Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kratar hafa ljóta kæki

Þegar Gylfi og félagar í ASÍ gerðu kjarasamninga í vor var samið um kjarabætur sem ekki var innistæða fyrir.

Strax var ljóst að það myndi orsaka hækkanir, sem yrði velt út í verðlagið, sem veldur verðbólgu, sem þýðir að lánin hækka ... það þekkja allir þessa sögu.

En Gylfi Arnbjörnsson gaf "lítið út á slíkt" og lofaði auknum kaupmætti. Og nú hefur verðbólgan hækkað, eins og allir væntu, nema Gylfi.

Og hvað gera kratar þá?

Þegar þeir klúðra einhverju og skilja það ekki, er krónunni kennt um. Ég spáði að sú yrði raunin núna, en reyndist ekki sannspár. Gylfi notaði annan kratakæk og réðist á bændur.

Samningar ASÍ eru stikkfrí í hans augum. Í staðinn fékk hann að vaða uppi á RÚV og heimta "að landbúnaðarkerfið verði stokkað upp" og sagði að bændur væru "að taka meira til sín", sem reyndist rangt. En það átti að skella skuldinni á bændur.

Árásir krata á bændur, í tíma og ótíma, eru orðnar frekar þreytandi.

 


mbl.is Búvörur hækkað minna en aðrar neysluvörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamfarir eru himnasending

shock_doctrineHamfarakenningin, heitir þáttur sem RÚV sýndi í vikunni sem leið. Þar var fjallað um hvernig vondir menn nýta upplausnarástand til að koma fram málum sem ekki væri hægt undir eðlilegum kringumstæðum. Ná þeim fram meðan þjóð er í sjokki vegna t.d. stríðs eða náttúruhamfara.

Rauði þráðurinn var harkaleg gagnrýni kanadískrar blaðakonu, Naomi Klein, á frjálshyggjumanninn Milton Friedman og kenningar hans. Tók hún mörg dæmi máli sínu til stuðnings, m.a. valdaránið í Chile. Ég hef ekki sterkar skoðanir á Friedman. Færslan er hvorki um hann né hagfræði.

Frásögn Klein af einu svæðanna sem varð fyrir barðinu á flóðbylgjunni miklu jólin 2006 hringdi bjöllum. Meðan þjóðin var í sjokki fengu stórfyrirtæki í gegn leyfi til að byggja upp stór hótel og ferðaþjónustu sem heimamenn voru á móti. Þeir misnotuðu áfall almennings sem hafði hugann við annað. Áður stóð þar látlaus byggð heimamanna. 

Voru hamfarir „nýttar" á Íslandi?

Þegar íslenska þjóðin var í áfalli eftir hrunið kaus hún nýja valdhafa til að leiða endurreisnina, sem vonlegt var. En því miður leyndust vondir menn í hópnum sem gerðu allt annað en það sem þeir voru kjörnir til.

Í stað þess að vinna að hag almennings var farið af stað með alls konar mál, sem ekki hefðu haft hljómgrunn undir eðlilegum kringumstæðum. Þeir misnotuðu áfall almennings.

Vanhugsuð aðför að útgerðinni og atlaga gegn þjóðinni í Icesave málinu eru tvö dæmi. Stjórnarskráin fær ekki einu sinni að vera í friði. Stærsta „hamfaramálið" er þegar umsókn um aðild að Evrópusambandinu var þröngvað í gegnum þingið með því að afbaka lýðræðið.

Vondir menn finnast víða

Það eru örugglega til vondir menn sem misnota sér áföll, neyð og erfiðleika. Bæði einstaklinga og heilla þjóða. En í pólitík er það greinilega ekki bundið við hægri frekar en vinstri. Við eigum ömurlegt dæmi um slíkt fólk hér á landi. Núna.

Hvað skyldu margir vondir menn misnota sér aðstæður á Grikklandi, einmitt þessa dagana, mitt í áfallinu vegna efnahagslegra hamfara?

 


mbl.is Grikkir ræða við AGS og ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að taka af fólki réttinn til að kjósa

Undir engum kringumstæðum er það ásættanlegt í lýðræðisríki að stjórnvöld taki af fólki réttinn til að kjósa um stórmál. Málin gerast ekki mikið stærri en aðild að ESB.

Það er orðið meira en tímabært að stjórnvöld á Íslandi beri það undir þjóðina hvort hún vilji ganga í sambandsríki sem tekur af fólki réttinn til að kjósa um stjórnarskrána, hvað þá annað.

Vegna evruvandans eru fyrirsjáanlegar enn meiri breytingar á ESB, sem kalla á enn meira afsal á fullveldi. Vafalítið mun ESB taka af fólki réttinn til að kjósa um það líka. Það er vaninn.

Stöldrum við og spyrjum þjóðina.

Þetta er ekki einkamál nokkurra krata. Kjósum.

----- ----- -----

Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á Evrópusambandinu eftir að Ísland sótti um aðild. Svo miklar, að jafnvel þótt Samfylkingin hefði ekki tekið af fólki réttinn til að kjósa áður en sótt var um 2009 (og þjóðin þá sagt já), væri fullt tilefni til að spyrja þjóðina aftur núna.

 


Steingrímsson og Newton

isaac_newtonIsaac Newton er einn þekktasti vísindamaður Breta og var tvisvar kjörinn á þing. Sagt er að hann hafi aðeins einu sinni tekið þar til máls og þá til að biðja um að loka glugga.

Guðmundur Steingrímsson hefur tvisvar verið kjörinn á þing. Fyrst sem varaþingmaður Samfylkingar og svo fyrir Framsókn. Á síðasta þingi lagði hann ekki fram neitt frumvarp, en átti eina tillögu til þingsályktunar um bjartari morgna með því að seinka klukkunni. 

En nú segir hann að það sé "kominn tími til að gera eitthvað". Hvað? 

Fyrir hvað stendur Guðmundur í pólitík?

Helsti vegvísirinn er að hann greiddi iðulega atkvæði með Samfylkingunni í stóru málunum á síðasta vetri. Við vitum að hann vill ljúka aðildarsamningi, flýta klukkunni og gera eitthvað.

Líklega var skilnaður hans við Framsókn báðum til góðs og hægt að óska Framsókn til hamingju og Guðmundi velfarnaðar. Ekki liggur fyrir hvort hann vill sitja við opinn glugga eða lokaðan meðan hann gerir eitthvað á björtum morgnum.

Ég spái því að hann gangi aftur í Samfylkinguna rétt fyrir næstu kosningar.

 


mbl.is Þakka Guðmundi samstarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rotin, spillt eða skemmd

Nú er bannað að halda kökubasar nema bakkelsið sé framleitt í „viðurkenndu eldhúsi". Húsmæður, sem af myndarskap hafa bakað í þágu góðra mála, mega ekki lengur baka heima hjá sér. Eldhúsin þeirra eru ekki "viðurkennd".

Það er eitthvað bogið við þetta.

muffinsKonur (og stöku karlar), sem baka til að gefa, framleiða góðgætið í eldhúsinu heima, sem er reglulega þrifið með Cillit Bang. Þar er rennandi vatn, kæliskápur, hrærivél og bakaraofn. Hráefnin eru þau sömu og notuð yrðu þótt taka þyrfti  „viðurkennt eldhús" á leigu fyrir baksturinn.

Lög um matvæli eiga að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla. Þar segir að óheimilt sé að „markaðssetja matvæli" sem eru heilsuspillandi eða óhæf til neyslu „vegna mengunar eða vegna þess að þau eru rotin, spillt eða skemmd."

Ég nennti ekki að lesa lögin staf fyrir staf til að finna forsendur fyrir banninu, en þær eru eflaust þar.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir eiga að annast eftirlit. Lögin eru yfirgripsmikil og miðast við fyrirtæki í matvælaframleiðslu á öllum stigum. Ekki kemur á óvart að vísað er í fjölmargar gerðir Evrópusambandsins í lögunum. Stór lagabreyting sem tók gildi 1. mars 2010 er samkvæmt bandormi frá Brussel.

Er það ekki einmitt vandamálið?

Heildarlöggjöf sem á að passa upp á alla sölu og framleiðslu matvæla í fjölmörgum löndum leiðir af sér bann við bakkelsi í heimahúsum. Klukkutíma kökubasar er settur undir sama hatt og fjölþjóðleg verslunarkeðja. Lítil fjáröflun í góðgerðarskyni lýtur sömu reglum og atvinnurekstur í hagnaðarskyni.

Mig grunar að bannið sé bjánaleg hliðarverkun. Risavaxið skrifræðisbatterí stígur á lággróðurinn án þess að taka eftir því.

Múffu-mömmurnar á Akureyri geta komist framhjá lögunum með því að bjóða bakkelsið gefins og hafa söfnunarkassa á staðnum. Þeir sem fá gefins múffur setja örugglega nokkra hundraðkalla í kassann til að styrkja gott málefni.

 


mbl.is Múffurnar lutu í lægra haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrói Höttur: „Hættið allri skattheimtu“

robin_hoodHrói snýr heim ásamt þjóni sínum eftir áralanga fjarveru í Landinu helga þar sem þeir börðust fyrir konung. Það hefur mikið breyst í Skírisskógi og allt til hins verra.

Fólk lifir í ótta við nýja fógetann, sem innheimtir skatta af hörku. Sá fyrsti sem gefur sig á tal við þá við komuna heim til Locksley segir „við erum skattpínd til að standa straum af stríðsrekstrinum í Landinu helga".

robin_hood_sheriffHróa blöskrar óttinn og örbirgðin og heldur rakleitt til Nottingham. Þar blasir við sár fátækt og markaðurinn er ekki skugginn af sjálfum sér.

Hrói fer á fund fógeta, sem ræðir við rukkara sína um þörf konungs fyrir auknar skatttekjur og krefst enn harðari innheimtu.

 

Orðaskipti Hróa og fógetans byrja þannig:


Hrói: Hættið allri skattheimtu. Í dag.

Fógeti (glottandi): Skemmtilegt.

Hrói: Ég er ekki að spauga. Það er markaðsdagur í dag og þó er enginn markaður.

Fógeti: Og hvað áttu við með því?

Hrói: Ef maður framleiðir meira en hann þarf til að framfleyta sér og fjölskyldunni fer hann með afganginn á markaðinn. Hann skiptir á varningi og skírið tekur sinn skerf.
En þar til svo er, verðum við að hjálpa öllum að sjá fyrir fjölskyldum sínum. Koma viðskiptunum á að nýju.

Fógeti: Sá sem sér fyrir fjölskyldu sinni verður værukær og latur. Hann vill ekki vinna. Við þurfum soltna menn.
Okkar göfugi vinur virðist gleyma því að soltnir menn eru dyggðugir.
 

robin-hood-merrymenSamtalið er úr þættinum Will you tollerate this? sem er sá fyrsti í þáttaröð BBC um Robin frá Locksley, jarlinn af Huntington. Í framhaldi af deilum sínum við fógetann var hann gerður útlægur og varð þekktur sem Robin Hood, eða Hrói Höttur leiðtogi útlaganna og bjargvættur alþýðunnar.

Þetta var árið 1192. Skyldi Hrói eiga sér skoðanasystkin nú, 819 árum síðar?

 


mbl.is Hærri skattar skila sér lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum í stríð! Það eru 133 krónur í húfi

Ef 133 krónur er ekki ástæða til að fara í stríð, hvað þarf þá til? Eftir að Stöð 2 birti hræsnisfréttina sína tók samfylkingarvefurinn Eyjan við undir fyrirsögn í binga stíl. Athugasemdirnar eru í samræmi við það.

Það skal ráðist á bændur og lumbrað á þeim. Þeir geta ekki farið í verkfall eins og launamenn til að sækja kjarabætur. Leið þeirra er að fá afurðaverð hækkað þegar nauðsyn krefur. Það er notað sem tylliástæða fyrir árásunum.

Bændur eru sagðir skerða kjör landans með frekjulegum hækkunum. Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar um neysluútgjöld og dæmið reiknað til enda, kemur í ljós að hin „frekjulega hækkun" kostar meðal Íslending 133 krónur á mánuði.  


Einn hópur manna þarf enga tylliástæðu.
Síðustu daga hafa komið þrjár árásir úr þeirri átt. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ vill sniðganga lambakjöt, Þorsteinn Pálsson fulltrúi í ESB samninganefndinni fór langt út fyrir mörk skynseminnar í Fréttablaðsgrein og Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri sama blaðs leggur leiðara undir hnútukast í garð bænda.

Lykilatrið í þessu sambandi er þetta:

Þeir Gylfi, Þorsteinn og Ólafur eru allir samfylkingarmenn sem dreymir um inngöngu í Evrópusambandið. Tveir þeirra eru reyndar flokkavilltir felukratar sem eiga skírteini í öðrum flokki, en kratar samt.

Aðildarsinnar ráðast reglulega á bændur til að lækka varnir þeirra, enda líta þeir á þá sem hindrun á leiðinni til Brussel. Það er hin raunverulega ástæða fyrir stóra lambakjötsmálinu. Þeir "gleyma" smáatriðum eins og að við inngöngu myndu íslenskir skattgreiðendur borga 100 milljónir á mánuði í niðurgreiðslu á evrópskum landbúnaði.

Ólafur ritstjóri endar leiðara sinn á þessum orðum:


Búnaðarþing virðist vilja setja íslenzkan landbúnað í einhvers konar tímahylki og varðveita hann þar. Viljum við hin vera með í þessu hylki?
 

Hvar hefur maðurinn verið? Fáar stéttir, ef nokkur, taka bændum fram í hagræðingu, nýbreytni og góðu framtaki síðustu tvo áratugina eða meira. Þeir hafa tekið upp nýjungar í búskap og aukið framleiðni stórkostlega. Kornrækt, gróðurhús, orkuframleiðsla, skógrækt, ferðaþjónusta og nýjungin Beint frá býli eru dæmi um kraftinn í bændum.

Hugmyndir Ólafs um bændur eru hins vegar pikkfastar í tímahylki. Eða þá að það hentar ekki málstaðnum að opna augun. Það sem ég hef að segja um íslenska bændur má sjá með því að smella hér.


Nýjasti þátturinn
í stóra lambakjötsmálinu er að ráðast gegn ráðherra fyrir að leyfa ekki innflutning. Er ekki best að hann sæki sér fyrirmynd til Evrópuríkisins? Það er jú fyrirheitna land uppgjafarsinna.

Þar er innflutningur á matvælum hressilega tollaður eða beinlínis bannaður frá löndum utan sambandsins. Styrkir og tollvernd eru nefnilega ekki íslensk fyrirbæri, aldeilis ekki. En það hentar tilgangi árásanna best að "gleyma" aukaatriðum eins og sannleikanum. 

Þetta 133 króna stríð er orðið átakanleg della.
 


Hræsni að flytja ekki inn lambakjöt?

Í kvöld sá ég fréttir á Stöð 2, sem ég geri jafnan ekki. Þar var leikið tilbrigði við Gylfa-stef um árásir á bændur, sem ýmist eru gerðar af illgirni eða asnaskap. Í þetta sinn var þó nýr flötur á stóra lambakjötsmálinu.

Fréttamaður spurði landbúnaðarráðherra - ekki einu sinni, heldur tvisvar - hvort það væri ekki tvískinnungur og hræsni að flytja út lambakjöt á sama tíma og innflutningur á sömu vöru er ekki heimilaður. Brusselskur undirtónn leyndi sér ekki.


Ef ég mætti gefa ráðherranum ráð væri það þetta:

Bjóða nú þegar út þann kvóta sem heimild er fyrir vegna innflutnings á lambakjöti. Innflutningur verði háður sömu einföldu skilyrðunum og gilda í ESB ríkinu Möltu, sem náði stórkostlegum aðildarsamningum eins og allir vita.

Malta hafði áralanga reynslu af því að flytja inn lambakjöt frá Nýja Sjálandi, stærsta útflytjanda lambakjöts í heiminum. Það eina sem breyttist við inngöngu var að þeim var bannað að flytja inn kjöt frá löndum utan Evrópuríkisins. Nei, ekki tollvernd heldur bann!

Það er örugglega engin hræsni, en núna mega Maltverjar eingöngu flytja inn dýrari „innanlandsframleiðslu", þ.e. frá framleiðendum innan Evrópuríkisins.

Skilyrði landbúnaðarráðherra Íslands - að brusselskri fyrirmynd - væru að aðeins mætti flytja inn lambakjöt frá innlendum framleiðendum. Fréttamaðurinn og flokksfélagar hans myndu tæplega flokka það sem hræsni.
 


Banna skal bændum að hafa það gott

Íslenskir sauðfjárbændur, sem eru ærlegir vinnandi karlar og konur, framleiða svo frábæra vöru að hún rokselst, ekki aðeins hér heima heldur á erlendum mörkuðum líka.

Flutt er út gæðakjöt og fyrir það fæst gott verð. Þessi gjaldeyrisskapandi útflutningur gengur svo vel að jafnvel gæti skort lambakjöti hér heima.

Sauðfjárbændur, sem hafa tekið á sig verulega kjaraskerðingu síðustu misserin, gerðu eðlilega kröfu um að fá að njóta góðs af. Það er jú þeirra góða vinna sem er grunnurinn að velgengninni.

Eins og oft áður, þegar bændur fara fram á eðlilegar kjarabætur, rignir yfir þá skömmum. Það er látið eins og þeir séu með frekju og yfirgangi að skaða hag almennings! Hækkunin til þeirra hefur samt ekki mælanleg áhrif á framfærslu heimilanna.

Upphafsmaður árásanna er Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sem hvatti neytendur til að sniðganga íslenskt lambakjöt. Hvað ætlar Gylfi að gera ef flugmenn fá launahækkun? Hvetja landsmenn til að hætta að fljúga?

 


mbl.is „Lyktar af pólitík“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorsteinn Pálsson er vanhæfur og á að víkja

Þorsteinn Pálsson á sæti í samninganefnd Íslands í viðræðunum við Evrópusambandið.

Þar starfar hann sem embættismaður en ekki stjórnmálamaður. Sem slíkur hefur hann eitt og aðeins eitt hlutverk. Að vinna samkvæmt embættisbréfi að þeim markmiðum sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis, frá 9. júlí 2009. Ekkert annað.

Hann þarf að sýna fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Til að viðhalda trúverðugleika sínum sem embættismaður á hann ekki að blanda sér í pólitíska umræðu um málið, sem er stórt og umdeilt meðal landsmanna.

Það hefur Þorsteinn Pálsson samt gert, því miður. Hann hefur því sjálfur skapað sér vanhæfi. Í nýrri grein í Fréttablaðinu fer hann langt út fyrir þau mörk sem embættismaður í hans stöðu þarf að setja sér, ekki síst í athugasemdum í garð bænda.

Þetta er því miður ekki eina dæmið. Þorsteinn hefur ítrekað skrifað fyrir ESB aðild í föstum pistlum sínum í Fréttablaðinu. Um þá sem eru mótfallnir aðild Íslands að Sambandinu notar hann iðulega uppnefnið „Evrópuandstæðingar" eins og þar fari hópur fólks sem leggur fæð á heila heimsálfu.

Í greinum hans frá 28. maí og frá 2. júlí má sjá dæmi um hvernig Þorsteinn Pálsson fer út fyrir ramma skynseminnar í aðgreindum málum. Í þeirri seinni vefst það ekki fyrir honum að gera meintum "Evrópuandstæðingum" upp skoðanir.


Ekki spurning um mannréttindi

Samkvæmt 34. grein stjórnarskrárinnar er hæstaréttardómurum, einum manna, bannað að bjóða sig fram til Alþingis. Ekki til að svipta þá mannréttindum, heldur er þetta ákvörðun byggð á heilbrigðri skynsemi til að forðast óeðlilega hagsmunaárekstra. Stjórnmál og embættisstörf fara ekki saman í þeirra tilfelli. Þetta vita dómarar þegar þær sækjast eftir starfinu.

Á sama hátt þarf embættismaður í stöðu Þorsteins Pálssonar að halda sig til hlés í pólitískri umræðu um aðildarumsóknina. Það hefur ekkert með skoðanafrelsi eða tjáningarfrelsi hans að gera. Aðeins heilbrigða skynsemi. Þetta mátti Þorsteinn Pálsson vita þegar hann tók sæti í samninganefndinni.

Hvernig eiga bændur að geta treysti því að embættismaður, sem sýnir af sér slíka hegðan, sé fær um að vinna að þeim markmiðum sem Alþingi hefur sett og varða landbúnað?

Þorsteinn Pálsson hefur - eða hafði - um tvennt að velja. Annars vegar að halda sig frá hinni hápólitísku umræðu um aðildarumsóknina þar til starfi nefndarinnar er lokið. Hins vegar að afþakka sæti í nefndinni (eða segja sig úr henni) og geta þá tjáð sig óhindrað.

Í ljósi þeirra afglapa sem hann hefur þegar gert sig sekan um er í raun ekki um annað að velja fyrir Þorstein Pálsson en að víkja sæti. Ef Nýja Ísland á einhvern tímann að verða að veruleika þarf að gera alvöru kröfur um vandaða stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð. Þar með talið að menn uppfylli kröfur um hæfi og sýni af sér heilbrigða skynsemi á meðan þeir sinna trúnaðarstörfum sem embættismenn. Þorsteinn Pálsson gerir það ekki.

Því miður tel ég hverfandi líkur á að Þorsteinn Pálsson geri hið eina rétta og segi sig úr nefndinni. Það eru enn minni líkur á að honum verði vikið úr henni af utanríkisráðherra, sem sjálfur á sorglega sjaldan samleið með sannleikanum þegar Evrópusambandið er annars vegar.

Pólitískur ákafi hefur borið skynsemina ofurliði, bæði ráðherrans og Þorsteins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband