Færsluflokkur: Bloggar
24.11.2008 | 22:26
Hvenær er borgarafundur góður fundur?
Fundurinn í Háskólabíói var um margt góður. En það var líka sumt sem var ekki nógu gott. Ráðherrarnir komu mér á óvart að mæta svona margir en aðsókn almennings kom mér ekki á óvart. Smekkfullt út úr dyrum. Bókstaflega.
Það var augljóst að ráðherrum leið ekki vel að sitja þarna undir ræðum sumra frummælenda, en við því er ekkert að segja. Ástandið er skelfilegt og allt annað en einfalt að horfast í augu við það. Spurningarnar voru misgóðar og svörin líka.
Ef framhald á að vera á þessu þarf að bæta fundarstjórnina. Ég tek ofan fyrir Gunnari fyrir undirbúninginn og vinnuna sem hann hefur lagt í þetta. Það að gera þennan fund að veruleika og fá bæði ráðherra og þingmenn til að mæta er afrek. En hann er því miður ekki góður fundarstjóri.
Að mínum dómi er það ófrávíkjanleg krafa að skipt verði um stjórnendur í Seðlabankanum. Það er þeim málstað ekki til framdráttar ef fundarstjóri segir í hæðnistón "leyfum Davíð bara að tala og hættum að hlusta á hann. Látum hann bara vera þarna og tala og tala, það hlustar hvort sem er enginn." Fundarstjóri á ekki að láta eins og hann sé aðalnúmerið í eigin afmælisveislu. Þá er ekki líklegt að viðmælendurnir vilji mæta aftur.
Það kom spurning utan úr sal um hversu margar undirskriftir þyrfti til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kom aldrei svar við þeirri spurningu. Ástæðuna tel ég slaka fundarstjórn þar sem skipulag var ekki nógu gott.
Ég vona að menn haldi samt áfram að boða til funda. Fyrir næsta fund þarf að læra af reynslu kvöldsins og gera betur næst. Fundarstjórn þarf að vera þannig að menn fái að svara þegar spurt er, eða eftir atvikum komist ekki undan því. Svo, sæmilegur fundur í kvöld og vonandi miklu betri næst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.11.2008 | 18:43
"Við Hlemmtorg rís gasstöðin gamla eins og forðum"
Það mátti búast við því að ólgan brytist út með einhverjum hætti. Á Austurvelli fannst flestum þetta sniðug mótmæli þegar "litli fánamaðurinn" dró Bónusgrísinn að húni um síðustu helgi. Og með öllu meinlaus. Handtakan, mótmælin og atburðirnir í dag sýna að það er mikil ólga undirliggjandi. Fréttin af gasinu á lögreglustöðinni við Hlemm kallaði fram í hugann eitt af gömlu snilldarverkum Megasar:
Við Hlemmtorg rís gasstöðin gamla eins og forðum
ég get ekki tjáð það né túlkað með orðum
hve allt þetta gaman er grátt
hvað það grátlega er allt marklaust og smátt.
En við Hlemmtorgið gnæfir gasstöðin þeirra svo hátt.
Birt án formlegs leyfis höfundar en í góðri trú um að það væri auðsótt (og með fyrirvara um fjórðu línu, heimildum ber ekki saman um hana svo ég treysti á eyrað).
Úr laginu Gamla gasstöðin við Hlemm.
Af plötunni Fram og aftur blindgötuna (1976)
Höfundur: Megas (Magnús Þór Jónsson)
![]() |
Mótmæli við lögreglustöðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2008 | 14:04
Þess vegna mæti ég
Enn heyri ég of marga finna sér ástæðu til að mæta ekki á Austurvöll. Eða búa hana til. Sumir segja að mótmælin snúist bara um einn seðlabankastjóra, það er rangt. Aðrir að þetta séu sellufundir fyrir vinstriflokka, sem er líka rangt. Enn aðrir blogga um að þetta séu bara kröfufundir um inngöngu í ESB, sem er fráleitt. Sumir setja fyrir sig einstaka ræðumenn þó þeir séu orðnir um tuttugu og tali hver á sínum forsendum. Aumasta afsökunin er þó veðrið.
Ég mæti vegna þess ...
... að kerfið er hrunið og það er ekki einkamál stjórnvalda hvernig byggt er upp.
... að orðspor Íslands hefur boðið hnekki erlendis og stjórnin aðhefst of lítið í því.
... að ég get ekki sett traust mitt á óbreytta sitjandi stjórn.
... að ég tel að skipa eigi þjóðstjórn sem situr þangað til hægt er að kjósa.
... að upplýsingar sem við fáum eru oft misvísandi. Stundum rangar.
... að enn hefur ekki einn einasti maður í stjórnkerfinu þurft að stíga til hliðar.
... að í öllum ríkisbönkunum sitja stjórnendur úr þeim gömlu.
... að nú er frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir. Þær verða að komast að.
... að það er vanvirðing við kjósendur að ætla sitja sem fastast.
... að gamli klíkuskapurinn er svo augljóslega enn til staðar.
... að það er pólitískt ofbeldi að neita fólki um kosningar, tilræði við lýðræðið.
... að mátturinn býr í fjöldanum. Því fleiri sem mæta, því stærri verður röddin.
... að ég vil sjá Nýja Ísland rísa, en ekki síga aftur í gamla farið.
Þess vegna mæti ég. Mættu líka, þín vegna.
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.11.2008 | 09:53
Við reddum þessu bara og gerum okrið snarlega löglegt
Námsmaður keypti sér rauðvín. Honum fannst það dýrt og kvartaði. Ekki til Neytendasamtakanna heldur til Umboðsmanns Alþingis. Og Umboðsmaður skrifaði bréf til dýralæknisins í fjármálaráðuneytinu og benti á stjórnarskrárbrot. Aðstoðarmaður hans lofar að redda málinu snarlega og gera okurverðið löglegt. Þannig var fréttin í stuttu máli.
Umboðsmaður er að sjálfsögðu formlegur. Segir að "verulegur vafi sé á" að heimildir séu "fullnægjandi miðað við þær kröfur sem leiða af stjórnarskrá ..." Og hann gerir athugasemdir við þær reglur "sem fjármálaráðherra hefur viðhaft við ákvörðun álagningar við smásölu áfengis hjá ÁTVR."
Formlegt, vandað og rökstutt, eins og alltaf hjá Umboðsmanni Alþingis.
Viðbrögð ráðuneytisins eru ekki þau að lækka verðið og fara að lögum. Brjóta ekki gegn kröfum sem leiða af stjórnarskrá. Aldeilis ekki. Heldur skal vinda sér í að gera þetta löglegt hið snarasta. Aðstoðarmaður ráðherra kalla það að "... skjóta traustari stoðum undir álagninguna hjá ÁTVR". Hann lofar líka að athuga hvort breyta þurfi lögum.
Það er eitthvað fallegt við þessa frétt. Og íslenskt.
![]() |
Álagning ÁTVR ólögmæt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2008 | 13:18
Tillaga um aukið traust - en ekki vantraust
Nú er komin fram tillaga um vantraust. Hún verður vitanlega felld, enda bara táknræn. Má ég frekar biðja um tillögu um aukið traust. Ekki bara táknræna, heldur alvöru.
Tillaga í þremur liðum:
1) Gefin út yfirlýsing um að þing verði rofið í vor og kosið til Alþingis 20. júní.
2) Að fram að þeim tíma verði þjóðstjórn sem allir flokkar taki þátt í.
3) Að allir flokkar samþykki að kosningabarátta hefjist ekki fyrr en eftir 1. maí.
Um lið 1:
Það er augljós meirihlutavilji fyrir því að stjórnvöld sæki nýtt umboð til kjósenda. Það er þetta með lýðræðið. Líklega eru fleiri sem vilja kjósa í vor en strax.
Í viðtali við forsætisráðherra í Kastljósi nefndi hann að 1. úttekt IMF verði í febrúar, að lán frá öðrum lánveitendum verði að berast fram í mars/apríl og að 2. úttekt IMF verði í maí. Ef ekki er ráðlegt að kjósa núna má gera það strax að þessu loknu.
Um lið 2:
Stjórnarflokkarnir tveir gefi eftir tvö ráðherraembætti hvor. Vinstri grænir taki við tveimur og Framsókn og Frjálslyndir við einu hvor. Allir vinni saman að lausn vandans svo flokkspólitísk rifrildi séu ekki til vandræða á meðan. Svo við eyðum ekki púðri í vantrauststillögur og annað karp.
Um lið 3:
Til að koma í veg fyrir "framboðsræður" á Alþingi, þegar menn eiga að vera að vinna þarfaverk, geri menn samkomulag um að sneiða hjá þeim. Einnig verði bannað að auglýsa í fjölmiðlum fyrr en eftir 1. maí. Sjö vikna kosningabarátta er alveg nóg.
Það er augljóst að stjórn Seðlabankans er byrði á forsætisráðherra og hann þyrfti því að setja nýja stjórn yfir bankann um leið og þessar breytingar yrðu tilkynntar. Þá þarf að fara fram hlutlaus kynning á Evrópusambandinu, sem verður stórt kosningamál. Fjölmiðlar mættu svo bæta sig í pólitískri umfjöllun. Ágætt fyrsta skref er að hætta að fjalla um hina ótímabæru forsetabók og setja Hvítbók á dagskrá í staðinn. Hún skiptir talsvert meira máli.
Bloggar | Breytt 24.11.2008 kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2008 | 19:53
Bardaginn er hafinn: Geir vs Davíð - 1. lota
Eftir sjö vikna upphitun er hann loksins hafinn, bardaginn. Í aðdragandanum sýndu báðir keppendur íþróttamannslega framkomu: Það á ekki að reka neinn. Hver segir það? Við skulum ekki persónugera vandann. Ætlar þú að hætta?
Í gær var svo slegið í bjölluna á morgunverðarfundi og bardaginn er hafinn. Davíð átti fyrsta höggið - góður vinstri krókur: "þetta er ekki mér að kenna, ríkisstjórnin svaf á verðinum." Geir kom með mjög mjög óvænt svar, beina hægri: "man ekki eftir neinum ráðleggingum frá Seðlabankanum sem ekki var orðið við".
Davíð dáleiddi hálfan salinn með eitruðum stíl en Geir náði að stela lotunni undir lokin með yfirhandar hægri: "það var sko mín hugmynd að sameina seðlabankann og eftirlitið".
Það eru spennandi og skemmtilegir tímar framundan, en ég efast um að þessi bardagi fari í 12 lotur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2008 | 19:00
"Aðgerðir í þágu heimilanna" og upplýsingar sem enn vantar
Á föstudaginn voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar kynntar og auglýstar í blöðum daginn eftir. Sú kynning er í hálfgerðum símskeytastíl, enda takmörk fyrir því hve ítarlega er hægt að kynna slíkt efni í blaðaauglýsingu.
Síðan þá hefur gengið á með IceSave lausn og framsóknar afsögn en aðgerðirnar, sem eru í 12 liðum, ekki fengið mikla athygli. Hér eru fjögur dæmi um liði sem þarf að skýra frekar:
Lækkun dráttarvaxta:
Þarna eru ekki nefndar tölur aðeins að lögin verði endurskoðuð og dráttarvextir lækkaðir tímabundið.
Vaxtabætur fari til heimilanna:
Vaxtabætur hafa þegar verið greiddar í ár svo tæplega reynir á þetta fyrr en í ágúst 2009. Nú má ekki taka bæturnar upp í skuld við Íbúðalánasjóð. En má áfram taka þær upp í t.d. bifreiðagjöld, skattaskuldir maka og meðlagsskuldir?
Lægri greiðslubyrði lána:
Lög um þetta voru samþykkt á Alþingi í gær. Með "greiðslujöfnunarvísitölu" á að lækka afborganir um 10-20%. Spurningin er hvort það eru vaxtagjöld sem færast á "jöfnunarreikning" og vaxtabætur skerðist í samræmi við það. Væri það ekki bara hálft gagn? Útfærslan getur skipt miklu máli.
Mildari innheimtuaðgerðir:
Það ber að "takmarka sem kostur er það hlutfall launa sem nýtt verði til skuldajöfnunar". Núna er það 75% en ég hef ekki séð hvað það á að verða. Á að lækka það um helming eða bara niður í 69%?
Nokkrir liðir í aðgerðapakkanum eru góðir, sér í lagi fyrir þá sem verst standa með húsnæðislán. En ítarlegri upplýsingar um útfærslu einstakra liða vantar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 14:28
Hundurinn sagði ekki ég, kötturinn sagði ekki ég ....
![]() |
Ábyrgðin liggur hjá bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2008 | 12:01
Við skuldum meira en milljón tonn af þorski
Nú þegar búið er að "leysa deiluna" um IceSave er upplýst að skuldin sé eitthvað nálægt 640 milljörðum króna. Hver hún mælist eftir eitt ár, þegar krónan hefur fallið hressilega, veit enginn. En á krónupeningnum er mynd af þorski svo kannski er best að nota þorskinn til að skilja stærðirnar.
Síðasta sala íslenskra skipa í Grimsby og Hull gaf um 420 krónur á kílóið af þorski. Það gerir þá 420.000 krónur á tonnið og ef reiknistokkurinn bregst ekki kostar 1,5 milljónir tonna af þorski að gera skuldina upp.
Ef þorskkvótinn í íslenskri lögsögu er 120 þús. tonn á ári tæki tæp 13 ár að veiða upp í skuldina. Allur þorskur til ársins 2021 í að greiða skuldina. Ef tvö sjávarpláss á Íslandi, t.d. Þingeyri og Vopnafjörður, fengju það verkefni að skapa verðmæti upp í IceSave skuldina, hversu margar aldir tæki að klára dæmið?
Þetta er alveg hrikalega mikil skuld - og það fyrir bankaútibú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2008 | 15:13
Á degi íslenskrar tungu: Væri hægt að fá Maastricht á mannamáli?
Það er nauðsynlegt að almenningur fái hlutlausar upplýsingar á mannamáli um Evrópusambandið. Efst á baugi í dag er hugsanleg innganga í ESB og upptaka á evru. Jafnvel fullyrt að hægt sé að koma Íslandi inn í ESB á einu ári og taka upp evruna einhliða á mánuði. Skoðanakannanir sýna meira en 70% stuðning við aðildarviðræður og flokkar boða annað hvort breytingar eða endurskoðun á afstöðu sinni.
En hvað er Evrópusambandið? Þó pólitík snúist um fjölmargt annað verða þetta stóru kosningamálin í vor. Hvað stendur í Maastricht samningnum? Og hvað felst í EMU og ERM II? Þarf þjóðaratkvæði? Þarf að breyta stjórnarskránni? Hverju breytir Lissabon samningurinn ef hann verður samþykktur?
Nú hlýtur að styttast í kosningar og því vil ég bera fram tvær óskir til verðandi frambjóðenda:
1) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "við verðum að ganga í ESB" eða "við verðum að standa utan við ESB". Upplýstu mig frekar um alla kostina og gallana líka, af fullum heiðarleika. Þá get ég vegið og metið sjálfur og komist að niðurstöðu eins og þú.
2) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "það eina sem vit er í er að taka upp evruna" eða "við verðum að standa vörð um krónuna". Upplýstu mig frekar um kosti og galla, ávinning og fórnir. Og gerðu það heiðarlega. Þá get ég sjálfur komist að niðurstöðu, eins og þú.
Og kæri pólitíkus, talaðu við mig en ekki niður til mín. Ef þú ert fullkomlega heiðarlegur og ég kemst að sömu niðurstöðu og þú, þá ætla ég að kjósa þig. En sértu ekki heiðarlegur ætla ég að ganga í lið andstæðinga þinna. Eða skila auðu.
Íslendingar eru vel læsir og skrifandi og ég treysti dómgreind almennings ekki síður en pólitíkusa. Við getum lesið bæði bókstafi og tölustafi. Jafnvel útlensku líka. Það á ekki að rétta okkur svörin í pakka með kosningaloforðum, heldur upplýsingar. Við finnum svörin sjálf og kjósum svo.
Hvíta bók á öll heimili
Ég legg til að gefin verði út bók sem gæti heitið Maastricht á mannamáli. Flokkar á Alþingi tilnefni fulltrúa í ritnefnd sem svo skipi þriggja manna ritstjórn óháðra manna sem hafa góða þekkingu á málunum. Síðan gefi Alþingi út ritið sem dreift verði til allra Íslendinga. Algjörlega hlutlaus umfjöllun, laus við flokkspólitík (ritstjórn án þingmanna).
Umfjöllunin þarf að vera skýr, þ.e. á máli sem allir skilja en ekki eitthvað torf á stofnanamáli. Þar verður að útskýra hvað Evrópusambandið raunverulega er, stoðirnar þrjár, muninn á því að hafa "bara" EES og fullri aðild, hver evruskilyrðin eru, hvaða tilgangi ERM II þjónar, hvort og þá hvaða áhrif evra hefur á vexti, hlutverk seðlabankans, muninn á myntbandalagi og EMU, um landbúnaðinn (CAP), fiskveiðarnar (CFP), verslun, tolla, sameiginlegan markað og annað sem máli skiptir. Og raunhæfan tímaramma.
Svona rit þarf ekki að verða neinn doðrantur og það er vel hægt að setja þetta allt fram á aðgengilegan máta. Það er nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir Lissabon samningnum líka, þó ekki væri nema í viðauka. Sjálfur hef ég reynt að rýna í þetta allt og er á báðum áttum. Það væri mikill fengur í hlutlausu riti sem legði grunninn að umræðu sem væri málefnalegri en verið hefur hingað til.
Bloggar | Breytt 21.11.2008 kl. 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)