Egill Helgason varð sér til skammar

Það er hiti í framsóknarkonum og eflaust fleirum yfir fádæma smekklausu myndbandi. Þar hefur bloggarinn Lára Hanna klippt saman nokkur brot með Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni.

Myndbandið er gert Vigdísi til háðungar, eingöngu. Egill Helgason birti það á vefsíðu sinni, án athugasemda eða mildandi skýringa, undir fyrirsögninni Úr þinginu.

Vigdís Hauksdóttir er ekki fullkomin frekar en ég og þú. Hún getur kannski verið fljótfær og áköf í málflutningi sínum. Hugsanlega stundum seinheppin. En það réttlætir ekki einelti. Ekkert réttlætir einelti.

Myndbandið er ekki um nein málefni, ekki um pólitísk reikningsskil, heldur eru mismæli þingmannsins megin efnið. Inn á milli er svo skotið athugasemdum höfundar, sem taka af allan vafa um tilganginn. Svo endar það á hæðnishlátri.

Tilgangurinn er að hæðast að þingmanninum.
Að niðurlægja. Það er einelti.

Egill Helgason er ekki bara "einhver úti í bæ". Hann stýrir stærsta þjóðmálaþætti íslenskra fjölmiðla og verður því að gera meiri kröfur til sjálfs sín en "óbreyttur bloggari". Birting hans á myndbandinu gefur því aukna vigt. Meiri særingarkraft.

Til að bæta gráu ofan á svart bregst Egill við gagnrýni á fádæma hallærislegan hátt: "Ég gerði nú bara ekkert annað en að linka á þetta myndband." 
Ha, ég? Nei, ég er saklaus. Ég setti bara link.

Myndbandið er smekklaust og Láru Hönnu ekki til framdráttar. Birting Egils lýsir hugsunar- eða dómgreindarleysi. Afsakanir hans eru fáránlegar.
Þau Egill og Lára Hanna ættu bæði að skammast sín.

 


mbl.is Benti einungis á myndbandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei þú ert bara engan veginn að ná þessu með einelti Haraldur, einelti er ekki eitt video með skotum að þingmanni sem getur varla sett saman nokkur orð án þessu að stíga á tunguna á sér, hún er að fá fínan pengin fyrir þessa steypu, einelti er grimmur verknaður sem fer fram dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og þú nærð hvað ég er að fara, mannskemmandi ofbeldi sem markar einstaklinga ævilangt.

 Þetta með Vigdísi Hauksdóttir á ekkert skylt með það, hún verður bara að læra að undirbúa sitt mál þannig að hún virki ekki eins og hún sé að reyna að raða saman orðum á íslensku í fyrsta skipti, hún talar með miklum svona tón og dramatík en svo koma partar sem eru bara ekki alveg í lagi, ég meina það það meiga sumir kasta grjóti úr steinhúsi, er nokkur sem þú þekkir sem myndi nota þetta orðalag, og til að til að toppa það þá er hún engan hátt að stinga höfðinu í steininn, við verðum að gera lágmarkskröfur til fólks sem er á alþingi, þetta er ekki verndaður vinnustaður sorrý þó að það virki þannig stundum.

Bragi H (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 03:42

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þetta minnir mig á þegar evrópskir fjölmiðlar voru að reyna það sama í rógsherferð sinni gegn Ronald Reagan og George Bush áratugum saman. 

Þetta eru þau bestu meðmæli sem Vigdís Hauksdóttir getur fengið. Ég held mikið uppá Vigdísi Hauksdóttur.

Gunnar Rögnvaldsson, 9.10.2011 kl. 03:49

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Meðan Samfylkingarsinuð Eyjan, Egill Helgason og Lára Hanna rembast við að gera lítið úr þessari kröftugu þingkonu, Vigdísi Hauksdóttur, sem m.a. barðist mjög vasklega fyrir þjóðina gegn Icesave-svívirðu Steingríms og Jóhönnu, þá er reynt að láta hitt hverfa í skuggann, sem er aðalatriði umfjöllunar Vigdísar, þ.e. að forsætisráðstýran – sjálf líklega fjarstýrð úr Brussel í ýmsum yfirlýsingum sínum – hefur fullan hug á því að brjóta gildandi stjórnarskrá með löglausri þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að geta smyglað Evrópusambandssinnuðu fullveldisframsalsákvæði inn á þjóðina, sem engu fengi að ráða um slíkt gervistjórnarskrárákvæði. Nánar HÉR!

Ef einhver efast um orð mín hér, ætti viðkomandi að taka aftur fram sitt ESB-Fréttablað frá 1. þessa mánaðar og skoða þar aðalfyrirsögn á forsíðu: "ÞJÓÐIN KJÓSI UM STJÓRNARSKRÁ. Jóhanna Sigurðardóttir vill að þjóðin kjósi um nýja stjórnarskrá samhliða forsetakosningum á næsta ári."

Stjórnarskrárárásum linnir því ekki frá þessari lögleysukonu, Jóhönnu. Hvernig væri, að Eyjan og DV færu að veita því eftirtekt í stað sparðatínings-árása á hina mikilhæfari Vigdísi?

Jón Valur Jensson, 9.10.2011 kl. 06:29

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Egill kemur örugglega með eitthvað smellið um ýmsa í stjórnarliðinu líka til að sýna fram á að þetta hafi nú bara verið grín, eða hvað? Vigdís stendur þetta af sér.

Var þetta kannski aðför að einhverjum saklausum börnum, sem ekki ráða neinu um atburðarrásina, en verða fyrir aðkasti út af svona löguðu? Hvað vitum við um það? Þessu samfélagi berum við öll ábyrgð á, og ekki síst skólarnir, þar sem börn eru hreinlega skylduð með lögum til að mæta í og dvelja heilu vinnudagana, hvort sem þau þola vistina þar eða ekki.

Svo þarf starfsfólkið á öllum pólitísku fjölmiðlunum að einbeita sér að málefnum en ekki einungis einstaklingum og pólitískum andstæðingum, sem að sjálfsögðu bitna mest á börnum þessara umdeildu einstaklinga, sem að sitja kannski undir grimmu háðinu um sína nánustu með tilheyrandi niðurlægingu í grunnskólum landsins, eftir því hvernig pólitísku vindarnir blása þar. 

Nú er svo sannarlega tímabært að snúa sér að réttindum vernd og velferð barna, sem eru innmúruð á ofvernduðum vígvelli eineltis í grunnskólunum, og hvergi hægt að kæra meðferðina og enginn þarf að taka ábyrgð á, þótt andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum sé bannað með lögum? Eru allir búnir að gleyma því að 11 ára drengur fyrirfór sér vegna eineltis í grunnskóla fyrir stuttu síðan? Hann átti líklega ekki völ á annarri lausn?

Ég skora á Egil og fleiri að sinna þessum málum meir en gert hefur verið hingað til, svo við hættum að ala upp skaðaða einstaklinga  sem enda oft sem ofbeldis og eiturlyfjaneytendur eftir harðræði í grunnskóla.

Við fáum enga siðapostula frá Brussel til að taka til í lögbrotum hér á landi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.10.2011 kl. 07:59

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sammála ykkur þetta myndband var Láru Hönnu þeirri ágætu konu til skammar og einnig Agli með birtingu þess, skiptir engu hvort að var bara linkur eða annað.  Og umræðurnar sem á eftir komu á ýmsum stöðum minntu mig afar mikið á Lúkasarmálið.  Hælbítar sem hreyktust um og hlógu með.  Svona lagað ofbýður mér algjörlega.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2011 kl. 09:56

6 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.

Bragi H: Hvers oft þarf maður að verða fullur til að teljast alkóhólisti? Við því er ekkert svar, það er ekki fjöldi fyllería sem skiptir máli.

Hversu oft þarf að atast í einni manneskju opinberlega til þess að það teljist einelti? Þarf endilega vikur og mánuði?

  • Fyrst kom Hanna Lára með myndbandið
  • Svo birti Egill ófögnuðinn á Eyju-Silfrinu
  • Síðan fylgdi hópur bloggara í kjölfarið
  • Þá Eyjan með "frétt" með fjölda smekklausra athugasemda frá lesendum

Ég geri ekki ágreining um það ef þú vilt nota annað orð en einelti, t.d. "skepnuskapur". En það er bara engu skárra.

Haraldur Hansson, 9.10.2011 kl. 10:48

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott svar Haraldur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2011 kl. 10:59

8 identicon

Fáum Vigdísi sem dómsmálaráðherra í næstu rikissrjórn það þarf að fara taka á þessu samspillingar ESB landráðaliði Vígdís er rétta manneskjan í það, eins þarf losa tök ESB samspillingarinnar á RÚV allra landsmanna. Þettað gengur ekki lengur að ákveðin hópur fólks komist upp með að starfa með erlendu ríkjasambandi í að reyna véla landið undir erlend yfirráð með lygum og áróðri.Það eru góð meðmæli fyrir Vigdísi að hún skuli hreyfa við þessu liði

Örn Ægir (IP-tala skráð) 9.10.2011 kl. 11:27

9 Smámynd: Gunnar Waage

Leigupennar Björns Inga, bæði tvö, Egill og Lára Hanna. Það kekur mér fátt á óvart hjá Láru Hönnu en Egill hefur ekkert leyfi til að hegða sér með þessum hætti. Komin tími á nýjan þáttastjóra.

Gunnar Waage, 9.10.2011 kl. 11:49

10 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Sammála þér Gunnar það er þörf á nýum þáttastjórnanda, og þótt fyrr hefði verið.

Eyjólfur G Svavarsson, 9.10.2011 kl. 12:16

11 Smámynd: Haraldur Hansson

Einn bloggari kallaði þetta "aðför að málfari" sem er góð lýsing.

Það má líka skoða þetta frá öðru sjónarhorni: Hvert þessara þriggja hefur (mesta) ástæðu til að skammast sín?

  • Vigdís, fyrir að verða fótaskortur á tungunni, mismæla sig.
  • Lára Hanna, fyrir að setja á vefinn myndband sem hún gerði í þeim tilgangi einum að hæðast að þingmanni.
  • Egill, fyrir að setja myndbandið á víðlesinn vef sinn, sem er eins og að segja: Bendum öll á Vigdísi, híum á hana, hlæjum að henni.

Hlutur Láru Hönnu er ljótur. Hugsanlega ætlað hún að gera "eitthvað sniðugt" en skildi ekki alvarleikann. Staða Egils er önnur, hann á sér engar málsbætur. Fáránlegt yfirklór hans eftir á gerði aðeins illt verra.

Verst er að sjá vefskrif allra þeirra sem reyna að réttlæta smekkleysuna.

Haraldur Hansson, 9.10.2011 kl. 13:51

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú þykir mér dramatíkin og heilög hneykslanin flæða yfir barma. Er ekki komið gott af þessu andskotans væli Hans.  Ef það væri ekki fyrir þessa piparjúnkuvanþóknun og sjálfhverfu hneykslan ykkar, þá hefði varla nokkur maður tekið eftir þessu. Það lesa nú ekki margir Eyjuna lengur, en þökk sé ykkur, þá hefur aðsóknin risið til nýrra hæða.

Ég hef aldrei séð jafn skýrt dæmi um Streisand Effect hér á landi á. Verð bara að segja það....

Til hamingju með það allavega...

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 14:07

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er aftur á móti engin ástæða til að óska ykkur til hamingju með að gengisfella einelti svona rækilega. Hér eftir verður það væntanlega bara eitthvað ofan á brauð, eða hvað?

Skamm skamm...

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 14:13

14 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Talandi um málefni Hans...hafa þau endanlega vikið fyrir móðursýkinni?

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 14:15

15 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Haraldur meina ég...biðst velvirðingar á fljótfærninni.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 14:22

16 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka þér tilskrifið Jón Steinar.

Þér er fyrirgefin fljótfærnin. Ef þú kíkir á tímastimpilinn sérðu að þessi færsla er skrifuð löngu eftir að málið var orðið fyrirferðarmikið á vefnum; tvær fréttir á mbl.is, ein á Eyjunni og tugur blogga.

Þetta var mitt innlegg í umræðuna. Til þess er maður jú að blogga að taka þátt í umræðunni. Mér fannst þetta smekklaust og full ástæða til að hafa orð á því. Gagnrýni Styrmis í Silfrinu í dag gæti einmitt átt við um þetta myndband; of mikið fjallað um stjórnmálamennina og of lítið um málefni.

Haraldur Hansson, 9.10.2011 kl. 14:55

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel svarað hjá þér, Haraldur, – eins og önnur þín svör.

Jón Valur Jensson, 9.10.2011 kl. 15:08

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm, þetta var komið í hámæli í gær og ekki er ég að saka þig um að hafa hent þessum Lúkasi á loft, en ég sé ekki nokkurn tilgang í því að hnykkja frekar á þessu þegar móðursýkisfroðan flæddi yfir allt þá og þegar. Nú ekki nema þá að þú gerðir þér til einhverskonar upphefðar. Veit ekki...

Mér finnst allt í lagi að nudda manneskjunni upp úr því að virka ólesna og ótalandi í pontu þjóðþingsins. Hún bætir þá kannski á þekkingu sína og vandar sig næst. Það setur að manni hroll að finna að fólkið sem hefur framtíð landsins í höndum, stígi ekki í vitið. Þannig virkar þessi blessaða manneskja á mig, eins og svo margir fleiri á hinu háa Alþingi.

Hér er þetta greinilega spurningin um að vera í einhverju liði, eins og grúppían þín hann Jón Valur undirstrikar hér. Man U eða Liverpool fílingurinn.

Þessa heilögu hneykslan er ekki að finna þegar blönder Steingríms og Jóhönnu eru spiluð í lúppu á Youtube. Hvar er félagsnæmnin ykkar þá?

En eins og ég segi...Það er hrein og klár móðursýki að kalla þetta einelti eins og þú og jámenn þínir viljið gera. Þar skiptir engu hvenær þú birtir þetta eða taldir þetta mál til að vekja athygli á djúpri réttlætiskennd þinni.

Fæ ég bylgju frá þér Jón Valur fyrir þetta tilsvar?

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 15:42

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég ætla svo rétt að vona að þetta sé kerskni í Gunnari Rögnvaldsyni um eymingja Bush og Regan. Það er raunar engin leið í mínum huga að honum sé alvara, þótt mikill Ameríkumærir sé.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2011 kl. 15:52

20 Smámynd: Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Já nýjan stjórnanda segið þið. Ég sting upp á Davíð Oddsyni, hann ætti að hugnast ykkur ræflunum.

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson, 9.10.2011 kl. 16:00

21 Smámynd: Haraldur Hansson

Það verður hver að taka færsluna eins og hann kýs. En ég get lofað þér Jón Steinar að málefnin munu ekki víkja fyrir meintri móðursýki.

Næsta færsla hér á undan fannst mér mun merkilegri. Það kostaði einhverja vinnu að setja hana saman. Það voru ekki mikið fleiri en hundrað sem "litu inn" meðan hún var fremst en þessi fer að detta í þúsund heimsóknir. Menn verða bara að meta hvað það segir (ef eitthvað) og þá um hvern.

Þú kíkir bara á næstu færslu þegar hún kemur, en hún mun heita Maðurinn sem rústaði evrunni. Við hæfi í tilefni dagsins og fundarins í Berlín.

Haraldur Hansson, 9.10.2011 kl. 16:11

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvaða æsingur er í þér elsku Jón Steinar minn.  Vissulega er það einelti þegar fólk hundruðum saman rottar sig saman um að dissa eina manneskju jafnvel þó hún tali út og suður.  Ég verð að segja að ég hlustaði á ræður allra stjórnmálamannanna á alþingi þetta kvöld og mér fannst ræðan hennar málefnalegri heldur en bögglið hennar Jóhönnu.  Enda gekk forsætisráðherra út undir ræðunni.  Rétt eins og hún rölti út þegar Lilja Móses talaði. Þolir sennilega ekki þegar fólk tjáir sig um sannleikan eins og hann er. Sendi þér samt knús.

En ég þekki ekki mikið til þessarar konu, en mér ofbýður þegar allir leggjast á einn, eins og þú eiginlega bendir á sjálfur sennilega í undirmeðvitundinni líkir þú þessu við Lúkasarmálið.  Það gerði ég líka. 

Haraldur ég þekki þetta vel, maður skrifar vel undirbúna grein um alvarleg mál, og enginn svarar, svo setur maður saman einhverja bullu um trúmál, vændi eða rasisma og fólk þyrpist að með sterkar skoðanir.  Þessi þrjú málefni eru algjörlega tapú einhverra hluta vegna. 

Við erum bara ekki komin lengra í umræðuhefðinni en þetta því miður.  Og annað sem ég hef tekið eftir fólk fer ekki bara í manninn í staðinn fyrir málefnið, heldur dregur það oft fram aukaatriðin í málinu, en gleymir aðalatriðunum. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.10.2011 kl. 16:29

23 Smámynd: Dexter Morgan

Þegar um Framsóknarmann, (konur eru líka menn), er að ræða, þá er ekki hægt að verða sér til skammar. Þeir hafa verið algjörlega einfærir um það sjálfir, hingað til. Það er í raun ekkert eitt orð til í íslenskri tungu sem gæti lýst Framsóknarmennsku eins og hún hefur verið stunduð fram að þessu.

Dexter Morgan, 9.10.2011 kl. 17:21

24 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég segi nú bara eins og Ásthildur: elsku Jón Steinar minn, þetta gengur ekki hjá þér. Jafn-mikill Icesave- og ESB-innlimunar-andstæðingur og þú ert, þá er það furðuleg glámskyggni af þér að hafa ekki tekið eftir mörgum bráðskörpum barátturæðum Vigdísar Hauksdóttur, en falla hins vegar í þá gryfju að dma hana af mismælum sínum.

Fjölmiðlar saumuðu mjög að George Bush hinum yngra vegna hlálegra mismæla hans, en fráleitt er að telja hann illa gefinn þeirra vegna, og þegar Obama var tekinn við, kom í ljós, að einnig út úr honum gátu oltið meinleg mismæli–––eins og úr öðrum þjóðhöfðingjum.

Það eru kjánar sem taka orð úr samhengi og dæma manneskju á grunni þess, sem þeir hafa lakast mælt. Við dæmum fegurð náttúrunnar af fegurstu tindunum eða stöðunum fremur en hinum, sem minna höfða til okkar og mega liggja milli hluta.

Jón Valur Jensson, 9.10.2011 kl. 20:36

25 identicon

Vá... Miðað við viðbrögðin bjóst ég við einhverju rosalegu smekklausu myndbandi en allt sem ég fæ er þingmaður talandi útur rassgatinu á sér.

 "kasta grjóti úr steinhúsi"  XD

Þetta er ekkert miðað við haturróðurinn gegn Jóhönnu og Steingrími hér á þessum bloggum og fyrir það honum Geir Haarde. Sumir þurfa að stíga niður af sínum háa hesti.

Jónatan (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 02:05

26 Smámynd: Benedikt V. Warén

http://www.althingi.is/altext/130/b12/b101345.sgml

Hann var fyrri til

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. ........

........Ef niðurskurður á byggðakvóta um nokkur þúsund tonn er ekki niðurskurður á byggðakvóta þá skil ég ekki íslenskt mál. Ég held að það væri virkileg þörf á því að hæstv. sjútvrh. talaði bara hreint íslenskt mál og kæmi hlutunum beint frá sér en væri ekki að snúa þeim svona á haus eins og hann hefur verið að gera hér. (Gripið fram í: Og stinga hausnum í steininn.) Já, og stinga hausnum í steininn.

Benedikt V. Warén, 10.10.2011 kl. 14:15

27 Smámynd: Benedikt V. Warén

Margrét Frímannsdóttir var eitt sinn í viðtali og fjallaði um vingulshátt einhvers og sagði: "...hefur tungur tvær og talar með báðum."

Oftast er notað: ... hefur tungur tvær og talar sitt með hvorri. 

Benedikt V. Warén, 10.10.2011 kl. 14:17

28 Smámynd: Valmundur Valmundsson

Ja hérna hér, flest er nú kallað einelti. Held að téð Vigdís sé stærri persónuleiki en svo, að taka svona skemmtan nærri sér. Því skemmtan góð eru svona mismæli og verða ekki tekin öðruvísi af mér.

Valmundur Valmundsson, 11.10.2011 kl. 12:39

29 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gæti verið ágæt lausn á málin, Valmundur, ef ekki væri fyrir illkvittnina í þeim á Eyjunni.

Jón Valur Jensson, 13.10.2011 kl. 21:41

30 Smámynd: Jón Valur Jensson

... málinu ... og hananú!

Jón Valur Jensson, 13.10.2011 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband