Harry Potter bjargar ekki Íslandi

harry_potterÞað er hægt að spara heimilum stórfé með því að taka upp evru, sagði utanríkisráðherra í DV-grein nýlega og vísaði í útreikninga kaupfélagsstjóra úr Borgarfirði. Hann boðaði töfralausn þar sem vextir lækka, útgjöld minnka, allir græða og - hókus pókus ... það kostar ekkert; enginn tapar.

En efnahagsbati og stöðugleiki er ekki eitthvað sem kemur í gjafaumbúðum frá Brussel. Það er sök sér þótt kaupfélagsstjóri trúi á Harry Potter lausnir en ekki boðlegt að ráðherra prediki þær á prenti. Þær virka nefnilega ekki í alvörunni.

Í sunnudagspistli á Telegraph.co.uk fjallar Evans-Pritchard um fjárhagsvanda Portúgals og Írlands, einnig AGS, evruna og myntbandalagið. Meðal annars er vitnað í Simon Johnson, fyrrum yfirhagfræðing AGS, sem utanríkisráðherra ætti frekar að veita athygli en kaupfélagsstjóranum með reiknistokkinn, sem þó er eflaust drengur góður.


portugalPortúgal

Á Íslandi tók það fégráðuga glæpamenn nokkur ár að setja hagkerfið á hliðina með því að ræna bankana innanfrá. Í Portúgal þurfti enga bankaræningja, það tók aðeins áratug að setja landið á hausinn í evrulandi. Fyrri hluti greinarinnar í Telegraph er um hrikalegan vanda Portúgals.

Fyrir hálfum örðum áratug voru erlendar skuldir landsins engar, þ.e. nettóstaðan var í plús. Svo kom evran. Glaðir Portúgalar "kíktu í pakkann" og vextir lækkuðu mikið. En nú vita þeir að vaxtalækkun fæst ekki frítt, skuldir ríkisins eru orðnar 109% af landsframleiðslu.

The brutal truth is that Portugal lost competitiveness on a grand scale on joining EMU and has never been able to get it back.

Þetta eru einmitt vondu fréttirnar fyrir Portúgal. Án eigin gjaldmiðils er torfundin leið út úr vandanum, hvað sem Össur og kaupfélagsstjórinn segja. Harry Potter lausnir virka nefnilega ekki í alvörunni.


irelandÍrland

Þeir sem aðhyllast upptöku evrunnar á Íslandi hafa margoft bent á Írland sem "sönnun" þess að hér hefði allt farið betur ef við værum í ESB og með evruna. Össur utanríkisráðherra er einn af þeim.

Nú heyrast þessar raddir ekki lengur (nema frá stöku krata), enda sannleikurinn hægt og bítandi að koma í ljós. Vandi Íra er enn að aukast og hann vex hratt. Skuldir blása út en greiðslugetan minnkar. Rétt eins og í Portúgal þá er evran sem myllusteinn um háls Íra.


En hvað um Ísland?

Fyrir meira en tveimur árum lýsti forseti Tékklands evrunni sem "hagfræðitilraun sem mistókst". Í lok greinar sinnar segir Evans-Pritchard að með evrunni hafi evrópska myntbandalagið  hugsanlega "skapað ófreskju". Á Íslandi er þessi sama evra boðuð sem allra meina bót.

Það er ábyrgðarhluti þegar ráðherra boðar töfralausnir sem eru ekki til. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir bætta hagstjórn, vandaða stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð. Harry Potter bjargar ekki Íslandi. Ef Össur trúir á Potter, evruna og jafnvel jólasveininn líka, ætti hann að nýta hæfileika sína á öðrum sviðum en í pólitík. Við höfum ekki efni á annarri hagfræðitilraun sem er dæmd til að mistakast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Sæll Haraldur.

Ég setti inn eftirfarandi athugasemd við lofsöng frú Hólmfríðar um áðurnefnda grein Kaupfélagsstjórans:

"Það skal vera alveg á silfurtæru að ég er andstæðingur verðtryggingar og tel þjóðina vera þræla hennar.  Verðtryggingin hefur fylgt okkur síðustu 35 ár, vegna afleitrar efnahagsstjórnunar allt frá lýðveldisstofnun.  Á sínum tíma töldu menn hana virka sem bremsu á verðbólgu, en hin síðari ár er alveg ljóst að hún er verðbólguhvetjandi.

Verðtrygginguna átti að leggja af upp úr 1990, samkvæmt Þjóðarsáttarsamningunum, en ríkisstjórn Davíðs Oddsonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar sveik það.  Kratar bera því ábyrgð á þessum ósköpum....

En að dæminu góða, hans Guðsteins.

Hann spyr í fyrirsögn, hvort við viljum bæta kjör okkar um 105 þúsund á mánuði.  Hver vill það ekki.  En hann er samt ekki að bjóða það.  Lánið sem hann nefnir 20 milljónir til 25 ára og 5% vöxtum, kallar á afborganir upp á 132.000.- á mánuði.  Í tilfelli þess láns sem er án verðtryggingar, eru afborganirnar óbreittar allann tímann.  Í tilfelli verðtryggða lánsins, verður hækkun allann tímann, á afborgununum og verður síðasta greiðsla verðtryggða lánsins 465 þús.  Sú upphæð er samt sem áður í beinu samhengi við allar vísitöluhækkanir.  En hvað er þá afborgunin af óverðtryggða láninu há í sama samhengi?  132/465= ca 30%.  Sem þýðir að útjafnað á 25 árum, úr 100% og niður í 30% = 65%.   65% af 132.000.- eru 87.000.-  Samkvæmt því er sparnaðurinn 45.000 á mánuði miðað við 6,5% verðbólgu.  Hinsvegar vita menn að verðbólga í Evrópu er minni og því verður sparnaðurinn að sama skapi minni.

Eftir stendur sú augljósa staðreynd að eina leiðin til að ná niður verðbólgu, er að fella niður verðtrygginguna.  Það getum við Íslendingar vel gert, jafnt í sem utan ESB."

Þar fyrir utan er rétt að menn hugsi það aðeins, að bankakerfi sem lánar út 10 sinnum þá upphæð sem er í innlánum, hefur ágætis borð fyrir báru.  Þess vegna er í raun alveg fráleitt að útlánsvextir til íbúðakaupa, séu alltaf hafðir hærri en innlánsvextir........innlán geta þannig vel verið verðtryggð en útlán ekki.....

....ekki satt?

Sigurður Jón Hreinsson, 21.9.2010 kl. 09:48

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka innlitið og athugasemdina.

Já, 5% vextir í 6,5% verðbólgu er frábært sýnidæmi til að "sanna" hvað þetta er nú allt saman flott og frábært. Hókus pókus hvað?


Við vorum nógu bláeyg til að trúa því að vöxtur bankanna væri ekta. Að útrásin myndi færa okkur velmegun og betri tíð.

Svo bankaði sannleikurinn uppá og útkoman var skelfileg.

Við þurfum að vera virkilega bláeyg til að trúa því að töframáttur evrunnar sé ekta. Að fjarstýring frá Brussel færi okkur velmegun og betri tíð.

En sannleikurinn mun banka uppá og útkoman verður enn verri.

Haraldur Hansson, 21.9.2010 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband