Færsluflokkur: Evrópumál

ESB komið með puttana í orkumálin líka!

Günther Oettinger, orkumálaráðherra ESB, hefur lagt fram frumvarp sem varðar stærri orkusamninga aðildarríkja við ríki utan Evrópusambandsins, s.s. um kaup á olíu, gasi og rafmagni.

green-energySamkvæmt því þarf „fullvalda" ríki að fá samþykki frá Brussel fyrir orkusamningi.

Fleira ljótt er að finna í frumvarpinu, t.d. um upplýsingaskyldu gagnvart Brussel um atriði sem eru viðskiptalegs eðlis og flokkuð sem trúnaðarmál. Frétt um frumvarpið má lesa hér.

Einnig má Framkvæmdastjórn ESB eiga áheyrnarfulltrúa í samninganefnd hins „fullvalda" aðildarríkisins.

Meðal dýrmætustu auðlinda okkar Íslendinga eru fallvötnin og jarðhitinn. Við setjum okkar orkulöggjöf sjálf.

Með Lissabon samningnum var Brussel veittur aukinn réttur til löggjafar á sviði orkumála. Er það gæfulegt fyrir þjóð, sem á svo mikla framtíðarhagsmuni undir orku, að flytja þetta vald úr landi?

Ef við villumst inn í Evrópusambandið er það hluti af „pakkanum" að afsala sér þeim rétti og fá skipanir sendar í pósti. Lissabon sáttmálinn sér til þess.

 


Er ESB fært um að taka upp lýðræði?

Þegar ESB verður formlega orðið að sambandsríki mun það eiga lítið skylt við fyrirmyndina USA en því meira við Sovétríkin. Sama hve oft evrópskir ráðamenn kalla það "bandaríki Evrópu".

Það sem stendur í veginum er að þá þyrfti að taka upp alvöru lýðræði. Það er sá þröskuldur sem ESB getur ekki yfirstigið og þess vegna er útkoman dæmd til að verða "sovésk".

  

Munurinn á lýðræði í USA og "lýðræði" í ESB


Forsetaframboð í USA
: Forsetaefni þarf að heyja stranga kosningabaráttu á landsvísu til að tryggja sér útnefningu flokks síns og komast í framboð.

Forsetaframboð í ESB: Það er ekki til, forseti er handvalinn af leiðtogaráðinu. Almenningur hefur ekkert um það að segja. Utanríkisráðherra er valinn eins.

 

Forseti USA þarf að kynna sig og stefnu sína og vinna hylli kjósenda. Hann er kosinn af almenningi í beinum lýðræðislegum kosningum.

Forseti ESB er "útnefndur" á lokuðum fundi. Enginn íbúi Sambandsins hefur hugmynd um fyrir hvað Van Rompuy stendur, þótt hann fái hærri laun en Obama.

 

Framboð til þings í USA: Flokkarnir setja fram pólitíska stefnu sína þegar kosið er til þings. Kjósendur hafa tvo (og stundum fleiri) skýra kosti.

Framboð til þings í ESB: Listar eru landsbundnir en þingmenn raðast í pólitíska flokka innan þings eftir kosningar. Ekki er nokkur leið fyrir kjósendur að kjósa um pólitíska stefnu.

 

Ríkisstjórn USA er skipuð af þjóðkjörnum forseta, sem hefur til þess beint lýðræðislegt umboð frá kjósendum.

Ríkisstjórn ESB er þannig valin að forseti framkvæmdastjórnar er "tilnefndur" af leiðtogaráðinu. Hann leggur síðan ráðherralista sinn fyrir Evrópuþingið.
Þingið hefur um þennan eina kost að velja, eins og í kommúnistaríki. Annað hvort er stjórnin samþykkt ... eða samþykkt. Annað er ekki í boði.

 

Stjórnarandstaðan í USA er bæði virk og kröftug. Núna er flokkur forsetans með minnihluta í fulltrúadeildinni. Forsetinn þarf að afla hverju máli sínu fylgis í þinginu.

Stjórnarandstaðan í ESB er ekki til, þótt hún eigi að vera ein af grunnstoðum hins virka lýðræðis. Almenningur þekkir hvorki haus né sporð á Daul og Schultz, sem stjórna einstefnunni í Brussel.

 

Þingið í USA fer með ótvírætt löggjafarvald.

Þingið í ESB er valdalítil punt-stofnun, til að gefa Sambandinu lýðræðislegan blæ.

 

Vægi fylkja í USA: Auk fulltrúadeildarinnar er 100 manna öldungadeild. Þar hafa öll fylki tvo fulltrúa, óháð stærð og íbúafjölda. Öldungadeildin er öryggisventill minni fylkjanna.

Vægi ríkja í ESB: Þingið deilir löggjafarvaldi með Framkvæmdastjórninni, sem leggur fram frumvörp, og Ráðherraráðinu sem á síðasta orðið. Í Ráðinu fer vægi atkvæðis hvers ríkis eftir íbúafjölda. Smáríkin hafa hverfandi vægi og enga "öldungadeild" til að grípa í taumana.

 

Stjórnarskrá USA er gömul, stutt og skýr. Um hana ríkir almenn og víðtæk sátt.

Stjórnarskrá ESB var hafnað af almenningi. Þá var hún dulbúin sem torlæs doðrantur, laumað inn bakdyramegin og íbúum meinað að kjósa.

  

Stjórnmálastéttin í Brussel hefur komið sér upp kerfi sem tryggir æðstu valdhöfum frið fyrir kjósendum. Til að breyta því þyrfti að kollsteypa Sambandinu með allsherjar uppreisn í Evrópuríkinu öllu, sem er ólíklegt að gerist. 

Sambandsríki ESB er í burðarliðnum, um það er ekki lengur deilt. Ríki sem getur aldrei orðið annað en miðstýrt, sovéskt og misheppnað.

 


Af stóru málunum skuluð þér þekkja þá


Í sumar hafa verið til afgreiðslu sannkölluð stórmál, bæði í USA og ESB. Mikill munur á meðferð þeirra sýnir að það er sitt hvað, alvöru lýðræði og brusselskt "lýðræði".

 

eu-flag-ballÍ ESB var evruvandinn afgreiddur baksviðs. Merkel og Sarkozy  skrifuðust á og héldu svo fund í París eða Berlín. Fréttamönnum var skýrt frá niðurstöðum en fulltrúar annarra evruríkja fengu í besta falli að vera með á mynd.

Ríkisstjórn Barrosos var ýtt út í kant og Evrópuþingið var í hlutverki áhorfandans. Fréttamenn höfðu lítinn aðgang að ráðamönnum og þurftu oft að geta í eyðurnar. Engar opnar umræður á vettvangi stjórnmálanna. Bara niðurstaða.

 

usa-flag-ball 
Í USA
var tekist á um skuldaþak ríkisins. Málið var afgreitt í þinginu fyrir opnum tjöldum. Fréttamenn fylgdust með hverju fótmáli forsetans og þingmanna, með vélar sínar á lofti. Daglega var rætt við fulltrúa beggja flokka í fjölmiðlum, oft í beinni útsendingu.

Forsetinn þurfti að ná sátt við þingið þar sem stjórnarandstaðan er með meirihluta í fulltrúadeildinni. Tekist var á af hörku um leiðir, allt fram á síðasta dag. Niðurstaðan var málamiðlun sem báðir sættu sig við.

 

Menn geta haft ólíkar skoðanir á niðurstöðum málanna tveggja. En ekki verður deilt um að það er gríðarlegur munur á aðferðunum sem beitt var vestan hafs og austan. 

Hvað sem mönnum finnst um USA þá verður það ekki af Bandaríkjamönnum tekið að lýðræðið þeirra er kröftugt og ekta. Til fyrirmyndar. 

Alvöru lýðræði mun aldrei verða komið á innan Evrópusambandsins (nánar um það í næstu færslu). Þar vilja ráðamenn fá frið fyrir kjósendum. Þegar ESB verður formlega gert að Sambandsríki er það dæmt til að verða meira í sovéskum stíl en bandarískum. Og mistakast.

 


ÍBV – KR ... og fiskveiðar

18. september mætast toppliðin KR og ÍBV í Pepsí-deild karla í Eyjum. Leikurinn gæti ráðið úrslitum um hvar titillinn lendir. Bæði liðin vilja auðvitað vinna. Hagsmunir þeirra eru, eðli máls samkvæmt, eins ólíkir og hugsast getur.

Ef stjórn knattspyrnudeildar KR tæki þá ákvörðun að fela Heimi þjálfara ÍBV að velja lið KR fyrir leikinn og treysta því að hann gætti hagsmuna KR-inga í hvívetna, fengi hún minna fylgi í Vesturbænum en glæsileg niðurstaða um Icesave.

Það væri jafn glórulaus ákvörðun og ef Íslendingar tækju upp á því að fela erlendum embættismönnum í Brussel formleg yfirráð yfir miðunum umhverfis Ísland og treysta því að þeir gættu hagsmuna Íslands í hvívetna. Hagsmunir Íslands og ESB eru nefnilega líka eins ólíkir og hugsast getur.

Hér er útgerð undirstöðugrein en í ESB gengur hún fyrir styrkjum, oft á félagslegum grunni. ESB flytur inn mikinn fisk en Ísland er stór fiskútflytjandi. Hér eru stór og gjöful fiskimið en ESB leitar logandi ljósi að nýjum miðum fyrir ofvaxinn flota sinn.

Það eru minni líkur á því að Ísland geti áfram rekið arðbæra útgerð til framtíðar innan ESB en að KR gefi leikinn í Eyjum.

Hugmyndin um inngöngu Íslands í ESB á ekki skilið meira fylgi en vondur Icesave samningur. Hún á í raun ekki skilið neitt fylgi. 0% væri alveg passlegt.

 


Bókstafstrú

Bókstafstrú getur farið illa með skynsemina. Aðildarsinnar á Íslandi trúa á þrjá bókstafi. Og það er magnað hve mjög er hægt að gagnrýna einn mann fyrir eitthvað sem hann sagði ekki, af því að annað sem hann sagði fellur ekki undir töfrastafina þrjá.

Úrsögn nokkurra manna úr Framsókn er rakin til þess að formaðurinn vilji draga umsókn um ESB aðild til baka. Það hefur hann aldrei sagt. Samt ganga menn menn úr flokknum af þeim sökum og vísa í grein sem Sigmundur Davíð skrifaði í Morgunblaðið 18. ágúst. Megin punktarnir í geininni eru þessir:

  • Leggjum ESB umsóknina til hliðar (sem er allt annað en að draga umsóknina til baka og hætta við).
  • Snúum okkur að mikilvægari verkefnum. Notum tímann, mannafla og fjármuni í það sem er uppbyggilegt og meira aðkallandi.
  • Þjóðin ákveði framhaldið, hvort taka skuli upp þráðinn að nýju þegar betur stendur á, bæði hér heima og í Sambandinu.

Er eitthvað í þessu sem er ekki skynsamlegt?

Guðmundur Steingrímsson, Gísli Tryggvason og fleiri hafa ekki lesið, eða ekki skilið, það sem formaðurinn sagði. Eða viljandi misskilið það, (bókstafs)trúar sinnar vegna.

Það væri auðvitað enn skynsamlegra ef Alþingi samþykkti, með öruggum meirihluta, að draga umsóknina til baka og bæri þá niðurstöðu undir þjóðina. Það er bara ekki það sem Sigmundur Davíð lagið til.

Viðbrögðin við greininni gera ekki annað en að undirstrika hversu rétt hún er, ekki síst kaflinn "Öndum léttar". Ég legg til að menn lesi greinina.  

 


Harmleikur

greece_crisis_crush_the_euro_822375Fyrir 10 árum var þetta draumur en í dag er hann orðinn að martröð heillar þjóðar. Reiðin verður að örvæntingu sem síðan brýst út í ofbeldi.  

„Síðasti þátturinn í þessum harmleik er enn eftir" voru lokorðin í þætti sem Jeff Randall var með á Sky í gær. Hann var í heimsókn í Grikklandi.

Orsakir gríska harmleiksins eru spilling, skattsvik og óhófleg eyðsla. Vendipunkturinn var upptaka evrunnar. Þá bauðst lánsfé í ómældu á lágum vöxtum og eyðslan tók kipp. En nú er komið að skuldadögum.

Evran átti að færa stöðugleika og nýja möguleika (eins og boðað er á Íslandi). Í staðinn er Grikkland komið gersamlega á hausinn.

 

Niðurlægjandi „björgun"

Svokölluð „neyðarlán" til Grikkja eru fyrst og fremst til að bjarga (erlendum) bönkum sem lánuðu af glannaskap. Prófessor í Aþenu líkti „björguninni" við það að láta mann fá dýrt kreditkort til að borga skuldir sínar, eftir að hafa misst vinnuna.

Útlitið með fjárfestingar er dökkt, selja þarf eignir fyrir €50 milljarða, lækka laun um 30%, skera niður um 20% og hækka neysluskatta.


Við höfum alltaf getað bjargað okkur úr erfiðleikum, en núna er þetta öðruvísi. Við erum í Evrulandi.
 

Síðasta árið hefur um 80 þúsund fyrirtækjum verið lokað og atvinnuleysi vex. Samdrátturinn verður 5% þessu ári og 2,7% á því næsta. Kirkjan býst við „flóðbylgju" fólks í september í leit að ókeypis máltíðum og erfiðum vetri í framhaldinu.

 „Ef við bara hefðum drökmuna" sagði einn viðmælandinn og annar, eldri maður, bjóst við langri kreppu og að hann myndi ekki lifa þann dag að sjá hana taka enda. Í raun er engin spurning um hvort, heldur hvenær, Grikkland kemst endanlega í greiðsluþrot.

Á vef The Telegraph má sjá blaðagrein Randalls um sömu heimsókn til Grikklands.

 


Mætti kannski bjóða yður að kjósa?

Gefum okkur að nú sé boðið upp á persónukjör. Þú þarft ekki að velja heilan flokk, bara þá einstaklinga sem þú treystir best. Hér er öflugur 20 manna framboðslisti fólks sem starfar, eða hefur starfað, í pólitík. Með góða menntun og starfsreynslu.

Ef þú mættir velja þrjá frambjóðendur í persónukjöri, hverja myndir þú kjósa? (Það er hægt að smella á myndina til að stækka hana.)

 

frambod_urvalsdeild 

 

Jæja, ertu búin(n) að velja?

Þekktir frambjóðendur eru líklegri til að hljóta kosningu, eins og persónukjör til stjórnlagaþingsins sáluga sýndi. Þeir sem þekkja fleiri en þrjá á þessum lista eru líklega teljandi á þumalfingri annarrar handar. Hin sautján eru öll starfandi ráðherrar.

Þau tala ekki íslensku, hafa fæst (ef nokkur) komið til Íslands og sum gætu ekki fumlaust fundið landið á korti. Þau bera ekkert skynbragð á íslenska þjóðarsál. Þau sitja í ríkisstjórn Evrópuríkisins.

Þetta er fólkið sem Össur og uppgjafarsinnarnir vilja fela stjórn Íslands. Nafnlaus andlit sem þurfa að sjá landið "með annarra augum, í 300 mílna fjarska" eins prestssonurinn frá Hrafnseyri orðaði það forðum.

Sniðugt? Nei.

 


„Maður á að segja að allt sé í allrabesta lagi“

Svo blindir geta menn orðið í trúnni á draum sinn, að hvítt verður svart og vont verður gott. Þingmaður skrifaði grein í Fréttablaðið og er engu líkara en að Birtíngur hafi stýrt pennanum.

Birtíngur trúði af sakleysi öllu sem Altúnga, lærifaðir hans, kenndi honum, enda „mikið einfaldur að hjartalagi". Altúnga kenndi að þeir lifðu í hinum allra besta heimi og að allt sem þar gerist miði til góðs.


Þeir sem segja að alt sé í lagi eru hálfvitar; maður á að segja að alt sé í allrabesta lagi.
 

Magnús Orri Schram ritar í Fréttablaðið og tekst, eins og Birtíngi, að lesa vondar fréttir sem gleðitíðindi. Evrópskir stjórnmálamenn óttast aukna miðstýringu en Magnús Orri kallar það „nánara samstarf".  Ytra telja menn að aldrei verði hægt að ná sátt um slíkt fullveldisafsal, en okkar maður telur það „jákvæðar breytingar".

Þannig trúir hann að allt sem gerist í Evrópusambandinu miði til góðs, sama hversu slæmt það er. Hann trúir bábiljunum öllum og getur varla beðið eftir evrunni, sem sligar nú hvert jaðarríkið á fætur öðru.

Magnús Orri bregður sér í hlutverki Birtíngs, Evrópusambandið er hans Kúnígúnd og Össur er lærifaðirinn Altúnga. Þingmaðurinn er jafn blindaður af hrifningu sinni á Brussel og Birtíngur var af ást sinni á Kúnígúnd.
 

Vinstrihandargiftíng

Birtíngur eyddi aumri ævinni í að leita að æskuástinni Kúnígúnd. Þrátt fyrir samfelldar hrakningar og þjáningar trúði hann því að hlutirnir geti ekki verið öðru vísi en þeir eru og hljóti að fá hinn allra besta endi.

Þegar hann loks fann Kúnígúnd hafði hún ljókkað svo mjög að hann hrökk skelfdur þrjú skref afturábak. Hann bar enga löngun til að giftast henni en hún gekk svo freklega eftir honum að hann komst ekki undan því.

Lærifaðirinn Altúnga tók saman ritgerð og sannaði að hin eðalborna Kúnígúnd gæti gifst Britíngi vinstrihandargiftíngu. Jafnvel þegar allir draumar Birtíngs höfðu molnað sannaði Altúnga að þeir byggju í hinum besta allra heima.

    

Birtíngur tók að efast í mesta mótlætinu og taldi „brjálsemi að halda því fram að allt sé í lagi þegar allt er í ólagi". Þingmaðurinn á eftir að ná þeim þroska. Og að skilja að hamingjan fæst ekki með því að giftast óhrjálegri evrópskri Brussu vinstrihandargiftíngu.

 


Jæja, þá er það opinbert

Þegar við fullveldissinnar höfum haldið því fram að ESB sé að breytast hratt, úr sambandi sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki, Evrópuríkið, hafa aðildarsinnar risið upp og sakað okkur um hræðsluáróður. Sagt okkur fara með staðlausa stafi.

Núna hafa Merkel og Sarkozy tekið af skarið og staðfest það sem hefur verið í farvatninu lengi. Ríkin skulu framselja fullveldi sitt í efnahagsmálum til Brussel (svo bjarga megi evrunni).

Aðildarsinnar geta ekki lengur stungið hausnum í sandinn.

Þegar við fullveldissinnar höfum bent á að áhrif Íslands innan ESB yrðu nánast engin hafa aðildarsinnar sakað okkur um að mála skrattann á vegginn.

Fundurinn sem þau Merkel og Sarkozy áttu í dag var a.m.k. fjórða stóra dæmið á fáum mánuðum um að það eru Frakkland og Þýskaland sem taka ákvarðanirnar. Í þetta skipti fengu fulltrúar hinna evruríkjanna ekki einu sinni að vera með á mynd.

Aðildarsinnar geta ekki lengur stungið hausnum í sandinn.

Samfylkingin mun halda áfram að þráast við, enda hefur hún ekkert annað stefnumál en að gefast upp og skríða yfir velferðarbrú til Brussel. En fyrir venjulegt fólk verður ESB meira og meira fráhrindandi með hverri vikunni.

 


mbl.is Viðbrögðin voru vísitölufall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glansmyndir og grámygla

Það er hægt að láta allt líta vel út á glansmynd, jafnvel peningamarkaðsbréf Landsbankans. En svo bankaði sannleikurinn uppá. Í grámyglu hversdagsins rýrnaði „100% öruggur sparnaður" um þriðjung á einni nóttu.

Meðan grunnur var lagður að Efnahags- og myntbandalaginu, leit nýja evru-myntin vel út. Á glansmynd. En svo kom hún og í grámyglu hversdagsins breyttist hún í myllustein um háls skapara síns.

Rifjum upp hvað Horst Köhler sagði 1992. Þá var hann fjármálaráherra og síðar forseti Þýskalands:


It will not be the case that the south will get the so-called wealthy states to pay. Because then Europe would fall apart. There is a ‘no bail out rule', which means that if one state by its own making increases its deficits, then neither the community nor any member states is obliged to help this state.
                                                           - Horst Köhler, apríl 1992.
 

Fullyrðingin um „enga björgunarpakka" reyndist röng. Fullyrðingin um að stöndugri ríkin greiði ekki fyrir suðrið reyndist röng. Samkvæmt Köhler mun Evrópusambandið nú leysast upp. ESB verður að halda í vonina um að hann hafi rangt fyrir sér um það líka.

Það tók Grikki aðeins 10 evru-ár að keyra sig í þrot. Nú tekur við 30 ára fjölþjóðlegt átak til að reyna að vinda ofan af ruglinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband