ESB-skatturinn sem Jóhanna nefndi ekki

Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýnir réttilega þau mistök sem gerð hafa verið í pólitík og hagstjórn á liðunum árum og leiddu til hrunsins. Það kemur ekki á óvart að miðpunkturinn í þeim bjargráðum sem hún boðar er innganga Íslands í Evrópuríkið.

Í ræðu sinni talaði hún um hagsmunamál sveitarfélaganna og nefndi Finnland sem dæmi. Hún benti á styrki sem Finnar hafa fengið frá Brussel (hér). En það sem hún nefndi ekki er meðal annars þetta:

  • Finnar borga miklu meira til ESB en þeir fá til baka.
  • Vera Finna í ESB hefur kostað þá 668 þúsund milljónir króna til þessa.
  • Aðal orsök erfiðleika Finna í dag er að þeir hafa ekki sinn eigin gjaldmiðil og neyðast til að nota evruna.

Tölulegar staðreyndir um kostnað Finna af ESB-aðild má lesa hér.

Kostnaður finnsku þjóðarinnar er nú orðinn €3.619 milljónir, eða 668.200 milljónir króna á fjórtán árum. Séu öll ESB-Norðurlöndin skoðuð kemur í ljós að Danir og Svíar greiða enn meira en Finnar fyrir ESB aðildina. Nettó kostnaður þessara þriggja landa á síðasta ári var að meðaltali um €150 á hvert mannsbarn.

Ef vera Íslands í Evrópuríkinu yrði okkur jafn dýr jafngildir þetta 110 þúsund krónum í ESB-kostnað á hverja íslenska fjölskyldu á ári. Þeir peningar verða ekki sóttir annað en í vasa íslenskra skattgreiðenda. Þykir mörgum nóg komið þótt ekki verði bætt á ESB-skatti, til að fá að vera með í klúbbi sem hentar okkur engan veginn.

Þá er ótalinn stærsti skatturinn sem Samfylkingin vill leggja á þjóðina.

 


mbl.is Gagnrýnir stjórnarandstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þingmenn mættu

Í fyrirsögninni er ég ekki að tala um mætingu, heldur það að mega. Að mega hafa sjálfstæða skoðun á stórmálum. Að mega komast að sinni eigin niðurstöðu. Að þingmenn (allra flokka) megi meta hvert mál á faglegum forsendum en láti ekki flokksaga ráða atkvæði sínu.

Segjum sem svo að stjórnin hefði ákveðið að leggja aðildarumsókn að ESB í dóm Alþingis, en ekki fyrr en á síðari hluta kjörtímabilsins þegar aðkallandi kreppumálum væri lokið. Hefði það haft áhrif á afgreiðslu IceSave nú?

Alveg örugglega. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, tók af öll tvímæli í samtali við Reuters fréttastofuna, eins og DV greindi frá í vikunni.

Nú um stundir er stuðningur við aðild að Evrópu (sic!) lítill vegna Icesave. Það væri betra að koma þessu máli frá í næstu viku til að við getum haldið áfram.

Þetta er einmitt kjarni málsins. Hvort niðurstaðan er góð eða slæm skiptir ekki máli. Í augum Samfylkingar er IceSave eitthvað sem þarf "að koma frá" svo hún geti haldið áfram að koma Íslandi inn í Evrópuríkið.

Umsóknin truflar faglega og þinglega meðferð á IceSave. Það gæti reynst þjóðinni hrikalega dýrkeypt. Allir 20 þingmenn Samfylkingar mun greiða atkvæði með ríkisábyrgð á IceSave, alveg sama hverjar forsendurnar eru. Það er óverjandi. En ég dreg stórlega í efa að meirihluti þeirra myndi gera það ef aðildarumsóknin væri ekki til staðar.

Þetta gæti orðið dýrasti aðgöngumiði í heimi.

 


mbl.is Mótmæla Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband