Færsluflokkur: Bloggar

Ef þetta er sett í samhengi ...

"Ef öll fjárfestingarverkefni, sem til skoðunar eru í viðræðum um stöðugleikasáttmála, verða að veruleika, þýddi það fjárfestingu upp á 245 milljarða á næsta ári og yfir 3.500 ársverk yrðu til."

Þannig hefst viðtengd fréttaskýring í prentútgáfu Morgunblaðsins. Um er að ræða alls kyns verk; lagningu Sundabrautar, tvöföldun Suðurlandsvegar, orkuver, jarðgöng, álver, gagnaver og fleira.

Þetta eru stórar framkvæmdir, mörg ársverk og miklir peningar.  

browncalculatorUpphæðin er samt aðeins hluti af því sem greiða á í vexti til Breta, samkvæmt IceSave samningnum sem kynntur var í gær. Bara í vexti. 

Stærsta staka framkvæmdin sem nefnd er í fréttinni er Búðarhálsvirkjun. Hún kostar 30 milljarða. Það er talsvert minna en IceSave vextir í eitt ár. Það væri hægt að byggja jarðgöng fyrir afganginn.

Þetta er það sem okkur er gert að greiða fyrir "skuldir óreiðumanna" án þess að láta reyna á lagalega skyldu í málinu. Ekki furða að mann gruni að það sé eitthvað í þessu máli sem þjóðin fær ekki að vita um. Eitthvað leyndarmál. Ekki getur uppgjöf og aumingjaskapur verið skýringin.

 


mbl.is Stór verk í einkaframkvæmd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100 milljónir á dag

 

Spurning: Hvað er hægt að gera fyrir 100 milljónir á dag?

Svar: Borga vextina af IceSave skuld.

Euro slave

Eftir að hafa horft á Kastljós í gær legg ég til að byrjað verði upp á nýtt á IceSave viðræðum og að þær verði á forræði Sigmundar Davíðs. Aldrei hefði mér dottið í hug að ég ætti eftir að sitja við sjónvarpið og klappa fyrir Framsóknarmanni, en ég gerði það í gærkvöldi.

 


mbl.is Bretar fagna Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sægreifar" - óvinir ríkisins #1

Umræðan um fiskveiðistjórnun er gallaðri er fyrningaleiðin og kvótakerfið samanlagt. Þeir sem hæst láta gegn útgerðinni hrópa um "sægreifa" og "kvótakónga" eins og þeir séu verstu óvinir samfélagins. Talað er um þá sem glæpamenn sem braski með þýfi. Þeir sem andmæla eru stimplaðir varðhundar spilltra sérhagsmuna. Handhafar veiðiheimilda eru alls ekki saklausir af upphrópunum og verða líka að stilla þeim í hóf.

Nú ætlar forsætisráðherra að boða til sáttafundar og segir að það sé meirihluti fyrir því á Alþingi „að skoða fyrningaleiðina".

Tek það fram að ég hef aldrei átt kvóta og aldrei verið á sjó (fyrir utan einn róður á handfærabáti, kauplaust). Á því engra kvótahagsmuna að gæta. Þessi færsla er ekki til varnar kvótakerfinu og ekki til að andmæla innköllun veiðiheimilda. Heldur vangaveltur um tvær spurningar sem enn er ósvarað:

          Hvernig á að innkalla veiðiheimildir?

          Hvað kemur í staðinn?

Kvótakerfið er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Það þarf að laga og a.m.k. sníða af því vankanta eins og framleigu veiðiheimilda. Kannski koma með eitthvað alveg nýtt. Er það til bóta að henda vondu kvótakerfi til að taka upp annað kvótakerfi? Kerfi þar sem veiðiheimildum væri e.t.v. úthlutað eftir pólitískri uppskrift. Er kannski færeyska fiskidagakerfið eitthvað sem vert er að skoða?

fishingÞað eru vissulega til útgerðarmenn sem hafa spilað rassinn úr buxunum og munu fara á hausinn. Og það eru því miður til braskarar innanum, sem engin eftirsjá væri í. En þeir eru líka margir sem stunda atvinnurekstur af elju og dugnaði, eru hóflega skuldsettir og hafa í öllu farið eftir þeim leikreglum sem lögin setja. Það má ekki setja alla undir einn fyrningahatt.

Gjaldþrot er vond „lausn"
Kvótakerfið var ekki sett á fyrir útgerðarmenn, heldur til að takmarka veiðar og vernda fiskistofna. Framsal á veiðiheimildum var leyft með lögum, þrátt fyrir að auðlindin sé sameign þjóðarinnar samkvæmt 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Tilgangurinn var að auka hagkvæmni; færri skip veiða sama afla. Reglur hafa verið settar um eignfærslu veiðiheimilda í bókhaldi, veðsetning þeirra leyfð og heimild til að færa afskriftir á keyptum aflaheimildum var felld úr gildi fyrir um áratug.  

Það er flókið mál að breyta kerfi sem þannig hefur mótast á 25 árum. Ekki síst þegar löggjafinn sjálfur lítur á varanlegar veiðiheimildir sem eign, sbr. tvær síðasttöldu breytingarnar hér að ofan. Og það er kjánalegt að segja að það sé í lagi þó útgerðarmenn verði gjaldþrota bara af því að „fiskurinn fer ekkert" og það komi aðrir útgerðarmenn í staðinn. Gjaldþrot er alltaf áfall sem lendir á mörgum.

Það eru ekki bara lánadrottnar, heldur líka sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar; rafvirkjar, járnsmiðir, málarar og netagerðarmenn sem ekki fengju kröfur sínar greiddar. Oft með þungri blóðtöku fyrir smærri byggðarlög. Þess vegna mega breytingar á fiskveiðistjórnun ekki vera þannig að þær leiði til gjaldþrota sem annars hefðu ekki orðið.

Fyrningaleið Samfylkingarinnar
eu_iceland_fishingSamfylkingin hefur lagt til „fyrningaleið" en án viðunandi útskýringa. Í stefnuritinu Skal gert er að finna þrjár málsgreinar um kvótann í kafla 7.2 en ekkert um útfærslu á fyrningaleið. Í Sáttagjörð um fiskveiðistefnu kemur fram 20 ára fyrningatími með innköllun veiðiheimilda, að framsal eldri veiðiheimilda einskorðist við „brýnustu þarfir" og að óheimilt verði að framselja heimildir í nýja kerfinu. Allt almennt orðað en ekkert haldbært um útfærslu.

Í stjórnmálaályktun Samfylkingar 2009 er ekkert minnst á fiskveiðar, en bent á „staðfasta andstöðu meðal þjóðarinnar um einkavæðingu fiskistofna". Þessi stefna ber merki þess að vera hraðsoðin kortéri fyrir kosningar. Þar er gert út á almenna óánægju með kvótann til að fiska á hana fleiri atkvæði. Það sem vantar eru t.d. svör við þessum spurningum:

  • Verður gerður greinarmunur á úthlutuðum aflaheimildum og keyptum, við fyrningu?
  • Hvaða framsal eldri aflaheimlda verður áfram leyft og hvað teljast „brýnustu þarfir" í þeim efnum?
  • Nýjum aflaheimildum skal úthlutað „til tiltekins tíma í senn". Er átt við eitt ár, fimm ár eða eitthvað annað?
  • Ef „tiltekinn tími" er eitt ár, er ekki hætta á að það skaði erlenda markaðsstöðu þeirra sem þurfa að tryggja framboð á réttum tegundum á umsömdum tíma?
  • Ef „tiltekinn tími" er fimm ár, er þá ekki óhætt að leyfa framsal? Er það verra en að skila kvóta til endurúthlutunar?
  • Hvernig verður hagsmuna byggðarlaga gætt í nýju kerfi?
  • Á að fyrna kvóta í eigu byggðarlaga eins og annan kvóta?
  • Verða úthlutanir alfarið „pólitískar" og eru þær líkleg leið til réttlætis?
  • Endurúthluta skal aflaheimildum sem „lenda í eigu bankastofnana" vegna gjaldþrots útgerðar. Hvernig? Á að kaupa þær fullu verði?
  • Ef kaupa á heimildir af bönkum, er þá hægt að innkalla keyptar veiðiheimildir af útgerð, án endurgjalds?
  • Verður innköllunum e.t.v. mætt með því að heimila að færa afskriftir af keyptum aflaheimildum eins og var fram til ársins 2000?
  • Hvernig skal meðhöndla kvóta sem „lendir í eigu" erlendra lánadrottna?

Það má vel vera að hægt sé að finna fyrningaleið og leysa kvótavandann. Ég get ekki séð að fyrningaleið Samfylkingarinnar sé lausn á neinu. Ef dæma má af útgefnu efni um hana bendir það til þess að hún sé „pólitískt veiðarfæri" þar sem almenn óánægja með kvótakerfið var beitan. Aflinn var mældur í atkvæðum. Trúverðugleikinn er enginn.

Í umræðum um kvótann má aldrei gleymast að fiskurinn á Íslandsmiðum er gullforðabúr Íslands og að útgerðin þarf að vera meginstoð um langa framtíð. Það má ekki fjalla um málið í hálfkæringi eða skilja eftir lausa enda. Stjórnmálaflokkar mega ekki setja fram stefnu nema hún sé skýr og markmiðin vandlega skilgreind. Í „fyrningaleiðina" vantar allt þetta. Á meðan er ekki hægt að taka hana alvarlega.

Svo ég spyr aftur: Hvernig á að innkalla veiðiheimildir? Hvað kemur í staðinn?

 


mbl.is Boðað til sáttafundar um fyrningarleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á valdið að liggja?

Ísland"Við búum í alltof miðstýrðu þjóðfélagi þar sem völd og áhrif liggja öll hjá ríkisstjórninni. Þau liggja öll á höfuðborgarsvæðinu. Það dregur til sín verðmætin. Það dregur til sín lífskjörin. Utan þessa svæðis situr eftir fólk sem á undir högg að sækja. Við verðum að breyta þessu. Það gerist ekki nema við færum valdið aftur út í héruðin."

Þetta segir Kristinn H Gunnarsson og er það í fullu samræmi við niðurstöður Assembly of European Regions (AER), úr rannskókn sem fjallað var um í þessari bloggfærslu í gær. Þá var tilefnið annað en niðurstöður AER ríma vel við það sem Kristinn segir.


Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. þetta:

The findings suggest that a country's economic performance can be improved with:

- more influence of the regions on the national level
- more independence of the regions from the national level
- more financial competences and resources for the regions
- more competences in:
       (1) recreation and culture
       (2) infrastructure
       (3) education and research
       (4) health care

 

Skýrslan (tenglar í síðustu færslu) er miðuð við stærri ríki en Ísland, en niðurstöðurnar eiga samt erindi til okkar. Ekki síst ef við villumst inn í Evrópusambandið, sem væri algjörlega á skjön við það sem hagkvæmast er samkvæmt skýrslu AER.

 


mbl.is „Valdið aftur út í héruðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlusta allir sjálfstæðismenn á Bylgjuna?

"Þú vilt ekki missa af Reykjavík síðdegis" segir hún stundum, konan í útvarpinu. Í gær, á hægrideginum, var gerð skoðanakönnun hjá Reykjavík síðdegis. Hún er ábyggilega ekki eins marktæk og hjá Capacent, úrtakið óljóst og skekkjumörk talsverð. En niðurstaðan gefur vísbendingu.

Fylgi flokkannaSamkvæmt könnuninni hefur Sjálfstæðisflokkurinn aukið fylgi sitt verulega, en ef kjörfylgi stjórnarflokkanna væri það sama og könnunin sýnir myndu þeir missa helminginn af 34 þingmönnum sínum. Fylgið hefur hrapað um meira en helming.

Þessi niðurstaða segir okkur annað hvort: a) að Sjálfstæðismenn séu duglegri við að hlusta á Reykjavík síðdegis en aðrir, eða b) að fylgi stjórnarflokkanna hafi dalað verulega. Ef b-skýringin er rétt má eflaust rekja það að hluta til ESB-ofstækisins og að hluta til meints aðgerðarleysis í málum sem varða heimilin og hinn almenna borgara.

StjórnarfylgiÞað síðastnefnda kemur líka fram í hratt dvínandi trú á störfum ríkisstjórnarinnar. Aðeins áttunda hverjum þátttakanda finnst stjórnin standa sig vel á meðan nærri 70% gefa henni slæma einkunn.

Sveiflurnar á rúmum mánuði eru með hreinum ólíkindum.

 


Landsbankinn fær sér togara

Munu bankarnir fara að frysta síld? Endar útgerð í ríkiseign? Ef banki eignast kvóta, verður hann þá innkallaður með fyrningarleið eins og kvóti útgerðarfélags?

Í upplýsingum um fyrningarleiðina, á vef Samfylkingarinnar, er að finna ýmsa athyglisverðu punkta. Hér eru nokkrir úr stefnuritinu Skal gert (bls. 58-59) sem varða kvóta sem kemst í eigu banka:

  • Ætla má að við núverandi aðstæður geti fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja orðið gjaldþrota og veðsettar aflaheimildir lent í eigu bankastofnana.
  • Leita þarf leiða til að endurúthluta þeim aflaheimildum sem hverfa frá núverandi handhöfum með útboði ...
  • Aflaheimildir séu ekki varanlegar heldur úthlutað til tiltekins tíma í senn og gegn gjaldi.
  • Aðrar aflaheimildir þarf síðan að afskrifa á hæfilega löngum tíma, gegn niðurfellingu veiðigjalds, og endurúthluta með sama hætti.


Spurningar sem vakna eru t.d. þessar:

  • SaltfiskurÁ að innkalla kvóta í bankaeign á 20 árum, um 5% á ári?
  • Ef svo, er það þá með "fyrningarleið" án endurgjalds?
  • Fengi bankinn þá leigugjaldið fyrir kvótann á fyrningartímanum?
  • Myndi þá sama regla gilda um ríkisbanka og aðra banka?
  • Þyrfti Landsbankinn e.t.v. að fá sér togara til að nýta verðmætin?
  • Er hugsanlegt að það standist ekki lög að innkalla kvóta bankans án endurgjalds?
  • Hvaða gjald myndi þá ríkið greiða bankanum á hvert kíló?
  • Svo kemur stóra spurningin: Ef bankinn fengi greiðslu, er þá hægt að innkalla keyptan kvóta útgerðarmanns án þess að greiðsla komi í staðinn?
  • Verður ekki sama regla að gilda um alla kvótaeigendur?
  • Hvað ef bankinn er erlendur, hver er réttarstaðan?


FæreyjarSvo er allt önnur spurning í þessu dæmi hvort rétt sé að nýtt kvótakerfi komi í staðinn fyrir það gamla. Pólitísk úthlutun gegn veiðigjaldi. Það væri kannski ráð að líta til nágranna okkar í Færeyjum, en "færeyska fiskidagakerfið" hefur reynst þeim betur en kvótinn. Það er byggt á sóknarmarki.

Innleiðing á því yrði síður en svo flóknari en að skipta óréttlátu kvótakerfi út fyrir pólitískt. Kannski meira um það síðar, ef tilefni er til.

 


mbl.is Síldarfrysting hafin á Vopnafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Freudian slip hjá Jóhönnu?

.

"Við megum ekki láta hagsmuni fárra víkja fyrir hagsmunum margra."

ForsætisráðherraÞetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi á mánudaginn.

Hún las ræðuna af blaði. Var þetta villa í handriti, mislestur eða mismæli? Nema að undirmeðvitundin hafi verið að verki; Freudian slip!

Það var mikið látið með mismæli Sigurðar Kára þegar hann eignaði flokknum sínum kvótann á landsfundinum. Það var neyðarleg uppákoma og talað um Freudian slip. Eigi það við um ummæli Jóhönnu mun fljótlega koma í ljós hvaða fámenni sérréttindahópur það er sem mun njóta forgangs í íslensku samfélagi á komandi mánuðum.

Stefnuræðuna í heild má heyra hér, ofangreind ummæli eru á 01:54.


mbl.is Áforma að flytja 38 mál á vorþinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarjátning Samfylkingarinnar

Austur eða vestur"Ég met það svo að það sé meirihluti fyrir því að það verði farið í aðildarumsókn ..."

"Bara það að sækja um aðild tel ég að muni færa okkur í átt til stöðugleikans ..."

"... það eitt að sækja um held ég að muni strax styrkja okkur ..."

"... síðan fer hún til afgreiðslu í sérstakri Evrópunefnd, væntanlega, og fer svo til umsagnar ..."

Þetta eru nokkrar tilvitnanir í svör forsætisráðherra í fréttinni.


Stefnt er að því að afgreiða tillöguna á þessu þingi.


Ég held að ég meti það svo að væntanlega megi telja ...

Hér þarf enga fullvissu, bara efast aldrei um trúarjátningu Samfylkingarinnar:
Ég trúi á fyrningu kvótans, upptöku evru og e-ess-bjé.  Amen!

 


mbl.is „Þjóðin viti hvað er í boði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef ríkið eignast öll fyrirtækin ...

Þessa dagana eru nýju ríkisbankarnir að taka yfir hvert fyrirtækið á fætur öðru, síðast Icelandair. Stjórnmálamenn í öllum flokkum tala um að æskilegt sé að koma fyrirtækjum ríkisins sem fyrst í hendur nýrra eigenda. Selja þau mönnum sem geta rekið þau á arðbæran hátt.

Ríkið á ekki að reka bókabúðir á samkeppnismarkaði, nógu slæmt er að það fékk viðskiptabankana í fangið. Það eru allir á einu máli um að Landsbankinn á ekki (að þurfa) að reka bókabúð og símafélag, Íslandsbanki að reka verkfræðistofu og flugfélag eða Kaupþing að reka bílaumboð og kjötvinnslu.

rich_poorSumir tala um að selja fyrirtækin til starfsmanna. Þeir hafa skilning á rekstrinum og sterkan vilja til að reka þau með hagnaði. Hvatinn liggi í því að þá geti allir starfsmenn notið afrakstursins.

Það virðast allir sammála þessu.

Sömu lögmál gilda um rekstur samfélagsins. Ef íbúarnir sjá um reksturinn sjálfir, eru miklu meiri líkur á að samfélagið sé rekið á hagkvæman hátt þar sem allir geta notið afrakstursins.

Að biðja Brussel að reka Ísland er jafn gæfulegt og að láta Kaupþing reka sláturhús.

Þrátt fyrir þetta vill forsætisráðherra láta möppudýr Evrópuríkisins sjá um að reka Ísland framvegis.

 


mbl.is Leiði mótun sjávarútvegsstefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður hún við þetta stelpan?

IðnaðarráðherraÞað ráðherraembætti sem Katrín Júlíusdóttir fékk verður heldur betur krefjandi á komandi misserum.

Í morgun var Vísir með frétt af því að hinn nýi iðnaðar- og orkumálaráherra hafi fundað með utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna, m.a. varðandi samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.  

Svo kemur viðtengd frétt um opnun umsókna um rannsóknarleyfi á Drekasvæðinu vegna hugsanlegrar olíuvinnslu. Þá hefur tvísýn staða Landsvirkjunar mikið verið í fréttum og þau mál munu rata inn á borð ráðherrans.

Þetta eru ekki nein smámál! 

Ef marka má það sem Jóhannes Björn sagði í Silfri Egils í gær mun framtíðarskipan orkumála hafa algjör úrslitaáhrif á afkomu þjóðarinnar í framtíðinni. Hann talaði um orkusölu til álvera sem "rugl" og "gjafir" og það verður allt annað en auðvelt fyrir ráðherra að standa gegn straumnum í þeim málum. Krafan um enn fleiri álver er hávær og þegar byrjað að byggja eitt.

Ég bendi á grein sem Jóhannes Björn hefur skrifað á vefsíðu sína (hér og hér) um orkumál. Það sem hann ræddi í Silfrinu í gær kemur fram í seinni greininni. Séu orkumálin jafn afgerandi um framtíð Íslands og hann heldur fram þá er eins gott að hinn nýi ráðherra sé bæði með sterk bein, snjalla ráðgjafa og góða aðstoðarmenn. Iðnaðarráðuneytið árið 2009 er hvorki staður né stund fyrir "starfsþjálfun" handa ungum pólitíkus, það þarf öflugt framtak og fagleg vinnubrögð.


Umfjöllun um Jóhannes Björn í Silfrinu er í síðustu færslu.


Í ljósi þess hve Jóhannes reyndist ótrúlega sannspár um vanda bankanna, kreppuna hér og hvernig kreppan birtist víða um heim, hrun bílaiðnaðarins, þróun á gull- og olíuverði og margt fleira, er full ástæða til að skoða alvarlega það sem hann segir um orkumál á komandi árum.

Nýi ráðherrann getur ekki stólað á flokkinn sinn. Samfylkingin hefur eina og aðeins eina stefnu í öllum málum, sem er að ganga í ESB og taka upp evru. Ef Jóhannes hefur eitthvað til síns máls tel ég að enginn kostur sé verri en að glutra frá sér löggjafarvaldinu í orkumálum. Það er beinlínis hættulegt.

 


mbl.is Aker og Sagex með umsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband