Færsluflokkur: Bloggar

Spaugstofan myndi ríkisstjórn

"Það blasir alveg við", sagði Björgvin G Sigurðsson aftur og aftur þegar hann sagði af sér. Afsögn hans var þúfan sem velti hlassinu og nú er rauðgrænn minnihluti í sjónmáli. Hversu oft sagði Björgvin "það blasir alveg við"?

Hann sagðist ekki hafa verið beittur neinum þrýstingi. Öll þjóðin hrópaði á afsögn hans í meira en 100 daga samfellt, en það er enginn þrýstingur. Þrátt fyrir "engan þrýsting" var afsögnin orðin að útspili Samfylkingarinnar seinna sama dag. Útspili sem Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að svara með því að taka til í Seðlabankanum. Það er eitthvað í þessu dæmi sem ekki gengur upp. Þetta var pólitísk flétta og nú er stjórnin fallin.

Skotin sem ganga á milli fráfarandi stjórnarflokka eru hörð. Ingibjörg Sólrún segir að Geir hafi "slegið á útrétta sáttarhönd" með því að hafna tilboði um að gera Jóhönnu að forsætisráðherra. Um hvað átti sú "sátt" að snúast?  Hún sakar líka samstarfsflokkinn um "hrokafulla afstöðu" og að hafa ekki sýnt næga auðmýkt. Þetta er skrýtið orðaval. Jafn skrýtið og að Geir skyldi frekar láta stjórnina falla en að víkja forvera sínum úr seðlabankanum. Þau höfðu bæði tækifæri á að velja aðra leið, það átti að gera strax í október.

Ef hættumerkin blöstu við, hvers vegna fór þá svona illa?

Veikindi Ingibjargar Sólrúnar hafa afhjúpað Samfylkinguna sem eins manns flokk. Án hennar er allt í hers höndum og fylkingin langt frá því að standa undir nafni. Hingað til eru allar vangaveltur litaðar af því hvað er best fyrir flokkinn. Það gildir um alla flokkana. Ekki hvað best er fyrir fólkið.

Kannski er best að Spaugstofan myndi ríkisstjórn. Pólitíkusarnir geta séð um nokkra Spaugstofuþætti á meðan, þeir eru í góðri æfingu.


mbl.is Ekki verið samið um neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk sjónskekkja

Fólk mótmælir. Hver á fætur öðrum segja sérfróðir menn, innlendir sem erlendir, að fyrsta skrefið út úr kreppunni sé að endurvekja traust. Það sé ekki hægt nema með því að víkja þeim til hliðar sem stóðu vaktina þegar skútan sigldi í strand.

Geir og Þorgerður biðja um "vinnufrið" og Össur segist ekki geta séð að kröfurnar séu skýrar. Stjórnin hvorki heyrir rökin né sér þörfina.

See me, feel me, touch me, heal me.

Tommy kom upp í hugann þegar stórpopparinn Gunnar Þórðarson birtist á skjánum og tjáði sig. Reiður út í ríkisvaldið en ánægður með rythmann í fólkinu.

Taktleysi og pólitísk sjónskekkja þjaka fjölskylduna á stjórnarheimilinu. Ég legg til að Gunni Þórðar telji í og svo spili menn útgöngumarsinn hátt og snjallt meðan stjórnin gengur burt.

 


mbl.is Þjóðin var í Alþingisgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn svefnfriður á þingi

Kannski sýður uppúr dag, þá þarf enginn aðvera hissa. Það er blásið í lúðra og bílflautur þeyttar til að "vekja þingheimaf þyrnirósarsvefni". Eins og verið sé að raska svefnfriði. Hávaðinn getur skapað stemmingu fyrir meiri hávaða.

Hávaðinn magnast í æsing, læti og átök.

Það er búið að prófa margar tegundir mótmæla. Friðsamir fundir á Austurvelli, borgarfundir í Iðnó og Háskólabíói, fundir stéttarfélaganna, þögul mótmælastaða, málaðar ruslatunnur og skókast í gullkálfinn.

Í nokkur skipti hefur orðið einhver hasar og kostað nokkur egg, tvær rúður og eina rafmangssnúru og brákað kinnbein. Lætin í dag eru bara "næsta stig" í ólgunni.

Það væri svo auðvelt að lægja öldurnar talsvert, bara að sýna fólki þá virðingu að víkja þeim sem þarf að víkja, biðjast afsökunar og boða til kosninga. Ef ríkisstjórnin situr bara áfram á valdastólum eins og hún eigi valdið mun ástandið bara versna.

 

 


mbl.is Svæði við þinghúsið rýmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að búa til nýja Framsókn

Ég hef aldrei kosið Framsókn og get ekki hugsað mér að kjósa flokk sem vill stefna til Brussel, en það er samt þrennt sem ég vil gefa flokknum hrós fyrir.

Þegar Guðni og Bjarni fóru komu tvær konur í staðinn, sem báðar virðast efnilegar og önnur þeirra var kosin ritari. Valgerður sá að hún væri ekki rétti leiðtoginn vegna tengsla við einkavæðingu bankanna og ákvað að víkja sem formaður. Þrír frambjóðendur komu fram og sá eini sem ekki hefur starfað í flokknum, hlaut kosningu.

Hrósið er sem sagt fyrir 1) að hafa sýnt að maður kemur í manns stað, 2) að gefa fordæmi um að þeir sem tengjast um of fortíðinni víki, og 3) að sýna kjark til að velja til forystu mann eins og Sigmund Davíð, sem mér virðist mjög frambærilegur í alla staði.

Ef Valgerður stígur skrefið til fulls, út úr stjórnmálum, á flokkurinn möguleika á að endurvekja traust. Nokkuð sem nauðsynlegt er eftir bankahrunið. Þar með er Framsókn, af öllum flokkum, búin að gefa fordæmi sem aðrir flokkar ættu að líta til. Þá er einhver von til að Nýja Ísland verði annað en orðin tóm.

Ég óska Sigmundi Davíð velfarnaðar þó flokkurinn fá ekki mitt atkvæði.

Munu Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa kjark til að fara í uppstokkun? Það kemur maður í manns stað, eins og hjá Framsókn, og því ekkert hættulegt við að ríkisstjórnin víki.


mbl.is Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóngur vill sigla ...

Þá er það á hreinu. Framsókn hefur sett stefnuna á Brussel.

Eitt mega Framsókarmenn eiga, þeir setja fram helstu samningsmarkmið: Veiðiréttur, fiskveiðistjórnun, eigin samninga um flökkustofna og óskorað forræði yfir auðlindum. Líka að fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt. Ekki má gleyma því.

Það er eitt sem ég sakna hjá Framsóknarmönnum. Það er að taka stjórnkerfi ESB til skoðunar og kynna það fyrir Íslendingum. Athuga hvort þeim hugnast það. Kynna líka valdsvið þessa stjórnkerfis og hvernig það hefur þróast gegnum tíðina.

Fiskveðistefnan kann að vera í lagi og ábyggilega er hægt að fá sérákvæði um landbúnað eins og í Svíþjóð og Finnlandi. En það er í stjórnkerfinu sem hætturnar búa.

Þar fyrir utan er ekki hægt að fara í aðildarviðræður á árinu 2009. Frekar en að skrifa um þessa fullyrðingu (aftur) vísa ég í þessar skýringar.

 

EuroFlag 

What the large print giveth, the small print taketh away!


mbl.is Framsókn vill sækja um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB: Marklaust plagg í þjóðaratkvæði?

Nú vilja margir Framsóknarmenn knýja á um að flokkurinn setji stefnuna á Brussel og loki augunum fyrir því að vegir fullvalda þjóðar liggja til allra átta. Þetta er eitt  stærsta verkefni framsóknarmanna á flokksþinginu, segir Valgerður. Á borgarafundinum á mánudaginn sagði varaformaður Samfylkingar að við getum komist inn í Evrópusambandið á einu ári.

Er þetta rétt?

Það er hægt að velta upp tveimur kostum og bara spurning hvor þeirra er vitlausari.

Ef gerður er samningur á næstu 12 mánuðum. þá verður hann sjálfkrafa orðinn marklaust plagg þann dag sem Ísland ætti kost á að ganga í sambandið. Það getur ekki verið hugmyndin að ætla að láta þjóðina kjósa um það. Ekki nema það sé viljandi gert til að spila með kjósendur og draga athyglina frá kreppunni og klúðrinu.

Staðreynd: ESB tekur ekki við fleiri ríkjum fyrr en Lissabon samningurinn hefur tekið gildi.

Staðreynd: Lissabon samningurinn getur ekki tekið gildi á árinu 2009.

Staðreynd: Samningurinn hefur í för með sér verulegar breytingar á ESB.

Staðreynd: Aðildarsamningur byggður á núgildandi lögum getur aldrei orðið marktækur.

Í Kastljósinu á mánudag lagði Guðmundur Ólafsson ríka áherslu á að segja fólki satt. Hvers vegna er það ekki gert? Á þetta sjónarspil að vera upphafið að Nýja Íslandi? Hjálp!

Samninganefnd ESB getur eingöngu samið á grundvelli þeirra laga sem nú gilda. Það getur ekki verið að hún sé „hafin yfir lög" og geti samið eftir hugsanlegum reglum sem ekki eru ennþá til. Samningsmarkmið Íslands eru ekki heldur til. Ef samið er eftir núgildandi reglum verður þá allt í plati?

Og hvað svo?

Bíða róleg eftir að Lissabon samningurinn taki gildi. Fyrr komumst við ekki inn.

Þegar það gerist verða breytingar á ESB svo miklar að aðildarsamningur Íslands væri sjálfkrafa orðinn marklaus í mörgum efnisatriðum. Hvað á þá að gera? Láta Framkvæmdastjórn ESB sjá um að „laga hann að nýju umhverfi"? Það heitir að semja af sér. Því miður eru Evróputrúarbrögð Samfylkingarinnar orðin svo svæsin að henni væri meira en trúandi til þess. Eins og eitt stykki bankahrun sé ekki nóg. Þyrfti þá að semja við ESB upp á nýtt og kjósa upp á nýtt?

Hvað breytist með Lissabon samningnum?
Meira og minna allt. Sem dæmi, þá breytist allur texti í því sem nú eru 27 fyrstu greinar Maastricht samningsins að hálfri grein undanskilinni. Flestar greinar þar fyrir aftan breytast eitthvað eða mikið, sumar alveg. Í Rómarsáttmálanum þarf að fara aftur í 11. grein til að finna texta sem stendur óhreyfður, þar fyrir aftan eru líka miklar breytingar. Einnig eru 27 af 37 bókunum (protocols) nýjar, auk breytinga á yfirlýsingum (declarations).

Þetta eru ekki einhver smáatriði.

Miklar breytingar á stjórnkerfinu þar sem færri menn fá meira völd. Breytingar á löggjöf og valdsviði, þar á meðal færist löggjöf í orkumálum til Brussel. Einnig er skotið inn í lögin tilvísun til „hins innri markaðar" hér og þar, m.a. varðandi fiskveiðar. Slíkar tilvísanir hafa verið (mis)notaðar til að fella dóma hjá Evrópudómstólnum í málaflokkum sem ekki heyra undir ESB í orði kveðnu. Það er líka umbylting í utanríkismálum, sem m.a. kemur inn á viðskipti við ríki utan sambandsins.

Hvað er hægt að semja um núna?
Ekkert af viti, satt að segja. Ísland gæti búið í haginn með því að reyna að semja sig framhjá „hinni skaðlegu sjávarútvegsstefnu ESB" eins og Robert Wade orðaði það á borgarafundinum. Það gæti kannski sparað tíma en erfitt að sjá hvaða vitglóra væri í því, svona úr samhengi við boðaðar breytingar. Viðæður gætu reddað nokkrum júrókrötum kokteilpartýum í Brussel og kannski kaffi og meððí í saumaklúbbi hinnar 344 manna héraðsmálanefndar.

Hinn kosturinn
Viðsemjendur gætu farið í „þykjó" og ímyndað sér að Lissabon samningurinn verði lögfestur óbreyttur og samið á þeim grunni, án lagastoðar. Ef síðan samningurinn er felldur aftur á Írlandi er allt unnið fyrir gýg. Þá er bara að byrja upp á nýtt. Það er a.m.k. jafn víðáttuvitlaust og fyrri kosturinn.

Hvernig væri bara að segja satt?

 


mbl.is Eignarhald auðlinda sé tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stressborg og ESB listaverkið

Átta tonna listaverkið sem David Černý setti upp í Brussel er hvorki stærsti né dýrasti gjörningur Evrópuríkisins. Černý svindlaði og þarf nú að útskýra hvað varð af 65 milljónum króna sem átti að greiða til listamanna.

stressborgÞað þarf hins vegar enginn að útskýra hvað varð um þær 78.500 milljónir sem fóru í að byggja þinghúsið í Strasbourg. Þetta glæsilega hús er notað í 4 daga á mánuði og er miklu stærri gjörningur en sá sem tékkneski „listamðurinn" framdi.

Í hverjum mánuði pakka allir 785 þingmenn Evrópuþingsins skrifstofum sínum ofan í þar til gerða kassa. Þeir eru settir í trukka og keyrt með allt til Strassborgar. Þar er tekið upp úr kössunum og menn koma sér fyrir í Louise Weiss byggingunni og byrja að funda.

Menn funda þar í fjóra daga. Þá er öllu pakkað niður aftur, sett í trukka og keyrt aftur til Brussel. Þetta er gert í hverjum mánuði. Kostnaðurinn við þetta þingmannarallý er 17 milljarðar króna á ári, greitt af skattfé þegna Evrópuríkisins. Þess á milli stendur Louise Weiss byggingin eins og hver annar skúlptúr, fólki til yndisauka.


mbl.is ESB-listaverkið Entropa reyndist gabb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÖRYGGI

Þetta gæti verið íslensk lýsing nema hvað fjöldinn er meiri. Nokkur hundruð ungmenni stofna til óeirða eftir friðsöm mótmæli 10.000 manna á götum Riga. Þeim fjölmennustu í 19 ár.

Mótmælendur krefjast þess að stjórnin segi af sér og fara fram á uppstokkun á flokkakerfinu. Riga eða Reykjavík, kröfurnar eru þær sömu.

„ESB gefur okkur öryggi og stöðugleika", sagði Normunds Popens, fastafulltrúi Letta hjá ESB í viðtali sem birt var hér á mbl.is á laugardaginn. Lettar gengu í ESB 2004, eins og margar þjóðir A-Evrópu eftir hrun Sovétríkjanna

Lettland fær 30.000 milljónir evra að láni frá Evrópska fjárfestingabankanum, en gjaldmiðill landsins er tengdur evru. Þeir eru líka búnir að fá 7.500 milljónir evra frá IMF.

Hvorki evran né ESB geta varið Lettland fyrir kreppunni. Öryggið er greinilega ekki eins mikið og Popens vonaði. Aukinn samdráttur og vaxandi verðbólga, alveg eins og á Íslandi.

Fréttin með viðtalinu síðasta laugardag byrjar á uppörvandi setningum:
„Ísland sem smæsta ríki ESB gæti augljóslega ekki haft mikil áhrif á stefnu Evrópusambandsins. Það er þó ekki þar með sagt að Ísland hefði engin áhrif."


mbl.is Óeirðir vegna kreppu í Riga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað veit þessi Wade?

Á nokkrum dögum hef ég séð umfjöllun fjögurra hagfræðinga um leið út úr kreppunni. Tveir eru íslenskir og tveir erlendir. Allir hafa þeir eitthvað til málanna að leggja. Athyglisverður er munur á skoðun þeirra  í gjaldmiðilsmálum.

Útlendingarnir tveir eiga það sameiginlegt að hafa varað við bankakreppu á Íslandi og fengið mikla gagnrýni fyrir. Nú, þegar þeir hafa reynst sannspáir, er leitað álits hjá þeim um framhaldið. Þetta eru Robert Wade, hagfræðingur frá Nýja Sjálandi sem kennir við London School of Economics og Carsten Valgreen fyrrverandi hagfræðingur hjá Danski Bank.


Robert Wade
. Hann veit sitt hvað um stöðuna hér, enda hefur hann kynnt sér hana ágætlega og vert að kynna sér það sem hann hefur fram að færa. Helstu punktar úr ræðu hans um næstu viðbrögð eru þessir:

  • Kalla saman nefnd erlendra sérfræðinga til rannsóknar og endurskipulagningar ríkisskulda.
  • Kortleggja hvar peningarnir eru.
  • Endurheimta orðsporið. Reka Davíð Oddsson.
  • Forsætisráðherra biðjist afsökunar.
  • Tryggja áframhaldandi atvinnu
  • Verja lífeyrissjóðina (hægja á hruni þeirra)

Hann bætir líka við hugmyndum um hvað gera skuli í framhaldinu, þegar kreppan er um garð gengin og byggja skal til framtíðar:

  • Herða á reglugerðum í fjármálageiranum
  • Auka umboð og valdsvið seðlabanka og FME
  • Ganga inn í evrusvæðið (eða tengjast Noregi og norskri krónu) þegar búið er að ná stöðugri íslenskri krónu í nokkur ár.
  • Hugsanlega ganga í ESB, þá líklega sem „múrbrjótur" fyrir Noreg, til að verja þá gegn "skaðlegri fiskveiðistefnu ESB".


Carsteen Valgreen, sem líka varaði við bankahruni, sagði í Fréttablaðinu á laugardaginn að hugleiða megi evru „þegar innlendum stofnunum og verðbólguvæntingum hefur verið komið í eðlilegt horf". Það sé þó ekki víst að skipta þurfi um gjaldmiðil.


Íslensku hagfræðingarnir tveir eru Guðmundur Ólafsson, sem var í Kastljósinu í kvöld og Ólafur Margeirsson, sem skrifaði nokkuð ítarlega grein sem birtist í Silfrinu á Eyjunni í gær.

Guðmundur Ólafsson. Helstu punktarnir úr viðtalinu við hann í kvöld:

  • Þetta mál er komið út úr hagfræðinni fyrir löngu.
  • Allar þessar tölur - maður skilur þær ekki.
  • Horfurnar jafnvel enn verri en Robert Wade lýsir.
  • Ég veit ekki hvað á að gera.
  • Loftbólan sem sprakk byrjaði að blása út 2003.
  • Það er nauðsynlegt að segja fólki satt.
  • Nauðbeygð til að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil.

Undir lokin talaði hann svo um „sögusagnir" þess efnis að ríkisstjórnin ætla að seilast í lífeyrissjóðina til að borga skuldir. Hann sá líka ljós í myrkrinu; út úr hörmungunum kemur eitthvað nýtt og mönnum gefst tími til að sinna hugðarefnum sínum í kreppunni og sinna ástinni.

Ólafur Margeirsson varar við upptöku evru í grein sinni á Silfureyjunni. Segir að það hefði verið gott að taka hana upp fyrir nokkrum árum vegna alþjóðlegrar bankastarfsemi. Nú er sú starfsemi ekki lengur til og gæti orðið til tjóns að skipta um gjaldmiðil.

 

Útlendingarnir tveir eru sammála um það að bíða með breytingar á gjaldmiðli. Vinna sig út úr kreppunni fyrst og huga að gjaldmiðilsbreytingu síðar. Valgreen telur þó ekki víst að þess þurfi.

Íslendingarnir tveir eru hvor á sínum endanum. Annar vill einhliða upptöku strax, hinn telur að breyting gæti orðið til tjóns en krónan sé vörnin í kreppunni.


Hverju eiga svo þeir að trúa sem ekki hafa lögmál hagfræðinnar á takteinum? Miðaða við þá þróun sem víða má sjá í Evrulöndum hallast ég að áliti þeirra erlendu. Setja kraftinn í að byggja upp Nýja Ísland og taka svo þessa gjaldmiðilsumræðu eftir nokkur ár þegar því er lokið.

Robert Wade,ræða hans á íslensku á bloggi Láru Hönnu
Carsten Valgreen,bloggfærsla um grein hans og viðtengd frétt á mbl.is
Guðmundur Ólafsson, Kastljósþátturinn á RÚV
Ólafur Margeirsson, grein hans á Eyjunni, Silfri Egils


mbl.is Kreppan getur dýpkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stálhnefinn - aftur!

Kannski eins gott að Guðlaugur Þór var ekki borinn út með valdi í dag, eins og þeir allra heitustu töluðu um í gær. Það var stálhnefinn sem var reiddur til höggs, Ingibjörg Sólrún sem einhver kallaði utan- og innanríkisráðherra, átti "skilaboðin".

Hitt er annað mál að Guðlaugur Þór virkaði í varnarstöðu á Kastljósinu. Sér í lagi þegar Sigmar gekk ítrekað á hann varðandi meinta stefnubreytingu, einkavæðingu og "aðkomu" Roberts Wessman að rekstri skurðstofu í Keflavík.

Það verður að gera greinarmun á einkarekstri og einkavæðingu, sagði hann. Einhvern veginn fékk maður á tilfinninguna að þegar ráðherrann sagði "mér hugnast ekki einkavæðing" að þá væri hann með lygaramerki á tánum. En hann hefur þó verið hreinsaður af ásökunum um að hafa haft í hótunum við ræðumann.

Ingibjörg Sólrún segist hafa verið að ráða ræðumanninum heilt. Ræðumaðurinn talaði um heilræðið sem hótun. Það er blæbrigðamunur á.


mbl.is Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband