„Þið hafið sýnt okkur að þetta er raunhæft markmið"

Einn af ráðherrunum í ríkisstjórn ESB fundaði í vikunni með norrænum ráðherrum vinnumála um aðgerðir til að bregðast við atvinnuleysi. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við ráðherrann (bls. 8), sem heitir Vladimír Špidla og fer með atvinnumál, félags- og jafnréttismál.

Hann segir: "Með evrunni fækkar óvissuþáttunum og stöðugleiki eykst. Til lengri tíma litið er evran því góð fyrir vinnumarkaðinn."

Špidla segir einnig að horft sé til Íslands í atvinnumálum, enda atvinnuleysi mjög lítið hér allt fram að hruninu í fyrra. „Þið hafið sýnt okkur að þetta er raunhæft markmið."

Sýnt að hvað sé raunhæft?

Atvinnuleysi hér á landi hefur löngum verið lítið, eða mjög lítið, allt fram að hruni. Frá aldamótunum hefur meðal atvinnuleysi innan ESB hins vegar verið yfir 7% allan tímann og nálgast nú tveggja stafa tölu. Misjafnt eftir löndum, en þetta er meðaltalið.

Allan þann tíma sem þetta tókst á Íslandi stóðum við utan þátttöku í fjölþjóðlegu myntsamstarfi. Nú eigum við, að mati ráðherrans, að minnka atvinnuleysi með því að fara inn í umhverfi þar sem þetta hefur ekki tekist. Hvernig má það vera?

Þetta skýrir Špidla með því að nú sé í fyrsta sinn sett upp áætlun til að koma jafnvægi á fjármálamarkaði  (tímabært), að gerðar hafi verið breytingar á ráðgjöf ESB í atvinnumálum og að margvíslegum sjóðum verði beitt til að efla atvinnustig.

Til að fá ráðgjöf og aura úr sjóðunum þarf Ísland að ganga í Evrópusambandið. Hann er þó ekki sannfærðari um ágæti áætlananna en svo að hann segir "mikla óvissu" í spám um atvinnuleysi og býst við auknu atvinnuleysi innan ESB. Jafnvægið muni byrja að skapast upp úr miðju næsta ári.

Í samtali við RÚV nefnir hann einnig annað. Að glíma þurfi við langtímavandamál á borð við sífellt hærri meðalaldur. Hér á landi er fæðingartíðnin hærri og aldurssamsetningin hagkvæmari en í Evrópusambandinu, svo þetta vandamál er ekki í kortunum hjá okkur. Það setur atvinnumálin hér í annað samhengi.   

Atvinnuástandið verður ekki bætt með brusselskum spám, einum saman. Við vitum að í þokkalegu árferði hefur gengið vel að halda uppi góðu atvinnustigi á Íslandi. Reynslan er traustara vitni en módel og spár. Það getur tæplega verið skynsamlegt að skipt um kúrs núna og ganga þá leið sem ekki hefur skilað árangri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ísland hefur alla burði til að vera eitt af ríkustu löndum í heimi, með gífurlegar orkuauðlindir, gjöful fiskimið og hátt menntunarstig þjóðarinnar. Í dag er staðan önnur, vegna pólítískra afglapa fjórflokksins fyrst og fremst Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknar. Fáránleg löggjöf um kvótakerfi þar sem örfáum aðilum var gefnar allar auðlindir hafsins, ennþá fáránlegri löggjöf um einkavæðingu bankanna þar sem glæpamönnum var leyft að knésetja lýðveldið á sex ára tímabili. Örfáir aðilar gátu með gífurlegri skuldsetningu eignast bókstaflega allt á Íslandi hvort sem um var að ræða fjölmiðla eða önnur fyrirtæki. Auðhringir og einokun. Olíufyrirtæki. Tryggingafélög, Bankar, verslun og þjónusta svo og fasteignir og landareignir allt meira og minna í eigu sömu aðila. Eignatengsl og krosseignatengsl, m.ö.o.´Hin íslenska Mafía með nokkra guðfeður eins og Jón Ásgeir og Björgúlf Thor,Sigurð Einarsson ofl. dyggilega studdir af Fjórflokknum.

Það er klárlega til leið út úr þessum ógöngum. Nýjar leikreglur-nýttstjórnlagaþing. stjórnsýslu sem skipuð er tímabundið og afnema algjörlega svokallaðar æviráðningar. Leggja niður forsetaembættið. fækka Þingmönnum um helming. Aðskilja dómsvald, löggjafar og framkvæmdavald svo eitthvað sé nefnt.

Að sameinast fasistaríkinu ESB er sama og leggja niður lýðveldið Ísland, í því felst að allir möguleikar íslendinga á endurreisn eru að engu orðnir. Að samþykkja ICE-SAVE nauðungarsamningin eru hrein og klár föðurlandssvik og hlekkja íslendinga í skuldafangelsi um ófyrirsjáanlega framtíð. Samvinna við hryðjuverkasamtökin AGS er undir sömu bókina lagt, enda vakir það eina fyrir sjóðnum að sölsa undir sig auðlindir landsins og knésetja efnahag þess líkt og sjóðurinn hefur gert í fjöldamörgum öðrum ríkjum. Hagspekingurinn Jóhannes Björn hefur t.d. bent á af hverju samningur frá 1963 við Landsvirkjun og AGS hefur aldrei mátt birta þótt þess hafi ítrekað verið krafist. Hvaða Skuldbindingar er þar um að ræða?

Ísland getur risið upp úr öskunni ef við sýnum samstöðu og höfnum niðurrifsstefnu þeirra sem vilja afsala öllum völdum til Fasistaríkisins ESB sem nú er í stofnun.

Þórir Kristinsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband