Færsluflokkur: Bloggar

Silfur Egils: Energí og trú

Á meðan kommissarar í Berlaymont slökkva eldinn í pappírstæturunum getum við notað tímann og hugleitt það sem mestu skiptir um næstu framtíð Íslands. Og það er ekki að taka þátt í slökkvistarfinu í Berlaymont, nóg er um eldana hér á Fróni.

 

Silfur Egils var fróðlegt og efnismikið að venju. Hefði getað haft yfirskriftina "Energí og trú". Fjórmenningar ræddu um það energí sem setja þarf í aðgerðir svo framtíðin verði trúverðug. Samtalið við Paul Bennet var til að auka trú á að til séu lausnir og er efni í margar bloggfærslur (kannski síðar).

Svo kom Jóhannes Björn talaði um orkuna sem hið stóra mál framtíðarinnar.

     "Ef þetta breytist ekki er þjóðin glötuð"

Þetta sagði Jóhannes og var að tala um skrýtinn rekstur á Landsvirkjun og það sem hann kallaði rugl; að gefa álverum orku. Hann talaði um að verða sjálfbær í orkumálum, að rækta meira grænmeti, framleiða eigið eldsneyti á allan vélarflotann og fleira. Í orkunni liggja tækifærin í framtíðinni.

     "Þetta er gífurleg sjálfstæðisspurning"

Já, það er þetta með grænmetið sem Jóhannes nefndi og vert er að staldra við.

Sjálfstæðisspurningin varðar ekki bara eignarhald á auðlindum, heldur líka hvaða reglur gilda um nýtingu þeirra og hvar löggjafarvaldið í málaflokknum liggur. Nú gæla menn við hugmyndir um inngöngu í Evrópusambandið; hvernig ætli það samræmist reglum þess að selja bændum ódýrara rafmagn til ylræktar?

   ... the right to be supplied with electricity of a specified quality within their territory at reasonable, easily and clearly comparable and transparent prices


Textinn er úr rafmangskaflanum í ESB reglum, Internal market for energy. Hvað er "comparable price"? Hvernig á að taka mið af reglunum um "innri markaðinn"? Ég veit ekki svarið, en er ekki viss um að innan ESB mættum við selja bændum ódýrara rafmang að óbreyttu.

Með Lissabon samningnum verður löggjöf á sviði orkumála færð frá aðildarríkjunum til Brussel. Ágætt að hafa það í huga ef menn hlusta á Jóhannes Björn tala um orkumálin; þessa gífurlegu sjálfstæðisspurningu. Ef þau verða jafn mikilvæg í framtíðinni og hann heldur fram má ekki skilja eftir minnstu óvissu í þeim efnum.

Þær geta leynst víða  "IceSave gildrurnar" og á meðan annar stjórnarflokkurinn rekur ESB-málið sem trúboð er honum ekki treystandi til að varast gildrur. Eina örugga leiðin til að varast þær er að standa utan við Evrópusambandið.

 


mbl.is Eldur í höfuðstöðvum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall sófi, meiri bjór.

Aukið atvinnuleysi er einn af þeim þáttum sem leiðir af sér samdrátt í neyslu. Í Morgunkorninu, fréttabréfi Íslandsbanka, er í dag lítið súlurit sem sýnir breytingar á neyslu, en kaup á munaðarvöru hafa dregist mikið saman. Það er verslun í apríl sem er borin saman við sama mánuð í fyrra.

Munaðarvörur Sala á húsgögnum dregst saman um 56% og raftækjum um 41%. Hafa verður í huga að sala á húsgögnum, innréttingum og raftækjum jókst gríðarlega í góðærinu og var e.t.v. orðin óhófleg.

Fatakaup hafa minnkað um 26% og skóverslun um 18%. Það má reikna með að erlendir ferðamenn rétti aðeins hlut smásalanna í þessum vöruflokkum.

Sala á áfengi hefur hins vegar aukist um fáein prósent. Það er klárt að við sparkfíklar eigum hlut í því. Nú fara menn ekki svo glatt á völlinn í Englandi, heldur tylla sér á barstól og horfa á risaskjá.

Ef maður vill vera sannur Íslendingum um helgina situr maður í gamla sófanum, horfir á Eurovision á raðgreiddum flatskjá og sötrar íslenskan bjór. 

 


mbl.is Atvinnuleysi mælist 9,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör en ekki þjóðaratkvæði

Persónukjör er skref í áttina að því sem "þjóðin vill", eins og það heitir. Þetta er gömul hugmynd sem fékk byr undir báða vængi í búsáhaldabyltingunni. Þar var líka gerð krafa um stjórnlagaþing.

KjósendurÁ fundinum var lagt fram mál um "ráðgefandi stjórnlagaþing". Ekki þing sem setur okkur nýja stjórnarskrá, eins og hugmyndin var. Þetta hljómar eins og málamiðlun. Getur verið að þetta með persónukjörið sé bara dúsa til að stinga upp í potta- og pönnuliðið svo að það sætti sig frekar við að stjórnlagaþingið verði ekki ekta?

Það er ekki beint samhljómur í því að leyfa persónukjör vegna sveitarstjórnarkosninga en standa á sama tíma fast gegn því að þjóðin fái að greiða atkvæði um Evrópumálið, sem er miklu stærra mál og varðar hagi komandi kynslóða. 

Persónukjör til sveitarstjórna, en sækja um aðild að Evrópusambandinu án umboðs frá kjósendum. Ég fatta ekki þetta krata-lýðræði.


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verði ljós! Villuljós.

Fyrirsögnin er frábær. Umferðarljósunum var ekki bara stolið, heldur stolið aftur!

Tveimur umferðarljósum var í síðustu viku stolið af gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar í Reykjavík.

 

LjósaperaEiturtungur herma að það hafi verið rautt á öðru en grænt á hinu.

Annars vegar vistvæn sparpera sem sýnir vinstri grænt ljós. Það vísar veginn út um holt og hóla, sem liggur um Holtaveg.

Hins vegar sjálf Rauðsólin, villuljós Samfylkingarinnar, sem leiðir vegfarendur inn á Sæbraut. En þá leið þarf að fara til að nálgast sægreifa og taka af þeim kvóta.


mbl.is Umferðarljósum stolið aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kallar maður sko fjör!

Tveir dagar í að ný ríkisstjórn verði kynnt og ráðherrar fara á kostum. Hika ekki við að segja það sem gengur í okkur almúgann ... og fjölmiðla.

Össur búinn að fá nóg af samskiptum við Breta.

Ögmundur kallar IMF heimslögreglu kapítalismans.

Ég hefði samt frekar kosið að sjá einhvern íslenskan fjölmiðil eða stjórnmálamann fjalla um þessa frétt. Hún hlýtur að teljast jákvæð í kreppunni.


mbl.is Heimslögregla kapítalismans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðarbrúin er týnd

Vegna þessarar fréttar bendi ég á bloggfærslu sem Marinó G Njálsson skrifaði í gær, en fyrirsögn hennar er Áður glitti í löngutöng, en nú sést hún skýrt og greinilega. Þar segir m.a.:

Öll úrræði sem sett hafa verið fram snúast um að blóðmjólka almenning. Hvergi er króna gefin eftir.  Mér er alveg nákvæmlega sama þó NBI, Íslandsbanki eða Nýja Kaupþing séu með aðra kennitölu en gömlu svikamyllubankarnir. Í mínum huga eru þetta sömu bankarnir og felldu hagkerfið. Þetta eru sömu bankarnir og stálu af almenningi í landinu. Þetta eru sömu bankarnir og bera ábyrgð á að krónan féll um 40-50% á 7 eða 8 mánuðum og að ársverðbólga síðasta árs var yfir 17%. Þetta eru sömu bankarnir, það er mergur málsins og þeir skulda okkur háar upphæðir vegna þessa athæfis.  Almenningur í landinu skulda þessum bönkum ekki neitt!

Þetta er aðeins brot af magnaðri færslu Marinós, sem er öflugur talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég mæli með að menn smelli hér og lesi færslu Marinós alla, enda vel skrifuð af manni sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á málinu.

Vek líka athygli á fjórðu athugasemd við færsluna, um velferðarbrú Samfylkingarinnar sem virðist annað hvort týnd eða aldrei hafa verið til. Nema í auglýsingum.

 


mbl.is Kikna undan skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkinguna burrrt!

"Hver sem afstaða okkar til ESB kann að vera, þá ættu flestir skynsamir Íslendingar að meta það svo að a.m.k. séu takmörk fyrir því hvað aðgöngumiðinn má kosta." Þetta segir m.a. í grein sem Viktor J. Vigfússon verkfræðingur, skrifar í Morgunblaðið 1. maí. Grein hans ber yfirskriftina Er Samfylkingunni treystandi fyrir stjórn Íslands? og rétt að kíkja á hana nú þegar ESB-stjórn virðist í burðarliðnum.

Í grein sinni veltir verkfræðingurinn upp ýmsum hliðum IceSave málsins; samningum um það, lagalegri skyldu og umfangi skuldbindinganna. Einnig samningsstöðu Íslands sem hann efast um að Samfylkingin sé tilbúin að beita, af ótta við að það valdi neikvæðri afstöðu Breta til umsónar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Síðan segir Viktor:

Ef Samfylkingin sér engan annan valkost en að ganga í ESB og vill ekki hætta á neitt sem kann að skaða það ferli, þá er viðbúið að fulltrúar hennar séu tilbúnir að samþykkja fjárhagslegar álögur á Íslendinga sem ella hefði ekki þurft.

Líkur á að gengið verði til samninga um inngöngu í ESB hafa aukist nú að loknum kosningum. Almennt séð gildir það í viðskiptum, litum sem stórum, að þú vilt halda þeim möguleika opnum að samningar takist ekki. Ef viðhorf þitt er að þú eigir engan annan valkost, þá getur það leitt til þess að þú gangir að samningi sem annars teldist óásættanlegur.

Samfo_gefst_upp

Því miður virðist sem Samfylkingin ætli að setja allt sitt traust á velvilja ESB þegar kemur að samningum. Á sama hátt og það eru öfgar að finna ESB allt til foráttu, þá er það barnaskapur að halda að ESB muni sjá til þess að ekki verði lagðar á okkur of miklar eða ósanngjarnar álögur. Við sjálf og engir aðrir verðum að gæta eigin hagsmuna.

Viljum við ríkisstjórnina burrrt?
Viljum við kosningar í vor?
Viljum við stjórn seðlabankans burrrt?
Viljum við stjórn fjármálaeftirlitsins burrrt?

Þessar spurningar voru bornar upp vikulega á Austurvelli í búsáhaldabyltingunni. En það var ekki nema hálf ríkisstjórnin sem fór burrrt. Hinn flokkurinn sat áfram og situr enn. Í kosningunum flaggaði Samfylkingin Jóhönnu og ESB og tókst ótrúlega vel að skauta framhjá ábyrgð sinni á hruninu. Síðasti hluti greinar Viktors fjallar um "uppgjör" Samfylkingarinnar við mistökin í fyrri ríkisstjórn. Ég ætla ekki að fjalla um þann þátt hér, en læt lokaorð greinarinnar enda þessa bloggfærslu.

Sá sem ekki getur viðurkennt eigin mistök, fyrir sjálfum sér eða öðrum, mun að líkindum endurtaka þau.


Myndinni var hnuplað án leyfis af
Hægrisveflunni


mbl.is Ný ríkisstjórn um næstu helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallærislegur hanaslagur

Þegar ástandið er jafn alvarlegt og raun ber vitni ættu allir að vinna saman. Flokksskírteini eiga að vera aukaatriði. Taka ber öllum tillögum fegins hendi, skoða þær og meta.

Það hvernig brugðist er við hugmyndum um greiðsluvanda heimilanna sýnir að hinn pólitíski hanaslagur ræður ferðinni. Því miður. Það er ekki nýtt í pólitík og enginn flokkur öðrum skárri í þeim efnum. Það sem máli skiptir er hver talar en ekki hvað er sagt.

Cockfight

Tryggvi Þór Herbertsson, lagði fram tillögur sem hann kallaði Leiðréttinguna. En af því að Tryggvi Þór er í Sjálfstæðisflokknum var hún slæm. Ráðherra gerði bara kjánalegt grín að henni án þess að skoða hana.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talaði fyrir 20% leið Framsóknarmanna. En af því að hugmyndin er frá Framsókn fær hún stimpilinn "flatur niðurskurður" og er vísað frá í stað þess að skoða hugsanlegar útfærslur.

Lilja Mósesdóttir lagði fram hugmyndir um niðurgreiðslu til allra skuldara. Svo fór hún í prófkjör fyrir Vinstri græna og þar með var hennar hugmynd dæmd ónothæf.


Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hefur lagt fram hugmynd um niðurfærslu skulda. Hún er ekki merkt flokki. Þá er viðskiptaráðherra tilbúinn að skoða málið. Að sjálfsögðu, því hér er enginn flokkslitur að þvælast fyrir.

Það er alveg á hreinu að ef talsmaður neytenda hefði fengið lánað bréfsefni frá Framsókn, VG eða Sjálfstæðiflokknum hefði hugmyndin verði dæmd ónothæft án frekari skoðunar. Hinn faglegi ráðherra tekur þátt í pólitískum hanaslag, alveg eins og hinir. Það kom skýrast fram í viðbrögðum hans við plaggi Tryggva Þórs.

Það er kreppa. Ástandið er alvarlegt. Við höfum ekki efni á að þræta um rauðan og bláan. Burt með pólitískan hanaslag og gefum skynseminni tækifæri.

 


mbl.is Viðskiptaráðherra skoðar niðurfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: "The gutless nanny-state"

Þetta er of fyndið til að vera satt.

Evrópusambandið hefur gefið út reglur sem banna hættuleg barnaföt. Það er nauðsynlegt að setja reglur sem tryggja öryggi barna, t.d. um bílstóla og um smáhluti í leikföngum fyrir yngstu börnin. En öllu má nú ofgera.

Algengustu vöruflokkarnir þar sem finna má "hættulegar vörur", að mati kommissars neytendamála ESB, eru leikföng, raftæki, ökutæki og fatnaður. Til að bregðast við hættunni eru settar reglur um föt fyrir yngri en 7 ára. Þær gilda líka um lengd á reimum í fatnaði barna allt að 14 ára aldri.

Anorak

Þó hægt sé að hafa gaman af svona vitleysu er tilefni bloggfærslunnar það sem Declan Ganley skrifar um lögin á heimasíðu sinni. Ganley, og flokkur hans Libertas, er fylgjandi Evrópusambandinu þó hann berjist hart gegn spillingu innan þess og fyrir auknu lýðræði. Hann telur þessa lagasetningu sorglega einkennandi fyrir yfirvaldið í Brussel.

It's hard to know what to say. This is the front line of the battle against the bureaucrats, where common sense has no place, and risk is no longer seen as character developing, but something to be avoided at all costs.

Let's hope that the Libertas ideologi of promotion of small businesses and risk taking, to rebuild the damaged economies of Europe, will directly challenge the gutless nanny-state being built in Brussels.

Það er til hópur fólks sem vill gera Ísland að hluta af The gutless nanny-state! Og viðræður halda áfram.


mbl.is Viðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glannaskapur Jóhönnu

Að túkla kosningaúrslit er skemmtileg afþreying. Alveg sérstök íþróttagrein.

Svo virðist sem fjölmiðlar séu enn að fjalla um fyrstu spár, sem birtar voru kl. 23 að kvöldi kjördags. Nú liggja úrslitin fyrir og orðið tímabært að rýna í þau. S-listi bætti ekki við sig nema 3 prósentustigum, fékk tvo menn til viðbótar. Ekki fjóra eins og fyrstu spár bentu til. Það er varla hægt að tala um sigur. Samt sjá fjölmiðlar "skýr skilaboð" um að nú skuli halda til Brussel, enda voru þeir flestir ótrúlega meðvirkir í ESB trúboðinu og haga sér eftir því.

Jóhanna er vægast sagt glannaleg í túlkun sinni á hinum "sögulega sigri" jafnaðarmanna. Hún fullyrðir líka að það sé meirihluta fyrir því á þingi að sækja um ESB og bendir á mögulegan SOB-meirihluta. Skyldi hún vera að útskýra þetta á Bessastöðum núna?

En hvað kusu þeir sem merktu við B eða O?

Framsókn:
Fór í gegnum mikla endurnýjun í forystusveitinni til að gera upp við fortíðina. Gaf út áætlun í efnahagsmálum í 18 liðum þar sem 20% leiðréttinguna bar hæst. Flokkurinn er ekki andvígur aðildarviðræðum en setur ströng skilyrði. Sigmundur Davíð reyndi ítrekað að koma efnahagsmálum í umræðuna og fá fókusinn á vanda heimilanna.
Jóhanna gefur sér að þeir 27.699 sem völdu B hafi kosið aðild að ESB.

Borgarahreyfingin:
Afsprengi búsáhaldabyltingarinnar. Gegn vanhæfri ríkisstjórn með kröfu um spillinguna burt. Hreyfingin setti ekki fram stefnu í Evrópumálum, en vill skipta um gjaldmiðil. Megin krafan var að efla lýðræðið, skipa stjórnlagaþing og fá nýja stjórnarskrá.
Jóhanna gefur sér að þeir 13.519 sem völdu O hafi kosið aðild að ESB.

Samfylkingin jók fylgi sitt lítillega, en náði þó ekki að vinna upp það sem tapaðist í síðustu kosningum, þrátt fyrir "lánsfylgi" frá íhaldsmönnum og linnulítinn áróður ESB-elítunnar í fjölmiðlum. Í könnun segjast 16% kjósenda Samfylkingarinnar ekki styðja aðild að ESB, en kjósa flokkinn samt.
Jóhanna gefur sér að allir sem völdu S hafi kosið aðild að ESB.

Kannanir sýna ítrekað að meirihluti Íslendinga sé andvígur velferðarbú til Brussel. Síðast voru 54,5% á móti en 45,5% fylgjandi. Í viðhorfskönnunum kemur líka fram að ESB er ekki það mál sem drjúgur meirihluti kjósenda vill setja á oddinn.

Forgangsmálin snúa að hag heimilanna, atvinnuleysinu, skuldum ríkisins, endurreisn bankanna og rekstri fyrirtækja. Aðild að Evrópusambandinu er í sjötta sæti samkvæmt viðhorfskönnunum en ekki fyrsta, sama þótt Jóhanna vilji ekki hafa það þannig.

 

Ef Jóhönnu gengur ekki betur en þetta að túlka kosningaúrslit treysti ég henni ekki til að túlka niðurstöðu úr aðildarviðræðum.

 


mbl.is Jóhanna á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband