sem 50,1% virðist nægur meirihluti. Greinin getur því aðeins átt við afmarkað framsal til "alþjóðlegrar stofnunar sem Ísland á aðild að" en ekki til fullveldisframsals af þeirri stærðargráðu sem ESB aðild krefst og breytir stjórnskipan landsins til frambúðar.
----- ----- -----
Væri löggjafarvald, framkvæmdavald og æðsta dómsvald selt í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar, þar sem minnsti meirihluti dygði til, væri það sannarlega 111. meðferð á fullveldi lýðveldisins Íslands. Greinin bæri þá númer við hæfi. Það er útilokað að stjórnlagaráð hafi ætlað sér að opna á slíkan glannaskap í meðferð á fullveldinu.
Ef vilji "löggjafans" var að setja slíka heimild í stjórnarskrána hefði það komið skýrt fram ásamt eðililegu skilyrði um aukinn meirihluta. Enga heimild af því tagi er að finna í frumvarpinu. Af því verður ekki annað ráðið en að nýja (væntanlega) stjórnarskráin útiloki aðild Íslands að ESB, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hvort gerðar verði á því breytingar eða viðbætur verður timinn að leiða í ljós.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.10.2011 | 17:38
Vinsæll lýðskrumari
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, ritar kröftugan pistil á Pressuna í dag. Þar setur hann m.a. fram gagnrýni á stjórnlagaráð. Að því marki sem ég hef sökkt mér niður í texta stjórnlagaráðs get ég tekið undir þá gagnrýni. Tíunda það ekki frekar hér, kannski síðar.
Það er annar kafli í grein hans sem mér finnst magnaður.
Það er ekkert að því að fólk taki sig saman og stofni nýja stjórnmálaflokka. Það er hins vegar nauðsynlegt að það fólk deili svipaðri pólitískri hugmyndafræði og lífsýn.Stofnun nýrra flokka kringum vinsæla frasa eins og lýðræði, frjálslyndi, jafnrétti, siðferði og umhverfisvernd er á sandi byggt og hefur aldrei reynst vel. Slíkir flokkar splundrast gjarnan á fyrsta þingi eftir kosningar.
Svo þegar betur var að gáð reyndist þetta ágæta fólk hvorki vera lýðræðissinnaðra, frjálslyndara, jafnréttissinnaðra, siðlegra né umhverfisvænna en aðrir. En það eina sem það átti kannski sameiginlegt var lýðskrum og tækifærismennska.
Nú veit ég ekki hvort Brynjar er að beina þessum orðum sínum að einhverjum sérstökum, en nýtt og nafnlaust afl kom strax upp í huga mér við lesturinn. Þingmanni þess gekk vel að hitta kjósendur í ræðu í gær, einmitt með frösum. "Það er nefnilega ekki það sama að vera vinsæll lýðskrumari og standa sig vel í að gæta hagsmuna lands og þjóðar" eru lokaorðin í pistli Brynjars.
Mæli eindregið með að menn lesi pistil lögmannsins. Það sem hann segir um stjórnlagaráð er áhugavert.
3.10.2011 | 21:49
Excel hefur enga sál
Tölur um alvarleg vanskil og árangurslaust fjárnám segja ekki nema hálfa sögu. Þeim, sem harka af sér, líður ekki vel. En þeir borga, ennþá. Að tíunda hver fjárráða Íslendingur sé í þessum sporum er grafalvarlegt mál.
Þeir sem tekið hafa út séreignarsparnaðinn eru ósáttir. Sumir settu aurana í afborganir af lánum; greiddu inn á skuld sem hefði verið niðurfærð hvort sem er, með 110% þrældómnum. Þetta fólk sér ekkert fyrir peningana sína. Sparnaðurinn fór, réttlætiskenndinni er misboðið. Greiðsluviljinn hlýtur að fara líka.
Þótt hægt sé að reikna út bærilega stöðu með hjálp Excel eru til forsendur sem forritið þekkir ekki. Forritið getur ekki svarað spurningunni: Hvernig líður fólki?
Excel hefur enga sál og engar tilfinningar.
Excel skilur ekki vonleysi þess vaxandi fjölda sem getur borgað af lánum og keypt í matinn, en ekki leyft sér neitt. Excel skilur ekki vanlíðan fólks sem á sífellt erfiðara með að láta enda ná saman.
Ef hér væru gerðar breytingar/leiðréttingar á lánum og framfærslukostnaði hefði það jákvæð áhrif á þjóðarsálina. Alvöru lækkun á bensínverði og almenningur yrði strax sáttari. Það væri a.m.k. verið að gera eitthvað fyrir fólk.
Sáttur maður er líklegur til að vera ánægður og bjartsýnn. Það er ekki hægt að setja "ánægju" eða "bjartsýni" inn í Excel og reikna út áhrifin á þjóðarhag. Það felst mikill kraftur í líðan þjóðar. Kraftur sem hægt er að virkja til að bæta þjóðarhag. Kraftur sem ekki er hægt að útskýra fyrir Excel.
Nú þegar séreignarsparnaður og varasjóðir ganga til þurrðar hjá mörgum fjölskyldum er hætt við að fjöldi fólks í alvarlegum vanskilum fari vaxandi. Því miður er þetta með sósíalistakreppuna rétt hjá framsóknarmanninum.
Erum stödd í sósíalistakreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2011 | 08:40
Naflaframboð Guðmundar/Gnarr
Traust kjósenda á stjórnarflokkunum er svo lítið að það getur ekki talist ásættanlegt. Traustið á stjórnarandstöðunni er helmingi minna. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ný framboð.
Guðmundur Steingrímsson hefur fengið talsverða fjölmiðlaathygli vegna vinnu að nýju framboði, eftir að hafa gengið úr bæði Framsókn og Samfylkingunni. En fyrir hvað mun nýr flokkur hans standa? Ekkert, enn sem komið er.
Fyrir utan að vilja klára samningaviðræður við Evrópusambandið er með öllu óljóst fyrir hvað þingmaðurinn stendur. Hann átti hlut að einni tillögu til þingsályktunar á síðasta vetri, um bjartari morgna og seinkun klukkunnar. Hann tók sjaldan til máls og talaði lítið. Tveir töluðu minna á síðasta vetri, annar þeirra var í löngu fríi. Guðmundur hafði ekki mikið til málanna að leggja.
Þetta undirstrikaðist í fréttaviðtali nýlega. Hann nefndi frjálslyndi og lýðræðisumbætur, sem allir flokkar gætu skreytt sig með. Rétt eins og allir vilja bæta kjör fatlaðra" í stefnuskrám sínum. Það sem hann þó nefndi var að tengja fólk og "finna nafn á flokkinn". Ekki baráttumálin, heldur nafnið. Ekki innihaldið, heldur umbúðirnar. Ef menn nýta ekki viðtal eins og þetta til að ná til fólks með baráttumál sín, þá eru málefnin ekki merkileg.
Í framhaldi af þessu má spyrja: Er Guðmundur Steingrímsson stjórnmálamaður? Það verður seint sagt að hann geisli af pólitískum metnaði.
Ný framboð hafa jafnan snúist um eitthvað áþreifanlegt og klofningsframboð stundum líka. Borgarahreyfingin var uppreisn gegn fjórflokknum undir kjörorðinu Þjóðina á þing". Frjálslyndi flokkurinn átti sitt stóra baráttumál, sem var breyting á fiskveiðistjórn, en innanmein urðu honum að falli. Bandalag jafnaðarmanna var flokkur sem Vilmundur heitinn Gylfason stefndi gegn varðhundum valdsins" og vantaði hvorki metnað né ástríðu.
Guðmundur hefur leitað til Besta flokksins. Eitt af helstu stefnumálum Jóns Gnarr var, að hans sögn, að útvega sjálfum sér þægilega innivinnu og góð laun. Kannski er einmitt við hæfi að Guðmundur Steingrímsson leiti til Jóns Gnarr. Engin sjáanleg stefnumál. Nafnlausa aflið virðast snúast um nafla Guðmundar; að tryggja honum þægilega innivinnu og prýðileg laun.
Vonandi koma fram ný framboð og nýtt fólk. Marktæk framboð sem snúast um eitthvað sem skiptir máli. Framboð sem hreyfa málum, hreyfa við fólki og verða til bóta.
Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá Guðmundi og Gnarr til þess að nýja aflið" verði eitthvað annað en naflaframboð. Hreyfing án baráttumála og án ástríðu er ekki svar við pólitískri kreppu og vantrausti. Naflaframboð Guðmundar og Gnarr fyllir ekki í neitt tóm. Og það er síður pláss fyrir grínframboð til löggjafarþings en sveitarstjórna.
1.10.2011 | 13:19
Höfuð Árna Þórs er "vondur staður"
Árni Þór þarf aðstoð til að komast á fætur. Ná áttum.
Ef honum er illt í höfðinu er það ekki litlu hænueggi að kenna. Ef honum sortnar fyrir augum er það samviskan að reyna að gægjast upp á yfirborðið eftir öll sviknu kosningaloforðin.
"Eggið hæfði mig á vondan stað" sagði þingmaðurinn. Höfuð Árna Þórs er vondur staður. Það gera öll svikin og esb-þjónkunin. Hann er búinn að tapa stefnunni og kjósendum sínum.
Vilhjálmur var flottur.
Ef loforðasvikarinn Árni Þór hefði staðið úti á Austurvelli og hlýtt á Skagamanninn skelegga, Vilhjálm Birgisson, hefði líklega þurft að leggja hann inn.
Er ekki kominn tími á hallarbyltingu í ASÍ? Gylfa út og Vilhjálm inn!
,,Eggið hæfði mig á vondan stað" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |