Færsluflokkur: Bloggar

Tvennar ESB kosningar eru nauðsyn

Nú hafa allir gömlu flokkarnir gefið út einhvers konar stefnu varðandi næstu skref í þrætunni endalausu um ESB. Tveir vilja hefja viðræður til að "sjá hvað er í boði" og leyfa svo þjóðinni að kjósa um samning. Tveir vilja láta kjósa um hvort farið verði í viðræður.

L-listinn er alfarið á móti viðræðum og inngöngu en Borgarahreyfingin tekur ekki beina afstöðu í þessu tiltekna máli.


Tvennar kosningar um ESB eru nauðsynlegar.

Sumir telja óþarft að kjósa tvisvar og að með því sé verið að tefja málið að óþörfu. Ef menn vilja setja stefnuna á ESB á annað borð þá eru tvennar kosningar góð stjórnsýsla og algjör nauðsyn.

Hvers vegna?

Vegna þess að til þess að fá samning þarf að fara í viðræður. Til þess að fara í viðræður þarf að sækja um aðild. Til að sækja um aðild þarf þjóðin að vilja ganga í sambandið og taka þátt í starfi þess. Að baki verða að vera heilindi.  

Umsókn er eitthvað sem ber að taka alvarlega. Ekki bara fá samning "til að sjá hvað er í boði"  eins og það sé ekki stærra mál en að máta buxur. Í umsókn felst yfirlýsing og skilaboð til annarra sambandsríkja. Stjórnmálamenn þurf að sækja umboð til kjósenda til að gefa slíka yfirlýsingu.

 

Kosningar #1
Fyrri kosningarnar eiga að snúast um umboð til að sækja um aðild og hefja viðræður. Eða hafna því. Samningsmarkið kæmu þá væntanlega fram líka.

Þessar kosningar geta farið fram snemma á næsta ári þegar ljóst er orðið hver örlög Lissabon samningsins verða. Á meðan óvissa ríkir um hann liggja ekki fyrir þær upplýsingar sem kjósendur eiga rétt á áður en þeir taka afstöðu.  

Kosningar #2
Síðari kosningarnar yrðu svo um samninginn sjálfan og samþykkt eða höfnun á aðild að Evrópusambandinu. Ef meirihlutinn segir já förum við í Evrópusambandið, annars ekki. Þannig virkar jú lýðræðið.

 

Þó er spurning hvort ekki þurfi að nota reglur ESB um aukinn meirihluta í máli sem er svo stórt að það felur í sér valdaframsal sem kallar á breytingu á stjórnarskrá.

 


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammarleg meðferð á gömlu fólki

"Við höfum mestar áhyggjur af óhóflegri tekjutengingu fjármagnstekna við lífeyri hjá Tryggingastofnun" er haft eftir formanni stjórnar Landssambands eldri borgara. Þessar áhyggjur eru því miður ekki að ástæðulausu.

Aukin tekjutenging bitnar á þeim sem eiga minnst.

Á Þorláksmessu var gefin út reglugerð, undirrituð af Jóhönnu Sigurðardóttur, um fjárhæðir bóta almannatrygginga. Þremur dögum fyrr voru samþykkt „lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum" þar sem skerðing vegna fjármagnstekna var hækkuð úr 50% í 100%. Þetta hefur ekki farið hátt. Kannski vegna þess að breytingin bitnar á "ósýnilegum" hópi fólks og verður lítt sýnileg fyrr en eftir kosningar.

Þessi meðferð á efnalitlu gömlu fólki er til skammar.

Fyrir tveimur árum var sett inn frítekjumark á fjármagnstekjur, kr. 90.000, vegna lífeyristrygginga frá TR. Nú um áramótin var það hækkað í um 9,6%, eins og bótafjárhæðirnar. Þessi hækkun er létt á metunum þegar allar tekjur umfram það koma nú til skerðingar.

Jaðaráhrifin, sem er ekkert annað en óbein skattlagning, þýða að aldraðir og efnalitlir þurfa nú að borga margfaldan skatt af sínum vaxtatekjum. Með efnalitlum á ég við þá sem hafa takmörkuð lífeyrisréttindi. 

Þetta bitnar ekki á þeim sem hafa góð lífeyrisréttindi, þeir eru hvort sem er ekki með tekjutryggingu, heimilisuppbót eða framfærsluuppbót. Það eru þeir sem hafa minnst sem verða fyrir barðinu á þessum ófögnuði.

Tæplega áttræður maður með 32 þús á mán. úr lífeyrissjóði, hafði 478 þús. krónur í vaxtatekjur á síðasta ári af 3,9 millj. kr. innstæðu sem hann hafði önglað saman gegnum tíðina. Án vaxtatekna hefði hann 148 þús á mánuði frá TR, til viðbótar því lítilræði sem hann fær úr lífeyrissjóði.

Gömlu reglurnar hefðu lækkað greiðsluna niður í 125.378 krónur en eftir breytingar og „ráðstafanir í ríkisfjármálum" fer hann niður í 117.310 krónur á mánuði.

Viðbótar jaðarskatturinn er 96.816 krónur á ári. Tvöfalt það sem hann greiddi í fjármagnstekjuskatt af vöxtum og verðbótum.

Og þetta er bara viðbótarskerðingin; kjaftshöggið sem hann fékk í jólagjöf frá Heilagri Jóhönnu og ríkisstjórninni. Ef litið er á alla skerðinguna standa eftir 63.720 krónur af vaxtatekjunum. Það er nú allt. Minna en einn fimmti af verðbótunum.

Eru þetta breiðu bökin?

Skilaboðin til þessa manns eru þessi: „Ef bæturnar duga ekki getur þú bara gengið á þínar litlu eignir eða étið það sem út frýs." Hann er einn af þeim sem tapar á „hækkuninni". 

Í alvöru talað: "Ráðstafanir í ríkisfjármálum" heita lögin.

Til viðbótar sjá svo menn fram á rýrnun á greiðslum úr lífeyrissjóðum og ekki þarf að fjölyrða um tap vegna sjóðsbréfa og hlutabréfa.

Er það réttlætanlegt að afmarkaður hópur þurfi að bera margfaldar byrðar á við aðra Íslendinga af því að hafa einhverjar vaxtatekjur af ævisparnaðinum?

Heilög Jóhanna ætti að leiðrétta þetta skelfilega óréttlæti frekar en að fjasa um súlustaði,  kræklingarækt og tóbaksvarnir.


mbl.is Áhyggjur af skerðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flytja (út) vald

Undanfarna tvo til þrjá áratugi hefur valddreifing verið fast stef í íslenskri stjórnmálaumræðu. Að færa valdið nær fólkinu. Sveitarfélög hafa verið sameinuð í öllum landshlutum til að styrkja sveitarstjórnarstigið og verkefni færð frá ríki til sveitarfélaga. Svo eru hverfisráð í Reykjavík angi af sama meiði.

Þetta er gert í þeirri trú að það sé slæmt fyrir samfélagið að færa of mikil völd á fáar hendur. Réttilega. Í sama takti er umræðan um endurreisn Alþingis, sem nú er sagt afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina. Of mikil völd séu færð framkvæmdavaldinu. Meira að segja beðið um stjórnlagaþing og stjórnarskrárbreytingar til að færa mál til betri vegar.

Það er örugglega rétt að því fjarlægara sem valdið er því verra er það fyrir samfélagið. Kerfið þyngist og skilvirknin minnkar. Skilningur á þörfum þegnanna minnkar. Nálægð við þegnanna er því alltaf af hinu góða. Þess vegna er það kostur að hér á landi er valdið hvorki fjarlægt né andlitslaust.

Nú vilja sumar skipta um kúrs og sigla í vitlausa átt.

Flytja valdið úr landi.

Það eru þeir sem vilja ganga í Evrópuríkið og flytja vænan skerf af bæði löggjafar- og framkvæmdavaldi til Brussel. Þar er þingið afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina (EU Commission), svona kerfi sem við viljum losna við hér heima. Helst með breytingu á stjórnarskrá. Völdin þar eru að mestu hjá ríkisstjórninni og fjölmörgum vinnuhópum hennar, hvað svo sem reglur og glansrit segja. Þessi ríkisstjórn verður framvegis skipuð 18 mönnum (eru núna 27) og þeir eru ekki kjörnir í beinum lýðræðislegum kosningum. Tengslin við borgarana eru engin.

Þegar valdið fjarlægist minnka um leið áhrif borgaranna á eigin velferð. Það að afsala sér valdi í hendur yfirþjóðlegrar stjórnar mun alltaf leiða til skaða af einhverju tagi. Það gerist kannski ekki strax. Hnignunin verður ekki eins mikil og í sjávarplássunum í kringum landið og hún gerist ekki jafn hratt. En það verður hnignun. Hún bara læðist aftan að okkur.

Fari svo að menn nái að misnota kreppuna til að draga Ísland inn í Evrópuríkið, mun það draga bæði framtak og mátt úr samfélaginu. Hægt og hægt. Svo hægt að það tekur enginn eftir því, ekki svona dags daglega. Þegar fram líða stundir munu börn þeirra sem nú eru á grunnskólaaldri sitja uppi með skaðann. Og afkomendur þeirra líka.

Ef til væru patentlausnir þá væri engin kreppa. Innganga í Evrópusambandið getur aldrei orðið redding á kreppunni. Hún myndi í fyllingu tímans valda enn meiri skaða en það að taka upp erlendan gjaldmiðil án þess að hafa efni á því. 


Blóm og brauð og Tónlistarhúsið

Ef þú tvo peninga skaltu kaupa blóm fyrir annan og brauð fyrir hinn. Brauð til að halda lífi og blóm svo að lífið sé þess virði að lifa því. Eitthvað í þessa áttina hljómar kínverskt máltæki.

Tónlistarhúsið gæti verið slíkt blóm. En blómið má ekki vera svo dýrt að það kosti báða peningana. Þá er ekkert eftir fyrir brauði.

Nýja tónlistarhúsið verður glæsileg bygging og til mikillar prýði. En 13-14 milljarðar á tveimur árum eru líka miklir peningar. Meira en hálfur milljarður á mánuði í miðri kreppu. 

Allar afborganir allra lántakenda hjá íbúðalánasjóði voru um 50 milljarðar á síðasta ári. Ef 8% þeirra hafa misst vinnuna og þurfa frestun á fjórðungi gjaldfallinna greiðslna til að forðast gjaldþrot, gerir það um einn milljarð. Bara til að nefna eitt lítið dæmi til samanburðar.  

Þetta með tónlistarhúsið er klemma. Ef ekkert er unnið við húsið skemmast mikil verðmæti sem í því liggja, en áframhaldandi vinna skapar störf. En í ljósi stöðunnar getur varla skipt öllu máli hvort húsið er fullklárað 2011 eða 2013. Það eru ríki og borg sem greiða kostnaðinn.

Það að setja hálfan milljarð á mánuði í þetta hús í miðri kreppunni getur ekki virkað sem "rétt aðgerð" á þá sem verst standa og eru að tapa eignum sínum. Þetta hlýtur alltaf að vera spurning um forgangsröðun.


mbl.is Tónlistarhúsið fær grænt ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB ... og hvað svo?

Ef Diana Wallis vill í alvöru taka tillit til sérhagsmuna Íslendinga þá gerir hún það best með því að hætta að reyna að tæla okkur inn í Evrópuríkið. Hún var í viðtali við BBC í haust þar sem hún talaði um spillinguna á Evrópuþinginu sem "viðloðandi vandamál" og boðaði bætur á árinu 2009. Hún ætti að sinna því frekar en koma hingað og misnota kreppuástandið til að koma íslensku ríkisvaldi til Brussel.

Það er sorglegt hvernig einangrunarsinnar - þessir sem vilja einangra Ísland í Evrópusambandinu - hamra endalaust á "krónan-er-dauð" slagorðinu af því að það gengur í lýðinn. Bjóða upp á aðild sem "stefnu í peningamálum" og benda á hana sem leið út úr kreppunni!  En að útskýra stjórnkerfi Evrópusambandsins er ekki líklegt til að afla trúboðinu fylgis, þó meiri þörf væri á þeim skýringum.

Enginn virðist vilja horfa fram fyrri nef sér og spyrja: En hvað svo? Hvað þegar kreppan er búin? Við vitum að hún tekur enda, en verðum við sátt innan ESB eftir 10 ár eða 15 ár? Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur.

Ísland kemst ekki út úr kreppunni nema fyrir eigin vélarafli. Þó innganga geti hugsanlega stytt kreppuna um eitt ár er það léttvægt í hinu stóra samhengi. Afsal á fullveldi leiðir alltaf til tjóns og við verðum að horfa til hagsmuna komandi kynslóða.

Kreppan er tímabundin, en tjónið af inngöngu verður varanlegt.


mbl.is Tekið verði tillit til sérhagsmuna Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna skoðar og skoðar og skoðar og skoðar og skoðar


"Við þyrftum þá að skoða málið í því ljósi og taka afstöðu til þess" svaraði Jóhanna. Og ef bankastjórar sitja sem fastast? "Við mundum skoða þá næsta skref í málinu ef þeir ætla ekki að bregðast við þessari ósk okkar."

Auðvitað áttu seðlabankastjórar að víkja í október, en það er annað mál.

Þessi svör eru í takt við Kastljósþáttinn sem Jóhanna mætti í á mánudaginn, nýorðin forsætisráðherra. Hún byrjaði af krafti meðan rætt var um seðlabankann og stjórana þar og endurskipulagningu.

Talaði því næst um breytingu á stjórnarskrá til að auðvelda inngöngu í Evrópusambandið. Svo þegar öll hin málin voru rædd svaraði Jóhann öllum spurningum með því að það væri verið að skoða málin. Svona svarði hún:

Við munum auðvitað skoða það, þegar þetta liggur fyrir ...

Við munum skoða hvað er hægt að gera í því sambandi ...

Við erum núna til dæmis að skoða varðandi myntkörfulánin

Við erum að skoða hvað við getum gert fyrir þá sem verst eru settir ...

Við höfum þegar í dag verið að skoða ýmsar leiðir ...

Við erum að skoða það hvort við getum komið fram einhverju bráðabirgðauppgjöri

Við erum að skoða hvernig getum gert ... það gegnsærra

Við höfum í dag verið að skoða ákveðnar leiðir

Þetta er það sem við erum að skoða (um hátekjuskatt)

Við erum að skoða það, að þeir sem geti borði byrðarnar ...

Þetta verður auðvitað skoðað ....

Það sem við erum auðvitað að skoða ... (um bjargráðasjóð)

Auðvitað eitthvað sem við viljum skoða (um kyrrsetningu eigna)

Það er auðvitað eðlilegt að skoða hvaða möguleikar ...

Við munum fyrst og fremst skoða ... að það standist eignarréttarákvæði

Það munum við nú skoða (hvernig við semjum um skuldir)

Hún vill líka skoða hvað kemur út úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún telur að innganga í sambandið sé "grundvallaratriði til að styrkja hér krónuna". Hún er á sömu skoðun og Ingibjörg Sólrún sem kallaði inngöngu í Evrópusambandið "stefnu í peningamálum" í þættinum Í vikulokin um áramót.

Spurning hvort Skoðunarstjórn Jóhönnu starfi áfram eftir kosningarnar í apríl. Þá þarf hún að gera meira og skoða minna.


mbl.is Blæs á tal um pólitískar hreinsanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með klofinn hjálm og rofinn skjöld

"Evran er skjöldur", segir yfirkommissarinn Barroso. Til að sanna það ber hann saman Írland og Ísland, í viðtali við Die Ziet.

Barroso er sérstakur karakter, forsetinn sem lætur sig dreyma um evrópskt heimsveldi. Eins og aðrir í pólitík þá velur hann sér dæmi sem hentar málstaðnum. Það gera þeir allir.

Það hefur örugglega ekki hvarflað að honum að bera saman Svíþjóð og Grikkland. Og enn síður Noreg og Spán. Evran hefði komið illa út úr þeim samanburði og ekki virkað sem burðugur skjöldur. Meira eins og tindáti með klofinn hjálm og rofinn skjöld.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað Barroso segir um Írland í sumar og næsta haust þegar evran, skjöldurinn sjálfur, getur engu bjargað.


mbl.is Barroso: Evran er skjöldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

D-listi stærstur: Kemur ekki á óvart!

Gullfiskaminni og tregðulögmál eru fylgifiskar stjórnmálanna. Það kemur bara hreint ekkert á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti fylgi sitt. Í færslu frá 4. janúar spáði ég því að það verði mynduð eins konar Nýsköpunarstjórn eftir kosningarnar í vor. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir. Ég ætla að halda mig við þá spá.

Þessi nýja könnun er ekki stór og um 40% eru óákveðnir, en hún gefur vísbendingar.

Ef Sjálfstæðiflokkurinn hefur kjark til að gera upp fortíðina með því að afneita frjálshyggjunni, skipta út forystumönnum og hverfa aftur til gamalla gilda, verður hann eini flokkurinn sem fær meira en 30% í kosningunum í apríl.

Just for the record - þessi spá er síður en svo byggð á óskhyggju. En það er með pólitíkina eins og veðrið, þó veðurfræðingur vilji spá sól og hita neyðist hann til að spá frosti og snjó ef forsendur standa til þess.

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er hvalkjöt (í augum ESB)

Í gær talaði Olli Rehn af sér. Þá sagði þessi finnski stækkunarkommissar ESB að aðild Íslands yrði hvalreki fyrir Evrópuríkið og vill bjóða okkur upp á flýtimeðferð. Í orðabók Menningarsjóðs er orðið hvalreki útskýrt þannig:

hvalreki K 1 það að hval rekur á fjöru. 2 óvænt stórhapp: það er hvalreki fyrir málstaðinn.

Í dag fagna skoskir sjómenn hugsanlegri aðild Íslands.

Skotarnir telja að aðild Íslands myndi hafa áhrif á endurskoðun fiskveiðistefnu ESB og einnig hugsanlega opna aðgang breskra sjómanna að íslenskum fiskimiðum.

Er það hið óvænta stórhapp sem Olli var með í huga? Hvalrekinn!

Jafnvel þó Skotar fengju ekki að veiða hér við land sjá þeir möguleika á endurskoðun á fiskveiðistefnunni.

Þetta er á svipuðum nótum og Robert Wade talaði um á borgarafundi í Háskólabíói, þ.e. að nota Ísland sem múrbrjót eða tilraunadýr fyrir Noreg; að breyta "hinni skaðlegu fiskveiðistefnu ESB" eins og Wade orðaði það, svo að Norðmönnum hugnist þátttaka.

Það á ekki að innlima Ísland í Evrópuríkið til að nota það sem múrbrjót fyrir Norðmenn eða vopn fyrir Skota. Ísland á að gera það sem þjónar hagsmunum Íslendinga best og standa fyrir utan ESB.

Það er sama hversu góðir samningar nást um fiskveiðar eða "hvað er í boði". Framsal á fullveldi mun alltaf leiða til tjóns. Ef ekki strax, þá seinna. Það er einfaldlega ekki hægt að komast hjá því.

Kommissar Rehn vill bjóða Íslandi flýtimeðferð. Hann veit að það hefur aldrei neitt ríki gengið í ESB nema í krísu. Annað hvort pólitískri eða efnahagslegri krísu. Þess vegna vill hann hespa þetta af á meðan við erum í miðri kreppu og þjóðin enn dofin og sár í leit að skjótvirkri lausn.

 

 


mbl.is Skoskir sjómenn vilja að Ísland gangi í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Who the fuck is Sigmundur Davíð?

Nýlega var einhver Sigmundur Davíð kjörinn formaður í klúbbi úti í bæ. Núna er þessi formaður orðinn valdamesti maðurinn við myndun ríkisstjórnar. Hann hefur aldrei verið í pólitík, aldrei boðið sig fram og aldrei verið kosinn. Það hefur enginn valið hann til að gera neitt.

Hann er ekki á þingi fyrir flokk sem ætlar ekki að vera í ríkisstjórn og ekki í stjórnarandstöðu. Samt ræður hann ferðinni. Þessi maður, sem hefur ekki umboð til að gera neitt, getur ráðið miklu um næstu framtíð þjóðarinnar.

Hann ræður hvort mynduð verður rauðgræn stjórn.

Hann ræður hvenær kosið verður í vor.

Hann ræður hvort hvalir verði veiddir.

Hann ræður hvaða leið ný stjórn fer í efnahagsmálum.

Hann ræður hvort samin verði ný stjórnarskrá!

Hvað varð um lýðræðið?


Á Nýja Íslandi skal lýðræðið í hávegum haft. Virðing Alþingis skal endurreist. Stjórnmálamenn eiga að vera heiðarlegir og vinna í þágu þjóðarinnar. Þetta var greinilega óraunhæfur draumur. Í staðinn fáum við gamaldags sukk af sömu tegund og Framsókn bauð upp á í borgarstjórninni. Lýðræðið er afskræmt eina ferðina enn.

Það eru allir tilbúnir að selja sálu sína. Hún kostar einn stól. Meira að segja VG ljáir máls á "að liðka fyrir" því að draga Ísland inn í ESB. Mönnum er greinilega ekkert heilagt þegar pólitík og völd eru annars vegar.

Ég sé eftir að hafa staðið á Austurvelli alla þessa laugardaga.


mbl.is Telur forsendur fyrir stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband