Færsluflokkur: Bloggar
21.12.2008 | 12:35
Hver tekur mark á rithöfundum?
Nú hafa rithöfundar gert sig gildandi í umræðunni um þjóðmál. Einar Már flytur ræður, skrifar greinar og mætir í Silfrið. Gerður Kristný gerir það líka og Einar Kárason mætti í Kastljós, nýverðlaunaður. Menn hafa líka notað Bjart í Sumarhúsum og tilvitnanir í Halldór Laxness.
Það er vel.
Umræðan er ekki einkamála pólitíkusa og peningamanna. En þetta er ekki bara á Íslandi.
Í þeirri ólgu sem nú ríkir í Grikklandi hefur rithöfundurinn Mimis Androvlakis tekið virkan þátt í umræðunni. Hann skrifar um hvernig ESB hefur brugðist Grikkjum; hefðir þeirra, menning og saga fái ekki pláss í hagfræði Ríkisins.
Vladimir Bukovsky er einn rithöfundurinn enn, sem tjáir sig um þróunina í pólitík. Hann skoðar þróun Evrópusambandsins frá stofnun til dagsins í dag og væntanlegt framhald. Hans niðurstaða er að farvegurinn sé nákvæmlega sá sami og Sovétríkin liðuðust um á sínum tíma, þar til þau liðuðust í sundur.
En hver hlustar á rithöfunda? Þeir stúdera ekki þjóðarframleiðslu, hagtölur, viðskiptahalla, þrýsting í hagkerfinu og gengismun. Þeirra sjónarhorn er annað, yfirleitt tengt þjóðinni, sögu hennar og menningu.
Það er hollt að fá fram sem flest sjónarhorn, svo já, hlustum á þá líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2008 | 15:44
MÓTMÆLIN: Mörg, mörg þúsund manns
Í dag er laugardagur, dagur til að mótmæla. Klukkan þrjú mættu Íslendingar, þúsundum og aftur þúsundum saman í Kringluna og Smáralind. Nýjustu tölur af Korputorgi hafa ekki borist.
Þar versluðu menn við Baug og komu við í Next og Noa Noa til að redda jólagjöf í leiðinni.
Það voru líka nokkur hundruð manns sem gáfu Vísakortunum smá pásu. Gáfu sér tíma til að standa í þögulli mótmælastöðu, ellefu mínútur á Austurvelli.
Vonum að það verði lokað vegna vörutalningar á þriðja í jólum.
![]() |
Þögul mótmæli á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2008 | 11:35
... og hættum svo að ljúga!!!
Það er síðasta setningin í fréttinni sem kveikir vonir; að Samfylkingin haldi áfram að hlaupast brott frá kosningaloforðunum sínum. Bandormurinn sem núna er til umræðu er bara smámál í samanburði við kosningaloforðið sem ætlunin er að efna á nýju ári: Að koma þjóðinni inn í ESB.
Það er sannarlega röng forgangsröðun í leit að lausn á kreppunni. Það er meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því en bandorminum, þó mikilvægur sé.
Sannleikurinn er sagna bestur. Í stuttu ávarpi hér fyrir neðan (frá 2007) talar einn þingmaður á Evrópuþinginu fyrir því að sannleikurinn fái að ráða för. Að útskýrt sé heiðarlega fyrir fólki í Evrópu hvað ESB er og því síðan leyft að kjósa um Lissabon samninginn í þjóðaratkvæði í öllum aðildarríkjum.
Nokkur atriði úr ræðunni:
- Frekar en að segja fólki um hvað ESB snýst, því ekki snúa þessu við og hlusta á fólkið?
- Hlustum á Frakka og Hollendinga (sem felldu fyrri Stjórnarskrána 2005).
- Því ekki þjóðaratkvæði í öllum aðildarríkjum um Lissabon samninginn?
- Nei, það mun aldrei gerast því stjórnmálastéttin" ræður för.
- Pólitíkusar frá Rúmeníu flytja valdið frá Bucarest til Brussel og 10-20 falda launin sín. Það er ástæðan fyrir því að stjórnmálamenn í A-Evrópu vildu ganga í ESB. Það snýst allt um peninga.
- Evrópusambandið muni aldrei virka, því það er miðstýrt, það skortir lýðræði og mun aldrei njóta stuðnings þegnanna.
- Við verðum að segja fólki meira um hvað Evrópusambandið er.
- Var það úthugsuð taktík hjá Framkvæmdastjórninni að ráða hóp af leiðinlegu fólki, sem talar stofnanamál sem fáir í Brussel skilja, hvað þá almenningur?
- Hverfum aftur til tíma Jacques Delores og segjum Evrópubúum satt. ESB snýst um tilraun til að byggja heimsveldi. Nýtt ríki sem heitir Evrópa.
- Ef fólk vissi meira um hvað ESB snýst myndi það kannski styðja það frekar. Kannski. Það hélt Jacques Cirac og sendi Stjórnarskrá Evrópu inn á hvert heimili í Frakklandi. Innan viku hafði andstaðan aukist um 10 prósentustig í könnunum.
- Förum út meðal fólksins, segjum þeim sannleikann og látum fólkið ákveða hvort framtíð þeirra á að vera í þessu stóra fjölþjóðaríki, eða hvort það vill frekar halda í einkenni sín og endurheimta lýðræðið.
Varla þarf að taka fram að þessi tillaga fékk ekki hljómgrunn. Innan ESB er lítið pláss fyrir sannleikann og enn minna fyrir lýðræði. Fyrir óheppni þurfti að bera samninginn undir þjóðaratkvæði á Írlandi þar sem hann var felldur.
En ESB mun ná að þröngva hinni nýju stjórnarskrá upp á þegna ESB.
Þegar hún tekur gildi verður skipuð 18 manna ríkisstjórn (EU Commission) sem er ekki kjörin í beinum lýðræðislegum kosningum. Það verður stofnað embætti forseta Evrópu og forseti verður ekki kjörinn í beinum lýðræðislegum kosningum. Það verður líka ein utanríkisstefna og einn utanríkisráðherra fyrir öll ríkin. Hann verður ekki heldur kjörinn í lýðræðislegum kosningum. Stjórnmálastéttin" mun stýra Evrópuríkinu.
Vonum bara að Samfylkingunni takist ekki að efna loforð sitt og gera Ísland að hluta af þessari tilraun til að skapa heimsveldi.
![]() |
Röng forgangsröðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2008 | 14:23
Ég fékk jólakveðju frá Fjármálaeftirlitinu
Þetta líka stóra jólakort. Á því stendur "Þökkum góð samskipti á árinu sem er að líða".
Ég man ekki eftir að hafa haft samskipti við FME, ekki neitt umfram hinn almenna Íslending sem treysti embættinu til að standa vaktina. Með meðvitund.
Það gerðu þeir ekki og ég tapaði rúmum 30 prósentum af sparnaðinum. Það finnst mér ekki góð samskipti. En gott að vita að þeir hugsa hlýtt til mín.
Og kortið er bara næstum því huggulegt. Ég óska FME gleðilegra jóla og fullrar meðvitundar á nýju ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 20:43
You ain't seen no-no-nothin' yet
Frasi ársins hlýtur að vera You ain't seen nothin' yet.
Kanadísku rokkhundarnir í Bachman Turner Overdrive sungu lag með þessu nafni árið sem ég fermdist. Það varð alveg rosalega vinsælt. Það er á lista sem eitt besta "stam-lag" rokksögunnar. Mig minnir að My Generation með The Who hafi líka verið á þeim lista.
Það er við hæfi að rifja það upp núna þegar ríkisstjórnin gerir enn eina tilraunina til að afnema eftirlaunalögin. Það er ekki lítið sem er búið að stama á þeim.
Skyldi það hafast í kvöld? Að a-a-afnema e-e-e-eftirlaunaósómann?
Þessi flippútgáfa er ekki með BTO sjálfum, en fín samt.
![]() |
Eftirlaun rædd á þingi í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2008 | 15:44
700 evru kynslóðin
Mótmælin í Grikklandi snúast ekki lengur um morðið á Alexandros. Og þau beinast ekki eingöngu að grísku ríkisstjórninni. Nú er talað um unga fólkið í Grikklandi sem 700-evru kynslóðina vega þess hve framtíðarhorfur eru daprar.
Í þessari færslu frá því í fyrradag má sjá stutta sjónvarpsfrétt þar sem fram kemur að óánægjan með ESB vegur þungt og að evran kann að reynast Grikkjum fótakefli. Við ættum að fylgjast vel með gangi mála áður en við ákveðum að skríða inn í Evrópuríkið.
Það er ekki langt síðan bent var á Írland, Spán og Grikkland sem "sönnun" fyrir ágæti ESB. Það fjarar hratt undan sönnunargögnunum núna.
![]() |
Átök í miðborg Aþenu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 13:02
Dr. Gunni, Hannes Hólmsteinn og IMF
Um daginn fletti ég í gegnum Fréttablaðið og staldraði við fyrirsögnina "Hár í piparosti". Það var Dr. Gunni sem skrifaði um neytendamál. Maður hefur varla lesið um annað en bankahrun, gjaldþrot, verðbólgu, eignamissi og atvinnuleysi. Svo kom hárið í piparostinum.
Ég reyndi, án árangurs, að rifja upp hvenær ástandið var svo hversdagslegt að hár í piparosti hefði verði tekið fyrir í fréttatíma. Eða Kastljósi. Í öllu saman óðagotinu er ákveðin hvíld í að lesa neytendafréttir Dr. Gunna. Eins og að losna við stein úr skónum.
Í gær dúkkaði svo Hannes Hólmsteinn upp með nýja færslu á blogginu. Yfirleitt verða greinar hans hráefni í skoðanaskipti, stundum deilur. En meira að segja hann fann sinn piparost. Færslan er um hversu margir ungir námsmenn settust á skólabekk í Moskvu árið 1930-og-eitthvað. Ekkert um bankahrun eða Davíð eða fjölmiðlalög eða hryðjuverkalög.
Eina niðurstaða greinarinnar er að 15+4+2+3-1=23. Sem er alveg rétt.
Auðvitað eiga bloggarar að halda áfram að benda á vanhæfa skilanefndarmenn og óeðlileg hagsmunatengsl og reka alla Tryggvana úr bönkunum, en það er líka nauðsynlegt að fá léttmeti með í bland.
Það er gott að IMF áætlunin gangi vel. Mér skilst líka að Britney sé að íhuga að láta minnka á sér brjóstin og Carrey ku vera hættur að nota prozac.
![]() |
Áætlunin gengur vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 17:42
Allir þingmenn þurfa að taka próf
"Veistu, ég bara veit ekki nógu mikið um þetta" svaraði þingmaðurinn og bað kollega sinn að svara fyrir sig. Fundargestur út í sal var að spyrja um ESB og evruna. Samt var þessi sami þingmaður ekki í minnsta vafa um stuðning sinn við inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
Þetta á að banna!
Í þessari frétt er sagt frá að umsækjendur þurfi að standast íslenskupróf til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Það er sjálfsagt að þingmenn þurfi að standast Evrópupróf til að geta sótt um ríkisborgararétt fyrir alla íslensku þjóðina í Evrópuríkinu.
Þingmenn verða að setja sér reglur og ákveða að allir gangist undir próf. Prófið á hvorki að vera smásmugulegt né kvikindislegt. Kannski 100 spurningar um grundvallaratriði; stjórnkerfið, valdið, myntbandalagið, hlutverk þjóðþinga og meginlínur í stefnu sambandsins í fáeinum málum sem helst varða Ísland. Þetta er bara lágmarkskrafa.
- Það á enginn þingmaður að fá að stíga í ræðustól Alþingis í umræðum um ESB nema að hafa fengið minnst 6,0 á prófinu.
- Það á enginn þingmaður að fá að greiða atkvæði um neitt varðandi aðild Íslands að ESB nema að hafa fengið minnst 8,5 á prófinu.
Þetta er svo stórt mál að það verður að gera auknar kröfur um þekkingu þingmanna á málinu. Það má ekki fara með þetta eins og verið sé að greiða atkvæði um framleiðslu á áburði, vörugjald af nagladekkjum eða götuljós á Hellisheiði.
Þetta er mál sem snertir alla Íslendinga um fyrirsjáanlega framtíð.
![]() |
Formaðurinn með stálhnefann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2008 | 12:07
Sukk eða bara löglegt svínarí?
Sú var tíðin að þegar menn keyptu sér eignir þá þurftu þeir að borga fyrir þær. Í byrjun þessarar aldar fundu íslenskir viðskiptajöfrar leið til að komast hjá því. Þeir keyptu fyrirtæki og létu fyrirtækin sjálf, sem keypt voru, greiða kaupverðið í gegnum eignalausa samruna. Með því að hengja skuldir utan á fyrirtækin með samruna eftir kaupin, setja þau síðan á markað og selja hlutina í þeim til lífeyrissjóða og almennings á enn hærra verði en keypt hafði verið á, þrátt fyrir skuld setninguna, gátu forvígismennirnir skapað sér miklar tekjur.
Þannig hefst grein sem birtist í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, sem kom út í gær. Hún ber yfirskriftina "Skuldsettar yfirtökur og öfugur samruni". Þar er lýst kúnstum og klækjum þeim sem útrásarvíkingar og aðrir viðskiptajöfrar hafa viðhaft til að skapa sér gróða.
Myndin sýnir brot af töflu sem fylgir greininni
Greininni fylgir tafla sem sýnir heildareignir og viðskiptavild 20 valinna fyrirtækja og hvernig þær hafa þróast 2003 til 2007. Þar á meðal eru bankarnir þrír og helstu útrásarfyrirtækin. Sem dæmi þá hækkaði viðskiptavild Actavis úr 21 milljarði í 358 milljarða á þessu tímabili.
Þetta er mögnuð lesning, svo ekki sé meira sagt. Seinna í greininni segir þetta:
Til þess samt að láta ekki sjást hvernig skerðingin á eigin fé vegna skuldsetningarinnar fer með efnahagsreikning A færa menn upp eign sem þeir kalla viðskiptavild í ársreikningnum á móti skuldunum ...
... Eftir þetta er A tilbúið til sölumeðferðar og hægt að skrá það á markaði sem álitlegan fjárfestingarvalkost á gengi sem er kannski mun hærra en gengið sem upphaflega var keypt á þrátt fyrir skuldsetninguna.
Þessu fylgir síðan dæmi þar sem hinn nýi eigandi selur 70% af hlutabréfum sínum í félaginu, sem hann eignaðist með öfugum samruna, fyrir tæplega 8 sinnum hærri fjárhæð en hann þurfti að greiða fyrir þau úr eigin vasa.
Hvað fór úrskeiðis í regluverkinu?" heitir næsti kafli greinarinnar. Í leitinni að svari við þeirri spurningu eru dregin fram þrjú sjónarhorn; reikningsskil, eftirlitsþátturinn og skattaleg sjónarmið. Vilji men kynna sér málið nánar mæli ég eindregið með lestri þessarar greinar (tengill neðst).
Í beinskeittum lokaorðum eru dregnir saman helstu punktar. Ég leyfi mér að enda þessa færslu á að birta þrjár stuttar klausur úr lokaorðunum.
Hér að framan hefur verið lýst a.m.k. einu af þeim fyrirbærum sem hafa blásið út efnahagsreikninga bankanna og fyrirtækjanna í landinu á síðustu árum. Fyrir þessa uppfinningu hafa menn fengið bæði mikið lof og há laun. Til að hægt væri að koma þessu í kring þurfti greiðan aðgang að lánsfé og þeir sem það fengu voru tilbúnir að greiða bönkunum háar fjárhæðir fyrir aðstoðina sem þeir veittu við að búa ný félög til sölu á markaði.
Nauðsynlegt er að koma böndum á þann stjórnlausa glannaskap sem skuldsettu yfirtökurnar og samruninn hafa verið og aðrar sambærilegar ráðstafanir eins og t.d. hjá fasteignafélögum. Bæta þarf lög um hlutafélög, skilgreina hvar eftirlitið liggur, tryggja að reikningsskil fyrirtækjanna hafi eðlilegt jarðsamband og búa þannig um hnútana að endurskoðendur þori að stíga til jarðar í návist viðskiptavina sinna án þess að þurfa að óttast um að það fækki í kúnnahópnum við það.
Við þurfum að tryggja að við skiptalíf framtíðarinnar þrífist ekki á blekkingum og að sýndarveruleiki nái ekki tökum á stjórnendum þess.
Greinina alla er hægt að lesa á bls. 9-12 í þessu blaði.
(Undirstikanir og feitletranir eru mínar)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 09:39
En Ísland? Hvar er Ísland?
Ástralía, Bandaríkin, Brasilía, Bretland, Chile, Danmörk, Erítrea, Frakkland, Holland, Írak, Írland, Ítalía, Kanada, Kosta Ríka, Króatía, Nýja Sjáland, Púertó Ríkó, Rúmenía, Serbía, Singapúr, Síngapúr, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tæland, Úrúgvæ, Venesúela.
Á augnabliki er hægt að finna reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur í öllum þessum löndum á netinu. Bara googla "Referendum". Á listann vantar bæði Ísland og Evrópusambandið.
Í Danmörku dugir að 1/3 hluti þingmanna kerfjist þjóðaratkvæðis. Væri sú regla hér dygði 21 þingmann og það væri sterkt aðhald fyrir stórnvöld.
Á Íslandi eru bara þrjár ástæður gefnar fyrir þjóðaratkvæði í stjórnarskránni. Það er ef forseti synjar um undirskrift laga, ef forseta er vikið frá og ef breyting er gerð á kirkjuskipan.
Í Evrópusambandinu eru menn ekkert mikið gefnir fyrir þjóðaratkvæði. Það pirrar þá bara þegar lýðræðið þvælist fyrir. Eftir að Stjórnarskrá Evrópu var felld með þjóðaratkvæðagreiðslum í Hollandi og Frakklandi var hún endurútgefin sem "Samningur" (kenndur við Lissabon). Þetta var "lagatæknileg redding" til að komast hjá óþægilegu lýðræðinu. Menn reiknuðu ekki með að á Írlandi þyrfti að kjósa og þar var stjórnarskránin felld.
Nú ætla júrókratarnir í Brussel - sem þola ekki neitt truflandi lýðræði - að neyða Íra til að kjósa aftur. Þar verður "Referendum" breytt í "Never-end-um" þangað til Írar hlýðnast lýðræðislegum fyrirskipunum Ríkisins og kjósa rétt.
Það er gott fyrir lýðræðið þegar til eru skýrar reglur um hvenær skal leggja mál í dóm almennings. Það vantar líka Grikkland á listann.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)