ESB - Hænan er óæt, svo éttu fisk

Ein leið til að auka fiskneyslu er að leggja í auglýsingaherferð um hvað fuglakjöt sé vont. Korni er neytt ofan í gæsir með trekt og hænsnafóður er drýgt með fugladriti. Svo eru þessi grey alin í þröngum búrum og maður getur fengið salmonellu og allt.

Önnur leið er að auglýsa hvað fiskur er hollur og góður. Á grillið líka. Svo má láta uppskriftir að gómsætum réttum úr sjávarfangi fylgja. Maður skyldi ætla að seinni kosturinn gæfi betri raun en samt er það svo að í umræðunni um ESB er "fuglaleiðin" sorglega fyrirferðarmikil. Áberandi meira hjá með-hópnum. 

Dæmi um þetta eru þau skilaboð sem menn lesa úr áliti Gylfa Zoega í Mogganum í gær: Annað hvort sættum við okkur við úrelt höft eða göngum í ESB. Þetta, eitt og sér, er röksemdafærsla á borð við "hænan er óæt, svo éttu fisk, það er ekki um annað að velja".

Ein áberandi rök eru að utan ESB verðum við einangruð. Viðmælandi í Silfrinu talaði meira að segja um að "leita aftur inn í samfélag þjóðanna" af því að fólk kallar á lausn og leiðsögn.

En hversu einangruð erum við?
Ísland á aðild að Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra, einnig að EES og þar með ríka samvinnu við ESB, erum í NATO og eigum aðild að Evrópuráðinu, EFTA-dómstólnum, Norðurlandaráði, Schengen og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Ísland á líka aðild að alþjóðastofnunum varðandi menntamál, matvæli, verslun, sakamál, sjómælingar, barnahjálp, heilbrigðismál, mannréttindi, tolla, umhverfismál, viðskipti, öryggismál, flugmál, hafrannsóknir, náttúruvernd og fleira. Alls um 60 alþjóðastofnanir. Að halda því fram að það þurfi að ganga í ESB til að "leita aftur inn í samfélag þjóðanna" er býsna mikið út í bláinn.

Ég leita að uppskrift að fiskrétti en ekki hallmælum um hænuna. Þessi uppskrift þarf að vera með viðeigandi meðlæti, það er nefnilega hægt að spilla góðri matseld með vondu meðlæti. Hráefnið í það mætti vera fiskveiðistefna, landbúnaðarstefna og Lissabon samningur. Ég hef ekki áhuga á fleiri óætum hænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband