Færsluflokkur: Bloggar
13.11.2008 | 11:18
Því legg ég til, herra forseti, að við tökum upp íslenska krónu
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nú þegar við erum svo gott sem komin með evruna, þarf að líta fram á veginn. Evran er ekki við sem besta heilsu sem stendur, þó hún sé öllu hressari en krónulufsan.
Það er ekki bara krónan sem fellur. Evran fellur nú hratt gagnvart dollar sem fellur gagnvart yeni. Dr. G. Pagliaccio, prófessor við Perdita di Denaro háskólann í Mílanó, óttast að heilsu evrunnar muni hraka umtalsvert á næstu árum. Jafnvel svo að hún verði komin að fótum fram innan fárra ára.
Dr. Giallo Pagliaccio hafa tvívegis hlotnast hin eftirsóttu Stronzate verðlaun fyrir rannsóknir sínar á ríkisfjármálum, en hann er einn aðalhöfundur Fallimento kenningarinnar. Hann bendir á að í Evru-löndum standi nú um 3,5 milljónir íbúða auðar og að verð á fasteignum fari lækkandi. Nokkuð sem menn kannast vel við í Reykjavík.
Gangi spár Dr. Pagliaccios eftir er vissara fyrir Íslendinga að grípa til forvarna hið fyrsta, svo að fyrirsjáanlegt fall evru valdi ekki meira skaða en orðinn er á efnahag landsins. Hann telur að kreppan muni leggjast þungt á Evrópu en þær þjóðir sem hafi eigin mynt muni þó standa betur þar sem þær geta nýtt sér gengisbreytingar. Því legg ég til, herra forseti, að við tökum upp íslenska krónu.
Fallimento kenningin er ein af grunnstoðum Lato-hagkerfisins, sem talið er það hollasta í heimi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2008 | 09:12
Ný verðbólguspá frá Verðurstofu Íslands
Ef hagfræðin væri jafn endanleg vísindi og margföldunartaflan væri enginn efnahagsvandi til. En hún á meira skylt við veðurfræði þar sem menn rýna í forsendur, afla gagna og gera spár. Svo eru margir óvissuþættir í veðurkerfunum. Þess vegna gerist það að veðurspár ganga ekki alltaf eftir.
Ef landslag og óvissuþættir geta orsakað gerólíkt veður í Æðey og Álftafirði, þó aðeins sé steinsnar þar á milli, hvernig er þetta þá í hagkerfunum? Lögmál sem eiga vel við fjölmennt ríki passa ekki eins vel við fámenn. Óvissuþættir í hagkerfunum eru margir. Það er munur á iðnríki og fiskveiðiþjóð, olíuríki og verslunarþjóð. Þó grundvallarreglurnar séu eins.
Hagfræðingar spá hörðum vetri. Það efast fáir um að sú spá rætist. En það eru líka margar aðrar spár í boði, bæði langtíma og styttri. Þær ganga ýmist í austur eða vestur, knúnar af krónu, dollar eða evru. Allar hljóma þær trúverðugar, a.m.k. í fyrstu.
Þegar einhver byrjar að útlista kenningu sína á "það eina sem vit er í" finnst mér ekki taka því að lesa lengra. Það virkar eins og inngangur að patentlausn sem er ekki til. Aðrir láta duga að krydda með "einn helsti sérfræðingur" eða "frá hinu virta ráðgjafafyrirtæki" áður en kenningin/spáin er borin á borð. Fyrir leikmann eins og mig er illgerlegt að ákveða hvað er réttast og best. Enda hef ég ekkert vit á veðurfræði.
Veðurstofa Íslands spáir djúpri lægð og áframhaldandi verðbólgu um fyrirsjáanlega framtíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.11.2008 | 18:23
Fer framsóknarflokkum fækkandi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 12:38
Áfram Spaugstofan
Það er ekki annað hægt en að hrósa Spaugstofunni. Innlegg þeirra í umræðuna síðustu vikurnar hefur verið kröftugt og beinskeytt.
Það er bannað að draga menn til ábyrgðar, bannað að persónugera vandann, bannað að leita sökudólga, bannað aða hafa hátt. En strákarnir í Spaugstofunni gefa þessum "tilmælum" langt nef og hika ekki við neitt.
Ekki skortir efnivið. Verður dagurinn í dag tveggja- eða þriggja-skandala dagur? Þættirnir verða kröftugri með hverri vikunni og allt í einu er maður orðinn Spaugstofu fan!
Síðasti þáttur var aldeilis frábær þó sum atriðin væru ekki "hefðbundið grín". Margir reiðir Íslendingar hefðu viljað prófa boxpúðann góða og lokaatriðið var magnað. Ekki bara flott Pink Floyd lag og sterkur texti, heldur að láta krakka syngja það.
Áfram Spaugstofan!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2008 | 00:33
Einhliða upptaka hvað?
Í gærmorgun las ég hina umtöluðu grein í Fréttablaðinu um einhliða upptöku á evru. Hvort hugmyndin er góð veit ég ekkert um, ég hef ekki nógu háa fútsí-vísitölu til að setjast í dómarasæti. En það er margt áhugavert í þessari grein.
Þar er m.a. sagt "... utan Evrópusambandsins eru sex smáríki sem nota evru sem sinn gjaldmiðil." Einnig er fjallað um "einhliða upptöku á mynt" í greininni. Í umræðunni virðist þessu tvennu slegið saman og fullyrt að til séu fordæmi um einhliða upptöku á evru.
En hver eru þessi sex ríki? Þau eru ekki nefnd í greininni. Í Silfiri Egils kom annar höfundur fram og nefndi San Marínó og Vatíkanið, ásamt öðrum. Það er þó ekki rétt, þessi ríki, ásamt Mónakó og tveimur öðrum, nota evru sem formlegu samþykki ESB, frá 1999.
Af þeim sex ríkjum sem skráð eru evrunotendur utan ESB og án formlegs samþykkis eru Kosovo og Svartfjallaland stærst. Í lok stríðsins í fyrrum Júgóslavíu gátu þau ekki hugsað sér að nota dinarinn, sem er serbneskur, af pólitískum ástæðum. Þýska markið varð fyrir valinu og fengu ríkin aðstoð við að taka það upp. Þegar Þýskaland tók upp evruna var hún tekin upp í Kosovo og Svartfjallalandi líka.
Andorra er ekki með eigin mynt en evran kom á sínum tíma í staðinn fyrir franka og peseta. Þau þrjú dvergríki sem þá eru ótalin eru Saint Martin (33.100 íbúar), Saint Barthélemy (8.400 íbúar) og afmörkuð svæði 14 þúsund íbúa á Kýpur sem heyra undir Bretland.
Eftir því sem ég fæ best séð hefur ekkert sjálfstætt ríki með eigin gjaldmiðil tekið upp evruna einhliða. Sú hugmynd sem hæst er talað um núna á sér því ekkert fordæmi. Ef marka má viðbrögð frá ESB væri þessi gjörningur ekki vel séður og jafnvel í óþökk sambandsins. Er það gæfulegt?
Í þessari sömu grein er ein setning sem ég hef ekkert séð fjallað um, þó hún sé ekki síður áhugaverð: "Með upptöku gjaldmiðils felst aftur á móti afnám gengisstefnu með öllu og afsal stjórnar peningamála til annars seðlabanka."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)