Færsluflokkur: Bloggar
13.1.2009 | 13:13
Grágás, Járnsíða og Jónsbók
Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar voru sakamenn dæmdir til fjársekta, hýðingar eða lífláts. Tvær síðastnefndu refsingarnar eru löngu aflagðar. Þá voru ekki byggð nein fangelsi, heldur menn sendir í útlegð ef þeir áttu ekki samleið með samfélaginu.
Fyrir mörgum árum sá ég lögfróðan mann í sjónvarpi sem sagði að enn væru í gildi einhver lög úr gömlu Jónsbók. Ekki man ég hvaða lög.
Það er fátt verra fyrir þjóðarsálina en viðvarandi atvinnuleysi. Í desember voru 7.902 án atvinnu og þeim mun fara fjölgandi. Þegar maður hugsar til þess að þetta eru beinar afleiðingar af glæpsamlegri græðgi fáeinna útrásardólga, veltir maður fyrir sér hvort enn sé heimilt að dæma menn í útlegð. Hvað segir Jónsbók um það?

Nú er spáð að atvinnuleysi, sem mældist 4,8%, muni enn aukast, enda ríkir djúp kreppa. Það gæti farið í 6,4 til 6,9%. Í fréttabréfi dagsins frá greiningardeild Glitnis er líka fjallað um atvinnuleysi.
Athygli vekur að í línuriti yfir þróun frá árinu 2000 kemur fram að atvinnuleysi á Evrusvæðinu hefur aldrei farið undir 7% á þessum tíma. Meira að segja upp undir 9% 2004-06. Kreppulaust!
Vonum að kreppan hér á landi verði ekki langvinn með tilheyrandi atvinnuleysi árum saman. Það er skemmandi fyrir þjóðarsálina.
(Línuritið er úr Morgunkorni Glitnis, 13. jan. 2009)
![]() |
Atvinnuleysi 4,8% í desember |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.1.2009 | 22:37
Nýársheit og aðrar hótanir
Robert Wade, einn af frummælendum kvöldsins, var líka í Kastljósinu í kvöld. Það sem hann sagði hljómaði eins og skelfileg hrakspá. Ný dýfa væntanleg eftir tvo til fjóra mánuði. Aðrir fræðimenn hafa spáð meiriháttar samdrætti um allan heim, sem mun hafa áhrif hér. Gagnrýni Wades á FME var mjög harkaleg, svo ekki sé meira sagt. Og það er greinilega löngu tímabært að skipta um stjórn.
Það væri æskilegt að rjúfa þing strax 20. janúar, þegar þingmenn eru loksins búnir í jólafríi. Þá væri hægt að kjósa 14. mars. Stjórnarkreppan verður hvort sem er ekki dýpri en hún er; óstarfhæf stjórn og áhrifalausir þingmenn í jólafríi. Það þarf að endurnýja bæði fólk, hugmyndir og umboð.
Um áramótin sagði formaður Samfylkingarinnar að besta nýársheitið sem hægt væri að gefa þjóðinni væri loforð um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Nýársheit geta verið fín. Það er spurning hvort ekki sé rétt að allir flokkar gefi þjóðinni loforð. Hin pólitísku nýársheit gætu verið þessi:
Vinstri grænir hafi kjark til að segja upphátt nei við Evrópuaðild. Þeir eru á móti og eiga því ekki að þykjast vilja fara í viðræður og leggja samning í dóm kjósenda. Bara vera heiðarleg og segja satt. Koma með raunhæfar hugmyndir um kreppuvarnir.
Sjálfstæðisflokkurinn sýni kjark til að viðurkenna að frjálshyggjan gekk ekki upp, játa þau mistök fyrir þjóðinni og hverfa til annarra gilda. Breyta bæði stefnunni og forystuliðinu. Lofa að gera þetta aldrei aftur.
Samfylkingin sýni kjark til að gefa út stefnuskrá með þeim tveimur atriðum sem á stefnu hennar eru: Að ganga í Evrópusambandið og að taka upp evru. Hún sýni líka þann heiðarleika að kalla það kosningahótanir en ekki loforð.
Íslandshreyfingin sýni sig. Hafi kjark til að taka á móti þeim sem ekki bera lengur traust til gömlu flokkanna og geri stefnumál sín sýnilegri. Sérstaklega varðandi stjórnkerfið.
Framsóknarflokkurinn þarf kjark til að reyna að vera til. Hann þarf líka að gera upp við fortíðina þó hann sé í stjórnarandstöðu nú um stundir.
Kjósendur hafi kjark til að krefja alla stjórnmálamenn um heiðarlegt uppgjör vegna bankahrunsins og sýni hug sinn í kjörklefanum. Bjóða upp á nýja kosti ef enginn flokkanna hugnast þeim.
Rjúfa þing, boða til kosninga, bretta upp ermarnar, fara í snarpa kosningabaráttu og drífa þetta af. Naflaskoðunin verður ekkert skárri þó menn gefi sér marga mánuði í hana. Uppgjörið verður bara betra ef menn taka slaginn núna meðan jarðvegur fyrir breytingar er frjór.
![]() |
Fullur salur í Háskólabíó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2009 | 21:45
Að bera saman epli og skrúfjárn
Það er nokkuð ljóst að fiskveiðar og yfirráð yfir auðlindum hafsins við Ísland, verður eitt af stóru málunum í Evrópuumræðunni sem framundan er.
Sérstaða Íslands í þessum málum er veruleg. Í flestum löndum Evrópusambandsins er sjávarútvegur mjög léttvægur og nýtur opinberra styrkja. Á Íslandi er þessi atvinnugrein meginstoð sem þarf að reka á arðbæran hátt til framtíðar. Vægi hennar hefur aukist við hrun bankanna.
Hvort sem menn eru með aðild að Evrópusambandinu eða á móti, þá er klárt að ef til samninga kæmi yrði sá hluti sem fjallar um fiskveiðar að stórum hluta nýsmíði. Stefnan er ekki sniðin að þeim aðstæðum sem hér ríkja og varla hægt að nefna fordæmi til að fara eftir.
Nýlega var talað um Möltu sem hliðstæðu, sem ekki er raunhæft. Einn, annars aldeilis ágætur Framsóknarmaður, benti á Azoreyjar og Kanaríeyjar. Sá samanburður er ekki raunhæfur heldur þar sem báðir þessir staðir falla undir "útnára-undanþáguna" í 349. grein Rómarsáttmálans. Að bera Ísland saman við þessa staði er eins og að bera saman epli og skrúfjárn.
Samningur yrði því mjög flókið verk og þarf að huga að hverju smáatriði. Þar að auki hefur sú stjórn sem nú situr ekki umboð til slíkra viðræðna svo af þeim getur ekki orðið fyrr en nýtt þing hefur verið kosið og ný stjórn tekið við.
Fyrir fróðleiksfúsa, þá læt ég fyrri hluta 349. gr. fylgja:
Taking account of the structural social and economic situation of Guadeloupe, French Guiana, Martinique, RéUnion, Saint-Barthelemy, Saint-Martin, the Azores, Madeira and the Canary Islands, which is ompounded by their remoteness, insularity, small size, difficult topography and climate, economic dependence on a few products, the permanence and combination of which severely restrain their development ...
(Grálituðu nöfnin eru ekki inni í greininni eins og er en stendur til að bæta þeim við.)
![]() |
ESB myndi stjórna hafsvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2009 | 08:07
Valgreen sagði fleira en þetta
Þessi hagfræðingur - sem varaði við bankakreppu tveimur árum fyrir hrun - fékk skammir og óblíðar viðtökur á sínum tíma. Skyldu menn vera tilbúnir að hlusta núna?
Að taka upp evruna er ekki lausn á öllum vandamálum. Bankarnir hefðu hrunið jafnvel þótt Íslendingar hefðu haft evruna. Meginvandamálið var ekki myntin eða hagkerfið, heldur bankarnir sjálfir.
Þannig hefst næst síðasti hluti greinar Valgreens. Eftir öll upphrópin um "ónýta krónu" og töframeðalið evru, á fyrstu vikum eftir hrun, eru augu okkar hægt og bítandi að opnast fyrir því að sökin liggur ekki þar. Krónan er enginn gerandi í hruninu heldur gráðugir glæframenn sem misnotuðu hana; smæð hennar og skort á vörnum/reglum.
Hvort þurfum við frekar, að kasta krónunni eða loka á fjárglæframenn?
Þau vandræði sem Valgreen rekur til krónunnar eru of hátt gengi hennar. Það, ásamt háum stýrivöxtum gerði lán í erlendri mynt fýsileg, sem leiddi til gjaldeyriskreppu. Í lokakafla greinar sinnar telur hann upp nauðsynlegar aðgerðir, sem sagt er frá í mbl-fréttinni, og segir svo:
Síðan þegar innlendum stofnunum og verðbólguvæntingum hefur verið komið í eðlilegt horf er hægt að fara að hugleiða upptöku evrunnar. Það er þó ekki víst að þess þurfi. Það er ekki ljóst hvers vegna lítið, mjög opið hagkerfi, þar sem stór hluti af útflutningi er vörur en ekki þjónusta, ætti að taka upp alþjóðlega mynt.
Íslenska krónan verður gjaldmiðill okkar næstu tíu árin hið minnsta, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Jafnvel innganga í Evrópusambandið getur ekki breytt því. Við ættum því að haga okkur í samræmi við það og hlúa að henni frekar en tala hana niður og úthrópa sem geranda í hruninu. Það var mannanna verk.
Forgangsverkefni í stjórnkerfinu er að auka sjálfstæði Seðlabankans og setja yfir hann stjórn skipaða mönnum og konum sem uppfylla kröfur um menntun, reynslu og fagmennsku.
![]() |
Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2009 | 23:04
Þetta hefur ekki heppnast nógu vel hjá Mogganum
Það er gott framtak hjá Mbl að taka á máli málanna. Alls staðar eru menn að tjá sig um Evrópusambandið og gjaldmiðlamál og því vel til fundið að hafa vandaða kynningu. Birtar hafa verið margar greinar um efnið en því miður virðist sem þessi kynningarherferð hafi misst marks.
Það er of mikið að ætla að gera 12 efnisflokkum góð skil á 12 dögum.
Við flestar fréttir sem birtar eru á Mbl.is má sjá bloggfærslur, stundum í tugavís. Það heyrir hins vegar til undantekninga ef einhver skrifar blogg við ESB fréttir úr þessu kynningarátaki. Ástæðan er fyrst og fremst að þær "týnast" í sérstökum ESB flipa í valmynd efst á síðunni. Þær sem rata inn í almennar eða innlendar fréttir eru settar þar eldsnemma á morgnana og eru svo horfnar af fyrstu skjámynd þegar almennar morgunfréttir eru birtar.
Reyndar eru sumar ESB fréttanna þannig að þær mega alveg hverfa en aðrar eru mjög fínar og eiga ekki síður erindi til lesenda en fréttir af hálku, mótmælum og rafmagnsleysi.
Það voru til að mynda birtar átta fréttir/greinar um stjórnkerfi og stofnanir ESB og sex um orku og auðlindir. Ég leyfi mér að efast um að þær hafi fengið mikinn lestur.
Vonandi að Mbl.is hugsi þetta aðeins upp á nýtt. Láti duga tvo efnisflokka á viku í staðinn fyrir einn á dag. Þetta eru upplýsingar sem margir leita eftir en lítið gagn í þeim ef þær "týnast" eða fara framhjá lesendum. Svo mætti leggja aðeins meiri vinnu í sumar greinanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.1.2009 | 12:34
NEI NEI NEI. Þetta getur ekki verið!
Atvinnuleysi á Spáni er nú hið mesta í 13 ár en þrjár milljónir Spánverja eru nú án vinnu, tæp 14% vinnuafls. Atvinnuleysi á evrusvæðinu er hvergi meira.
Atvinnuleysi hefur undanfarið aukist alls staðar á evrusvæðinu en hvergi þó jafn mikið og á Spáni þar sem það hefur nær tvöfaldast á örfáum mánuðum.
Evran, þetta töframeðal sem á að lækna öll okkar mein. Það getur ekki verið að hún verji ekki Spán fyrir kreppunni. Þar getur ekki verið 14% atvinnuleysi, tvöfalt meira en á Íslandi sem situr uppi með ónýta krónu og er í dýpri kreppu.
Hvað á RÚV við með "hefur nær tvöfaldast"? Eru þeir að gefa í skyn að það hafi verið meira en 7% atvinnuleysi í kreppulausu Evrulandi?
Í lokin kemur svo það sem líklega átti bara að vera fréttin:
Álframleiðandinn Alcoa hefur tilkynnt að 13.000 og 500 starfsmönnum verði sagt upp og jafnframt verði verksmiðju á Norðaustur - Spáni lokað.
Ég veit ekki hvers vegna 13.500 er skrifað í tveimur tölum. Fréttin öll er hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2009 | 19:06
Sjáið þið ekki heildarmyndina strákar?
Þessi frétt væri fyndin í Spaugstofunni. Hún væri næstum því sniðug ef það væri 1. apríl. En það er 8. janúar og fréttin er í Mogganum.
Listamaðurinn Ólafur Elíasson fer á kostum í Mogganum. Hann segir að íslensk þjóð hafa lengi saknað tónlistarhúss og nú sé það loksins að verða að veruleika. "... en þá eru allir svo uppteknir af því að leysa fjárhagsvanda þjóðarinnar að þeir hafa glatað sýn á heildarmyndina."
Ótrúlegt hvað við erum einfaldir og lummó alltaf, við Íslendingar. Að burðast við að leysa fjárhagsvanda þjóðarinnar, núna í miðri kreppunni, þegar okkur vantar tónlistarhöll með risavaxinni glerskreytingu eftir Ólaf Elíasson.
![]() |
Reynt að leysa mál Tónlistarhúss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2009 | 21:39
Ingibjörg Sólrún til varnar Davíð Oddssyni
Ingibjörg Sólrún mætti í Kastljósið í kvöld. Aðeins einu sinni í viðtalinu hækkaði hún róminn lítillega, hvessti sig smávegis og sagði: Það var ekki hann sem byggði þetta upp!
Hún var að tala um Davíð Oddsson og bankakerfið. Það er að hennar mati ekki hægt að kenna honum um eða fullyrða að tilteknir fulltrúar beri ábyrgð. Það var eins og hún lokaði augunum fyrir því að krafan um mannabreytingarnar snýst um aukinn trúverðugleika en ekki að sakfella embættismenn.
Svo kvartaði hún undan óþreyju almennings í biðinni eftir Nýja Íslandi.
Þetta er sama Ingibjörg Sólrún og sagði í viðtali í New York í október að Davíð Oddsson ætti að gera forsætisráðherra þann greiða að víkja svo hann fengi frið til að vinna þau verk sem nauðsynleg eru. Hún er formaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að Davíð Oddsson starfaði ekki í umboði hennar í stjórn Seðlabankans. Hvað skyldi valda þessum viðsnúningi?
Auðvitað áttu stjórnir seðlabanka og fjármálaeftirlits að víkja sæti strax í október, til að endurvekja glatað traust. Einnig fjórir ráðherrar, en það er ekki við slíku að búast ef menn gera ekki greinarmun á sekt og pólitískri eða faglegri ábyrgð.
Undir lok viðtalsins tókst henni að svara bæði í norður og suður, um sama atriðið, á sömu mínútunni.
Þegar spurt var um ábyrgð spurði hún á móti: Eiga þingmenn að standa upp í hópum? Hún lét eins og spurningin væri kjánaleg og bætti við að mönnum sé skipt út í kosningum, sem gerist venjulega á fjögurra ára fresti.
Strax á næstu mínútu svaraði hún í hina áttina: Að það gæti verið rétt að einhverjir standi upp til að auka traust. En auðvitað vildi hún ekki nefna nein nöfn, enda búin að lýsa því yfir fyrr í viðtalinu að hún treysti fjármálaráherra til allra góðra verka.
Einu sinni leit ég á Ingibjörgu Sólrúnu sem nýja von í íslenskri pólitík og hef bæði kosið hana til borgarstjórnar og þings. Í dag finnst mér kominn tími á að hún taki sér frí frá pólitík.
Það bar fleira á góma í þættinum; álit umboðsmanns, átökin í Ísrael, björgunaraðgerðir og Evrópumál. Ég er ekki að hóta einu né neinu" sagði hún um hótanir sínar um stjórnarslit ef samtarfsflokkurinn gerir ekki eins og hún segir. Hún leggur nefnilega mesta áherslu á að ráðast í verk sem hún hefur aldrei fengið umboð til: Að fara í viðræður við Evrópusambandið um aðild Íslands.
Það þarf að kjósa sem allra fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2009 | 09:09
En hvað með fæðingarorlofið?
Fæðingarorlofssjóður hefur sérstakan tilgang. Í í lögum þeim sem hann vinnur eftir eru markmiðin skilgreind:
2. gr. Markmið.
Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir við báða foreldra.
Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Einu sinni fór Bjarni Ármannsson í fæðingarorlof. Maður sem hafði bónusgreiðslur sem voru svipaðar og einstaklingur í þokkalega launuðu starfi hefur í laun alla ævina. Þessi Bjarni þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Var það til að "tryggja barni samvistir við báða foreldra"? Þurfti hann styrk frá ríkinu til þess?
"Löglegt er siðlaust" hefði einhver sagt. Ef skoðaðar eru reglur um fjárhæðir á heimasíðu sjóðsins má sjá að nú eru reglur um hámarksupphæðir. Þær voru ekki í byrjun. Þær voru settar eftir að sjóðurinn hafði þurft að greiða milljarðamæringnum Bjarna Ármannssyni svimandi háar fjárhæðir svo hann hefði efni á að fara í fæðingarorlof.
Maður með snefil af sómatilfinningu hefði aldrei sótt um þessar greiðslur í sporum Bjarna. Maður sem hefur lært að skammast sín hefði byrjað á að skila þessum peningum. Samviskulaus sukkari gerir það ekki. Ég gef mér að Bjarni sé drengur góður og hafi skilað þessu til sjóðsins í kyrrþey.
Annars væri lítil reisn yfir syndagjöldunum, sem fyrir hann voru varla upp í nös á ketti.
![]() |
Endurgreiddi 370 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2009 | 19:42
Já, en hvað verður um FLOKKINN?
Lýðræði eða flokksræði? Það sem er hvað forvitnilegast við viðtengda frétt kemur fram í lok hennar. Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður spurði Styrmi út í hættuna á því að til verði annar hægriflokkur í íslenskum stjórnmálum! Ja hérna.
Það er ekki nóg að stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa, segi fólkið fyrst og flokkurinn svo" ef það er bara í orði. Pólitík á þessu ári verður að snúast um fólkið fyrst".
Bankakerfið hrundi og efnahagslífið er í sárum. Það sem öllu skiptir er að tryggja fólki áframhaldandi atvinnu og að það missi ekki eigur sínar. Það á vera efst á lista allra stjórnmálamanna, hvort sem þeir standa til vinstri eða hægri.
Menn verða að hafa kjark til að láta prinsippmálin ráða. Ekki eltast við tískuna til að ná í nokkur atkvæði, hvort sem það er Evróputíska eða eitthvað annað. Sá sem fylgir sannfæringu sinni verður með hreina samvisku eftir kosningar. Ef það þýðir að flokkur klofni verður bara að hafa það.
Kosningarnar eiga ekki að snúast um það að halda Sjálfstæðisflokknum saman eða tryggja fylgi Samfylkingarinnar eða að Vinstri grænir geti grætt á óróanum eða endurreisn Framsóknar. Þær eiga að snúast um fólk. Um Íslendinga.
Svona upphrópun; hvað verður um flokkinn?, er tímaskekkja í kreppunni og vísbending um að hjá sumum er flokksræðið sterkara lýðræðinu. Ennþá.
![]() |
Umboð til að verja auðlindir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)