Færsluflokkur: Bloggar

Svona bara gerir maður ekki

Ef við ætlum að halda einhverri reisn þá verður að taka ESB-umsókn af dagskrá á meðan IceSave deilan er óútkljáð. Um það ættu allir að vera sammála, hvort sem þeir eru með eða á móti aðild Íslands að ESB.

ESB var/er beinn þátttakandi í IceSave deilunni. Afstaða þess var ekki hlutlaus og að margra dómi vafasöm; sambandið stóð vörð um eigið kerfi frekar en að leita réttlætis. Það má lesa úr gögnum málsins, nýlegum svörum Ingibjargar Sólrúnar og ýmsum skrifum um málið.

Nú er talað um að samþykkja ríkisábyrgð með fyrirvara. 

Enn hvílir leynd yfir ýmsum gögnum. Á meðan sannleikurinn í málinu er ekki á hreinu, á meðan eitthvað bendir til þess að ESB hafi ekki komið fram gagnvart Íslandi af réttlæti, þá eigum við ekki að sækja um aðild. Það þarf að klára IceSave fyrst og hreinsa andrúmsloftið. Þessu má líka stilla upp í tvær spurningar.

#1  -  Hvenær sækir maður um aðild að ESB?

  • Þegar öruggur meirihluti þjóðarinnar styður það
  • Þegar aukinn meirihluti þingheims vill það
  • Þegar ríkisstjórnin er einhuga og vill sækja um
  • Þegar IceSave deilan hefur verið útkljáð

#2  -  Hvenær sækir maður EKKI um aðild að ESB?

  • Þegar eitt eða fleiri ofangreindra skilyrða er ekki uppfyllt

Í augnablikinu er ekkert skilyrðanna uppfyllt. Því ber að taka málið af dagskrá.


Það eitt að umsókn sé á dagskrá eru skilaboð um að við séum tilbúin að láta hvað sem er yfir okkur ganga. Slík þrælslund er Alþingi ekki sæmandi. Það er verra veganesti en samninganefnd Íslands hafði með sér á fund Breta og Hollendinga.

Að taka málið af dagskrá er yfirlýsing um að við ætlumst til þess að ESB fari eftir eðlilegum leikreglum og sýni okkur tilhlýðilega virðingu. Það verður að eyða öllum grun um meinta þátttöku þess í kúgun gegn Íslendingum áður en lengra er haldið.

 


mbl.is Ekki formleg umsögn Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sú óhagkvæmasta og versta í heimi"

Hvað eru þeir orðnir margir sem ítrekað hafa hamrað á að undanþágur geti aldrei orðið nema tímabundnar? Og að frávik verði að "rúmast innan fiskveiðistefnu ESB"? Olli Rehn og Dianna Wallis eru í þeim hópi.

Það er sama hvernig blaðinu er snúið, innganga þýðir alltaf að hin formlegu yfirráð verða ekki á Íslandi heldur í Brussel. Þó þau séu "bara formleg" er það vondur kostur.

Fyrir nokkrum vikum var í frétt á mbl.is haft eftir evrópskum pólitíkus (nenni ekki að gúggla nafnið) að stjórnmálamenn þyrftu að axla ábyrgð á fiskveiðistefnu ESB sem er "sú óhagkvæmasta og versta í heimi."

ESB veiðir Ísland

                                                                          ESB veiðir Ísland í net sín

Hlutfallslegur stöðugleiki er, samkvæmt stefnuriti Samfylkingarinnar, hinn óbrigðuli öryggisventill Íslendinga í fiskveiðimálum. Svo kom út Grænbók ESB um fiskveiðar, 22. apríl, þar sem viðruð er sú hugmynd að leggja þá reglu af. Þar við bætist að útilokað virðist að fá nokkrar undanþágur sem banna erlendar fjárfestingar í útgerð, með tilheyrandi hættum. Svo er það kvótahoppið, samningar um flökkustofna og allir hinir gallarnir. Kostir sem má finna geta aldrei vegið upp þessa stóru galla.

Hætturnar eru of margar og of miklar til þess að menn fari að leika sér að eldinum. Fiskurinn í sjónum við Ísland er okkar gullforði og það má aldrei missa formleg yfirráð yfir þeirri auðlind úr höndunum. Það gæti orðið okkur dýrkeyptara en IceSave þegar fram líða stundir.


mbl.is Skelfileg reynsla Skota af fiskveiðistefnu ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smárason 9/11

"Í greinargerð efnahagsbrotadeildar er einnig lýst miklum fasteignagjörningum um, meðal annars Fjölnisveg 9 og 11, sem Hannes og sambýliskona hans eru sögð hafa keypt á undirverði" segir m.a. í viðtengdri fréttaskýringu um meint brot Hannesar Smárasonar.

Það er þetta með húsnúmerin og aðrar tilviljanir.

9-11Árásirnar á tvíburaturnana í New York voru hryðjuverk. Hér hefur verið talað um Hrunið sem efnahagslegt hryðjuverk.

Í turnunum var World Trade Center til húsa og hýsti helstu stoðir viðskiptalífsins. Hannes stýrði fyrirtæki sem breytti nafni sínu í Stoðir.

Hryðjuverkamenn notuðu flugvélar við árásirnar. FL Group (áður Flugleiðir) notaði flugvélar í rekstri sínum.

Í Ameríku ganga hryðjuverkin í daglegu tali undir nafninu 9/11. Hannes býr/bjó á Fjölnisvegi 9/11.

Tvíburaturnarnir á Manhattan hrundu til grunna og það gerðu bankakerfið og efnahagurinn á Íslandi líka.

Hér má finna fróðleik um Stoðir ehf (áður FL Group og þar áður Flugleiðir hf).


mbl.is Meint brot Hannesar Smárasonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar sjónhverfingar?

Það er ein setning í viðtengdri frétt sem ég hnaut sérstaklega um:

Jóhanna vill láta leggja sérstakt álag á fjármálastofnanir sem gangi inn í tryggingasjóðinn til að hindra að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldirnar sem kunni að falla á Tryggingasjóð innstæðueigenda eða ríkið vegna þessa.

Og hverju breytir það?

magic_moneyRíkisábyrgð á IceSave þýðir að það verða 320 þúsund Íslendingar sem borgar brúsann. Það er ekki hægt að töfra skuldina í burtu. Það skiptir ekki máli hvort við heitum skattgreiðendur, sjúklingar, lántakendur eða eitthvað annað meðan við borgum.

Ef álag er lagt á fjármálastofnanir hlýtur það að koma fram í kjörunum sem þær bjóða; lakari lánakjör eða lægri innlánsvextir. Það skiptir ekki máli í hvaða formi almenningur tekur á sig þessar dæmalausu drápsklyfjar, þær verða alltaf jafn þungar.

Með tilfærslum verða ekki til ný verðmæti í samfélaginu eins og fyrir einhverja galdra.

Hærri skattar, skert þjónusta, lakari lánakjör, hækkað verðlag eða lækkuð laun. Klyfjarnar léttast ekki við að skipta um nafn á þeim. Pólitískar sjónhverfingar eru ekki gjaldgeng mynt.

 


mbl.is Tortryggni í samfélaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðiálit í boði Baugs?

Það fyrsta sem maður rekur augun í er merki LOGOS í bréfhausnum. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan lögreglan og sérstakur saksóknari gerðu húsleit hjá lögmannsstofunni vegna meintra auðgunarbrota. Það er ekki heppilegt að álitið sé merkt LOGOS.

Lögfræðingurinn, Jakob R. Möller, var verjandi í Baugsmálinu og lögmannsstofan hefur víðtæk tengsl við Baug. Nú, þegar trúverðugleiki er talinn lykilatriði, verður val ríkisstjórnarinnar á lögmanni að teljast klaufalegt.

Svo hefst lesturinn.
„Mér er tjáð ..." kemur fyrir tvisvar í inngangi og bendir til að ekki hafi verið unnið eftir skjalfestum gögnum. Orðalagið gefur til kynna að ekki hafi verið rætt við hlutaðeigandi til gagnaöflunar heldur upplýsingar fengnar munnlega frá þriðja aðila. Var þessu hespað af í flýti?

lawyersNokkrar athugasemdir eru áhugaverðar. T.d. um vaxtakjör í 7. gr. og gjaldfellingarákvæði í 12. gr., þar sem í báðum tilfellum er borið saman við almenn lán. Hér er þó um að ræða nauðasamninga um ríkisábyrgð, þar sem þvingunum var beitt. Fleiri dæmi má nefna sem sýna frekar hollustu við verkkaupann (ríkisstjórnina) en faglegan metnað lögfræðings. 

Oftar en einu sinni er vísað í yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar frá haustmánuðum, sem gefnar voru við óeðlilegar kringumstæður, löngu áður en línur fóru að skýrast. Þær voru þó aldrei staðfestar af Alþingi. Maður fær á tilfinninguna að tilgangurinn sé að koma pólitískri sök á fyrri stjórnvöld, þó það sé alls ekki hlutverk lögfræðilegs álitsgjafa. Það er síðan undirstrikað í lokaorðum.

Það er rúsínan í pylsuendanum.

Í lokaorðunum á bls. 7 tekur höfundur fram að hann hafi ekki sérþekkingu á sviði þjóðarréttar. Í kjölfarið kemur svo setning sem efnislega þýðir „Þetta IceSave vesen er sko ekkert Samfylkingunni að kenna."

Ég spurði tvo lögfræðinga, hvorn í sínu lagi, álits á álitinu. Það fyrsta sem báðir nefndu var skortur á lögfræði hjá lögfræðingnum og „ótrúlega léleg röksemdafærsla".

Þó Jakob R Möller sé eflaust hinn mætasti maður og lögmaður góður þá verð ég að segja að þetta lögfræðiálit virkar hvorki trúverðugt né hlutlaust. Meira eins og niðurstaðan hafi verið pöntuð. Tengingin við Baug og útrásina er ekki til að hjálpa.

 


mbl.is Hagstæð ákvæði Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

792 milljónir á dag

Mat á eignum Landsbankans sem kunngert var í gær sýnir að þær hafa rýrnað um 95 milljarða. Þær hafa rýrnað um 792 milljónir á dag frá 20. febrúar. Þetta eru ekki litlar fjárhæðir. Engin trygging er fyrir að rýrnunin verði ekki enn meiri.

Vextirnir af IceSave láninu, óskiptum höfuðstól, eru 100 milljónir á dag.

Ef þetta er sett í samhengi við atvinnu- og gjaldeyristekjur Íslendinga á næstu árum, þá liggur beinast við að mæla þetta í þorski. Þorskkvótinn verður væntanlega 150 þús tonn. Verð á þorski sem landað er í Bretlandi var í gær um 338 kr/kg að meðaltali. Verðmæti alls þorskafla í heilt ár er því um 50 milljarðar.
Það þýðir að 3/4 þorskafla Íslendinga fer í að greiða vexti af IceSave láninu.

financial-crisisÞað þarf ekki snilling til að sjá að þetta getur aldrei gengið nema með óbærilegum fórnum. Þessar fórnir eru þegar byrjaðar að birtast, t.d. í niðurskurði og kostnaðarauka í heilbrigðiskerfinu. IceSave skuldaklafinn gæti dæmt þjóðina alla til þrenginga og jafnvel fátæktar í 2-3 áratugi.

Til að bæta gráu ofan á svart er líklegt að þeir sem "kjósa með fótunum" og yfirgefa landið næstu 7 árin verði ungt fólk á vinnumarkaði, sem gerir byrðarnar enn þyngri fyrir þá sem eftir sitja.

Það er endalaust hægt að þrefa um hverjir bera mesta sök. En það er hin skelfilega staða dagsins í dag sem þarf að glíma við. Ég myndi ekki treysta á að Björgólfur Thor komi með lausnir sem létta þjóðinni byrðarnar og því miður ber ég ekki mikið traust til ríkisstjórnarinnar heldur. Nauðasamningurinn um IceSave gefur ekki tilefni til þess.

 

 


mbl.is Hugsar daglega um Icesave-klúðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Grænland

Við Íslendingar erum tæplega 6 sinnum fjölmennari en Grænlendingar (57.500). Þeir búa í landi sem er 21 sinni stærra en Ísland og telst strjálbýlasta ríki veraldar. Þar er náttúran víðast óblíðari en hér, menntakerfi og heilsugæsla ekki á sama stigi og atvinnuhættir fábrotnari. En Grænlendingar eru vissir um að það sé vænlegra til árangurs að stjórna málum sínum sjálfir en að vera undir aðra settir.

greenland

Grænlendingar fengu heimastjórn 1979 og sex árum síðar forðuðu þeir sér burt úr Efnahagsbandalagi Evrópu, forvera ESB. Megin ástæðurnar voru bann sambandsins við selveiðum og "hin skaðlega fiskveiðistefna ESB", svo notuð sé lýsing Roberts Wade.

Í gær héldu Grænlendingar upp á þjóðhátíðardaginn með því að öðlast fullveldi. Þar með fá þeir ýmsa málaflokka í sínar hendur, sem og yfirráð yfir eigin auðlindum. Danir fara þó áfram með utanríkis- og öryggismál o.fl.

Í austri eru svo önnur fámenn nágrannaþjóð, Færeyingar (48.800). Þegar kosið var til þings í Færeyjum fyrir tveimur árum var viðruð hugmynd um þátttöku í EFTA en engar fréttir eru um að þeir hafi áhuga á að ganga í ESB.

greenland-kayak 

Á sama tíma og Grænlendingar fagna fullveldi eru til Íslendingar sem vilja fórna því. Það væri nær að samfagna með Grænlendingum og strengja þess heit að láta fullveldið aldrei af hendi. Og ekki væri verra ef Ísland gerði fríverslunarsamning við Grænland, sams konar þeim sem gerður var við Færeyjar. Það myndi ýta undir aukin samskipti þjóðanna.

Við eigum meiri samleið með fámennum nágrannaþjóðum okkar en fjölmennum iðnríkjum á meginlandi Evrópu. "Tími sjálfstæðra smáríkja er liðinn" sagði einn íslenskur uppgjafar- og ESB-sinni á bloggi í síðustu viku. Hvorki Færeyingar né Grænlendingar eru á því að smáríki geti ekki verið sjálfstæð. Við eigum ekki að ljá máls á því heldur.

Til hamingju Grænland.

 


mbl.is Grænland vill aukin samskipti við Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg magnaður Saari

Af öllu því sem skrifað hefur verið um IceSave hlýtur bloggfærsla Þórs Saari frá því í gær að teljast einna athyglisverðust. Hann og Birgitta Jónsdóttir áttu fund með fulltrúa úr samninganefnd Hollands í IceSave deilunni.

Það vekur athygli hversu skýrt kemur fram í færslunni að þingmenn Borgarahreyfingarinnar eru búnir að fá sig fullsadda af þrælslund Samfylkingarinnar gagnvart ESB.

Hér eru dæmi úr færslu Þórs:

...að ljúka þessu andskotans ICESAVE máli því fyrr myndi ESB aldrei samþykkja aðildarviðræður (Haft eftir íslenskum samningamanni)

... forsætisráðherra með ömurlegan hræðsluáróður um yfirvofandi einangrun af hálfu allra Evrópuríkja ef við samþykktum ekki ICESAVE

... eru greinilega engin takmörk lengur fyrir hversu langt Samfylkingin er tilbúin að ganga í ESB vegferð sinni

aðild að ESB skal ganga framar öllu, þar með almannahag, þar með þjóðarhag ... 

Þar á bæ eru meira að segja farnar að heyrast raddir í fyrirlitningartón um Evu Joly


Það sorglega er að þessar þungu ásakanir Þórs Saari í garð Samfylkingarinnar koma engum á óvart. Samfylkingin hefur eitt og aðeins eitt markmið; að gera Ísland að hluta af Evrópuríkinu, sama hvað það kostar. Í deilum um drápsklyfjar eru hún tilbúin að afsala sér hefðbundnum úrræðum fullvalda þjóðar. Bara að komast til Brussel.

Það að þingmaðurinn noti frítíma sinn á þjóðhátíðardaginn til að skrifa bloggfærslu um IceSave segir mér að honum er mikið niðri fyrir. Mæli eindregið með lestri greinar Þórs Saari (hér) og einnig ágætri grein um IceSave sem Sigmundur Davíð birti á Eyjunni fyrir rúmri viku (hér).


mbl.is Icesave-samningar birtir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum öll snillingar

Ein lítil setning í viðtengdri frétt byrjar svona: "Að skortselja skuldabréf með því að kaupa samning um skuldatryggingaálag ..."
Var bara að spá í hversu margir gætu skýrt í stuttu máli hvað þetta þýðir.

MoneyVið hrunið breyttust allir Íslendingar í sérfræðinga í fjármálum. Alveg eins og þeir sem horfa á fótboltaleik verða sérfræðingar og vita betur en þjálfarinn, sérstaklega þegar illa gengur! Nú gengur illa í fjármálum og við erum öll orðin snillingar í peninga- og efnahagsmálum.

Það er hversdagslegt að tala um stýrivexti og bindiskyldu. Og orð sem fæstir höfðu áður heyrt eru orðin kunnugleg: Vaxtamunarviðskipti, afleiðusamningar, skuldatryggingaálag, skortstaða, undirliggjandi eignir, vafningar, o.s.frv.

Ef þér fannst setningin hér að ofan létt, þá er hér önnur lítil æfing í fjármálafræðum fyrir venjulegt fólk, tekinn úr grein í Viðskiptablaðinu:

Engar undirliggjandi eignir á borð við skuldabréf eru í afleiðum í þeim vafningum sem innihalda skuldatryggingar. Gerningarnir tengjast hinsvegar stöðum í eignasöfnum og fá af þeim tekjustreymi gegnum skiptasamninga þar, sem byggjast á samkomulagi fjárfesta um að taka á sig undirliggjandi gjaldþrotaáhættu.


Annars er fréttin um ummæli sem George Soros lét falla í viðtali við CNN Moeny. Soros er meðal þekktustu fjárfesta í heimi, en Ástþjór Magnússon lagði til í kosningabaráttunni að fá þennan tæplega áttræða Ungverja til landsins til að veita ráðgjöf.

Sá gamli heldur því fram að viðskipti með skuldatryggingarálag sé tæki til gjöreyðingar. Auðvitað gat maður sagt sér það sjálfur! Og munum að afleiddar skuldatryggingar hræða markaði.

 


mbl.is Soros: Tæki til gjöreyðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur á með góðum fréttum!

Mitt í öllu hruninu, samdrætti og pólitísku þjarki er fín tilbreyting að rekast á eina og eina góða frétt. Ekki er verra ef þær koma í kippum, eins og í dag.

Álverð hækkar
Í Moggafrétt er talað um 18% hækkun álverðs það sem af er júní. Íslandsbanki slær þann varnagla að þetta geti verið tímabundið.

Atvinnuleysi minnkar
Rúv.is segir að nú séu 14.595 án atvinnu og að atvinnuleysi hafi minnkað um 1,5%, þrátt fyrir fjölgun atvinnulausra í hópi 16-24 ára.

Kína vaknar
Það hljóta að vera góðar frétti í alheimskreppunni þegar 3. stærsta hagkerfi í heimi sýnir batamerki. Amx.is skrifar frétt um málið.

Jákvætt fyrir hagkerfið
"Það leikur enginn vafi á því að í því árferði sem nú ríkir eru aukin ferðalög Íslendinga innanlands afar jákvæð fyrir hagkerfið í heild." Svo segir í Morgunkorni dagsins.

 

Refskák... en þá kom IceSave frétt:

Það var svo sem auðvitað að ekki væri hægt að njóta eintómra góðra frétta í einn dag.

Skuldbindingar ríkisins hækka og hækka og nýjustu tölur í "IceSave-hneykslinu" eru hneykslanlegar.

Baldur McQueen, ágætur bloggari í Manchester segir að e.t.v. getum við verið þakklát fyrir að þær drápsklyfjar sem í boði eru hafi ekki orðið enn meiri!

Jón Helgi Egilsson hefur allt aðra sýn á hlutina. Hvet menn eindregið til að lesa grein hans, Ellefu firrur um IceSave sér til fróðleiks. 

Gunnar Kristinn Þórðarson tíundar upplýsingar um eignasafnið margumtalaða í grein á eFréttum.is. Þær benda til að IceSave vandinn geti verið öllu meiri en af er látið.

Okkur er sagt af stjórnvöldum að það sé betri kostur að semja en kanna réttarstöðuna til þrautar. Um leið hvílir leynd yfir gögnum um eignasafnið og ýmis málsatvik sem skipta máli. Það er ekki traustvekjandi. Endurtek hvatninguna um að lesa um 11 firrurnar sem Jón Helgi tíundar.

 


mbl.is Skuldbindingin komin í 732 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband