Ný stjórnarskrá útilokar ESB aðild

Tillögur stjórnlagaráðs, sem kallaðar eru "frumvarp til stjórnskipunarlaga" hafa ekki fengið mikla umfjöllun í samfélaginu. Þó hafa þær þegar valdið deilum um hlutverk forsetans, verði frumvarpið að lögum. Þar eru forsetinn, ráðamenn og stjórnlagaráðsfulltrúi ósammála um túlkun textans.

Stjórnarskrá á að vera stutt, einföld og skýr. Höfundar texta eiga ekki að útskýra "það sem við áttum við", textinn á að standa óstuddur til framtíðar. Ef hægt er að skilja einhverja grein á tvo ólíka vegu er sá texti ónýtur. Leikmenn eiga að geta lesið hann án aðstoðar sérfræðinga.

Ef ákvæði sem varða sjálfstæði, fullveldi og réttarstöðu lýðveldisins Íslands eru óskýr, þá hlýtur að eiga að túlka allan vafa fullveldinu í vil. Í 111. grein er fjallað um framsal ríkisvalds og greinin hljóðar svona:


111. gr.  Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér
framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem
Ísland
á aðild að
í þágu friðar og efnahagssamvinnu.
Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds
samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér
framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir
þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.
Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.
 

Þessi grein virðist eiga að koma í stað 21. greinar gildandi stjórnarskrár, sem nær til "samninga við önnur ríki" sem "horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins" en heimilar ekki meiriháttar framsal á ríkisvaldi. Framsalinu eru hér reistar býsna strangar skorður. Svo strangar að þegar á allt er litið getur það mikla framsal ríkisvalds sem aðild að ESB krefst tæplega fallið undir þessa grein. Fyrir því eru margar ástæður:

  • Setja má stórt spurningarmerki við það hvort aðild Íslands að Evrópusambandinu sé "bara þjóðréttarsamningur".
  • Þótt allir kjósi frið verður aðild ekki réttlætt með rökunum "í þágu friðar" þar sem ESB aðild bætir engu við það sem þátttaka í NATO gerir nú þegar í þeim efnum. 
  • Efnahagssamvinna, ein og sér, getur ekki krafist þess að þjóðin framselji verulegan hluta fullveldisins, sbr. EFTA samstarfið.
  • Gífurlegar pólitískar breytingar vofa yfir Evrópusambandinu, svo miklar að tæplega hægt að kalla það "alþjóðlega stofnun" lengur.

Stærsta ástæðan er þó þessi:
Í málum sem varða breytta stjórnskipan og skert fullveldi hlýtur að vera gerð krafa um aukinn meirihluta, annað er óhugsandi. Það er ekki gert í 111. grein. Við lýðveldisstofnunina 1944 þurfti að lágmarki atkvæði 56,25% allra kosningabærra manna til að breyta stjórnskipan landsins og ekki getur átt að gera minni kröfu ef flytja á fullveldið aftur úr landi.
Innan ESB er krafist aukins meirihluta í stórum málum; 62% og í sumum tilfellum 74%.  

Í 111. grein frumvarpsins er aðeins talað um þjóðaratkvæði þar sem 50,1% virðist nægur meirihluti. Greinin getur því aðeins átt við afmarkað framsal til "alþjóðlegrar stofnunar sem Ísland á aðild að" en ekki til fullveldisframsals af þeirri stærðargráðu sem ESB aðild krefst og breytir stjórnskipan landsins til frambúðar.

----- ----- -----

Væri löggjafarvald, framkvæmdavald og æðsta dómsvald selt í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar, þar sem minnsti meirihluti dygði til, væri það sannarlega 111. meðferð á fullveldi lýðveldisins Íslands. Greinin bæri þá númer við hæfi. Það er útilokað að stjórnlagaráð hafi ætlað sér að opna á slíkan glannaskap í meðferð á fullveldinu.

Ef vilji "löggjafans" var að setja slíka heimild í stjórnarskrána hefði það komið skýrt fram ásamt eðililegu skilyrði um aukinn meirihluta. Enga heimild af því tagi er að finna í frumvarpinu. Af því verður ekki annað ráðið en að nýja (væntanlega) stjórnarskráin útiloki aðild Íslands að ESB, verði frumvarpið óbreytt að lögum. Hvort gerðar verði á því breytingar eða viðbætur verður timinn að leiða í ljós. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

þakka góða greinagerð. Ég hefði samt vilja fá þessa grein 111 lagaða svo það sé tekið fram að aukin meirihluti ráði. Ég vænti þess að það verði farið yfir þessar tillögu greinar og ættu menn að stuðla að því. 

Valdimar Samúelsson, 6.10.2011 kl. 11:43

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi klásúla var nú raunar höfuðástæða stjórnlagaþingssirkussins og er ég ekki viss um að þessi málamiðlunarmoðsuða sé það sem Jóka vildi sjá. Nokkuð víst að reynt verði að "aðlaga" þetta í meðferð þingsins.  Við skulum vera minnug þess að hér ríkir borderline einræði.

Annars leikur mér forvitni á að fá opinbera skilgreiningu á hugtakinu þjóðréttur og þjóðréttarsamningur.  Það getur bara verið svona allskonar fyrir aumingja ef æðsta valdi sýnist svo, svona rétt eins og hugtakið allsherjarregla

Það er nú svo komið að ég má ekki sjá mynd né heyra rödd forsætisráðherra án þess að finna veruleg líkamleg ónot. Ég heyrði hana síðast hugga okkur við það að vandi Evrópusambandsins væri bara tímabundinn og ekkert til að hafa áhyggjur af. Hugsaði þá að rétt væri að hún hringdi í Rompouy og Berrassa og deildi þessari miklu vitneskju með þeim svo þeir væru nú ekki að missa svefn af óþörfu.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.10.2011 kl. 12:01

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.

Valdimar; er hinn möguleikinn ekki bara betri að engu verði breytt og textinn tekinn bókstaflega? Þar með ekkert ESB.
Við lýðveldisstofnun þurfti 75% já og minnst 75% kjörsókn og þar með tryggt að ekki yrði anað út í breytingar nema með samþykki að minnsta kosti 56,25% allra kosningabærra manna á Íslandi.

Jón Steinar; ég skil þetta með ónotin. Ég held að ég sé hreinlega kominn á næsta stig og farinn að vorkenna Jóhönnu. Hún var í raun hætt í pólitík en neyddist í formanninn og er nú í embætti sem hún ræður ekki við og á að vera leiðtogi sem hún hefur enga burði til. Það eru mennirnir "á bak við" sem valda ónotum.

Haraldur Hansson, 6.10.2011 kl. 12:47

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er ekki lögfræðimenntaður og vissulega verður yfirleitt til fleiri en ein túlkun á lagatexta og lengi má oft deila.

En ég hygg að þetta sé rétt hjá þér Haraldur.

Annar punktur er líklega að stórt vafamál hlýtur að vera hvort að Evrópusambandið sé alþjóðleg stofnun.  Þó að "Sambandið" sé fjölþjóðlegt, getur það varla talist alþjóðlegt.

Spurninging er hvað gerist í meðförum þingsins.  Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

G. Tómas Gunnarsson, 6.10.2011 kl. 14:14

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Tillaga stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er fallin. Hún féll hálfa leið á laugardaginn síðasta og til botns á mánudagskvöld, þegar helstu ráðamenn þjóðarinnar fóru að karpa um túlkun vald forsetans samkvæmt þeirri tillögu.

En það er ekki einungis vald forseta sem hægt er að deila um, eins og þú sýnir Haraldur. 111.gr. orkar verulega tvímælis og það má segja um fleiri greinar.

Þá eru beinlínis mótsagnir milli greina tillögunnar.

Eins og þú bendir á, á stjórnarskrá að vera stutt og skorinorð og þannig að ekki verði deilt um skilning þann er að baki liggur. Langur vegur er frá að svo sé í tillögum ráðsins, þó vissulega ráðsmenn sjálfir haldi öðru fram. Sú staðreynd að ráðamenn þjóðarinnar eru þegar farnir að deila um túlkun einstakra greina tillögunnar sannar að svo er ekki.

Hlutverk stjórnlagaráðs var einfallt. Það átti að koma með tillögu til Alþingis um breytingu þeirrar stjórnarskrár sem nú er í gildi. Ráðinu var þó veitt heimild til að koma með tillögu að nýrri stjórnarskrá, ef það teldi ágalla þeirrar sem nú gildir svo mikla að ekki væri hægt að laga hana. Eitthvað hafa ráðsmenn misskilið sitt hlutverk.

Að telja það mögulegt að búa til nýja stjórnarskrá á einungis fjórum mánuðum er auðvitað fráleitt, enda er árangurinn kominn í ljós. Ekki er enn búið að taka þessa tillögu fyrir á Alþingi en samt er farið að deila um túlkun einstakra greina hennar. Þetta er staðfesting á því að verk stjórnlagaráðs var misheppnað.

Svo voga sumir ráðsmenn sér að krefjast þess að tillaga þeirra verði lögð fyrir þjóðna óbreytt í bindandi kosningu. Með því sýna þeir einbeittan vilja til að sniðganga gildandi stjórnarskrá. Það er ekki mikil virðing sem þetta fólk sýnir stjórnarskrá landsins og því óhæft til að semja nýja.

Alvarlegst er þó að forsætisráðherra hefur tekið undir þetta sjónarmið og með því sjálf lýst því yfir að hún telji ekki þörf á að fara eftir stjórnarskrá landsins.

Gunnar Heiðarsson, 6.10.2011 kl. 19:48

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka innlitið og athugasemdirnar.

Þessi færsla er aðeins hugsuð sem vangaveltur leikmanns, enda á stjórnarskráin að vera öllum auðskilin. Og það á ekki að þurfa að deila um túlkun.

Ég vil síður gagnrýna þá 25 einstaklinga sem sömdu textann. Þegar "fólk af götunni" fær svona stórt verkefni að leysa á allt of stuttum tíma er ekki hægt að gera kröfu um fullkomna niðurstöðu. Enda er hún það ekki. 

Mönnum getur ekki verið alvara með að leggja þetta "frumvarp" óbreytt fyrir þjóðina í bindandi þjóðaratkvæði. Það hljóta að vera hugmyndir sem einhver hefur misst út úr sér í fljótfærni, en ekki fyrir hönd stjórnlagaráðs eða stjórnvalda.

Haraldur Hansson, 6.10.2011 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband