Excel hefur enga sál

Tölur um alvarleg vanskil og árangurslaust fjárnám segja ekki nema hálfa sögu. Þeim, sem harka af sér, líður ekki vel. En þeir borga, ennþá. Að tíunda hver fjárráða Íslendingur sé í þessum sporum er grafalvarlegt mál.

Þeir sem tekið hafa út séreignarsparnaðinn eru ósáttir. Sumir settu aurana í afborganir af lánum; greiddu inn á skuld sem hefði verið niðurfærð hvort sem er, með 110% þrældómnum. Þetta fólk sér ekkert fyrir peningana sína. Sparnaðurinn fór, réttlætiskenndinni er misboðið. Greiðsluviljinn hlýtur að fara líka.

Þótt hægt sé að reikna út bærilega stöðu með hjálp Excel eru til forsendur sem forritið þekkir ekki. Forritið getur ekki svarað spurningunni: Hvernig líður fólki? 


Excel hefur enga sál og engar tilfinningar.

Excel skilur ekki vonleysi þess vaxandi fjölda sem getur borgað af lánum og keypt í matinn, en ekki leyft sér neitt. Excel skilur ekki vanlíðan fólks sem á sífellt erfiðara með að láta enda ná saman.

Ef hér væru gerðar breytingar/leiðréttingar á lánum og framfærslukostnaði hefði það jákvæð áhrif á þjóðarsálina. Alvöru lækkun á bensínverði og almenningur yrði strax sáttari. Það væri a.m.k. verið að gera eitthvað fyrir fólk.

Sáttur maður er líklegur til að vera ánægður og bjartsýnn. Það er ekki hægt að setja "ánægju" eða "bjartsýni" inn í Excel og reikna út áhrifin á þjóðarhag. Það felst mikill kraftur í líðan þjóðar. Kraftur sem hægt er að virkja til að bæta þjóðarhag. Kraftur sem ekki er hægt að útskýra fyrir Excel.

Nú þegar séreignarsparnaður og varasjóðir ganga til þurrðar hjá mörgum fjölskyldum er hætt við að fjöldi fólks í alvarlegum vanskilum fari vaxandi. Því miður er þetta með sósíalistakreppuna rétt hjá framsóknarmanninum.

 


mbl.is „Erum stödd í sósíalistakreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband