Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Guttavísur

Þingeyingar flagga í hálfa stöng, enda boðaður mikill niðurskurður í heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Guðbjarti heilbrigðisráðherra hefur verið boðið að sitja fund um málið á Húsavík.

Það er viðeignadi að rifja upp Guttavísur í tilefni dagsins.


Guttavísur 

Sögu vil ég segja stutta
sem að ég hef nýskeð frétt.
Reyndar þekki þið hann Gutta,
það er alveg rétt.

Óþekkur er ætíð anginn sá,
út um bæinn stekkur hann
og hoppar til og frá.
Mömmu sinni unir aldrei hjá
eða gegnir pabba sínum!
Nei, nei það er frá!

Allan daginn út um bæinn
eilíf heyrast köll í þeim:
Gutti, Gutti, Gutti, Gutti,
Gutti, komdu heim!

Andlitið er á þeim stutta
oft sem rennblautt moldarflag.
Mædd er orðin mamma hans Gutta,
mælir oft á dag:

Hvað varst þú að gera, Gutti minn?
Geturðu aldrei skammast þín
að koma svona inn?
Réttast væri að flengja ræfilinn.
Reifstu svona buxurnar
og nýja jakkann þinn?

Þú skalt ekki þræta, Gutti,
það er ekki nokkur vörn.
Almáttugur, en sú mæða
að eiga svona börn!

Gutti aldrei gegnir þessu.
Grettir sig og bara hlær.
Orðinn nærri að einni klessu
undir bíl í gær.

O'n af háum vegg í dag hann datt.
Drottinn minn - og stutta nefið
það varð alveg flatt.
Eins og pönnukaka.
Er það satt?
Ó, já, því er ver og miður,
þetta var svo bratt.

Nú er Gutta nefið snúið.
Nú má hafa það á tröll.
Nú er kvæðið næstum búið.
Nú er sagan öll.

(Höfundur er Stefán Jónsson)
mbl.is Borgarafundur boðaður á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta frétt að skrýtla?

Önnur málsgrein fréttarinnar endar á þessari setningu: Frumvarpið hefur ekki enn verið lagt fram. Samt segir í fyrirsögn að 65% séu fylgjandi frumvarpi Árna Páls.

Það sem helst hefur komið frá ráðherranum um málið eru fyrstu viðbrögð, daginn sem hæstiréttur felldi úrskurð um vexti af gengistryggðum lánum, sem áður höfðu verið úrskurðuð ólögleg.

Sumarið 2009 voru líka margir fylgjandi Icesave frumvarpinu, en það var áður en nokkur maður fékk að lesa samninginn. Væri ekki ráð að bíða með að kanna skoðun fólks þangað til eitthvað skriflegt hefur verið kynnt, eins og t.d. frumvarp til laga?

Þessa dagana er verið að senda mönnum bakreikninga vegna bílalána, sem þó hafa verið greidd upp. Aðrir telja breytingu á sumum húsnæðislánum vera óhagstæða. Veit einhver hvernig þetta verður í frumvarpinu? Um hvað var spurt? Hverju var fólk að svara?

Árni Páll boðaði líka breytingar á lánum fyrirtækja. Þó þannig að sum fengju leiðréttingu en önnur ekki, þar sem ekki þyrfti að aðstoða félög "með sterkar gengisvarnir" eins og hann orðaði það. Hvernig verður það útfært? Er hægt að setja lög sem leyfa sumum en öðrum ekki?

Þessi sami ráðherra hefur áður lýst hugmyndum sínum í fjölmiðlum, t.d. um tryggingagjald og atvinnuleysisbætur, sem síðan hafa ekki orðið að neinu. Sjáum frumvarpið fyrst og metum það svo.

Ég vona sannarlega að það finnist einhver lausn, sem hægt er að setja í lög. Lausn sem sátt skapast um og færir málin til betri vegar. Lausn sem léttir á vanda hins almenna borgara og þeirra fyrirtækja sem þurfa að veita atvinnu.

Á meðan ekkert er komið fram annað en óformleg viðbrögð eins ráðherra í viðtali, áskil ég mér rétt til að bíða með að fagna. Traust mitt á stjórnamálamönnum er ekki meira en það.

 


mbl.is 65% fylgjandi frumvarpi Árna Páls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvur er það sem glottir svona?

Mynd segir meira en þúsund orð. Það sannast á einni bestu hrunfréttamynd ársins sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Á myndinni má sjá menn hraða sér frá Dómkirkjunni yfir í þinghúsið, til að fara þar inn bakdyramegin, sem er í sjálfu sér táknrænt. Fremstur gengur biskup og á eftir honum sr. Halldóra með eggjarauðuna vætlandi úr eyranu.

Forsida Mbl

Forsetafrúin er áhyggjufull og Jóhanna grúfir höfuðið í hendur sér. Í baksýn er æstur almúginn, lögreglan er á staðnum og þrúgað andrúmsloftið leynir sér ekki. Hægra megin á myndinni má sjá þrjá ráðherra og áhyggjusvipurinn í andliti þeirra leynir sér ekki.

En það er einn sem sker sig úr.

Forsida Mbl OssurUtanríkisráðherrann, Össur Skarphéðinsson, er á miðri mynd. Hann röltir áhyggjulaus, kæruleysislegur með hendur í vasa og glottir! Það er eins og hann tilheyri allt öðrum veruleika en allir hinir á myndinni.

Staksteinar dagsins (sem tengjast myndinni ekki) voru óþarfir. Undir fyrirsögninni "Á skjön við veruleikann" er fjallað um Össur og hvernig hann lætur ekki staðreyndir trufla sig, sem í sjálfu sér eru engar nýjar fréttir.

Lokaorð Staksteina eru: "Hann telur orðið farsælla að lygna aftur augum og búa sér til sinn eigin sýndarveruleika." Staksteinaskrifari hefði getað sparað sér pistilinn og vísað á myndina á forsíðu. Hún segir einmitt þessa sögu, betur en hægt er að lýsa með orðum.

 


mbl.is Blæddi úr eyra prestsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrrealískt ástand og aumingjagæska

Ekkert endurspeglar hið súrrealíska ástand í íslenskri pólitík betur en endurkoma Björgvins G Sigurðssonar á þing og þá sér í lagi það sem hann segir sjálfur. Ráðherrann sem svaf á verðinum en slapp við ákæru, tilkynnir komu sína með því að segja:

Ég held að réttarhöld yfir Geir Haarde hafi ekkert með réttlæti að gera.

Með þessu segir hann að landsdómsmálið hafi verið pólitískur hanaslagur, sem eru þungar ásakanir á bæði andstæðinga og samherja. Sjálfur slapp hann. Sumir útskýrðu sýknuatkvæðið með því að Björgvini hafi verið haldið utan við atburðarrásina og hann því ekki vitað neitt. Ráðherrann sjálfur.

Finnst honum virkilega ekkert að því að snúa aftur undir þessum formerkjum? Að hafa verið hlíft út á aumingjagæsku? Að samherjar hans telji að hann hafi verið svo mikill sofandi sauður á ráðherrastóli að það sé rangt að draga hann til ábyrgðar?

Nei, greinilega ekki. Síðdegis, eftir setningu þingsins, birti Smugan stutt viðtal við Björgvin (sem er að skrifa bók). Þar segist hann vera ánægður með að snúa aftur til starfa á Alþingi og að hann hafi ekki fengið egg í hausinn frá æstum mannfjöldanum á Austurvelli.

Það er einn ljós punktur í Smuguviðtalinu. Björgvin segir að þrúgandi andrúmsloft dagsins sé "eftirminnilegt". Gott, hann var þá alla veganna ekki búinn að gleyma atburðum dagsins fyrir kvöldmat.


Það er ekki nóg að tala um að endurreisa virðingu Alþingis. Á meðan þingmenn eins og Björgvin G og Þorgerður Katrín geta sest aftur í stólinn sinn og aðrir sem rúnir eru trausti setið áfram, þá þokast ekkert í virðingarátt.

 


mbl.is Eggjum rigndi yfir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, tökum nú 'Secret' á þetta

Secret

Einkennishróp búsáhaldabyltingarinnar var: "Vanhæf ríkisstjórn! Vanhæf ríkisstjórn!"

Eftir á að hyggja var það jafn vitlaust og að biðja Giljagaur um kartöflu í skóinn. Enginn fattaði það þá, en eins og mér var réttilega bent á þá virkar The Secret. Það sem við fengum var einmitt: Vanhæf ríkisstjórn!

Getur einhver séð betri skýringar á öllum u-beygjum Steingríms Joð? Hann er ofurseldur Secret töframættinum og gerir einmitt það sem fjöldinn krafðist. Tryggir okkur vanhæfa ríkisstjórn.

Núna, þegar svefnpokabyltingin er að ýta úr vör legg ég til að hún vandi val á slagorðum.

Hæfa ríkisstjórn! Betra alþingi! Réttlátt samfélag!   

Laugardag eftir laugardag stóð ég á Austurvelli, mánuðina eftir hrun. Rödd fólksins hrópaði: Ríkisstjórnina burrrt. Ég mætti til að vera með og sýna stuðning. Hlustaði á ræðurnar og fór svo sáttari heim, ískaldur á tánum. Núna sé ég eftir tímanum sem ég eyddi í þessa tilgangslausu baráttu.

Svefnpokabyltingin verður að passa að það endurtaki sig ekki. Og fyrir alla muni sleppum öllu ofbeldi og skrílslátum, það er nóg af því á þingi.

 


Eru ráðherrar "bara hásetar"?

Þegar fjölmiðlar spyrja fólkið á götunni um landsdómsmálið er enginn sáttur, þótt af mismunandi ástæðum sé. Flestir segja að annað hvort hefði átt að ákæra alla eða engan. Sumir, sem tjá sig á vefnum, telja þó niðurstöðuna ásættanlega og vísa til sjóprófa, þar sem skipstjórinn einn er dreginn til ábyrgðar vegna sjóslysa.

En skipstjórarökin halda ekki.

Geir Haarde var sannarlega skipstjórinn. En að líkja Árna, Björgvini, Ingibjörgu og hinum ráðherrunum við óbreytta háseta er út í hött. Þau voru ráðherrar! Þau voru handhafar framkvæmdavalds og þingmenn að auki. Hásetarnir á þjóðarskútunni eru mörgum mörgum lögum neðar í pýramída samfélagsins. Að jafna málinu við sjópróf gengur ekki upp.

Alþingi átti að fjalla um athæfi sem varða refsingu, en ekki (flokks)pólitískt uppgjör.

Komist menn á annað borð að þeirri niðurstöðu að framin hafi verið athæfi sem varða fangelsisvist, þá er óhugsandi að slíkur gjörningur geti skrifast á einn mann í tólf manna ríkisstjórn. Ekki einu sinni þótt hann sé forsætisráðherra, hrunið snertir of marga þætti til þess. Beri "skipstjórinn" meiri ábyrgð en aðrir, ætti það að endurspeglast í úrskurði landsdóms en ekki í pólitískum sýknudómi Alþingis.

Alþingi er máttlítið og ósjálfstætt.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerir í skýrslu sinni margar athugasemdir við framgöngu stjórnmálamanna undanfarin ár, sem einskorðast ekki við ráðherra. Alþingi er gagnrýnt fyrir skort á sjálfstæði og faglegum vinnubrögðum, fyrir að lúta leiðtogavaldi og að vera eins afgreiðslustimpill fyrir framkvæmdavaldið. Gagnrýnt fyrir að bregðast almenningi.

Afgreiðslan á landsdómsmálinu var ekki til þess fallin að auka virðingu almennings fyrir hinni aldagömlu löggjafarstofnun. Það læðist jafnvel að manni sá grunur að sumir þingmenn hafi ekki skilið til fulls hvað í þingsályktuninni fólst. Afgreiðslan breyttist í pólitískan hráskinnaleik, sem var því miður fyrirséð.

Það þarf greinilega að endurreisa Alþingi á alla vegu: Virðingu þess, sjálfstæði og faglega getu. Þangað til er Alþingi ófært um að fara með ákæruvald.

 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lilja stendur uppúr!

LILJA MÓSESDÓTTIR vill segja upp samstarfinu við rukkarana í AGS, en telur að til þess skorti pólitískan kjark. Aðrir vilja klára viðbótar níu mánuði. Þetta sagði hún og útskýrði í þættinum Návígi í sjónvarpinu í gær.

Ef þú sást ekki þáttinn skaltu smella hér og verja næstu 28 mínútum í að hlusta.

Þetta er besta viðtal við stjórnmálamann sem heyrst hefur lengi. Þarna talar þingmaður sem greinilega er í meiri tengslum við íslenskan almenning en við eigum að venjast frá ráðamönnum.

Lilja stendur uppúr.

Hún er klár, jarðbundin og samkvæm sjálfri sér. Það er sjaldgæft að heyra stjórnmálamann gagnrýna eigin flokk eins og Lilja gerir, málefnalega og af kjarki. Enn sjaldgæfara að heyra þá mæla með hugmyndum andstæðinganna, sem Lilja gerir líka, óhikað. Hún lætur málefnin ráða.

Hún tekur undir hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu iðgjalda í séreignarsjóði og segir að Framsókn hafi átt bestu hugmyndina um lausn á skuldavanda heimilanna. En hugmyndin var kæfð af því að hún kom ekki frá réttum flokki.

Hún greinir frá því að hafa oft tekist á við Steingrím um AGS, sem hefur heljartök á stjórn bankamála. Einnig lýsir hún vonbrigðum sínum með frammistöðu eigin flokks í ýsmum málum og segir að erfitt sé að starfa með flokki sem sér bara eina lausn og á þar við óbilandi (en bilaða) ESB trú Samfylkingarinnar.

Þessi þáttur ætti að vera aðal fréttaefni dagsins.

 


mbl.is Þriðja endurskoðunin samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krötum var leyft að hugsa

Það sem Magnús Orri Schram sagði í Kastljósinu í gær (hér, 1:30 mín) er sorglegur vitnisburður um flokksræðið í íslenskri pólitík. Það er varla bundið við einn flokk. 

Það var tekin um það ákvörðun í þingflokki Samfylkingarinnar að hverjum og einum þingmanni væri frjálst að hafa sjálfstæða skoðun á þessu máli, taka afstöðu til þess samkvæmt sinni eigin sannfæringu.

Þurfti virkilega að taka ákvörðun um þetta?

Samkvæmt 48. grein stjórnarskrárinnar eru þingmenn aðeins bundnir að eigin sannfæringu. Flokkar eiga ekki og mega ekki taka ákvörðun um hvort þeim fyrirmælum er fylgt. Er það gert til að þurfa ekki að smala köttum?

Það væri forvitnilegt að vita hvort Jóhanna og Samfylkingin leyfi þingmönnum sínum "að hafa sjálfstæða skoðun" í Evrópumálum.

 


mbl.is Vísað til þingmannanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilraun til hirðuleysis

Vef-Þjóðviljinn birti á föstudaginn mikinn og kröftugan pistil um Landsdóm og málatilbúnaðinn sem nú er ræddur á Alþingi. Þar eru margir áhugaverðir punktar, aðrir orka tvímælis eins og gengur.

Ég leyfi mér að hnupla smá kafla, sem varðar Icesave.

Eitt er afar athyglisvert. Þingmannanefndin telur refsivert að leita ekki leiða til að tryggja að Icesave-reikningar Landsbankans rynnu í erlend dótturfélag. Það hlýtur að þýða að þingmannanefndin telur refsivert að gera ekki allt sem mögulegt væri til að koma í veg fyrir að skuldir vegna reikninganna lentu á íslenskum skattgreiðendum. Og var þetta þó á þeim tíma þegar Landsbankinn var í fullum rekstri og íslensk yfirvöld álitu ekki ríkisábyrgð á reikningunum.

Ef að það er rétt hjá nefndinni, að við þær aðstæður hafi verið beinlínis refsivert að leita ekki allra leiða til að reikningarnir færðust yfir í dótturfélag, hvað má þá segja um þá háttsemi núverandi stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð á þessum sömu reikningum?

Ætlar Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur gert meira en nokkur annar til að tryggja að íslenska ríkið þurfi að greiða Icesave-skuldina, að greiða því atkvæði að aðrir menn verði ákærðir fyrir að hafa ekki, fyrir bankaþrot, „leitað leiða" til að koma þessum sömu reikningum yfir í erlent dótturfélag? Þingmenn, sem hafa tvívegis samþykkt lagafrumvarp um að Íslendingar greiði þessar skuldir, ætla þeir að ákæra aðra fyrir að hafa ekki „leitað leiða" fyrir tveimur árum?

Rökin í þessum kafla eru ekki skotheld, jafnvel hægt að benda á mótsögn. Hér er hægt að lesa greinina alla, sem er hressandi lesning, líka fyrir þá sem eru á öðru máli. Meðal annars er spurt hvort hægt sé að sakfella og fangelsa fólk fyrir "tilraun til hirðuleysis". Svo er Silfur-Egill er með vangaveltur um Landsdóm í dag, sem hann tengir þó ekki Iceseve. Þar er allt annað sjónarhorn, sem líka er vert að skoða.

Þetta eru of alvarleg mál til þess að á Alþingi sé Landsdómi og ráðherraábyrgð veifað í hótunarskyni. Sem svipu eða refsivendi. Jafnvel í tíma og ótíma eins og hér. Sjálfur er ég báðum áttum og sammála ýmsum punktum, bæði hjá Agli og Andríki.

 


mbl.is Ráðherra dreginn fyrir landsdóms vegna Icesave?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur, síld og forsetinn

Ég veit ekki til þess að nokkur hafi skilgreint verksvið forsetans á þann hátt, að það sé óeðlilegt að hann taki þátt í baráttu fyrir brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar.

Þannig svaraði Ólafur Ragnar í fréttum RÚV, þegar hann var krafinn skýringa á því að hafa rætt við erlenda fréttamenn, útskýrt málstað Íslendinga skilmerkilega og sagt sannleikann. Enda eigum við því ekki að venjast af hálfu ráðamanna.

red-herringTil eru þeir sem ekki kunna að meta framlag forsetans. Eina mögnuðustu athugasemd bloggheima, gegn glæsilegri framgöngu Ólafs Ragnars, er að finna í færslu á Eyjublogginu. Þar beitir höfundur þeirri áróðurstækni sem upp á ensku er kennd við rauða síld, "red herring".  Hún gengur út á að beina umræðunni að einhverju ljótu og neikvæðu og tengja andstæðinginn eða málstað hans við það.

Á vef-Silfrinu var þessi klausa birt úr færslunni, undir fyrirsögninni Lengi getur vont versnað:

Þegar forseti Íslands er farinn að gagnrýna ESB, samtök sem eru eitthvað sterkasta aflið í heiminum sem berjast fyrir mannréttindum, í landi eins og Kína þar sem mannréttindi eru fótum troðin hefur Lýðveldið Ísland ná enn einum lágpunkti.  Lengi getur vont versnað, er það eina sem maður getur sagt.

Einu sinni var síldin kölluð silfur hafsins. Þessi rauða síld er sóðaleg aursletta úr uppskriftabók áróðurstækna.

Það að forsetinn gefi erlendum fjölmiðli heiðarleg svör við spurningum um Icesave og íslenskan efnahag er tengt við mannréttindabrot í Kína. Höfundur notar svo tækifærið til að upphefja Evrópusambandið í leiðinni.


Líklega hefur Eyjubloggarinn ekki vitað að sama dag og hann ritaði færslu sína skipaði ESB sinn fyrsta sendiherra í Kína. Í fréttum Evrópusambandsins um hið nýja embætti er ekki minnst orði á mannréttindabrot. Skyldi hann skrifa nýja færslu af því tilefni?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband