Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eyjan sem minnkar og minnkar

Fyrir tveimur áratugum steyptu Íslendingar þyrlupall á Kolbeinsey, sem er hundrað kílómetra norður af landinu. Það var tilraun til að koma í veg fyrir að hún hyrfi fyrir ágangi sjávar, enda notuð til afmörkunar hafsvæðis í lögsögu Íslands.

Nú er pallurinn horfinn og Kolbeinsey orðin að litlu skeri. Það þarf samt enginn að sjá eftir henni, lögsagan er löngu frágengin. Um tíma var óttast að Surtsey kynni að hverfa en nú er talið fullvíst að hún verði varanleg eyja.

eyjan_samdratturEn það er annars konar eyja sem líka minnkar og minnkar. Hún heitir Eyjan.is. Fyrirtækið Modernus mælir umferðina um vegi netsins og sýna talningar að ferðamönnum fækkar hratt sem leggja leið sína á Eyjuna. Þeim hefur fækkað um 43% á aðeins níu mánuðum.

Eyjan minnkar jafn hratt og Kolbeinsey og með sama áframhaldi endar hún sem lítið sker. Eða hverfur alveg.

Pressan dalar nokkuð frá áramótum og Vísir lítillega en Mbl og DV halda sínu prýðilega. Eyjan er fréttamiðill sem sker sig úr; bæði fellur hratt og fær helmingi færri flettingar á hverja heimsókn en Vísir og Mbl.is.

Allir miðlarnir reyna að draga til sín lesendur með fjölbreytilegu efni og smá slúðri um fræga fólkið. Eyjan hefur að auki Silfur Egils, Facebook-vakt, söguhorn Illuga og handvalda bloggara. Samt hrapar hún í vinsældum, hvers vegna?

Líklegasta skýringin er að með breyttri ritstjórn er Eyjan orðin enn einn samfylkingar- og esb-miðillinn, óspennandi og leiðinleg. Stundum kjánaleg. Helsta aðdráttarafl Eyjunnar er Silfrið hans Egils, án þess væri hún þegar orðin að litlu skeri.

Hverfi Eyjan.is alveg verður ekki meiri missir af henni en Kolbeinsey.


Safnvörðurinn Hemmi Gunn

hemmigunnÞótt Hemmi Gunn sé hin síðari ár þekktur sem útvarpsmaður var hann löngu áður orðinn vel þekktur á Íslandi fyrir afrek sín á íþróttavellinum, enda íþróttamaður góður.

Hitt vita færri, að hann starfaði í tvö sumur sem safnvörður á safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þetta kemur fram í viðtali sem vefurinn bb.is átti við Hemma. Viðtalið er stutt, en athyglisvert.

Það kom Hemma á óvart hvað Íslendingar vita lítið um sjálfstæðishetjuna, en útlendingar sem heimsækja safnið vita oft meira og hafi lesið sér til. Í viðtalinu segir hann meðal annars:
 


Mér finnst það sárt, að maður sem afrekaði jafn mikið og gerði Ísland að þjóð meðal þjóða sé jafn lítið þekktur hér og raun ber vitni.

Það á ekki bara að minnast Jóns á hátíðarstundum, það er miklu meira varið í hann, alla hans dynti og persónu hans.

Hann kom alveg með nýjar víddir inn í okkar þjóðfélag og ég vona bara að fólk fari nú að kynna sér Jón almennilega.
 

jon_sigurdssonÞað er greinilegt að safnvörðurinn fyrrverandi ber sterkar taugar til Jóns og safnsins. Það ættu allir Íslendingar að gera, líka þeir sem aldrei hafa komið á Hrafnseyri. 

Þeir sem vilja taka áskorun Hemma um að "kynna sér Jón almennilega" gætu til dæmis byrjað á þessum texta frá 1862, sem forseti Íslands fór að hluta með í mjög góðri hátíðarræðu sinni á Hrafnseyri.

Formlegt ritmál 19. aldar er dálítið frábrugðið nútímamálinu en textinn er engu að síður auðskilinn:

 


Sumir af vorum helztu mönnum eru líka svo hræddir við sjálfsforræði landsins, að þeir eru eins og skepnan, sem varð hrædd við sína eigin mynd.

En nú er það lífsmál fyrir vort land, að það hafi alla stjórnarathöfn sem næsta sér og hagkvæmasta, og þá stjórn, sem getur svo að kalla séð með eigin augum það sem hún á að ráða yfir, en ekki í speigli og ráðgátu, eða með annara augum, í 300 mílna fjarska.

Þetta er krafa, sem oss virðist ekki maður geti sleppt, nema með því að óska sér að leggjast í dauðasvefn að nýju.
 

Þótt ekki eigi að blanda Jóni Sigurðssyni í flokkspólitík 21. aldar er hreint ekki flókið að finna þessum orðum hans stað í þeim málum sem nú ber hvað hæst. Hann hefur svo sannarlega lög að mæla.

 


Vond úrslit: Silfurþing með 14% umboð

Slök þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings kom kannski ekki mjög á óvart en olli vonbrigðum samt. Úrslitin eru þó enn verri.

Landsbyggðin er með 3 fulltrúa en Samfylkingin með 9. Það fer ekki á milli mála að það var smalað hjá krötum og flokksmenn hvattir til að koma Þorvaldi Gylfasyni í efsta sætið. Með góðri kosningu yrði fulltrúi flokksins líklegur forseti stjórnlagaþingsins. Yfirburðir hans eru engin tilviljun.

Þegar myndir af kjörnum fulltrúum birtust þekkti maður alla úr fjölmiðlum nema kannski þrjá eða fjóra. Venjulegt fólk komst ekki að, sem kannski var viðbúið. Flesta hinna kjörnu hefur maður séð í Silfri Egils eða öðrum fjölmiðlum.

En þetta sitjum við uppi með. Hinir 25 kjörnu fulltrúar fengu samtals 32.033 atkvæði "í fyrsta sætið" eða rúm 38% greiddra atkvæða. Það gerir tæp 14% af mönnum á kjörskrá. Veikt umboð er samt ekki aðal áhyggjuefnið, heldur skipulagt áhlaup Samfylkingarinnar.

Ég gerði mér vonir um alvöru stjórnlagaþing, þar sem flokkspólitíkin fengi frí. Í staðinn fáum við Silfurþing með 14% umboð, þar sem Samfylkingin hefur tögl og hagldir og Baugspenninn Þorvaldur verður fundarstjóri. Verra gat það varla orðið.  

 


mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir að kaupa Sjóvá?

Eftir að hafa séð makalaust drottningarviðtal á Stöð 2 í kvöld læðist að manni sá grunur að Jón Ásgeir, eigandi stöðvarinnar, sé í hópi þeirra fjárfesta sem Heiðar Már fer fyrir. Tæplega undir eigin kennitölu þó, eins og stemmingin er í samfélaginu.

Heiðar Már Guðjónsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Björgólfi Thor, var mættur í viðtal. Hann fer fyrir hópi fjárfesta í kaupum á tryggingafélaginu Sjóvá. Síðustu daga hefur hann verið nokkuð í fréttum, sagður áhættusækinn fjárfestir og sakaður um að braska með krónuna.

Viðtalið var betra en besta PR-átak fyrir Heiðar Má og samfelld auglýsing um ágæti hans. Það var eins og spurningarnar hefðu verið sérsniðnar til að hvítþvo viðmælandann. Ekkert kom honum á óvart, hann átti góð svör við öllu og engri spurningu var fylgt eftir af spyrjanda. Bara spurt um næsta atriði eins og eftir handriti.


Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um viðskiptatengsl Heiðars Más Guðjónssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Má vera að maður sé orðinn svo tortrygginn eftir allt sukkið sem afhjúpað hefur verið síðustu misseri að maður vantreysti öllu. En ég tel samt að það hafi verið eitthvað bogið við þetta viðtal. Það var of þægilegt til að vera ekta.

 


Ragnar Reykás - breska útgáfan

Ragnar Reykás er einn allra skemmtilegast karakter sem komið hefur úr smiðju Spaugstofunnar og þykir nokkuð góður spegill á þjóðarsálina þegar hentistefnan ræður ríkjum. En Reykás finnst ekki bara á Íslandi.

Þessa dagana er verið að kynna ný fjárlög í Bretlandi þar sem mikill niðurskurður er boðaður vegna efnahagskreppunnar. En kreppan hefur einmitt getið af sér nokkra breska Reykása. Við skulum kíkja á tvo að gamni.


Lord Mandelson

Lávarðurinn Peter Mandelson er fyrrverandi viðskiptaráðherra Evrópuríkisins (EU commissioner for trade). Hann var ákafur talsmaður þess að Bretar hættu að nota pundið og tækju upp evruna. En núna í kreppunni hefur hann tekið Reykás-snúning og er þakklátur fyrir að hafa breska sterlingspundið, réttilega. Þetta sagði hann þá og nú:   

Að standa utan evrusamstarfsins þýðir einangrun fyrir Bretland og torveldar efnahagslegar framfarir. Það þýðir að færri erlend fyrirtæki fjárfesta í landinu, færri góð störf skapast og viðskipti verða minni við evrópska samherja okkar.
Meðan við notum aðra mynt en hin Evrópuríkin er það eins og að stunda viðskipti með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. 
          Lord Peter Mandelson, 18. maí 2003.


Samkeppnishæfni pundsins hjálpar útflutningsgreinum okkar og bætir samkeppnismöguleika innlendrar framleiðslu í Bretlandi.
          Lord Peter Mandelson, janúar 2010.


Nick Clegg

Annar breskur Reykás er Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sem eiga hlut að nýju samsteypustjórninni í Bretlandi. Hann gerði á sínum tíma grín að þeim sem vildu halda í pundið "af tilfinningalegum ástæðum". En núna þegar öllum er ljóst að evran er þýsk/frönsk mynt, sem er sem myllusteinn um háls annarra ríkja tekur hann eigin mynt framyfir evruna. Þetta sagði hann þá og nú:
 

Ef við stöndum utan evrunnar munum við einfaldlega færast í átt til fátæktar og óskilvirkni í samanburði við evrópska nágranna sem búa við meiri hagsæld. Samt haldið þið að slíkt hlutskipti sé ásættanlegt í skiptum fyrir tilfinningaleg rök um að halda tilgangslausri stjórn á okkar eigin stýrivöxtum. 
          Nick Clegg, 2001.


Ég held að evran sé ekki málið núna. Ég geng jafnvel lengra og segi að vextir á evrusvæðinu undanfarin ár hefðu ekki verið góðir fyrir breskan efnahag. Ég játa það að evruvextir undanfarin ár hefðu verið rangir fyrir Bretland.
          Nick Clegg, 7. apríl 2010.

 

Hlutlaus rannsókn sérfræðinga í Bretlandi (think tank) gaf þá niðurstöðu að ef Bretar hefðu gert þau mistök að taka upp evuna á sínum tíma væri fjöldi atvinnulausra í landinu allt að 40% hærri en hann er og þykir mönnum þó atvinnuleysið nóg. Ekki að furða að menn vilji ekki gangast við þýsk/frönsku myntinni í dag, þessari sömu og Össur boðar sem allra meina bót.

 


"SVOKÖLLUÐ LANDSBYGGÐ"

Það síðasta sem Ísland þarf á að halda er sundrung og klofningur. Það eina sem Samfylkingin býður Íslandi uppá er sundrung og klofningur. Stríðspólitíkin gengur út á að finna óvin og fara í stríð við hann. Ef óvinur finnst ekki er hann búinn til. Svo hefst árásin.

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, skrifar bloggfærslu sem er í takti við stríðspólitíkina:

Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á hinsvegar marga grátkonur

... en mér sýnast breytingarnar sem nú eru boðaðar á heilbrigðisþjónustunni um landið vera skynsamlegar og alveg nauðsynlegar í yfirstandandi harðindum.


hirdfiflJá takk. Núna skal búa til klofninginn "svokölluð landsbyggð" gegn höfuðborginni. Eins og ekki sé nóg komið. Þegar kosið var í fyrra völdu kjósendur sér fulltrúa sem þeir treystu til að stýra bráðaaðgerðum í kreppu. Að slá skjaldborg um heimilin, leiðrétta skuldabyrði, ljúka endurreisn bankanna, standa við stöðugleikasáttmálann og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Stjórnin hefur eytt orku sinni í flest annað.

"Okkur hefur ekki mistekist" sagði Jóhanna á blaðamannafundi í vikunni. Ekki kom fram hvað þeim hefur ekki mistekist. Veit það einhver? Í stað þess að vinna verkin sín hefur Samfylkingin komist upp með að kljúfa þjóðina í hverju málinu á fætur öðru og Vinstri græn breyttust í meðhlaupara á einu augabragði.

Fyrst komu linnulausar árásir á íslensku krónuna, því næst ráðist gegn öllum þeim sem veiða fisk og reglulega er svo atast í bændum. Þá kom fólskuleg árás á meirihluta þjóðarinnar með esb-umsókn, sem var þvinguð fram með pólitísku ofbeldi. Þjóðin er klofin í öllum þessum málum, svo árásir Samfylkingarinnar gengu upp.

Og áfram skal haldið. Næst skal kljúfa lýðinn með rothöggi á "svokallaða landsbyggð", sem hefur búið við samdrátt í aldarfjórðung. Til að bæta gráu ofan á svart rís nú upp Mörður og vill gera þetta að núningi milli "svokallaðrar landsbyggðar" og höfuðborgar í leiðinni. Sorglegast er þó að vita hver skýringin er á þessum linnulausum árásum á íslensku þjóðina. Ekki er þetta grunnurinn að norrænni velferð.

Þegar Samfylkingin þykist vilja víðtækt samráð um lausnir á skuldavanda heimilanna er einfaldlega ekki hægt að taka það alvarlega. Því miður.

 


Hvað kostar að gera ekkert?

Þau eru orðin ansi mörg viðtölin og fréttirnar þar sem útlistað er hvað kostar að leiðrétta lán þar sem orðið hefur forsendubrestur. Menn tala um 200 milljarða og skipta "tapinu" niður á stofnanir. Samt er aðeins verið að leiðrétta "skuldir" sem urðu til í verðbólguskoti; við forsendubrest.

En hvað kostar að leiðrétta þau ekki? Hefur það verið vandlega reiknað? 

Mun það leiða af sér fjöldagjaldþrot og fólksflótta? Vonleysi og uppgjöf ungs fjölskyldufólks? Þá verður það dýrara fyrir samfélagið þegar upp er staðið. Lánveitendur sitja þá uppi með fjölmargar íbúðir, sem standa ekki undir kröfunum og taka á sig raunverulegt tap með öðrum hætti. Þá tapa allir.

Eitt skal yfir alla ganga. Sami forsendubrestur, sama leiðrétting. 

Ungur maður gekk berserksgang hjá umboðsmanni skuldara í dag. Með hverri vikunni sem líður án úrbóta þyngist róurinn og líkur á berserksgangi aukast. Vandinn hefur blasað við í tvö ár. Ríkisstjórn sem vaknar ekki fyrr en átta þúsund manns mæta á Austurvöll og berja tunnur er ekki sérlega trúverðug, því miður.


mbl.is Líst illa á almenna niðurfærslu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dreifbýlispakkið

Á nokkrum stöðum á landsbyggðinni óttast menn að niðurskurður í heilbrigðismálum valdi byggðarlögunum óbætanlegum skaða. Enda á landsbyggðin að taka á sig 85% af niðurskurðinum, með tilheyrandi fólksflótta og blóðtöku.

DataMarket hefur sett fjárlagafrumvarpið fram á vefsíðu sinni og er forvitnilegt að rýna í heilbrigðisráðuneytið.

Niðurskurður kemur harðast niður á þeim sem minnsta möguleika eiga á að sækja heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur. Niðurskurður á heilbrigðisstofnunum Austurlands, Vestfjarða og Vestmannaeyja og á sjúkrahúsunum á Blönduósi og Húsavík er samtals 1.205 milljónir.

Á meðan fær Össur að föndra með þúsund milljónir við bjölluat í Brussel. Við það bætist óbeinn kostnaður í stjórnkerfinu. Bara með því að hætta þessari ótímabæru ESB-vitleysu væri hægt að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu um allt land.

Forgangsröðun velferðarstjórnarinnar er furðuleg. Það er engu líkara en að hún líti á íbúa hinna dreifðu byggða sem dreifbýlispakk sem er allt í lagi að berja á og fórna fyrir Brusseldrauminn. Sigmundur Ernir reynir að klína ófögnuðinum á embættismenn, sem er aum afsökun og kratísk. 

Bankahrunið var mikið og sárt. Kreppan er ömurleg. Íslenska þjóðin á það ekki skilið að sitja uppi með Samfylkinguna. Hvað þarf að gera til að koma henni burt?

 


Skoða, kanna, athuga ...

Í febrúar 2009 mætti Jóhanna Sigurðardóttir í Kastljós, þá nýorðin forsætisráðherra. Þá notaði hún sama svarið við átján spurningum af tuttugu (já, ég taldi svörin): "Það þarf að skoða það".

Núna, tuttugu mánuðum síðar, en sama svarið enn notað. "... ég tel að skoða þurfi hvort hægt sé að ..."

Er þetta ekki einmitt meinið? Það er endalaust skoðað, kannað, fundað og athugað, en skortir ákvarðanir. Það vantar aðgðerðir. Loksins þegar átta þúsund manns mótmæla við setningarræðu er farið að hlusta á það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa klifað á í tvö ár samfellt.

Þetta er það sem ég var að mótmæla með því að mæta á Austurvöll á mánudaginn: Skoðunarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er of seint að þykjast rumska núna, það þarf að fá framkvæmdastjórn; alvöru ríkisstjórn.

 


mbl.is Kaupleigurétt á eignir við lokasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vík til hliðar

Þegar þingmenn þurfa lögregluvernd til að laumast bakdyramegin inn í þinghúsið, eftir þingsetningu, er þingið komið á leiðarenda.

Þegar átta þúsund manns safnast saman til að mótmæla undir stefnuræðu forsætisráðherra, er ríkisstjórnin komin á leiðarenda.

Já takk Jóhanna, víktu til hliðar, það hjálpar.

 


mbl.is Ofvaxið getu stjórnarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband