Engar "þjóðir" aðeins "borgarar"


Í Rómarasáttmálanum var talað um þjóðir (peoples), þ.e. að Evrópuþingið skuli samanstanda af fulltrúum þjóða aðildarríkjanna.
Á ensku: "... shall consist of representatives of the peoples of the States."

Með Lissabon bandorminum var þessu breytt. 

Í nýjum texta 14. greinar Maastricht segir að þingmenn á Evrópuþinginu skuli vera fulltrúar borgara Sambandsins
Á ensku: "... shall be composed of representatives of the Union's citizens."


Ekki aðeins hafa "þjóðir" vikið fyrir "borgurum". Nú er ekki lengur talað um aðildarríkin í fleirtölu, heldur Sambandið í eintölu og með stórum staf. Svona breytingar verða ekki af tilviljun.

everclosereu


Það rímar fullkomlega við stefnuna um aukinn pólitíska samruna (ever closer union) að Brussel skilgreini almenning sem "þegna Evrópuríkisins".

Þetta er eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem embættismenn földu vandlega og pössuðu að enginn fengi að kjósa um, enda þykir þeim óþarfi að flækja hlutina með einhverju lýðræðisveseni.

 


mbl.is Fulltrúar Evrópuþingsins til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lissabon bandormurinn: Meingölluð íslensk útgáfa

Í dag hófust formlegar samningaviðræður Íslands við ESB í Brussel og ætla uppgjafarsinnar að fagna því saman í kvöld. Það Evrópusamband sem Ísland hóf viðræður við í dag er ekki sama Evrópusambandið og Ísland sótti um aðild að 16. júlí 2009. Svo miklar eru breytingarnar sem Lissabon bandormurinn hefur í för með sér. Einhverra hluta vegna hefur það ekki fengið neitt pláss í umræðunni.

Meðal helstu breytinga má nefna:

  • löggjafarvald flutt frá aðildarríkjum til Brussel í 105 málaflokkum, sem er nýtt met í valdatilfærslu
  • vetó-ákvæði felld niður á 68 stöðum, þar með skerðist áfrýjunarréttur og öryggisventill smáríkjanna
  • atkvæðavægi í ráðherraráðinu er breytt, smáríkjunum verulega í óhag (vægi Íslands yrði svo gott sem þukkrað út) 
  • embætti utanríkisráðherra ESB og forseta leiðtogaráðsins stofnuð

Þegar lesið er í gegnum íslensku útgáfuna af samningum ESB er ekki nokkur leið að átta sig á hvaða efni Lissabon samningurinn hafði að geyma. Er það mjög í takt við stjórnarhætti í Brussel.

Það er sjálfsögð krafa að íslenskur almenningur geti kynnt sér þessar miklu breytingar í átt til aukinnar miðstýringar og minnkandi lýðræðis á móðurmálinu. Utanríkisráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, telur greinilega að það sé óþarft, enda er hann jafnframt aðal áróðursmeistari ESB á Íslandi.

Eins og rakið er í síðustu færslu var innihald stjórnarskrárinnar sem enginn vildi dulbúið sem bandormur og þannig komið inn bakdyramegin og framhjá lýðræðinu. En nú, þegar elítan í Brussel hefur fengið sínu framgengt, gegn vilja almennings, ætti innihaldið ekki að þurfa að vera leyndamál lengur.

Sumar upplýsingar á íslensku eru villandi eða rangar.

Dæmi: Við 26. gr. hins breytta Maastricht, sem er í þremur töluliðum, stendur: "Áður 13. gr. sáttmálans um Evrópusambandið". Þetta eru rangar upplýsingar. Aðeins helmingurinn texta 1. töluliðar er úr gamla textanum en allt hitt er nýr eða breyttur texti. Lesandinn getur ekki séð að 3/4 textans er nýr. Það er fullt af svona dæmum.

Það þurfti ekki að finna upp hjólið
Það var algjör óþarfi að hafa ísensku útgáfuna svona lélega. Það er til mjög góð fyrirmynd á ensku (hér) sem danski Evrópuþingmaðurinn Jens-Peter Bonde ritstýrði. Þar eru skýringar í inngangi, allar breytingar og nýjungar feitletraðar og bent á helstu atriði á spássíum. Það hefði verið leikur einn að gera íslensku útgáfuna eins.

Svo hefði líka mátt setja hugtakaskýringar, t.d. um að þar sem talað er um "valdheimildir sem Sambandið deilir með aðildarríkjum" er ekki átt við að ESB og aðildarríkið deili með sér jöfnum rétti til lagasetningar. Heldur það að aðildarríki getur sett lög á sviði þar sem ESB hefur ekki gripið til lagasetningar. En setji ESB lög á því sviði þá ekki aðeins taka þau um leið gildi í öllum aðildarríkjum heldur falla þau lög sjálfkrafa úr gildi, sem aðildarríki hafði áður sett.

Það sem á brusselsku heitir að aðildarríki "deili valdheimildum með sambandinu" þýðir á mannamáli einfaldlega: Brussel ræður.

Það væri hægt að nefna allmörg fleiri dæmi um háskalegt innihald og lélega íslenska útgáfu, en ég læt þetta duga. Áhugasamir geta t.d. kynnt sér með aðstoð Google hvernig nýtt embætti utanríkisráðherra vex að umfangi og völdum. Því gegnir bresk barónessa sem enginn kaus, en er samt orðin valdamesta manneskja í allri Evrópu í utanríkismálum. Þannig virkar "lýðræðið" í Brussel.

 


Um bandorm og brusselskt "lýðræði"

Utanríkisráðuneytið hefur látið þýða Lissabon sáttmálann á íslensku og birt hann á vef sínum. Stærsta gallinn við íslensku útgáfuna er að það er ekki nokkur leið að átta sig á efnisinnihaldi Lissabon sáttmálans. Því mátti hæglega komast hjá, ef vilji var til þess.

Lissabon plaggið er nefnilega ekki sáttmáli (treaty) í eiginlegri merkinu, heldur "lög um breytingar á lögum", sem jafnan er kallað bandormur.

Forsagan er sú að fyrst var stjórnarskrá (Constitution for Europe) lögð fyrir þegnana, sem höfnuðu henni. Þá var gripið til þess ráðs að dulbúa stjórnarskrána sem bandorm. Sú undarlega leið var valin af tveimur ástæðum:

       1.  Að gera innihaldið óskiljanlegt.
       2.  Að sniðganga lýðræðið.

Fyrra takmarkið náist fullkomlega. Það urðu smá hnökrar á því síðara þar sem Írar fengu að kjósa um bandorminn og sögðu nei. Þess vegna urðu tafir á gildistöku á meðan Írar voru þvingaðir til að kjósa aftur og kjósa rétt. En kíkjum nánar á þessar tvær fullyrðingar:

 

Að sniðganga lýðræðið
Eftir að stjórninni í Brussel hafði mistekist að fá þegna sína til að samþykkja stjórnarskrána varð hún að finna ráð til að fá sínu framgengt. Svarið var bandormur! Þetta þótti svo mikið snjallræði að æðstu valdamenn reyna ekki einu sinni að fara í felur með tilganginn. Hér eru nokkrar umsagnir:


Það góða við að kalla þetta ekki stjórnarskrá er að þá getur enginn farið fram á þjóðaratkvæði.
- Giuliano Amato, í ræðu í London School of Economics, 21. febrúar 2007

Inntak og eðli stjórnarskrárinnar er enn til staðar. Það er staðreynd.
- Angela Merkel, í ræðu á Evrópuþinginu 27. júní 2007

Hvers vegna þessi dulbúningur? Fyrst og fremst til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæði með því að nota ekki stjórnarskrárlegt orðalag.
- V. Giscard D'Estaing, 30. október 2007

Sá síðastnefndi var forseti stjórnarskrárnefndar ESB, svo hann veit um hvað hann er að tala. Landi hans, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, lagði þunga áherslu á það á fundi með Evrópuþingmönnum í nóvember 2007 að hin dulbúna stjórnarskrá mætti alls ekki fara í þjóðaratkvæði, því að "þá verður enginn Lissabon samningur".


Að gera innihaldið óskiljanlegt
"Stjórnarskráin átti að vera skýr, þessi samningur varð að vera óskýr. Hann hefur heppnast vel" sagði Karel de Gucht utanríkisráðherra Belgíu um samninginn. Sorglegt en satt. Lissabon bandormurinn er mikið plagg þar sem tvær lagagreinar skipta megin mál; sú fyrri í 65 töluliðum og sú síðari í 295 töluliðum. Skoðum tvö dæmi úr 2. gr., í íslenskri þýðingu:

 

72)
Grein 75 skal breytt sem hér segir:
(a) í stað orðanna "skal aflögð" í 1. mgr. skulu koma orðin "skal bönnuð"
(b) í staðinn fyrir "ráðið" í 2. mgr. skal koma "Evrópuþingið og ráðið"
(c) í staðinn fyrir "efnahags og félagsmálanefndina" í fyrstu undirmálsgrein 3. mgr. skal koma "Evrópuþingið og efnahags og félagsmálanefndina"

64)
Í stað 61. greinar skal koma kafli 1 sem fylgir hér á eftir og greinar 61 til 61 i. 61. grein skal einnig koma í stað 29. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 D skal koma í stað 36. greinar þess samnings, grein 61 E skal koma í stað greinar 64(1) í Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og í stað 33. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 G skal koma í stað 66. greinar Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og grein 61 H skal yfirtaka 60. grein þess samnings, eins og skýrt er í 62. tölulið hér að framan.

 

Eins og sjá má er ekki hægt að fá nokkurn botn í Lissabon bandorminn öðru vísi en að samlesa hann með sáttmálum sambandsins eins og þeir voru. Það er ekki hægt að ætlast við að "venjulegt fólk" leggi í þá miklu vinnu sem þarf til að skilja innihaldið, enda var tilgangurinn að fela það. Þær greinar sem eru hreinar viðbætur er þó hægt að lesa, en þá vantar samhengið.


Það sem íslenska útgáfan segir ekki ...
Íslenska útgáfa Lissabon bandormsins er meingölluð. Úttekt á henni verður að bíða næstu færslu sem kemur eftir nokkra daga.

 


Stjórnarskráin sem breyttist í bandorm

Í ríkjum þar sem lýðræðislegur réttur manna er lítill eða enginn, er stjórnarskrá stundum "gefin" þegnunum af yfirvaldinu, sem veit hvað er þeim fyrir bestu. Þetta á t.d. við um ýmis kommúnistaríki, ríki sem búa við herforingjastjórnir, einræðisríki og Evrópusambandið.

Það er ekki hægt að ganga lengra gegn lýðræðinu en að taka af þegnunum réttinn til að kjósa um sjálfa stjórnarskrána. En einmitt það gerðu stjórnvöld í Brussel.

Stjórnarskrá á að vera grundvallarrit, samningur milli almennings og valdhafa. Hún þarf að vera stutt, auðlesin og á að fjalla um grundvallaratriði. Í lýðræðisríkjum gera menn ekki breytingar á stjórnarskrá nema í sátt við borgarana.

Lissabon bandormurinn er allt það sem stjórnarskrá á ekki að vera; óskiljanlegt torf upp á 271 síðu, þar sem tilgangurinn er vísvitandi falinn og lýðræðið sniðgengið. Þau mörgu plögg sem nú eru ígildi stjórnarskrár í ESB eru doðrantar þar sem fjallað er um stórt og smátt, allt frá rekstri kjarnorkuvera til stærðar á hænsnabúrum. Þar er valdið falið, miðstýringin dulbúin og lýðræðinu úthýst.


Meingölluð íslensk útgáfa
Þessi skrif eru undanfari næstu færslu þar sem rýnt verður tilurð stjórnarskrár fyrir Evrópusambandið, sem síðar var breytt í bandorm eftir að henni var hafnað af þegnunum. Einnig um íslensku þýðinguna á Lissabon bandorminum, sem er meingölluð.

 


Bandormur á íslensku

Á vef utanríkisráðuneytisins er nú hægt að lesa Rómarsáttmálann, Maastrichtsamninginn og fleiri ESB plögg á íslensku. Þetta eru „samsteyptar útgáfur", þ.e. samningarnir eins og þeir eru, að gerðum þeim breytingum sem Lissabon bandormurinn mælti fyrir um.

Ekki veit ég hver ritstýrði íslensku útgáfunni, en eflaust verða gerðar athugasemdir við þýðinguna, enda reiknað með því í fyrirvara á fyrstu síðu.

Ég leyfi mér að taka eitt lítið dæmi: Í yfirlýsingu nr. 52 lýsa evruríkin því yfir að fáninn, þjóðsöngurinn, einkunnarorðin, evran og Evrópudagurinn ...

... verða áfram í þessum löndum tákn samfélags borgara í Evrópusambandinu og tengsla þeirra við það.

Enska útgáfan er svona:

... will for them continue as symbols to express the sense of community of the people in the European Union and their allegiance to it.

Enskar orðabækur skýra „allegiance" með obligation, commitment, devotion, faith og loyalty. Þarna hefði átt að tala um hollustu eða trúnað, en alls ekki "tengsl". Var þetta nokkuð ritskoðað? Yfirlýsingin hljómar eins og hollustueiður á ensku en er gerð hlutlaus á íslensku. Hvers vegna?

Þeir sem stunda ESB trúboðið af hvað mestum móð (og harðneita að ESB sé sjálfstætt ríki í mótun) eru eflaust sáttir við ónákvæmni í þýðingu, ef hún gefur mildari mynd af Brusselveldinu en efni standa til. Óþarfi að láta íslenska lesendur sjá að það þurfi að sverja evrunni og yfirvaldinu hollustueið! 

 

Lissabon bandormurinn á ensku
Það er mjög gott mál að fá þessa texta á íslensku. Útgáfan stenst þó engan veginn samanburð við enska textann sem hinn danski Jens Peter Bonde, ritstýrði. Þar er hægt að glöggva sig mjög auðveldlega á þeim breytingum sem gerðar voru með Lissabon bandorminum. Útgáfu hans má finna hér og lykil fremst í bókinni.

 


Draumurinn um 0,8% Ísland

Í gær birtu tveir vefmiðlar fréttir af væntanlegum áhrifum Íslands við atkvæðagreiðslur innan ESB, ef svo illa færi að þjóðin léti plata sig þangað inn. Í báðum tilfellum er talað um 0,8%, þótt fjallað sé um sitt hvorn hlutinn. Það er rétt hjá báðum, svo...

Ómakleg árás á ráðherra

Undir eðlilegum kringumstæðum myndi niðurlag viðtengdrar fréttar teljast efni í aðra frétt og stærri. Jafnvel stórfrétt. En það hljómar svona: Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, gagnrýndi Einar [K. Guðfinnsson] fyrir að ráðast með ómaklegum hætti...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband