Um bandorm og brusselskt "lýðræði"

Utanríkisráðuneytið hefur látið þýða Lissabon sáttmálann á íslensku og birt hann á vef sínum. Stærsta gallinn við íslensku útgáfuna er að það er ekki nokkur leið að átta sig á efnisinnihaldi Lissabon sáttmálans. Því mátti hæglega komast hjá, ef vilji var til þess.

Lissabon plaggið er nefnilega ekki sáttmáli (treaty) í eiginlegri merkinu, heldur "lög um breytingar á lögum", sem jafnan er kallað bandormur.

Forsagan er sú að fyrst var stjórnarskrá (Constitution for Europe) lögð fyrir þegnana, sem höfnuðu henni. Þá var gripið til þess ráðs að dulbúa stjórnarskrána sem bandorm. Sú undarlega leið var valin af tveimur ástæðum:

       1.  Að gera innihaldið óskiljanlegt.
       2.  Að sniðganga lýðræðið.

Fyrra takmarkið náist fullkomlega. Það urðu smá hnökrar á því síðara þar sem Írar fengu að kjósa um bandorminn og sögðu nei. Þess vegna urðu tafir á gildistöku á meðan Írar voru þvingaðir til að kjósa aftur og kjósa rétt. En kíkjum nánar á þessar tvær fullyrðingar:

 

Að sniðganga lýðræðið
Eftir að stjórninni í Brussel hafði mistekist að fá þegna sína til að samþykkja stjórnarskrána varð hún að finna ráð til að fá sínu framgengt. Svarið var bandormur! Þetta þótti svo mikið snjallræði að æðstu valdamenn reyna ekki einu sinni að fara í felur með tilganginn. Hér eru nokkrar umsagnir:


Það góða við að kalla þetta ekki stjórnarskrá er að þá getur enginn farið fram á þjóðaratkvæði.
- Giuliano Amato, í ræðu í London School of Economics, 21. febrúar 2007

Inntak og eðli stjórnarskrárinnar er enn til staðar. Það er staðreynd.
- Angela Merkel, í ræðu á Evrópuþinginu 27. júní 2007

Hvers vegna þessi dulbúningur? Fyrst og fremst til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæði með því að nota ekki stjórnarskrárlegt orðalag.
- V. Giscard D'Estaing, 30. október 2007

Sá síðastnefndi var forseti stjórnarskrárnefndar ESB, svo hann veit um hvað hann er að tala. Landi hans, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, lagði þunga áherslu á það á fundi með Evrópuþingmönnum í nóvember 2007 að hin dulbúna stjórnarskrá mætti alls ekki fara í þjóðaratkvæði, því að "þá verður enginn Lissabon samningur".


Að gera innihaldið óskiljanlegt
"Stjórnarskráin átti að vera skýr, þessi samningur varð að vera óskýr. Hann hefur heppnast vel" sagði Karel de Gucht utanríkisráðherra Belgíu um samninginn. Sorglegt en satt. Lissabon bandormurinn er mikið plagg þar sem tvær lagagreinar skipta megin mál; sú fyrri í 65 töluliðum og sú síðari í 295 töluliðum. Skoðum tvö dæmi úr 2. gr., í íslenskri þýðingu:

 

72)
Grein 75 skal breytt sem hér segir:
(a) í stað orðanna "skal aflögð" í 1. mgr. skulu koma orðin "skal bönnuð"
(b) í staðinn fyrir "ráðið" í 2. mgr. skal koma "Evrópuþingið og ráðið"
(c) í staðinn fyrir "efnahags og félagsmálanefndina" í fyrstu undirmálsgrein 3. mgr. skal koma "Evrópuþingið og efnahags og félagsmálanefndina"

64)
Í stað 61. greinar skal koma kafli 1 sem fylgir hér á eftir og greinar 61 til 61 i. 61. grein skal einnig koma í stað 29. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 D skal koma í stað 36. greinar þess samnings, grein 61 E skal koma í stað greinar 64(1) í Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og í stað 33. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 G skal koma í stað 66. greinar Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og grein 61 H skal yfirtaka 60. grein þess samnings, eins og skýrt er í 62. tölulið hér að framan.

 

Eins og sjá má er ekki hægt að fá nokkurn botn í Lissabon bandorminn öðru vísi en að samlesa hann með sáttmálum sambandsins eins og þeir voru. Það er ekki hægt að ætlast við að "venjulegt fólk" leggi í þá miklu vinnu sem þarf til að skilja innihaldið, enda var tilgangurinn að fela það. Þær greinar sem eru hreinar viðbætur er þó hægt að lesa, en þá vantar samhengið.


Það sem íslenska útgáfan segir ekki ...
Íslenska útgáfa Lissabon bandormsins er meingölluð. Úttekt á henni verður að bíða næstu færslu sem kemur eftir nokkra daga.

 


Stjórnarskráin sem breyttist í bandorm

Í ríkjum þar sem lýðræðislegur réttur manna er lítill eða enginn, er stjórnarskrá stundum "gefin" þegnunum af yfirvaldinu, sem veit hvað er þeim fyrir bestu. Þetta á t.d. við um ýmis kommúnistaríki, ríki sem búa við herforingjastjórnir, einræðisríki og Evrópusambandið.

Það er ekki hægt að ganga lengra gegn lýðræðinu en að taka af þegnunum réttinn til að kjósa um sjálfa stjórnarskrána. En einmitt það gerðu stjórnvöld í Brussel.

Stjórnarskrá á að vera grundvallarrit, samningur milli almennings og valdhafa. Hún þarf að vera stutt, auðlesin og á að fjalla um grundvallaratriði. Í lýðræðisríkjum gera menn ekki breytingar á stjórnarskrá nema í sátt við borgarana.

Lissabon bandormurinn er allt það sem stjórnarskrá á ekki að vera; óskiljanlegt torf upp á 271 síðu, þar sem tilgangurinn er vísvitandi falinn og lýðræðið sniðgengið. Þau mörgu plögg sem nú eru ígildi stjórnarskrár í ESB eru doðrantar þar sem fjallað er um stórt og smátt, allt frá rekstri kjarnorkuvera til stærðar á hænsnabúrum. Þar er valdið falið, miðstýringin dulbúin og lýðræðinu úthýst.


Meingölluð íslensk útgáfa
Þessi skrif eru undanfari næstu færslu þar sem rýnt verður tilurð stjórnarskrár fyrir Evrópusambandið, sem síðar var breytt í bandorm eftir að henni var hafnað af þegnunum. Einnig um íslensku þýðinguna á Lissabon bandorminum, sem er meingölluð.

 


Bandormur á íslensku

Á vef utanríkisráðuneytisins er nú hægt að lesa Rómarsáttmálann, Maastrichtsamninginn og fleiri ESB plögg á íslensku. Þetta eru „samsteyptar útgáfur", þ.e. samningarnir eins og þeir eru, að gerðum þeim breytingum sem Lissabon bandormurinn mælti fyrir um.

Ekki veit ég hver ritstýrði íslensku útgáfunni, en eflaust verða gerðar athugasemdir við þýðinguna, enda reiknað með því í fyrirvara á fyrstu síðu.

Ég leyfi mér að taka eitt lítið dæmi: Í yfirlýsingu nr. 52 lýsa evruríkin því yfir að fáninn, þjóðsöngurinn, einkunnarorðin, evran og Evrópudagurinn ...

... verða áfram í þessum löndum tákn samfélags borgara í Evrópusambandinu og tengsla þeirra við það.

Enska útgáfan er svona:

... will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it.

Enskar orðabækur skýra „allegiance" með obligation, commitment, devotion, faith og loyalty. Þarna hefði átt að tala um hollustu eða trúnað, en alls ekki "tengsl". Var þetta nokkuð ritskoðað? Yfirlýsingin hljómar eins og hollustueiður á ensku en er gerð hlutlaus á íslensku. Hvers vegna?

Þeir sem stunda ESB trúboðið af hvað mestum móð (og harðneita að ESB sé sjálfstætt ríki í mótun) eru eflaust sáttir við ónákvæmni í þýðingu, ef hún gefur mildari mynd af Brusselveldinu en efni standa til. Óþarfi að láta íslenska lesendur sjá að það þurfi að sverja evrunni og yfirvaldinu hollustueið! 

 

Lissabon bandormurinn á ensku
Það er mjög gott mál að fá þessa texta á íslensku. Útgáfan stenst þó engan veginn samanburð við enska textann sem hinn danski Jens Peter Bonde, ritstýrði. Þar er hægt að glöggva sig mjög auðveldlega á þeim breytingum sem gerðar voru með Lissabon bandorminum. Útgáfu hans má finna hér og lykil fremst í bókinni.

 


Draumurinn um 0,8% Ísland

Í gær birtu tveir vefmiðlar fréttir af væntanlegum áhrifum Íslands við atkvæðagreiðslur innan ESB, ef svo illa færi að þjóðin léti plata sig þangað inn. Í báðum tilfellum er talað um 0,8%, þótt fjallað sé um sitt hvorn hlutinn. Það er rétt hjá báðum, svo langt sem það nær, en sé skyggnst aðeins fram í tímann er útlitið miklu verra en það.

Vefurinn AMX bendir á að Ísland fengi 0,8% þingsæta, eða 6 sæti af 750. 
Vefur Heimssýnar segir að í Ráðherraráðinu yrði vægi fulltrúa Íslands líka 0,8%, eins og Möltu sem fer með 3 atkvæði af 345.


Svartir dagar framundan fyrir smáríkin

En það eru miklu svartari dagar framundan fyrir fámennustu ríki ESB. Með Lissabon bandorminum var atkvæðareglum í Leiðtogaráðinu og Ráðherraráðinu breytt þannig að vægi Þýskalands nær tvöfaldast á meðan vægi Kýpur, Lúxemborgar og Möltu er skert um 90%. Þessi breyting tekur gildi 1. nóvember 2014. Það verður svartur dagur fyrir smáríkin í ESB. (Sjá nánar um breytinguna á þessari mynd.)

Ef Ísland væri nú þegar í þessum ógæfuklúbbi myndi vægi okkar í Leiðtogaráðinu og Ráðherraráðinu skerðast um 92,6% við gildistökuna; færi úr nánast engu niður í akkúrat ekkert. Þetta er gert um leið og neitunarvald, öryggisventill smáríkjanna, er fellt niður í 68 málaflokkum.

Þessi breyting gæti verið í lagi ef í ESB væri líka "öldungadeild" eins og er í Bandaríkjunum, þar sem öll fylki eiga tvo fulltrúa, óháð íbúatölu. En því er ekki að heilsa í Brussel svo breytingin er alveg skelfileg fyrir fámennu ríkin.  

Það getur verið að Össur eigi sér draum um 0,8% Ísland. En takist honum það fólskuverk að draga Íslendinga yfir velferðarbrú til Brussel þá verða áhrifin ekki nema 0,064%, eða minna en einn tólfti af því sem núna er. En hann mun ekki upplýsa íslenska kjósendur um það.

 


Ómakleg árás á ráðherra

Undir eðlilegum kringumstæðum myndi niðurlag viðtengdrar fréttar teljast efni í aðra frétt og stærri. Jafnvel stórfrétt. En það hljómar svona:

 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, gagnrýndi Einar [K. Guðfinnsson] fyrir að ráðast með ómaklegum hætti að Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með því að segja að hann væri að færa sig í átt til Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum með frumvörpunum.

 

Þegar einn helsti talsmaður ESB aðildar Íslands telur það ómaklega árás að herma það upp á íslenskan ráðamann að vilja taka upp siði ESB, þá er það frétt. Nema þegar Össur Skarphéðinsson á í hlut. Jafnvel þótt hann sé með þessu að gefa ESB húrrandi falleinkunn í sjávarútvegsmálum.

Þetta er sami Össur og gekk svo langt í að draga upp glansmynd af ESB að það þurfti tvo erlenda embættismenn til að stoppa hann, taka af honum míkrófóninn og leiðrétta. Sá sem gengur fram af vel sjóuðum embættismönnum í höfuðvíginu í Brussel með blaðri sínu er ekki líklegur til að umgangast sannleikann af virðingu á heimavelli.

Össur hefur fyrir löngu tapað öllum trúverðugleika í umræðunni um Evrópusambandið. Þess vegna hnýtur enginn um þessa athugasemd hans og fréttin í fréttinni gufar upp.

 


mbl.is Segir sjávarútvegsráðherra leita í smiðju ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

€in mynt - €inn markaður

Bílaframleiðandinn Daimler AG gefur út tímarit sem heitir Mercedes-Benz Classic . Þetta er efnismikið 100 síðna blað í venjulegu tímaritsbroti. Sumir Benz eigendur fá þetta blað sent frítt en við hin eigum kost á að kaupa það. Efst á forsíðu er blaðið...

"Statt'ann upp brekkurnar"

Besta lesendabréf sem ég hef séð í háa herrans tíð skrifar Pétur Óli Pétursson hefilstjóri í Morgunblaðið í dag. Það er eins konar sendibréf sem hann ritar sveitunga sínum Steingrími Joð. Þessi grein er svo frábær að ég leyfi mér að birta hana hér í...

Einn tvöfaldan IceSave takk!

Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá hvernig komið er fyrir frændum okkar Írum. Hvernig sem á málið er litið þá á írska þjóðin sér ekki viðreisnar von nema til komi meiriháttar skuldauppgjöf. Því miður er hún ekki í sjónmáli. Í fréttum RÚV var rætt...

Vond úrslit: Silfurþing með 14% umboð

Slök þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings kom kannski ekki mjög á óvart en olli vonbrigðum samt. Úrslitin eru þó enn verri. Landsbyggðin er með 3 fulltrúa en Samfylkingin með 9. Það fer ekki á milli mála að það var smalað hjá krötum og flokksmenn...

Spillingarfréttir á Sky

Á Sky News hafa í dag verið fluttar fréttir af ferð forsætisráðherra Bretlands til Brussel. Inngangur fréttarinnar vekur athygli, en þar er stjórnmálastétt Evrópuríkisin lýst sem embættismönnum úr öllum tengslum við evrópskan veruleika. Þar heimta menn...

Írland verður að losna við evruna

Það líklega aðeins tímaspursmál hvenær fyrsta jaðarríki evrusvæðisins reynir í alvöru að losna úr handjárnum evrunnar. Írland gæti riðið á vaðið. Í grein í Irish Independent á sunnudaginn er fjallað um stöðu Írlands og þá erfiðu kosti sem standa til...

Jón Ásgeir að kaupa Sjóvá?

Eftir að hafa séð makalaust drottningarviðtal á Stöð 2 í kvöld læðist að manni sá grunur að Jón Ásgeir, eigandi stöðvarinnar, sé í hópi þeirra fjárfesta sem Heiðar Már fer fyrir. Tæplega undir eigin kennitölu þó, eins og stemmingin er í samfélaginu....

Álfheiður, Styrmir og áróðurstæknin

Það er þekkt aðferð úr áróðursfræðum að nota "merkimiða" til að gera málstað andstæðingsins fráhrindandi. Þetta er gjarnan notað þegar menn geta ekki með góðu móti fært rök fyrir sínum eigin skoðunum og er merki um málefnafátækt, slæma samvisku eða...

"Enginn er krati nema hann kunni að betla"

Getur þú bætt hag heimilisins með því að betla styrk frá sjálfum þér? Sá galdur er einmitt hluti af þeirri "lausn" sem íslenskir kratar predika ákaft. Þeir slá ekki hendinn á móti evrum frá Brussel til að fjármagna trúboðið. Anna Margrét Guðjónsdóttir...

Ragnar Reykás - breska útgáfan

Ragnar Reykás er einn allra skemmtilegast karakter sem komið hefur úr smiðju Spaugstofunnar og þykir nokkuð góður spegill á þjóðarsálina þegar hentistefnan ræður ríkjum. En Reykás finnst ekki bara á Íslandi. Þessa dagana er verið að kynna ný fjárlög í...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband