Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þingmaður sakar ráðherra um geðvillu

Það þarf að auka virðingu Alþingis. Um það virðast allir vera sammála, bæði formlegar nefndir, almenningur og ráðamenn. Á sama tíma og þetta er rætt birtir Þór Saari grein þar sem hann segir Steingrím J Sigfússon "illa haldinn af Hubris heilkenninu".

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmenn Hreyfingarinnar tjá sig um andlegt jafnvægi kolleganna. Þráinn Bertelsson gæti lesið tölvupóst frá fyrrum flokksfélaga um það.

Hubris heilkenni er brenglun eða "geðvilla", sem er íslenska orðið sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar notar um fyrirbærið (sjá hér #15). Geðvilla þessi stafar af (miklum eða skjótfengnum) völdum og lýsir sér m.a. í hroka, firringu og skorti á auðmýkt. Orðatiltækið dramb er falli næst á við um hinn veika, þar sem með ásökun um Hubris er jafnan gefið í skyn að fall eða refsing sé innan seilingar.    

Um fjármálaráðherrann segir Þór Saari:

Það sem blasir hins vegar við er að formaður VG er orðinn svo illa haldinn af "Hubris" heilkenninu að hann gerir ekki lengur greinarmun á réttu eða röngu og segir einfaldlega það sem honum persónulega hentar hverju sinni.

Þessa grein birti Þór Saari á a.m.k. fjórum stöðum; Smugunni, Svipunni og Tíðarandanum, auk bloggsíðu sinnar.

Niðrandi ummæli um nafngreint fólk eru of algeng í netheimum, sér í lagi í nafnlausum athugasemdum við blogg og fréttir. Það getur verið erfitt að eiga við það en það er aldeilis fráleitt að þingmaður svívirði ráðherra í greinarskrifum á netinu.

Það skiptir engu máli hversu ósammála Þór Saari er Steingrími J Sigfússyni eða hversu óánægður hann kann að vera með embættisfærslu hans, það réttlætir ekki opinberar ásakanir um geðvillu.

Ef það á að auka virðingu Alþingis þurfa þingmenn að byrja á sjálfum sér, bæði innan þings og utan. Að sýna fólki tilhlýðilega virðingu og viðhafa háttvísi og kurteisi, bæði í ræðustól og á öðrum vettvangi. Að bera geðvillu á ráðherra í skrifum á netinu eykur ekki virðingu fyrir þingmönnum eða þinginu og er óviðeigandi með öllu.

 


Ég held með bændum

"Það ætti að leggja niður landbúnað og flytja hann inn í dósum" sagði ein sögupersónan í Punktinum hans Péturs, ef ég man rétt. En ég held með bændum, þótt aldrei hafi ég verið í sveit. Það væri nær að endurreisa stolt hins íslenska bónda.

Tvö síðustu sumur hef ég ferðast nokkuð innanlands og nýtt mér þjónustuna Beint frá býli sem hefur farið mjög vaxandi síðustu ár. Þetta er eitt af því sem bændur leggja til aukins fjölbreytileika í íslensku samfélagi.

Grænmeti í Árnessýslu, silungur frá Útey við Laugarvatn, nautakjöt frá Hálsi í Kjós og sauðakjöt frá Stað í Reykhólahreppi er meðal þess sem ég hef keypt beint frá býli. Að auki ávexti, kæfur, sultur, rjómaís, egg, reyktan rauðmaga og ýmislegt smálegt víða um land. Og nú er hægt að komast á bændamarkað í Reykjavík, þótt það jafnist ekki á við heimsókn í sveitina.

En bændur gera meira. Svo miklu meira.

bóndi kornÞegar maður keyrir um sveitir landsins er fátt yndislegra en að sjá bleika akra og slegin tún, kýr á beit og hesta í haga. Og þegar bóndi keyrir traktorinn og rúllar heyinu upp í "sykurpúða" er hann að nýta eina af auðlindunum; það sem landið gefur. Víða eru skjólbelti og öflug trjárækt, sem verður myndarlegri með hverju árinu. Bændur gera fallegt landið enn fallegra.

Búskapur hefur breyst mikið á fáum áratugum. Menn eru ekki lengur bara með nokkrar kýr í túninu heima og fé á fjalli eins og forðum. Nýjungarnar eru margvíslegar, t.d. eru ekki margir áratugir síðan kjúklingur var nær óþekktur á borðum landsmanna. Menn höfðu efasemdir um gróðurhúsin þegar þau komu en nú er íslensk kornrækt orðin að veruleika. Bændur hafa í raun verið duglegir við nýsköpun af ýmsu tagi.

Ferðaþjónusta og orkubúskapur

ferðaþjónusta bændaBændur bjóða upp á fjölbreytta ferðaþjónustu; gistingu, veitingar, sumarhús, hestaferðir, jöklaferðir og margt fleira. Margir fóru útí ferðaþjónustu til að drýgja tekjurnar, núna er hún ómissandi þáttur í þjónustu við ferðamenn hringinn í kringum landið. Án framlags bænda væri útilokað að bjóða upp á þá fjölbreyttu kosti sem ferðalöngum standa til boða.

Svo er það orkubúskapurinn. Bændur virkja ár og læki og selja rafmagn inn á landsnetið. Aðrir bora eftir heitu vatni á jörðum sínum og selja orku til neytenda. Það er ekki lengur hægt að setja samansem merki á milli bænda og sauðkindarinnar. Það er löngu liðin tíð. Bændur í dag eru jafnan vel menntaðir í búfræðum og margir með fína menntun á háskólastigi, enda störf til sveita orðin mjög fjölbreytt og krefjandi.

Umtalsverð atvinnusköpun

Þau störf sem landbúnaðurinn skapar - fyrir utan bústörf - skipta þúsundum. Nokkur fyrirtæki vinna úr mjólk og framleiða osta, jógúrt og fleira. Enn fleiri eru í kjötvinnslu og þar eykst fjölbreytnin á hverju ári. Grillkjöt af öllum gerðum er gott dæmi. Allt skilar þetta margvíslegum tekjum í ríkissjóð auk þeirra gæða sem víða má sjá og hvergi eru færð til bókar. Ef landbúnaðurinn væri "fluttur inn í dósum" myndu meira en tíu þúsund Íslendingar missa vinnuna.

Bóndi er bústólpi

sauðfjársmölunÍ viðtengdri frétt er sagt frá ólgu meðal sauðfjárbænda vegna verðskrár sláturleyfishafa og nýlega var talað um að sekta bændur fyrir að selja mjólk umfram kvóta. Reglulega heyrum við svo frá fólki sem sýpur hveljur yfir styrkjum til íslensks landbúnaðar. Þó myndu afskrifaðar skuldir miðlungs útrásardólgs dekka styrki til landbúnaðarins í einhverja áratugi.

Kerfið er auðvitað ekki gallalaust, en það fylgir sjaldnast sögunni hvað við fáum fyrir peningana. Það er þó svo miklu meira er ódýr mjólk og kótelettur á grillið.

Í flestum/öllum vestrænum löndum er landbúnaður styrktur. Tveir stærstu styrkþegar Evrópusambandsins eru stórar sykurverksmiðjur á Ítalíu. Hér ganga greiðslur beint til bænda í samræmi við framleiðslu. Kerfin geta því verið margvísleg.

Hvetjum bændur til frekari dáða

Frekar en að þrengja að bændum ættu stjórnvöld að vinna að metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir fjölbreyttan íslenskan landbúnað í góðri samvinnu við bændur. Renna stoðum undir búskapinn, lækka orkuverð til gróðurhúsa, lækka verð á áburði og ýta undir frekari nýsköpun. Þá mætti styrkja bændur enn betur til uppgræðslu og skógræktar því enginn hugsar betur um sveitir landsins en þeir sem búa þar.

Allt þetta er líka stór þáttur í að halda landinu öllu í byggð, að halda landinu fallegu, að viðhalda öflugri þjónustu í hinum dreifðu byggðum og að byggja undir ferðaþjónustu til framtíðar. Á endanum græðum við öll.

 


mbl.is Ólga í sauðfjárbændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skæruliðinn Ögmundur

Áður en Ögmundur Jónasson náði að setjast í ráðherrastólinn fékk hann ljóta pillu frá samstarfsflokknum. Sigríður Ingibjörg sagði, fyrir hönd "fleiri innan flokksins", að hún efaðist um að að friður verði um Ögmund. Ekki beint skynsamleg leið til að hefja samvinnu við nýjan ráðherra.

Rannsóknarnefnd Alþingis gerir alvarleg athugasemd við þá hefð sem myndast hefur í íslenskum stjórnmálum að forystumenn stjórnarflokkanna taki sér "húsbóndavald" langt umfram það sem stjórnskipan gerir ráð fyrir. Það leiðir af sér skaðlega hjarðhegðun.

Hvort er nú heilbrigðara:

  • a) flokkur þar sem menn skiptast á skoðunum fyrir opnum tjöldum, líka í erfiðum málum, og draga fram ólík sjónarmið.
  • b) flokkur þar sem hjarðhegðun ríkir og allir fylgja flokkslínunni.

Eigum við ekki að taka skýrslu rannsóknarnefndar alvarlega? Ærið er nú tilefnið.

Það virðist svo innbrennt í þjóðina að stjórnmálamenn eigi að "fylgja línunni" að þegar menn leyfa sér að fylgja skoðun sinni, eins og stjórnarskráin býður, er talað um órólegu deildina. Þá þarf að koma aga á liðið til að "tryggja vinnufrið".

Jóhanna kallar það "að þétta raðirnar". Og ef henni er ekki hlýtt umyrðalaust kvartar hún yfir kattasmölun. Einn bloggari gengur svo langt að kalla Ögmund skæruliða (þaðan kemur fyrirsögnin) af því að hann situr ekki og stendur eins og flokkslínan býður.

Má ég þá frekar biðja um kost a), sem er heilbrigðara fyrir stjórnmálin, lýðræðið og samfélagið allt. Pólitík á að snúast um skynsemi og réttlæti en ekki aga og húsbóndahollustu. Járnagi skapar ekki traust.

 


Björn Valur tekur snúing

Það er alveg magnað að lesa þessa frétt. Nú þegar lítur örlítið betur út með að það takist að stöðva Björn Val og félaga í hinni and-íslensku drápsklyfjahreyfingu ber hann sér á brjóst og segir: Þetta er allt okkur að þakka.

Fáir þingmenn hafa barist jafn opinskátt fyrir uppgjöf Íslands og Björn Valur. Hvort sem litið er á skrifin á vefsíðu hans, viðtöl í fjölmiðlum eða málflutning á þingi, þá er það allt á sama veg. Að gefast upp fyrir ofbeldi Breta og samþykkja ólögmætar IceSave klyfjar.

Í viðtali nú segir hann að stefnubreyting Norðmanna sé "eftir samskipti forystu Vinstri grænna" við þingmenn og ráðherra Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi.

Björn Valur skautar fram hjá því sem mestu máli skiptir:

Ef Ólafur Ragnar hefði ekki tekið í taumana og stöðvað Björn Val, Samfylkinguna og aðra uppgjafarsinna, þá hefði aldrei verið um að ræða nein "samskipti forystu Vinstri grænna" við norska þingmenn og ráðherra. Þá hefði Björn Valur fengið sínu framgengt.

Eftir allan gefumst-upp-í-IceSave áróðurinn þykist hann hafa staðið með íslenskum málstað alla tíð. Þetta er viðsnúningur sem ekki sést nema hjá Steinrími Joð, þegar hann þarf að svíkja helstu kosningaloforð.

 


mbl.is Ríkisstjórninni að þakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hellíngur af kellíngum

Þetta er það sem íslenska þjóðin mun alltaf muna og aldrei gleyma, hvernig þeir fóru með okkur.

Loksins sagði hún þetta skýrt og upphátt. Já, þannig lýsti Jóhanna yfirgangi Breta í IceSave málinu í Kastljósi kvöldsins. Þá getur lúðrasveit Samfylkingarinnar, með Þórólf Matthíasson á fyrstu básúnu, hætt að rugla endalaust um "að standa við skuldbindingar sínar" og beint sjónum að réttlætinu.

En því miður entist Jóhönnu ekki eldmóðurinn nema fáein andartök. Hún hafði ekki fyrr lýst hneykslun sinni á skepnuskap Breta en hún sagðist myndu greiða atkvæði með lögunum 6. mars. Það væri ekki annar kostur í stöðunni.

Niðurstaða ríkisstjórnar Jóhönnu er: Þetta er yfirgangur og lögleysa, en við verðum að sætta okkur við það. Við getum ekki annað.

Kannski er það okkar dýpsta ógæfa. Í ríkisstjórninni er allt fullt af kellíngum. Ég er ekki að tala um konur, heldur kellíngar af báðum kynjum. Þær karlkyns geta verið sýnu verri en hinar af sterkara kyninu.

Fólk sem ekki hefur kjark til að standa á rétti þjóðar sinnar á ekki að bjóða sig fram til ábyrgðarstarfa í stjórnkerfinu (Ögmundi var úthýst fyrir að vera ekki kjarklaus). Jóhanna sagðist alltaf hafa reynt sitt besta, en því miður er það ekki nógu gott. Hún sýndi það í Kastljósinu að hún ræður ekki við verkefni sitt.

Jóhanna Sigurðardóttir verður að víkja og hinar kellíngarnar í ríkisstjórninni líka.

 


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg skaðræðisskepna

"Aðstæður í Þistilfirði eru ekki ákjósanlegar fyrir björgun", sagði í frétt um ísbjörninn, sem þá var ófundinn.

isbjornÞótt hvítabjörn sé falleg skepna, úr hæfilegri fjarlægð, getur hann verið stórhættulegur og valdið usla og búsifjum. Þess vegna var ísbjörninn felldur af bónda í Þistilfirði.

Þistilfjörður er heimasveit Steingríms Joð, sem líka þarf að glíma við ísbjörn. Það er hún Ísbjörg, eins og sumir hafa íslenskað Icesave.

Iceseve er ekki falleg skepna eins og bangsi. Steingrímur ætti að taka sveitunga sinn sér til fyrirmyndar og koma þessari skaðræðisskepnu fyrir kattarnef sem fyrst. Ekki hleypa henni á land, þar sem aðeins er tímaspursmál hvenær hún veldur stórfelldu tjóni.

Þjóðþrifaverkið hefst 6. mars þegar við segjum nei við ríkisábyrgð á drápskjörum.

 


mbl.is Ísbjörninn stoppaður upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greindarskertir blýantsnagarar

Sumir segja upphátt það sem við hin látum okkur nægja að hugsa. Gamli ritstjórinn Jónas Kristjánsson er stundum hæfilega kjaftfor og lætur kurteisina ekki alltaf flækjast fyrir sér. Í gær birti hann þessa klausu á bloggsíðu sinni:

... Einkum er hávær fjarvera Jóhönnu Sigurðardóttur frá veruleikanum. Hún á að vera á flandri um Evrópu til að laga stöðu Íslands í umheiminum. En hún getur það ekki, er óhæf í starfið. Sama er að segja um alla ráðherra Samfylkingarinnar, eins og þeir leggja sig. Þetta eru blýantsnagarar, sem bíða eftir næsta útborgunardegi. Þar að auki þjást þeir af greindarskorti.

Hver er innistæðan fyrir þessari slæmu einkunn?

Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur, heldur sundurlaus hjörð undir forystu konu sem er þögul, ósýnileg og löngu hætt í stjórnmálum. Leiðtogakreppa vofir yfir. Hjörðin hangir saman á herópinu um inngöngu í Evrópuríkið. Annað ekki.

Það fer lítið fyrir stefnu en því meira um umbúðir og stimpla. "Stöðugleikasáttmáli" heitir einn og "Velferðarbrú" er annar. Svo er það óútfærða "Fyrningaleiðin" og það nýjasta; "Sóknaráætlun 20/20". Þar er þess freistað að finna stefnu með hjálp almennings og á kostnað skattgreiðenda. "Að ná fram samstöðu um lykilákvarðanir og framtíðarsýn" eins og það heitir á kratísku.

Þegar við þetta bætist, að hin stefnulausa hjörð í leiðtogakreppu, berst gegn þjóðinni í tveimur stærstu málum líðandi stundar verður ekki annað sagt en að einkunn Jónasar sé nærri lagi. Og þessi flokkur er í stjórn! 

Samfylkingin er skrýtin hjörð og hættuleg.

 


Íslendingar neita að mæta í eigin jarðarför

Einar Már Guðmundsson rithöfundur skrifar mjög áhugaverða grein í Sunnudags Moggann, þar sem hann fjallar um sögu Haítí. Ekki um hinn hörmulega jarðskjálfta 12. janúar, heldur þá gildru fátæktar og örbirgðar sem haítíska þjóðin hefur verið föst í um aldir.

Einar Már rekur sjálfstæðisbaráttu Haítí frá 1697 til 1804 og þá efnahagslegu kúgun sem þjóðin sætti til 1947. Það sem síðan fylgdi í kjölfarið allt þar til Aristide var kosinn til valda í lýðræðislegum kosningum með 67% fylgi. Í greininni fjallar hann einnig um aðkomu AGS og hvernig sjóðurinn hefur notað skuldsetningu sem tæki til einkavæðingar, lækkunar launa og niðurskurðar.

Ég mæli eindregið með að menn líti í Sunnudags Moggann og lesi greinina alla. AGS, sem leikur stórt hlutverk hér á landi núna, kemur mikið við sögu í greininni og IceSave á líka sitt pláss. Fyrirsögnin er fengin úr greininni, þar sem vísað er í synjun forseta á IceSave lögum. 

----- ----- -----

Hér eru nokkrar tilvitnanir í greinina (feitletranir mínar):

Fjármálaheimurinn er fullur af skuldunautum og lánardrottnum eins og í faðirvorinu.

Ekki fyrir löngu barst mér grein úr afrísku blaði þar sem fyrirsögnin er þessi: Íslendingar neita að mæta í eigin jarðarför.

Umbótaviljanum eru takmörk sett og þessi takmörk helgast af skuldsetningunni. En Aristide sagði: "Það er betra að hafa rangt fyrir sér með þjóðinni en rétt fyrir sér gegn þjóðinni."

Kmart og Walt Disney borga 11 sent á tímann fyrir að sauma náttföt og stuttermaboli og stór fyrirtæki sem koma til landsins njóta undanþágu frá sköttum í allt að fimmtán ár.

Ég heyrði þann ágæta mann Þorvald Gylfason líkja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við flugbjörgunarsveit. Hljómar það ekki eins og að líkja mafíunni við mæðrastyrksnefnd?

Margt bendir til að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líti á landið (Ísland) einungis sem reikningsdæmi ... hvernig snúa mætti skuldastöðunni við með afkastamikilli framleiðslu og gjörnýtingu orkulinda samfara niðurskurði opinberra útgjalda og hækkun skatta. Hið félagslega fjöregg þjóðarinnar, velferðarkerfið, er að veði.

 


mbl.is „Algjörlega út í hött“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minna en ekkert fyrir mat

Það er aðeins afmarkaður hópur bótaþega sem ríkisvaldið ræðst á af skefjalausri hörku, með velferðarkerfið að vopni. Höggþunginn var aukinn með harkalegum breytingum í janúar 2009. Og enn skal þrengt að þeim sem minnst hafa.

Lífkjörin eru skert "með því að skerða lífeyri fólks og auka kostnaðarþátttöku þess í heilbrigðiskerfinu" eins og segir í ályktun aðalstjórnar ÖBÍ. En þetta á ekki aðeins við um öryrkja, heldur alla bótaþega, ellilífeyrisþega líka.

Í nýlegri færslu er rakið raunverulegt dæmi um það hvernig bótagreiðslur eru skertar hjá bótaþegum með lítil lífeyrisréttindi. Það er meðferð sem hlýtur að misbjóða réttlætiskenndinni gróflega. Það dæmi er þó ekki það svartasta sem til er.

Hér er annað raunverulegt dæmi og eins og í fyrri færslunni á ekkja í hlut. Vegna veikinda þarf hún á talsverðri þjónustu að halda auk lyfja. Fastur, reglulegur kostnaður vegna öldrunar og heilsubrests er þessi:

          Lyfjakostnaður                   7.244
          Múlabær, dagvist aldraðra   14.580
          Securitas, öryggishnappur    1.350
          Ferðaþjónusta                    4.760
          Heimilishjálp                       3.389
          Sjúkraþjálfun, læknar o.fl.     9.637
          - Samtals                            40.961

Þetta er meðaltal fyrir síðustu þrjá mánuði, samkvæmt reikningum.

Hækkanir um áramót eru ekki meðtaldar. Heldur ekki kostnaður sem ekki er fastur eða reglulegur, eins og leiga á göngugrind og hjólastól, kaup á sjúkrarúmi o.fl., sem var meira en 250 þús. krónur á síðasta ári.


TRTekjurnar eru 70.252 krónur á mánuði, frá lífeyrissjóði og TR samtals. Bætur eru skertar á sömu forsendum og koma fram í fyrri færslu.

Til að bæta gráu ofan á svart býr konan í of stóru húsi sem ekki er hægt að selja á botnfreðnum fasteignamarkaði. Samt þyrfti hún, veikinda sinna vegna, að komast í húsnæði með aðgangi að þjónustu.

Þegar fasteignagjöld, rafmagn, sími og hiti hafa bæst við ná endar ekki saman, það vantar 15.200 krónur uppá til að hafa fyrir þessum kostnaði. Hún hefur sem sagt mínus 15.200 krónur til að kaupa mat, hreinlætisvörur, fatnað og ýmsar nauðsynjar. Þetta þarf að fjármagna með því að ganga á sparnaðinn, sem hefur ekki gefið eina einustu krónu í raunvexti síðustu misserin.


Því meiri verðbólga - því lægri bætur!

Á pólitískum glanspappírum er tryggt að enginn hafi minna en 180.000 kr. brúttó á mánuði, í velferðinni í Skjaldborg. Þetta er síðan kýlt niður með því að líta á verðbætur sem tekjur. Þegar verðbólgan eykst þá lækka bæturnar. Sem er hreint og beint galið.

Það lítur vel út á pappír, íslenska velferðarkerfið. En því miður aðeins á pappír hjá þeim bótaþegum sem hér var fjallað um. Það á enn eftir að slá skjaldborg um velferð þeirra.

Það er smánarblettur á samfélaginu.

 


mbl.is Öryrkjar mótmæla „nýrri aðför“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sönn saga

Þetta er saga úr íslenskum raunveruleika. Frásögn af því hvernig velferðarkerfið gefur ekkju á áttræðisaldri skilaboð um að bjarga sér sjálf. Hún er bótaþegi hjá Tryggingastofnun ríkisins og missti maka sinn fyrir tveimur árum. Hún tilheyrir þeim minnihlutahópi sem hefur farið langverst út úr breytingum síðustu misserin.

Þetta er venjuleg íslensk alþýðukona. Hún flutti með maka sínum og þremur börnum úr sveit til höfuðborgarinnar um miðja öldina sem leið. Þar þurftu þau að byrja upp á nýtt, en kvörtuðu svo sem ekkert yfir því og fjölskyldan stækkaði. Heiðvirt launafólk sem skilaði góðu ævistarfi, stóð í skilum með allt sitt og lagði til hliðar til að tryggja sér áhyggjulaus ævikvöld, eins og það er kallað.

En núna, þegar til á að taka, er það velferðarkerfið sem étur upp sparnaðinn. Bætur eru skertar úr hófi og ekkjan þarf að ganga hratt á höfuðstólinn til að láta enda ná saman. Skerðingin er vegna þeirra vaxtatekna sem hún hefur af ævisparnaðinum, sem er þó ekki nema eitt og hálft jeppaverð.

Svona væri dæmið án vaxtatekna:
Hún fær 51.732 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði og ætti því rétt á tekjutryggingu og heimilisuppbót.

          Greiðsla frá Tryggingastofnun yrði 128.268

En þá koma vaxtatekjurnar:
Verðbólgan étur upp vextina en samt kemur hver einasta króna til skerðingar. Raunvirði sparnaðarins rýrnaði um 309.103 krónur á árinu.

En af því að verðbætur teljast líka vaxtatekjur eru ekkjunni reiknaðar 105.107 kr. á mánuði í fjármagnstekjur. Við það lækka bæturnar verulega:

          Greiðsla frá Tryggingastofnun verður 68.223

Auk þess að borga fjármagnstekjuskatt af ekki-tekjunum eru þær notaðar til að skerða bætur frá TR um 60.045 á mánuði og fyrir það skal bótaþeginn greiða með því að ganga á eigur sínar.

Þegar allt er talið saman; neikvæð ávöxtun, skertar bætur og skattur á fjármagnstekjur verður reikningurinn 1.166.760 krónur á ári. Það sem átti að tryggja áhyggjulaust ævikvöld skilar ekkjunni engu en sparar TR stórfé og færir ríkissjóði skatttekjur.

Þannig virkar hið norræna velferðarkerfi á Íslandi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband