Frelsi til sölu - kostar €3,5 milljarða

Efnahagsböðlar ná fram markmiðum sínum með því að lána svo háar fjárhæðir að skuldunautarnir verði efnahagslega háðir þeim. Þessu lýsti John Perkins í bók sinni um játningar efnahagsböðuls og í viðtölum hér á landi.

"Seld er ást og æska mín fyrir yfirsæng og dýnu" söng Þokkabót um árið. Það má (mis)nota mátt peninganna á margan hátt. Í erfiðum þrengingum gæti þjóð í örvæntingu sinni þegið væna styrki, sem þarf ekki einu sinni að endurgreiða. Yfirsæng í kuldanum. Enginn skyldi þó láta sér detta í hug að milljarðar, taldir í hundruðum, séu bara látnir af hendi af góðmennskunni einni saman. Að ekki sé reiknað með að eitthvað komi í staðinn.

Nú er Nýja ESB búið að eyrnamerkja Króötum €3,5 milljarða, eða tæpa 650 milljarða IKR. Þessa fjárhæð fá þeir fyrstu tvö árin eftir inngöngu ef þeir ganga í ESB árið 2012 (hér). Peningarnir eru aðallega ætlaðir í landbúnaðar- og dreifbýlisstyrki. Nú má vera að Króatar séu þegar búnir að taka endanlega ákvörðun um inngöngu, þá er lítið við þetta að athuga. Hér á landi myndi svona fjárhæð duga til að tryggja/kaupa nokkuð mörg atkvæði.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart þótt ESB muni veifa sams konar "styrkjum" framan í Íslendinga þegar nær dregur þjóðaratkvæði um aðild. Það myndi auðvitað skekkja lýðræðið, þ.e. frjálsar og sanngjarnar kosningar, en það truflar ekki Brussel eins og dæmin sanna (hér). Ítrekað hefur komið fram að lega landsins og aðgengi að norðursvæðinu séu mikil verðmæti í augum Brusselvaldsins. Það má borga fyrir það fjárhæð sem er léttvæg fyrir stórveldið en búhnykkur fyrir fámenna þjóð í kreppu.

Er fullveldið til sölu fyrir yfirsæng og dýnu?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér fyrir frábæra pistla að undanförnu, Haraldur.

ÞAÐ VERÐA MÓTMÆLI GEGN ICESAVE-SVIKASAMKOMULAGINU Á AUSTURVELLI Í DAG, ÞRIÐJUDAG, FRÁ UPPHAFI ÞINGFUNDAR Í ALÞINGI KL. HÁLFTVÖ, 13.30.

Jón Valur Jensson, 17.11.2009 kl. 02:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband