Naflaframboð Guðmundar/Gnarr


Traust kjósenda á stjórnarflokkunum er svo lítið að það getur ekki talist ásættanlegt. Traustið á stjórnarandstöðunni er helmingi minna. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ný framboð.

Guðmundur Steingrímsson hefur fengið talsverða fjölmiðlaathygli vegna vinnu að nýju framboði, eftir að hafa gengið úr bæði Framsókn og Samfylkingunni. En fyrir hvað mun nýr flokkur hans standa? Ekkert, enn sem komið er.

Fyrir utan að vilja klára samningaviðræður við Evrópusambandið er með öllu óljóst fyrir hvað þingmaðurinn stendur. Hann átti hlut að einni tillögu til þingsályktunar á síðasta vetri, um bjartari morgna og seinkun klukkunnar. Hann tók sjaldan til máls og talaði lítið. Tveir töluðu minna á síðasta vetri, annar þeirra var í löngu fríi. Guðmundur hafði ekki mikið til málanna að leggja.

Þetta undirstrikaðist í fréttaviðtali nýlega. Hann nefndi frjálslyndi og lýðræðisumbætur, sem allir flokkar gætu skreytt sig með. Rétt eins og allir vilja „bæta kjör fatlaðra" í stefnuskrám sínum. Það sem hann þó nefndi var að tengja fólk og "finna nafn á flokkinn". Ekki baráttumálin, heldur nafnið. Ekki innihaldið, heldur umbúðirnar. Ef menn nýta ekki viðtal eins og þetta til að ná til fólks með baráttumál sín, þá eru málefnin ekki merkileg.

Í framhaldi af þessu má spyrja: Er Guðmundur Steingrímsson stjórnmálamaður? Það verður seint sagt að hann geisli af pólitískum metnaði.
 

Ný framboð hafa jafnan snúist um eitthvað áþreifanlegt og klofningsframboð stundum líka. Borgarahreyfingin var uppreisn gegn fjórflokknum undir kjörorðinu „Þjóðina á þing". Frjálslyndi flokkurinn átti sitt stóra baráttumál, sem var breyting á fiskveiðistjórn, en innanmein urðu honum að falli. Bandalag jafnaðarmanna var flokkur sem Vilmundur heitinn Gylfason stefndi gegn „varðhundum valdsins" og vantaði hvorki metnað né ástríðu.

Guðmundur hefur leitað til Besta flokksins. Eitt af helstu stefnumálum Jóns Gnarr var, að hans sögn, að útvega sjálfum sér þægilega innivinnu og góð laun. Kannski er einmitt við hæfi að Guðmundur Steingrímsson leiti til Jóns Gnarr. Engin sjáanleg stefnumál. Nafnlausa aflið virðast snúast um nafla Guðmundar; að tryggja honum þægilega innivinnu og prýðileg laun.

Vonandi koma fram ný framboð og nýtt fólk. Marktæk framboð sem snúast um eitthvað sem skiptir máli. Framboð sem hreyfa málum, hreyfa við fólki og verða til bóta. 

Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá Guðmundi og Gnarr til þess að „nýja aflið" verði eitthvað annað en naflaframboð. Hreyfing án baráttumála og án ástríðu er ekki svar við pólitískri kreppu og vantrausti. Naflaframboð Guðmundar og Gnarr fyllir ekki í neitt tóm. Og það er síður pláss fyrir grínframboð til löggjafarþings en sveitarstjórna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála þér að mörgu leyti Haraldur. En af því að ég er nú involveruð í Frjálslynda flokkinn og hef átt þátt í að móta stefnuskrá hans ásamt grasrót flokksins, þá get ég að vísu verið sammála því að innanmein urðu honum að falli, en það var meira.  L.Í.Ú vildi flokkinn alla tíð feigan og þeir gengu meira svo langt að hóta að reka menn í þeirra röðum sem villdi styðja flokkinn.  Allir fjórflokkurinn hafði horn í síðu flokksins, af ótta við það grasrótarafl sem þar var að byrja.  Og þegar óhreinlyndir menn komus þar inn og fengu til þess tækifæri að fara með flokkinn á óheillabraut, þá voru þau sjónarmið sett í forgang af forystumönnum hinna flokkanna, þeirra Steingríms J, Ingibjargar Sólrúnar, Geirs H. og Guðna, gegn betri vitund tíunduðu þau að flokkurinn væri rasistaflokkur, þegar þau vissu mæta vel að það sem var verið að ræða um var afar viðkvæm mál um réttindi útlendinga og skyldur ríkisins gagnvart þeim, þetta mál átti reyndar fullan rétt á sér sem kom síðar í ljós, þó öfgamenn innan okkar raða gæfu veiðileyfi á flokkinn vegna þessa.

En Frjálslyndi flokkurinn er ekki dauður, og ég veit ekki betur en að grasrótin hafi verið á fullu í baráttunni, mótmælunum og borgarafundum ásamt öðrum grasrótarhreyfingum, það er ennþá verið að vinna á fullu í miðstjórn flokksins og við höfum góðan formann Sigurjón Þórðarson sem var afar skeleggur á þingi á sínum tíma.  Varaformann Ástu Hafberg, sem svo sannarlega hefur staðið í tunnuslagunu ásamt mörgum fleiri. 

Ég hef þá trú að Frjálslyndi flokkurinn muni rísa úr öskunni eins og fuglinn Fönix í næstu kosningum.  ég hvet menn til að fara inn á www.xf.is og lesa stefnuskrána, þingsályktunartillögur þingmanna flokksins meðan þeir sátu á þingi, og jafnvel skoða hve mörg mál frá þeim voru síðan tekin upp af stjórinni, vegna þess að það voru góð mál, en ekki gott að Frjálslyndir höfðu komið með þau. 

En svona er pólitíkin á Íslandi í dag rotin upp í rjáfur og samstaða fjórflokksins órjúfanleg, þess vegna verður að koma þeim burtu af þingi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2011 kl. 09:48

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bendi líka á allar ályktanirnar sem miðstjórn hefur sent frá sér um landsmálin á undanförnum árum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2011 kl. 09:50

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar Jón Gnarr ákvað að hella sér í stjórnmál og stofnaði Bestaflokkinn með vinum sínum, var stefnan álíka skýr og stefna Guðmundar í dag.

Svo fór að koma í ljós að hverju Jón stefndi, fyrst og fremst að fá þægilegt vel launað innistarf og að svíkja öll loforð. Þeta var efst á stefnu hans. Hvoru tveggja hefur ræst.

Varðandi Alþingi, þá er ekki þörf á stjórnmálaflokki með slíka stefnu, hann er þegar til staðar. Að vísu er sá munur á að svikin voru ekki dregin fram fyrr en að loknum kosningum, en framkvæmdin er hin sama.

Það er nóg fyrir kjósendur að hafa einn flokk á Alþingi sem telur svik við kjósendur vera sitt hlutverk. Vinstri grænir hafa valdið því hlutverki með ágætum á þessu kjörtímabili og engin ástæða fyrir Gumma & Gnarr að ætla að keppa við þá, enda leikurinn ójafn. VG stendur Besta mun framar í þeirri iðju.

Nær væri fyrir Gumma & Gnarr að sækja um aðild að VG, þá gætu þeir stykt þann flokk enn frekar. Stefna Besta og VG liggur saman í því máli sem þáðir telja mikilvægast, að svíkja kjósendur.

Ekki þarf Gummi að óttast að hans hugðarefni falli í skuggann þó hann gengi í VG, sá flokkur hefur sýnt að hann stendur sem klettur um aðlögunarferlið.

Gunnar Heiðarsson, 3.10.2011 kl. 10:41

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ég hef einu sinni kosið Frjálslynda flokkinn, því sá flokkur var að berjast gegn rányrkjunni á fiskinum í landhelginni.

Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur þjóðin ekki þorað að styðja Frjálslynda flokkinn og þeirra réttlætisbaráttu, og virðast skammast sín fyrir að styðja Jón Gnarr?

Guðmundur Steingrímsson getur ekki einu sinni fengið atkvæði frá þeim sem kusu Besta flokkinn hann Jóns Gnarr, því Guðmundur og Jón Gnarr eru með mjög ólíkan bakgrunn og þjóðfélagssýn.

Guðmundur hefur ekki neina áberandi hugsjón, en Jón Gnarr hefur raunverulega og áberandi hugsjón fyrir bættum kjörum barna, gamalmenna, og bættu samfélagi. Það hefur hann sýnt og sannað, í óþökk stjórnmálaelítunnar, sem hefur lagt sig alla fram um að leggja hann í aftökueinelti, og sumir fjölmiðlar og fréttablöð taka fullan þátt í eineltisaftökunni á Jóni Gnarr. Þeir fjölmiðlar og fréttablöð eiga óheiður skilið fyrir sín eineltisvinnubrögð.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.10.2011 kl. 16:10

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er nú einmitt málið Anna, þeir leggjast á alla sem ógna fjórflokknum, og þar ráðast þeir eins og hýenur allir saman, alveg eins og gert var við Frjálslynda flokkinn.  Öll meðul notuð svo ekki sé sterkara tekið til orða og hafi þeir skömm fyrir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2011 kl. 16:18

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið á athugasemdirnar.

Guðmundur vill seinka klukkunni (og sofa lengur). Á Eyjunni sá ég umfjöllun þar sem hann kvartar yfir þeim sem tjá sig mest á þingi.

Það er ekki út í bláinn sem mál þurfa að fara gegnum þrjár umræður, samkvæmt stjórnarskrá. Þar eiga þingmenn að hlusta á öll sjónarmið og ræða málin í þaula. 

Maður sem nennir ekki að vakna, nennir ekki að hlusta og hefur lítið til málanna að leggja er ekki beint efni í afgerandi stjórnmálaleiðtoga.

Já, það þarf mikið að breytast til þess að "nýja aflið" verði tekið alvarlega.

Haraldur Hansson, 3.10.2011 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband