Færsluflokkur: Bloggar
16.12.2008 | 22:55
Þetta er algjör nagli
Það er ekki furða að fylgi Gordons Brown aukist í Bretlandi. Þetta er algjör nagli sem lætur verkin tala. Við Íslendingar erum auðvitað foxillir út í hann (vonandi með réttu) vegna hryðjuverkalaganna, en ég held að þau vegi ekki þungt í auknu fylgi.
Það er sama hvert litið er, alls staðar er Gordon Brown að gera eitthvað: Hækkun tekjuskatta, fjölgun starfa, lækkun orkukostnaðar, auknar opinberar framkvæmdir, lækkun virðisaukaskatts, orkusparnaður og fleira og fleira, bara nefndu það. Hann er með allar klær úti og lætur verkin tala.
En hvað með Ísland? Hverjar eru aðgerðirnar hér?
Gjaldeyrishöft og björgunarpakki fyrir fyrirtæki. Prýðilegt. En það sem heimilum var boðið uppá er ekki upp á marga fiska. Stjórnina skortir kjark til að gera nauðsynlegar mannabreytingar af ótta við seðlabankastjóra. Hún getur ekki einu sinni klárað eftirlaunalögin skammlaust.
Forystan er þjökuð af ákvarðanafælni; það er ekkert verra en það í kreppu. Til að bæta gráu ofan á svart snúast þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nú hver á fætur öðrum í átt til Evrópusambandsins, í von um bætt persónulegt pólitískt gengi. Skítt með þjóðarskútuna.
Það er sorglegt að sjá menn eyða tíma í slíka vitleysu. Innganga í ESB er svo langt, langt, langt, langt frá því að geta nokkurn tímann orðið lausn á kreppunni. Kreppan er núna! En hugsanlegur hagur af lítillega auknu samstarfi við Evrópusambandið eftir mörg ár getur ekki bjargað neinu.
Hvenær verður kosið?
![]() |
Brown sækir í sig veðrið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2008 | 17:29
Silkihanskar
Það er ekki tilviljun að auðmenn og pólitíkusar leggja mikið upp úr yfirráðum yfir fjölmiðlum. Baugsveldið og Bjöggarnir skiptu kökunni og Bakkabræður fengu sneið. Aðeins RÚV stóð eftir ómengað. Nú er dansinn stiginn á ný og einhverjir bítast um Moggann bak við tjöldin. Kannski um fleiri miðla.
Pólitíkusar setja upp silkihanska og taka vægt á þeim sem ráða fjölmiðlunum til að forðast vonda umfjöllun. Sitja jafnvel og standa eins og þeim er sagt. Voff!
Bjarni segir "... jafnvel heilu flokkarnir, eins og Samfylkingin, sem gangast inn á slíka pólitík og það er kannski það versta sem við höfum séð í spillingu, nokkurn tímann, hér á landi."
Vaaá! Það er ekkert annað.
Veit ekki hvað skal segja um þennan dóm Bjarna, en hitt veit ég að ég kaus Samfylkinguna síðast en kýs hana ekki næst. Flokkur sem gengur erinda útrásardólganna og syngur nú ómstríðan Evrópusönginn í nafni þeirra, fær ekki mitt atkvæði.
![]() |
Stjórna í gegnum fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2008 | 12:07
Tæknileg mistök?
Það voru þá bara tæknileg mistök hjá Hæstarétti að dæma Tryggva í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Mér er slétt sama hvað Tryggvi gerir eða gerir ekki í Landsbankanum. Nú er staðan sú að útrásarruddarnir hafa sett Ísland á hliðina. Bæði Landsbankinn og Baugur eiga þar hlut að máli.
Það er ekki til að auka trúverðugleikann, eða trú nokkurs manns á nokkrum hlut, að sá sem hlaut þyngsta dóminn í Baugsmálinu skuli vera ráðinn til starfa hjá Landsbankanum. Að sýsla með fé.
Þetta er nokkuð sem Nýja Ísland þarf ekki á að halda.
![]() |
Tryggvi: Kem ekki nálægt Baugi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2008 | 07:51
Spriklandi á Grikklandi (fórnarlömb evrunnar)
Verður Grikkland fyrsta fórnarlamb evrunnar? Mótmælin þar í landi snúast ekki lengur um morð á unglingspilti eingöngu, heldur um fátækt, atvinnuleysi og dökkar framtíðarhorfur.
Fyrstu brestir ESB í kreppunni eru nú sýnilegir. Evran er það sem við eigum sameiginlegt með ESB, en ekki stefna, menning, saga og hefðir, segir einn viðmælandinn í fréttinni sem hér fylgir.
Kröfur fólksins á gríska stjórnmálamenn eru: "Hættið að haga ykkur eins og strengjabrúður ESB og farið að hugsa um Grikkland."
Skilaboðin til ESB eru líka skýr: Efnahagur snýst ekki bara um tölur og peninga heldur líka um landafræði, sögu, siðvenjur og þjóðarsál.
Þeir miklu peningar sem Grikkir settu til bjargar bönkunum í október duga hvergi nærri til. Simon Johnson, fyrrum hagfræðingur hjá IMF, birti grein í RGE Monitor 1. desember. Þar segir hann að það muni verða Grikkjum að fótakefli að vera komnir með evruna og hafa ekki lengur sína eigin mynt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 17:35
Það tókst ekki fyrr en í fyrstu tilraun
Titanic er ósökkvandi skip, sögðu þeir. En svo sökk það. Það að ganga í ESB er risavaxið verkefni, rétt eins og smíði Titanic. Sú stjórn sem nú situr hefur ekki umboð til að aðhafast neitt í þeim efnum, hún myndi "sökkva Íslandi" í fyrstu tilraun. Á því er ekki minnsti vafi.
Þó Svartfjallaland sæki um á það ekki að hafa áhrif á Ísland og heldur ekki kapphlaup við Króatíu. Ríkisstjórn þarf að hafa burði til framkvæmda, sú sem nú situr hefur þá ekki.
Ríkisstjórn sem getur ekki afnumið lítil eftirlaunaólög.
Ríkisstjórn sem lætur óreiðumenn rannsaka sjálfa sig.
Ríkisstjórn sem sofnaði á verðinum.
Ríkisstjórn sem tók ekki mark á aðvörunum.
Ríkisstjórn sem klúðraði samningunum um IceSave.
Ríkisstjórn sem starfrækir skilanefndir sem vinna í laumi.
Ríkisstjórn sem þorir ekki að skipta út embættismönnum.
Ríkisstjórn sem leynir bankamálaráðherra upplýsingum um bankamál.
Ríkisstjórn sem er studd af þingmönnum sem vita ekki hvað ESB er.
Ríkisstjórn sem klúðraði umsókn um sæti í öryggisráði SÞ
Ríkisstjórn sem segir að almenningur sé "ekki þjóðin"
Ríkisstjórn sem man ekki hvort sagt var 0% eða útilokað.
Ríkisstjórn sem man ekki hvort fundur hafi verið símtal.
Ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn hefur í hótunum við hinn.
Ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn afneitar seðlabankastjóra.
Ríkisstjórn sem tapað hefur trausti íslensks almennings.
Ríkisstjórn sem fær 32% fylgi í skoðanakönnunum.
Ríkisstjórn sem var 11 vikur að koma á fót rannsóknarnefnd.
Ríkisstjórn sem gefst upp á að taka á eigin klúðri.
Nei takk kærlega fyrir. Þessi ríkisstjórn hefur í besta falli umboð til að reyna að halda kúrs til vors og uppfylla skilmála IMF. Síðan að rjúfa þing og boða til kosninga. Þar á að fjalla um ESB.
Sú stjórn sem tekur við eftir kosningar fær hugsanlega umboð frá kjósendum og getur þá farið í aðildarviðræður.
Liður númer níu er að gefnu tilefni, því miður.
![]() |
Svartfjallaland sækir um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 12:38
ÁFRAM ÍRLAND! (Hvað kom eiginlega fyrir?)
Skjótt skipast veður í lofti. Það eru aðeins tveir mánuðir síðan Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, þakkaði ESB og evrunni að Írland lenti ekki í svipuðum hremmingum og Ísland.
En hvað gerðist?
Nú hafa Írar ákveðið að setja 1.560 milljarða króna í að bjarga bönkunum sínum. Miðað við höfðatölu, er þetta 26% hærri fjárhæð en íslenskir þegnar hefðu þurft að greiða fyrir lánið sem Glitnir bað um til þrautarvara og lánið sem Landsbankinn bað um vegna IceSave, samanlagt. Samt er bankakerfið þar ekki tíu sinnum stærra en sólin eins og hér var.
Nú hafa hlutabréf í Bank of Ireland fallið um 92% og bréf í AIB fallið um 88%.
Þessi frétt um björgunaraðgerðir ríkisins kemur aðeins nokkrum dögum eftir að Brian Cowen tilkynnti Írum að þeir skuli kjósa aftur í haust um Lissabon samninginn, sem var felldur í þjóðaratkvæði 12. júní. Maður finnur til með Írum.
![]() |
Írskir fá endurfjármögnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2008 | 08:36
ÍSLAND punktur ESB. (#0)
Ríkisstjórnin hefur ekkert umboð til að hefja aðildarviðræður við ESB. Bara alls ekki. Umræðan núna er skrýtin bæði og ruglandi. Stundum sagt að við þurfum að flýta okkur til að missa ekki af lestinni". Það er kjaftæði.
Það verða engar bindandi aðildarviðræður af hálfu ESB fyrr en í fyrsta lagi árið 2010. Það veltur á örlögum Lissabon samningsins, sem var felldur á Írlandi og gæti komist í uppnám í Þýskalandi.
Í sunnudagsmogga er rætt við Daniel Gross um einhliða upptöku evru. Í lok viðtalsins berst talið að ESB og þar segir hann ... þá getið þið gefið ykkur tíma til að ná góðum samningum, annars er hætta á að ríkisstjórnin skrifi undir hvað sem er."
Já, það er nákvæmlega þetta. Svona risavaxið mál er bannað að vinna á hlaupum. Það þarf að vinna af fagmennsku. Til eru margar kenningar um samningaviðræður, sem flestar eru í þessa veru:
Basic rules in negotiations
1. Make sure you know who youre dealing with.
2. Set out your goals before you start.
3. Do your homework. You must know the law and relevant facts.
4. Establish a "best alternative" prior to entering discussions.
5. Identify who should participate on your negotiations team.
6. Be prepared to trade something to get something important to you.
Það eru fjórir þættir sem Ísland þarf að fara vandlega í gegnum varðandi hugsanlega aðild að ESB og þá þarf að vinna í réttri röð. Þetta er ekki spurningin með eða móti ESB, heldur með skynsemi og á móti fljótfærni í vinnubrögðum. Fagmennsku takk, enga sveitamennsku.
# 1 Hvað er ESB?
Almenna kynningu á sambandinu sjálfu þarf að afgreiða áður en stjórnvöld geta hafið nokkrar viðræður (regla 1). Þetta verður að vera kosningamál sem kallar á almennar umræður. Þær má ekki dæma úr leik sem séríslenskt þref". Við skulum frekar vera Íslendingar og þrasa en þegja og hrasa. Kynna þarf ESB eins og það verður eftir gildistöku Lissabon samningsins.
# 2 Aðildarviðræður
Aðeins kosningar geta veitt ríkisstjórn umboð (regla 5) til að hefja aðildarviðræður. Aðeins með viðræðum er hægt að komast að hvað er í boði, en það er bara allt annað mál. Vilji fólks kæmi að nokkru fram í almennum umræðum fyrir kosningar (reglur 2, 3, 4 og 6) og svo þróast umræðan.
# 3 Nýr gjaldmiðill
Þetta er alveg sérstakt mál. Stundum er talað eins og ESB sé gjaldmiðill. Ef ganga á í ESB af því að það er kreppa núna eða af því að peningastefnan íslenska klikkaði þá eru menn á hættulegum villigötum. Innganga í ESB er hundrað sinnum stærra mál en að skipta um gjaldmiðil. Þetta á að vera sjálfstæð umræða þar sem allir kostir koma til skoðunar.
# 4 Að gera ekki neitt
Grundvallarspurning á að vera: Hvað gerist ef við gerum ekki neitt?" Hún á alltaf að vera vakandi og henni þarf að stilla upp til hliðar við hinar þrjár. Jafnvel til höfuðs þeim.
Að gera ekki neitt" táknar ekki að láta skeika að sköpuðu. Síður en svo. Það táknar, að spurt sé hvað gerist ef við höldum okkur við EES samninginn í stað þess að ganga alla leið. Og hvað gerist ef við skiptum ekki um gjaldmiðil. Hver uppbyggingin til framtíðar yrði án þessara breytinga.
Þetta er til að koma í veg fyrir að menn breyti bara til að breyta. Að hvatinn sé alltaf skýr og skilgreindur. Þetta er algjört lykilatriði í góðri verkefnastjórn. Fagmennsku takk.
Þessi ríkisstjórn hefur engan rétt
ESB verður aldrei skyndilausn á vanda sem helltist yfir okkur í október. Það er fráleitt. Þessi stjórn hefur unnið að einni stórri umsókn á árinu, um sæti í öryggisráði SÞ. Hún klúðraði henni og hefur ekki umboð til að glíma við mál sem er margfalt stærra.
Ef kynning leiðir í ljós að ESB sé samband sem hentar okkur mun ég greiða atkvæði með aðildarviðræðum, annars ekki. Svo eru atkvæðin talin og meirihlutinn ræður. Lýðræði, er það kallað. Hornsteinninn er þekking. Ef niðurstaðan er "já" tekur næsta skref við, aðildarviðræður, eftir sömu reglum lýðræðisins.
En ég er algjörlega á móti því að ríkisstjórn sem nýtur stuðnings 32% kjósenda og hefur rúið sig öllu trausti geti tekið sér það bessaleyfi að skjóta okkur í fótinn. Að reyna að komast inn í ESB á hraðferð væru meiriháttar afglöp sem enginn á að komast upp með.
Nánari umfjöllun um #1, #2 og #3 verður í sérstökum færslum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.12.2008 | 21:16
Eða hvað hann nú annars heitir sá ágæti maður
Það er minnst fjallað um það sem skiptir mestu mál. Jón Gerald Sullenberger lét móðan mása í Silfrinu og skaut fast. Í lokin sagðist hann vera að íhuga að flytja heim og opna verslun. Það er fréttin á netmogganum og það er atriðið sem flestir tjá sig um.
Það hvort Jón Gerald opnar kannski sjoppu sem selur kjötfars, kornflex og dömubindi er þó léttvægt í sambanburði við ásakanirnar. Það sem ég punktaði hjá mér var þetta:
- Tryggvi Jónsson var arkitektinn að svikamyllunni "og þar undir á KPMG að vera".
- Ein stór sjónhverfing. Jón Ásgeir, KB menn og fleiri hafa "ryksugað allt fjármagn úr bönkunum"
- Mosaik, Dagsbrún, Teymi og 365 voru sett á markað af svikurum til að sópa að sér fjármagn. Nú eru öll þessi félög komin af markaði.
- Gaumur, Styrkur investment, Stoðir investment, 365 og Teymi skulda mikla peninga erlendis. Þessar skuldir eru ekki reiknaðar með í þúsund milljarðar skuldsetningu Jóns Ásgeirs.
- Tryggvi Jónsson er að víla og díla í Landsbankanum og "það þarf að fjarlægja hann strax"
- Fjármálaeftirlitið ber miklu meiri ábyrgð er Seðlabankinn. Jónas á að fara.
- Guðfinna Bjarnadóttir, verðandi ráðherra samkvæmt nýjustu fréttum, verður að svara spurningum og upplýsa hvers vegna hún gekk úr stjórn Baugs (sat þar 1998-2003).
- Ragnhildur Geirsdóttir þarf á sama hátt að útskýra brotthvarf sitt úr stjórn FL Group
- Það á að frysta eignir manna á meðan rannsókn fer fram.
- Getur verið að stjórnvöld séu með óhreint mjöl í pokahorninu?
- Hetjur Íslendinga eru sjómenn, sem koma með afla að landi og skapa tekjur.
- Ólafur Ragnar veitti Jóni Ásgeiri útflutningsverðlaun fyrir að flytja sparifé landsmanna úr landi.
- Forsetinn á að skammast sín og segja af sér.
- Rétt fyrir bankahrun voru fleir hundruð milljónir teknar út af reikningum í Landsbankanum í Breiðholti og settir í geymslu. Landsbankinn þarf að skýra hverjir fengu að tæma reikninga á elleftu stundu.
Vissulega þarf að setja spurningamerki við margt af því sem Jón Gerald segir vegna aðkomu hans að Baugsmálinu. Það vita allir að hann er í "heilagri krossferð" gegn Baugi, en það er ekki hægt að slá allt út af borðinu sem maðurinn segir.
Nægir að benda á tvö dæmi. Annars vegar ábendingar hans um að óeðlilegt væri að KPMG rannsakaði Glitni og nú hefur því verið breytt. Hins vegar YouTube mynd hans um Sterling svikamylluna sem skýrði fyrir mörgum hvernig viðskipti voru stunduð. Ekki hefur enn verið sýnt fram á rangfærslur þar og hafa menn þó verið nógu fljótir hingað til að svara t.d. Agnesi með Fréttablaðsgrein og norskri sjónvarpsstöð á netmiðli.
Ég sleppi viljandi hugmynd Jóns Geralds um að senda þremur dómurum í Hæstarétti jólakort venga þess að það tengist Baugsmálum sem Jón Gerald er of nálægt. En ég leyfi mér að vona að margt annað sem hann sagði verði hráefni í umræðu komandi daga. Ekki bara hugsanleg verslun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2008 | 16:40
Hin æpandi þögn
Þögnin getur verið háværari en hæstu hróp. Í dag stóð ég á Austurvelli og þagði meðan ártölin voru talin: 1991, 1992, 1993 ... eitt á mínútu í 17 mínútur og svo hringdi vekjaraklukkan. Í dag snéru allir að Alþingishúsinu svo ég stóð ekki á "mínum stað", sem er beint fyrir framan NASA, í 63ja skerfa fjarlægð.
Þetta er snjöll hugmynd, hin æpandi þögn. Fyrir aftan mig stóðu nokkrir menn, illa til fara og með bjór í hönd. Þeir hrópuðu öðru hverju eitthvað og skildu ekki hvers vegna fólk léti þagga niður í sér. Heimtuðu hávaða og kröfur.
Ég hef ekki áhyggjur af því þó nokkrir menn, sem orðið hafa utanveltu í samfélaginu, skilji ekki skilaboðin. Það er verra ef þeir sem stjórna landinu heyra ekki þann ærandi hávaða sem felst í þögninni. Eða skella við honum skollaeyrum. Hvenær verður kosið?
![]() |
Vekjaraklukka fyrir stjórnvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2008 | 13:51
Egill.esb og Illugi.esb og Jónas punktur esb
Okkur vantar mann eins og Jón. Mótvægi við ofurbloggarana Jónas og Egil og Illuga. Og ég er ekki að tala um einhvern Jón, heldur einn merkasta mann sem ég hef borið gæfu til að kynnast á lífsleiðinni og vinna með í fjórtán ár.
Mælingar segja að þeir séu stærstir þessir þrír, langstærstir. Bloggarinn Jónas er í hlutverkinu "fúll á móti" og skilar því prýðilega. Skarpur en stundum full orðljótur fyrir minn smekk, en hver hefur sinn stíl. Jónas gefur lesendum sínum ekki kost á að skrifa athugasemdir, öfugt við hina ofurbloggarana tvo.
Illugi er fastur punktur á rúntinum mínum um netið. Ég er stundum sammála honum og stundum ekki, en hef alltaf gaman af að lesa hann. Og svo er það Egill. Hann birtir oft bréf frá lesendum sínum og hjá honum eru fleiri athugasemdir skráðar en hjá öðrum bloggurum. Hann er með sjónvarpsþátt að auki.
Gallinn er að þessir þrír hetjutenórar bloggsins eru allir á sömu línu í Evrópumálum. Það er slæmt (jafnvel þó þeir hefðu rétt fyrir sér) vegna þeirra áhrifa sem þeir hafa sem hið nýja fjölmiðlavald. Bloggið er nefnilega orðið glettilega sterkt, eins og Jónas hefur rökstutt með nokkrum dæmum. Þeir eru allir með það á hreinu að við verðum að fá okkur evru og stefna á ESB.
Það er þetta með hann Jón. Hann vann fulla vinnu nánast til dauðadags, en hann lést fyrir rúmum þremur árum, þá rétt kominn á níræðisaldurinn. Þetta var sérstakur karl og eitursnjall. Hann var upphaf tölvuvæðingar á Íslandi.
Hann þekkti allt frá gataspjöldum til Oracle; sá um fyrstu skýrsluvélarnar 1954, fyrstu tölvurnar 1961 og hafði tækni 21. aldarinnar á takteinum. Hann þekkti söguna, skildi samhengið og var alltaf á tánum.
Það tók smá stund að átta sig á gamla manninum, sem var þegar orðinn löggiltur eldri borgari þegar ég byrjaði að vinna með honum. "Já en strákar mínir, hvað ef ..." og svo komu óvæntar spurningar, stundum skrýtnar. Það var eins og hann væri að halda aftur af okkur, ungu mönnunum. Treystir hann okkur ekki? hugsaði ég. Er hann alltaf svona efins? Svo á endanum spurði ég.
"Nei Haraldur minn" svaraði sá gamli. "Sjáðu til, ef enginn staldrar við og setur sig á móti, þá er alltaf hætta á að eitthvað gleymist, eða fari framhjá okkur. Þegar maður smíðar svona stóran hugbúnað, sem snertir alla landsmenn, er alveg fatalt að reka sig á þegar kerfið er komið í rekstur. Þá er of seint að snúa til baka." Já, hann notaði orðið fatalt.
Og það er eins með ESB. Það væri alveg fatalt að reka sig á þegar búið að að koma þjóðinni inn í þetta tröllvaxna apparat og of seint að snúa til baka. Þess vegna skilur maður ekki asann. Jafnvel sóttir menn til útlanda til að segja okkur hvað sé okkur fyrir bestu.
Þess vegna vantar mann eins og Jón í bloggið, sem mótvægi við hetjutenórana þrjá. Mann sem staldrar við, efast, vantreystir, setur sig á móti og dregur fram smæstu atriði. Passar að ekkert gleymist. Ekki eins og þver pólitíkus eða afturhaldsseggur heldur eins og vitur maður, hokinn af reynslu, sem skilur samhengi hlutanna og hvað skiptir máli.
Ég myndi taka að mér blogghlutverkið "Jón punktur is" ef ég gæti. En þetta litla blogg mitt má sín lítils gegn ofurbloggurunum þremur sem hver um sig fær 35 sinnum meiri lestur. Það er eins og að glíma við fallbyssusveit með snjóbolta.
Þeir Egill, Illugi og Jónas eru örugglega mætir menn, enda er inntak þessarar færslu ekki gagnrýni á þá þrjá, heldur á það sem vantar. Áhyggjur af slagsíðunni sem er á fjórða valdinu. Það getur ekki verið til góðs.
En umræðan á kannski eftir að breytast þegar líður fram á árið 2009 og kreppan leggst á Evrópu. Það er spurning hvaða lag hetjutenórarnir þrír syngja þegar/ef í ljós kemur að hvorki ESB né evra verða þeim veikari til varnar. Sjáum til. Bara að það verði ekki búið að setja kerfið í rekstur.
Og of seint að snúa til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)