Færsluflokkur: Evrópumál
21.7.2011 | 00:04
Áskorun: FÓRNUM FULLVELDINU
Emma Bonino var orðin hálfgerður Íslandsvinur á sínum tíma. Misserum saman var hún reglulega í fréttum íslenskra fjölmiðla meðan EES samningurinn var aðal málið. Gott ef Jón Baldvin drakk ekki þrjá bolla að café latte með henni á fundi í Brussel ´93.
Emma á sæti á ítalska þinginu, en var áður í æðstu stjórn ESB sem kommissar neytenda- og sjávarútvegsmála. Nú hefur hún ritað grein sem er áskorun til þegna Evrópuríkisins. Um leið er hún kröftug aðvörun til okkar hinna, sem blessunarlega erum utan hættusvæðisins. Greinin birtist víða, m.a. í Mogganum og hér (á ensku).
Greinina ritar hún í félagi við Marco De Andreis, sem er fyrrum embættismaður ESB. Hún hefst á orðunum Ítalía hefur nú smitast af evrusjúkdómnum" sem þau kalla faraldur". Meðal áhugaverðra atriða er þetta:
- Samstarf fullvalda ríkja hefur augljóslega brugðist.
- Skuldakrísan er tækifæri fyrir frekari samruna.
- Ekkert myntbandalag hefur heppnast án pólitískrar sameiningar.
- Ríki í vexti greiði hærri gjöld en hin.
- Verði aðildarríkin fullvalda er úti um evruna.
- Endurheimti ríkin völd sín er tilvist Evrópusambandsins í hættu.
- Ríkin gangi lengra í að afsala sér fullveldi.
- Stofna fjármálaráðuneyti Evrópu.
- Evrópskur fastaher yrði sá næststærsti í heimi.
- Fleiri valdsvið verði færð til Brussel.
Þau vilja stíga Lissabon-skrefið til fulls og breyta ESB formlega úr sambandi sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki. Angela Merkel, Nicolas Sarkozy, Jean Claude Trichet og fleiri hafa talað á svipuðum nótum.
Emma og Marco leggja til að slagorð á latínu, um að af mörgum verði einn" skuli standa á öllum evruseðlum til að undirstrika að pólitísk sameining Evrópu er nauðsynleg til að tryggja að evran haldi velli."
Skýrara verður það tæpast: Fórnum fullveldinu og björgum evrunni. Svo þar höfum við það frá Íslandsvininum Emmu. Hefur einhver áhuga? Virkilega?
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 08:35
Hættuleg fyrirsögn og teiknaðir fiskar
Ef það er hægt að ákveða breytingar núna er það líka hægt eftir 2 ár eða 5 ár eða hvenær sem er. Hin gríska Damanaki boðar gagngerar breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB, enda búið að eyðileggja 128 tegundir af þeim 136 sem veiðast í lögsögu sambandsins, með ofveiði.
Með sama áframhaldi munu evrópsk börn ekki kynnast þessum fisktegundum nema á mynd, segir hún.
Stefnan er ekki meitluð í grunnsamninga Sambandsins og því til þess að gera einfalt að breyta henni. Líka með Ísland innanborðs, sem hefði því sem næst ekkert atkvæðavægi. T.d. er hægt að taka burt regluna um hlutafallslegan stöðugleika, eins og lagt var til í Grænbók sambandsins í apríl 2009.
Fyrirsögnin sem RÚV setti á fréttina hljómar eins og aðvörun til Íslendinga.
Þegar kratar fara að rífast við sjálfa sig ...
Samfylkingin berst fyrir inngöngu í Evrópusambandið og hún berst líka fyrir breytingum á stjórn fiskveiða við Ísland. Það sem hún er mest á móti er að hér skuli vera kvótakerfi með framseljanlegar veiðiheimildir.
Meginstefið í boðuðum breytingum á kerfi ESB er að taka upp kvótakerfi með framseljanlegar veiðiheimildir. Ég hlakka til að sjá ónefnda krata í hörku rifrildi við sjálfa sig.
![]() |
Fiskar brátt aðeins á myndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2011 | 08:31
Hún kom, sá og hvellsprakk
Hvernig er best að slátra Grikkjum? Af þeim fjallháu haugum af peningum, sem "björgunarmenn" lána gríska ríkinu, fær almenningur í landinu ekki svo mikið sem eina evru.
Grikkir eru neyddir til að taka lán og því kallast þau "neyðarlán", þótt réttara væri að tala um nauðungarlán. Þau millilenda eitt augnablik á kennitölu grískra skattgreiðenda, sem fá ekkert ... nema reikninginn.
Gríski harmleikurinn hófst á því að þeir "kíktu í pakkann", létu glepjast og gengu í hamarinn. Grikkir hafa það sér til málsbóta að eftir valdatíð herforingja-stjórnarinnar leituðu þeir að betra stjórnarfari. Vildu verða "þjóð meðal þjóða" eins og það er kallað.
Þeir gengu í gamla EBE löngu fyrir tíma Maastricht og evrunnar. Nú er búið að breyta því í ESB og skipta drökmunni út fyrir evru. Þar með hvarf peningastjórnin til Frankfurt, sem er drjúgur hluti vandans, en restin er heimatilbúin.
Ríkið ábyrgðist erlendar skuldir óreiðubanka, samkvæmt handriti ESB og AGS, sem sendu hótanir til Aþenu af stakri kurteisi. Nú fær ríkið "neyðarlán" af því að það getur ekki borgað.
Erlendir lánadrottnar eru kátir, þeir fá aftur allt sem þeir lánuðu af glannaskap á Frankfurt vöxtum. Bólan kom, sá og hvellsprakk.
Aðeins lokakaflinn er eftir: Skera niður, hækka skatta, selja eignir. Eftir situr gríska þjóðin, skuldug, eignalítil og niðurlægð. Þeir eru að komast að því fullkeyptu hve dýru verði þarf að gjalda það að senda fullveldi sitt til Brussel.
Nú er búið að slátra Grikkjum, bæði pólitískt og efnahagslega. Portúgal og Írland eru "í ferli". Þetta er skilvirk slátrunaraðferð, sem því miður verður hugsanlega notuð á fleiri. Er Ítalía of stór til að falla eða verður hún næst? Og Spánn er kominn í biðröðina líka. Fórnarlömb evrunnar hrannast upp.
![]() |
Tremonti flýtti heimför |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.7.2011 | 08:29
McDonalds aðferðin - börn og heilaþvottur
Börn eru mjög móttækileg fyrir skilaboðum og um leið getur barnssálin verið viðkvæm og varnarlaus. Þess vegna er víða óheimilt að birta auglýsingar í sjónvarpi, sem beinast að börnum og/eða auglýsa í barnatímum. Meðal annars gilda reglur hér á landi sem takmarka slíkar auglýsingar.
Alþjóðlega hamborgarafabrikkan McDonalds leggur verulega fjármuni í markaðsmál. Það sem hefur lukkast hvað best er að bjóða upp á barnabox sem innihalda hæfilegan skyndibita fyrir börn og gefa þeim leikföng í kaupbæti.
Hugmyndin er ekki aðeins að fá börnin til að draga foreldra sína á staðinn, heldur fyrst og fremst að "ala upp viðskiptavini framtíðarinnar". Þeir sem venjast því sem börn að fá smá gjafir frá McDonalds eru líklegri til að verða viðskiptavinir í framtíðinni.
McDonalds gætir þess að fara ekki yfir velsæmismörk og verður ekki sakað um að stunda heilaþvott.
En hvenær fara auglýsingar yfir strikið og verða áróður? Og hvenær er áróður kominn á það stig að teljast heilaþvottur? Þarna er stundum erfitt að greina á milli.
Áróður um ágæti leiðtoganna í Kreml eða Kína á tímum Maós (mynd) hafa menn talið falla undir heilaþvott. Svo ekki sé talað um N-Kóreu nútímans.
Því miður eru til dæmi sem eru nær okkur í tíma og rúmi þar sem gengið er fram á ystu brún í þessum efnum. Jafnvel farið yfir strikið.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins notar árlega um 380 milljarða króna í auglýsingar/áróður. Drjúgum hluta þess fjár er varið í verkefni þar sem höfðað er til barna. Hugsunin er sú sama og hjá McDonalds; þau sem venjast því sem börn að fá smá "gjafir" frá ESB eru líklegri til að verða sáttir og þægir þegnar í framtíðinni.
Hér eru fáein dæmi og sum nokkuð skuggaleg. Undirstrikuðu orðin eru tenglar, fyrir þá lesendur sem vilja skoða sýnishorn.
- Stórar fjárhæðir settar í myndabækur og netleiki, sem eiga að auka "evrópska samkennd og virðingu fyrir Sambandinu".
- Leikskólabörn fá ESB litabækur þar sem skilaboð eins og "Evrópa - landið mitt" eru sett í myndirnar.
- Ef Sambandið niðurgeiðir drykki fyrir skólabörn ber skólum að hafa merki þess á áberandi stað í mötuneyti eða fatahengi.
- Í net-bókaverslun Sambandsins er barnahorn með ESB sögum fyrir börn.
- Vefsíðan Europa Go er hönnuð fyrir markhópinn 10-14 ára og á að efla Evrópuvitund barnanna.
- Í samvinnu við Barnbury er framleitt sérstakt ESB súkkulaði.
- Grunnskólum er uppálagt að helga Evrópudaginn, 9. maí, ágæti sambandsins og uppfræða börnin um hvað ESB gerir fyrir þau.
- Vefsíðan Euro Kid's corner er til að fræða börnin um evruna.
- Ætlast er til að skólar hafi Evrópuviku, þar sem þemað er ágæti sambandsins. Í löndum með eigin mynt á að hafa skólasjoppu þar sem eingöngu má greiða með evrum.
Hugsanlega er of djúpt í árinni tekið að saka Sambandið um heilaþvott, en þetta eru óneitanlega tilburðir í þá átt. Það er eitthvað mikið bogið við "samstarf sjálfstæðra ríkja" þegar viðhafa þarf skoðanamótandi áróður gagnvart börnum og ungmennum til að sannfæra þegnana um ágæti þess.
Guli liturinn í tólf-stjörnu-fánanum er jafn varasamur og gula litarefnið sem notað er í frostpinna og margir vilja banna. Það er full ástæða til að setja "innihaldslýsingu" á Evrópusambandið með tilheyrandi viðvörunum.
Enginn flokkur á Íslandi myndi þora að hafa digran "Kynningarsjóð ríkisstjórnarinnar" á stefnuskrá sinni. Sjóð sem stjórnin mætti nota til að fjármagna áróður um eigið ágæti. Eins og teiknimyndasögur um hvað börnin séu lánsöm að njóta visku og leiðsagnar landsfeðranna, náðar þeirra og umhyggju.
En í Brussel, höfuðborg pólitískrar firringar í heiminum, er það daglegt brauð. Á því er eitthvað ógeðfellt yfirbragð.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
8.7.2011 | 12:48
Já! Hversu sjúkt er þetta?
Háskólinn í Northampton í Englandi hefur verið sektaður um 10,5 milljónir króna (56.477 pund). Hvaða lögbrot getur skóli framið sem er svo alvarlegt að hann þurfi að borga yfir 10 milljónir í sekt?
Það er ekki lögreglan sem sektar. Og ekki var sektin ákveðin af dómstólum. Nei, það er Evrópusambandið sem dæmir og sektar. "Glæpurinn" er að skólinn lét undir höfuð leggjast að draga fána ESB að húni.
Fréttin er hér, takið eftir upplýsingum í bláa rammanum. Hún er líka hér.
Sjóður á vegum Evrópusambandsins (ERDF) veitir fjármunum til ýmiss konar verkefna og í staðinn er þess krafist að móttakendur "þakki fyrir sig" og flaggi tólf-stjörnu-fánanum eða birti merki Sambandsins. Skólinn hafði fengið fjárframlög vegna endurnýjunar á búnaði, en gleymdi að flagga.
Það er í sjálfu sér nógu bilað að stofnun, sem er fjármögnuð af aðildarríkjunum, sinni ekki verkefnum sínum nema að fá auglýsingu í staðinn. En að sekta skóla um 10 milljónir fyrir að gleyma að flagga! Já, svona er þetta.
Sektirnar eru egó-flipp-skattur möppudýranna í Brussel og í þeim er "ekki gramm af heilbrigðri skynsemi" segir þingmaðurinn Michael Ellis, sem kallar möppudýrin "dictocrats"
6.7.2011 | 01:35
Fullveldið er farið til Brussel
Á meðan ég las fréttina um enn eina skuggahliðina á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins fylgdist ég með Sky með öðru auganu. Þar voru líka slæmar fréttir, sem fréttamaðurinn tengdi ESB.
Þar var sagt frá fjöldauppsögn hjá Bombardier Derby, síðasta fyrirtækinu sem framleiðir járnbrautarvagna í Bretlandi. Þeir þurfa að fækka framleiðslulínum úr fimm í eina og segja upp yfir 1.400 manns.
Á sama tíma eyða Bretar svimandi fjárhæðum í nýtt stórverkefni og láta smíða járnbrautarvagna í Þýskalandi.
Fréttamaður gekk eftir járnbrautateinum og útskýrði að þetta væri "vegna reglna ESB". Þótt Bretar þyrftu á vinnunni að halda innanlands mættu þeir ekki "mismuna evrópskum fyrirtækjum" með því að láta fyrirtæki heimafyrir njóta forgangs og fá verkefnið. Þeir vilja það, en fullveldið er farið til Brussel.
Hinir "fullvalda" Bretar hafa ekki leyfi til að velja sjálfir þá leið sem þeir telja besta fyrir breskan efnahag á krepputímum (íslensk fyrirtæki falla líka undir þessar reglur). Bombardier fyrirtækið, sem er kanadískt, gæti þurft að hætta starfsemi í Bretlandi.
Hérer vefútgáfa af fréttinni. Kommentin við hana eru líka áhugaverð.
![]() |
Niðurgreiðir óarðbæra ofveiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.7.2011 | 01:38
Evrópuvefurinn - til hvers?
"Hvað er lýðræði?" var spurt á Evrópuvefnum, sem svaraði út í hött. Enda er hlutverk hans að veita vandaðar upplýsingar um Evrópusambandið.
Háskóli Íslands og Alþingi eru tvær af þeim opinberu stofnunum sem jafnan standa í efstu þrepum virðingarstiga samfélagsins. Þær eru skráðar fyrir vefnum sem sagður er "upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál".
Spurninguna hefði mátt afgreiða með stuttu svari, t.d. frá breska sendiherranum Tony Brenton, sem í íslenskri þýðingu (og eftir minni) var svona:
- Hvað er lýðræði?
Það er þegar allir hlutaðeigandi hafa jafnan rétt til að greiða atkvæði um mál, þar sem kosningarnar eru bæði frjálsar og sanngjarnar. Þá er það lýðræði, annars ekki. - Hvað eru frjálsar og sanngjarnar kosningar?
Þegar kjósendur geta varið atkvæði sínu eins og þeir sjálfir telja rétt, án afskipta, þvingunar eða þrýstings frá öðrum. Þá eru það frjálsar og sanngjarnar kosningar, annars ekki.
Þessi skilgreining er auðskilin og á alltaf við. Hvort sem kosið er til þings, um framkvæmdir í húsfélaginu, um frumvörp til laga eða eitthvað annað.
Það er skiljanlegt að á Evrópuvef hrökkvi menn í baklás yfir spurningu um lýðræði. Henni verður ekki svarað heiðarlega nema láta ESB líta illa út. En "vandinn" var leystur með því að láta heimspeking skrifa ótrúlega langloku og gæta þess að svarið tengdist Evrópusambandinu ekki á nokkurn hátt, þótt það eigi að vera viðfangsefni vefsins.
Vonandi er þetta undantekning og að framvegis verði veitt svör sem gefa rétta mynd af Sambandinu. Til þess er vefurinn. Verði áfram reynt að sneiða hjá því sem Össuri kynni að finnast óþægilegt er hreinlegra að sleppa þessu. Alveg prýðilegt svar um menntun og atvinnu gefur vonir um betri tíð.
3.7.2011 | 23:30
Hinn mikli áróðursmeistari ESB á Íslandi
Áróðursmeistari ESB á Íslandi verður ekki sakaður um að slá slöku við í að prédika fagnaðarerindið. Hann notar hvert tækifæri sem býðst. Stundum gengur hann svo hraustlega á svig við sannleikann að jafnvel hörðustu möppudýrin í í Brussel roðna, sem þó eru fyrir löngu komin með meirapróf í að blekkja fólk.
Það er áróðursmeistara ESB á Íslandi að þakka/kenna, að enn er til fólk sem trúir því að ESB sé eins og hver önnur alþjóðastofnun. Að innganga snúist um að "efla tengslin" við Evrópu. Að til sé eitthvað sem heitir "hagstæðir samningar" og að ekki sé hægt að taka afstöðu til aðildar fyrr en "samningur" liggur fyrir.
En það er eitt sem er ekki nógu gott við áróðursmeistarann mikla.
Það er óheppilegt að hann skuli á sama tíma eiga að sinna embætti utanríkisráðherra Íslands, í hjáverkum. Er ekki tímabært að íslenska þjóðin fái alvöru ráðherra í embættið? Einhvern sem hægt er að taka mark á.
![]() |
Þurfum ekki sérstaka undanþágu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.7.2011 | 17:18
Gáttuð á vanþekkingu þingmanna og hroka
Vefsíðan Conservative Home ræddi við þá 6 þingmenn breska Íhaldsflokksins sem kjörnir voru á Evrópuþingið í fyrsta sinn árið 2009; einn karl og fimm konur. Lagðar eru fyrir þau nokkrar spurningar, sem þau svara hvert í sínu lagi, um reynsluna af Brussel fyrstu tvö árin.
Hér eru nokkur atriði sem fram koma í svörum þingmannanna:
Þetta eru aðeins fáeinir punktar. Öll svörin má sjá í tveimur greinum (fyrri og seinni), en tiltrú þingmannanna á ESB er minni nú en áður en þau voru kjörin til þingsetu í Brussel. Kommentin með greinunum eru líka áhugaverð.
Varðandi síðast punktinn þá er hér átt við Joseph Daul, forseta Sósíaldemókrata (EPP) og Martin Schulz formann Bandalags sósíalista og demókrata (S&D). Þessir tveir flokkar eru lang stærstir á Evrópuþinginu með 61% þingsæta og starfa oft sem einn flokkur.
Eina alvöru stjórnarandstaðan er frá minnsta flokknum sem hefur innan við 4% þingsæta. Þess vegna er talað um "einstefnupólitík". Virk stjórnarandstaða er nauðsynleg fyrir lýðræðið, en fyrirfinnst ekki á Evrópuþinginu.
30.6.2011 | 00:20
Engar "þjóðir" aðeins "borgarar"
Í Rómarasáttmálanum var talað um þjóðir (peoples), þ.e. að Evrópuþingið skuli samanstanda af fulltrúum þjóða aðildarríkjanna.
Á ensku: "... shall consist of representatives of the peoples of the States."
Með Lissabon bandorminum var þessu breytt.
Í nýjum texta 14. greinar Maastricht segir að þingmenn á Evrópuþinginu skuli vera fulltrúar borgara Sambandsins.
Á ensku: "... shall be composed of representatives of the Union's citizens."
Ekki aðeins hafa "þjóðir" vikið fyrir "borgurum". Nú er ekki lengur talað um aðildarríkin í fleirtölu, heldur Sambandið í eintölu og með stórum staf. Svona breytingar verða ekki af tilviljun.
Það rímar fullkomlega við stefnuna um aukinn pólitíska samruna (ever closer union) að Brussel skilgreini almenning sem "þegna Evrópuríkisins".
Þetta er eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem embættismenn földu vandlega og pössuðu að enginn fengi að kjósa um, enda þykir þeim óþarfi að flækja hlutina með einhverju lýðræðisveseni.
![]() |
Fulltrúar Evrópuþingsins til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |