13.7.2009 | 12:23
TÖFRALAUSN ER FUNDIN
Það þarf nákvæmlega sömu stafina til að rita orðin töfralausn og launastörf.*
Töfralausn á kreppu er ekki til. Síst af öllu felst hún í því að gefa fullveldið upp á bátinn og skríða inn í Evrópuríkið. Það er ekki "aðgerð í efnahagsmálum" eins og sumir vilja meina.
Leiðin út úr kreppu er gömul og vel þekkt: Að skapa atvinnu, nýta auðlindirnar, afla gjaldreyis og eyða ekki um efni fram. Lausnin er til og það þarf enga töfra.
Vissulega skekkir IceSave deilan myndina, en ef stjórnvöld vilja í alvöru að Ísland vinni sig út úr kreppunni á áherslan að vera á launastörf. Hætta leitinni að töfralausn sem aldrei finnst og gleyma Evrópusambandinu.
Athyglisverðast í viðtengdri frétt eru fyrsta og síðasta setningin:
Engar tölur eru fyrirliggjandi um áætlaða skuldabyrði vegna Icesave-samkomulagsins og verður leyndinni ekki aflétt fyrr en að lokunum fundum í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd á morgun.
og
Að því loknu hefst síðari umræða um mögulega aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Þessi mál eru iðulega tvinnuð saman, ekki síst vegna aðkomu ESB að IceSave deilunni. Það er óskiljanlegt að umsókn um aðild Íslands að ESB sé á dagskrá Alþingis á sama tíma og IceSave deilan er óútkljáð. ESB er beinn þátttakandi í þeirri deilu eins og alls ekki hlutlaus, eins og málsgögnin bera með sér.
* Eins konar ps:
Þetta með töfralausn vs launastörf er fengið úr hinni frábæru krossgátu í Sunnudagsmogga. Mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af orðaleikjum, krossgátum og annarri hugarleikfimi.
![]() |
Leynd ekki aflétt í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2009 | 09:05
ESB-UMMÆLI VIKUNNAR
"Það sem maður eignast fyrirhafnarlaust, það er manni sama um." sagði síðari viðmælandi Gísla Einarssonar í þættinum Út og suður á sunnudaginn. Hún heitir Sigríður Jónsdóttir og er bóndi í Arnarholti í Biskupstungum. Auk búmennskunnar er hún kennari, hönnuður og ljóðskáld með meiru.
Undir lok viðtalsins berst ESB í tal og þetta svar Sigríðar eru ummæli vikunnar.
Gísli: "Skil ég það rétt að þú setjir Evrópusambandið og fíkniefni í sama flokk?"
Sigríður: "Ég geri það já. Nema þetta er ekki skilgreindur sjúkdómur og ekki til meðferðarstofnanir varðandi þessa Evrópusambandsfíkn."
Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Sigríður sagði umræðuna um að ganga í Evrópusambandið sprottna af minnimáttarkennd. Hugmyndin sé af sömu rót og þegar menn vildu rífa gömul hús af því að þau voru byggð af vanefnum. Skömmuðust sín fyrir þau, vildu losna við þau og byggja nýtt og betra.
Að vilja ganga í Evrópusambandið stafi af sjálfsfyrirlitningu, sem leiði til þess að einstaklingurinn rífi sjálfan sig niður. Til þess noti menn ýmsar leiðir, svo sem ofát, áfengisneyslu og misnotkun fíkniefna. Villuskoðanir um Ísland innan Evrópusambandsins séu af sömu rót.
Þetta var hressilegt viðtal, sem má sjá og heyra hér
Það er margt fleira athyglisvert í samtalinu við Sigríði. Gísli ræðir við hana um fullkomið frelsi, trú, búskap, þröstinn sem stritar fyrir ungana sína og um ástina, sem verður til af fyrirhöfn. Líka um baráttu gegn innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm. "Það er svo fljótlegt að eyðileggja hluti" sagði Sigríður um það, og gæti átt við margt annað líka.
Lokasvarið í viðtalinu er svo punkturinn yfir i-ið:
Gísli: "Hver er þín framtíðarsýn?"
Sigríður: "Það er að verða 85 ára með karlinum mínum."
Framtíðarsýnin þarf ekki endilega að vera hnattræn.
![]() |
Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.7.2009 | 12:47
Er ESB spillingarbæli?
Hve margir lesa frétt með fyrirsögninni Afsögn í Króatíu? Ekki margir. Fyrirsögnin er látlaus en innihaldið er grafalvarlegt.
Ivo Sanader forsætisráðherra sagði af sér. Ástæðan: Seinkun á aðild Króatíu að Evrópusambandinu. Í svari/skýringu ráðherrans segir:
ég játa að ég tók ekki boðum um störf innan Evrópusambandsins
Ef valdamiklum ráðamanni er boðinn vænn bitlingur fyrir að "liðka fyrir" framgangi mála, hvað kallast það? Mútur?
Síðan kemur athugasemd Sanaders:
Evrópusambandið og verkefnið um evrópskan samruna eiga ekki möguleika ef mútur eru viðurkennd aðferðafræði innan Evrópusambandsins
Takið eftir: ef mútur eru viðurkennd aðferðafræði innan Evrópusambandsins
Forsætisráðherra Króatíu leit þetta svo alvarlegum augum að hann sagði af sér. Þetta hlýtur að teljast alvöru frétt á Íslandi, nú þegar svo mikið er rætt um að gera landið að hluta af Evrópuríkinu.
Takið líka eftir: verkefnið um evrópskan samruna
Hér eru notuð réttu orðin. Í Lissabon samningnum er lagt fyrir auknum pólitískum samruna þar sem yfirþjóðlegt stjórnvald er eflt. Það er fámennum aðildarríkjum ekki í hag.
Ef heimildir Morgunblaðsins eru réttar hefði afsögn Sanaders átt að kalla á miklu meiri athygli en eina litla "felufrétt" undir fyrirsögninni Afsögn í Króatíu. Ég neita að trúa að Mbl "feli" viljandi fréttir sem eru óþægilega fyrir málstað þeirra sem vilja byggja velferðarbrú til Brussel.
Ivo Sanader var boðinn bitlingur. Við skulum vona að enginn íslenskur ráðamaður hafi fengið brusselskt tilboð.
![]() |
Afsögn í Króatíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.7.2009 | 12:57
Það sem er svo gott við IceSave
Það er eitt gott við IceSave samninginn:
Fólk hefur 7 ár til að koma sér úr landi.
Því miður er þetta ekki raunhæfur kostur fyrir alla Íslendinga, heldur aðallega ungt fólk með praktíska menntun. Fyrir þá sem heima sitja verður ástandið svart, IceSave mun leggja íslenskt samfélag á hliðina, sama hvernig ráðherrar reyna að reikna sig framhjá því.
Þjóð með takmarkaðar gjaldeyristekjur (sjá vísbendingu hér) getur ekki staðið undir greiðslubyrði upp á 60-70 milljarða á ári (sjá hér og hér), allt í beinhörðum gjaldeyri. Þá eiga önnur lán eftir að bætast við, þetta er bara IceSave.
Þetta er dæmi sem aldrei getur gengið upp. Það er alveg útilokað. Hvað eru menn að fela? Fyrir hverjum? Jóhanna sagði í gær "að öll gögn, sem kostur er, verði opinber í þessu máli". Hvers vegna ekki öll gögn?
Einhverjir hafa talað um að setja þak á greiðslubyrði við 1% eða 2% af landsframleiðslu. Sú stærð er ekki rétt viðmið. Frekar ætti að miða þak við gjaldeyristekjur af útflutningi. Öll þessi lán þarf að endurgreiða í gjaldeyri.
![]() |
Skilmálar sambærilegir við það sem tíðkast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |