Íslendingar vilja gefast upp

Það eru allir búnir að fá hundleið á IceSave, þessu leiðindamáli sem þjóðin fékk í fangið í hruninu. En það er sama hversu leiðinlegt IceSave er, við verðum að nenna því. Vítið til að varast er þegar Svavar Gestsson sagði í vor "ég nennti þessu ekki lengur" og kom heim með "glæsilegan samning", sem Alþing gaf síðan falleinkunn.

Nú hefur verið stofnaður hópur á Facebook sem gengur út á að nenna þessu ekki lengur. Á hádegi höfðu 3.100 þreyttir Íslendingar játað á sig uppgjöf. Í skýringu með áskorun hópsins segir m.a.:

Hversu sárt sem það nú er þá er engin önnur leið fær en að samþykkja Icesave, að Ísland gangist við skuldbindingum sínum og geti þannig staðið hnarreist meðal annarra fullvalda þjóða.

Við þessa einu setningu er a.m.k. tvennt að athuga.

Að gangast við skuldbindingum sínum: Um þetta snýst deilan að stórum hluta. Ekki hefur verið sýnt fram á hverjar skuldbindingar Íslands eru að lögum. Þess vegna er óráð að slaka á þeim fyrirvörum sem Alþingi hefur sett í lög.

Þá er engin önnur leið fær: Svona tala bara kratar. Öll þeirra kosningabarátta gekk út á að það væri "engin önnur leið fær" en að skríða inn í ESB og taka upp evru. Nú á að bakka með lög sem Alþingi hefur sett, af ótt við Breta. Í þessu erfiða máli standa fleiri leiðir til boða. Meðal annars að láta lögin frá því í sumar standa óbreytt og leyfa svo málinu að hafa sinn framgang.

Það kann að kosta erfiðleika, en að gefast upp verður enn dýrara.

Facebook hópurinn sér ekki annan kost en að gefast upp fyrir ESB og Bretum. Hversu hnarreist göngum við þegar búið er að kalla skert lífskjör yfir þjóðina? Jafnvel stefna greiðslugetunni í tvísýnu.

Bara af því að við nenntum þessu ekki lengur!

 


mbl.is Samkomulag um afgreiðslu Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grjótkast úr glerhúsi ESB

Það er í sjálfu sér gott mál að alþjóðasamfélagið hafa vakandi auga með lýðræði og mannréttindum í heiminum. Það er hins vegar ómarktækt með öllu þegar þeir sem sjálfir sniðganga lýðræðið krefjast þess af öðrum að þeir virði það.

Talsmaður yfirmanns utanríkismála ESB, Catherine Ashton, sagði við fjölmiðla í dag að ESB muni óska eftir því við deilendur í Hondúras að þeir endurreisi lýðræðið og stjórnarskrá landsins.

Þetta kallast að kasta steinum úr glerhúsi.  

  • Breska barónessan Catherine Ashton hefur aldrei verið kosin af neinum til að gera neitt, en er nú samt utanríkisráðherra Evrópuríkisins. Handvalin í starfið af pólitíkusum, á klíkufundi bakvið luktar dyr.
  • Sama klíka handvaldi forseta fyrir Evrópuríkið, mann sem enginn þekkir og vissi ekki sjálfur að hann væri í framboði.  
  • Evrópuríkið hefur nýlega lögfest nýja stjórnarskrá, án þess að bera hana undir atkvæði þegna sinna, að Írum frátöldum. Þeir sögðu nei og voru þá látnir kjósa aftur.
  • Í Evrópuríkinu er ríkisstjórn (commission) sem fer með framkvæmdavald. Hún er ekki kjörin í lýðræðislegum kosningum.
  • Í Evrópuríkinu er þing sem fólk fær að kjósa fulltrúa á. Kjörsókn var 43% vegna þess að almenningur veit að atkvæði þess skiptir engu máli.

Ashton barónessa starfar fyrir skrifræðisbákn sem er búið að úthýsa lýðræðinu. Hún ætti að sjá sóma sinn í því að gagnrýna ekki stjórnarfar í fjarlægum ríkjum fyrr en búið er að koma á lýðræði í ESB og setja þegnum Evrópuríkisins stjórnarskrá með eðlilegum, heilbrigðum og lýðræðislegum hætti. Fyrr er hún ekki marktæk. 

 


mbl.is ESB gagnrýnir að Zelaya hafi verið hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður gerist sandkassabloggari ... á einu augabragði

sigmundur_ernirSorglega oft sér maður upphrópanir sem eiga lítið skylt við málefnalega umræðu. Það er m.a. áberandi í ESB umræðunni undanfarna mánuði. Menn sem eru á öndverðum meiði kalla hverjir aðra illum nöfnum og hafa upp ásakanir af ýmsum toga. Gerast menn sekir um slíkt í herbúðum beggja.

Við, sem erum á móti því að Ísland verði hluti af Evrópuríkinu, erum iðulega kölluð einangrunarsinnar eða þröngsýnir og sjálfumglaðir þjóðrembingsmenn og oft sögð ganga erinda fyrir einhverjar tilteknar klíkur.

Sigmundur Ernir Rúnarsson heitir maður og er þingmaður Samfylkingarinnar. Hann hefur ort ljóð, ritað bækur, lesið sjónvarpsfréttir og stjórnað eigin þáttum. Nýjasta þátt sinn kynnti hann með upphrópunum sandkassabloggarans. Hér eru dæmi úr fádæma hallærislegri færslu hans.

Afdalasinnaðir einangrunarsinnar mega eiga sín sérhagsmunarök og sosum tími kominn til að þeir finni til tevatnsins.

Ekkert verkefni er mikilvægara nú um stundir í stjórnmálum en að tengja Ísland umheiminum.

Að fletta ofan af lygavef afdalamennskunnar um ESB-hætturnar.

Ég ætla að byrja lokaorrustuna með Eiríki Bergmann ... og afhjúpa helstu rökleysur afdalasinna.

Það er lítið við því að segja að óbreyttir í hópi bloggara stundi upphrópanir. En þegar þingmaður fer í sandkassaleik gegnir öðru máli. Maður sem hefur boðið sig fram og verið kjörinn til að sitja á löggjafarsamkomu þjóðarinnar á að gera meiri kröfur til sjálfs sín en þetta.

Og nú ætlar þingmaðurinn Sigmundur Ernir að láta menn „finna til tevatnsins"; þ.e. ná sér niðri á þeim sem ekki eru á sama máli. Fyrir hvað þarf Sigmundur Ernir að hefna?

Sá sem býður upp á umfjöllun undir þessum formerkjum gengisfellir sjálfan sig í allri umræðu um málið. Jafnvel þótt hann sér þingmaður.

 


Lögmálið um IceSave

Hverjar eru líkurnar á að allar örvhentar konur séu fylgjandi IceSave? En að allir rauðhærðir karlmenn séu á móti? Auðvitað engar. Þetta mál er þeirrar gerðar að svona regla getur ekki verið til.

Samt er til IceSave-regla, nánast lögmál. Reglan er svona:

Þeir sem eru fylgjandi því að Ísland gangi í ESB - og eingöng þeir - eru jafnframt fylgjandi því að IceSave skuldaklafinn verði lagður á íslenska þjóð.

Það er engin góð regla án undantekninga. Undantekningin sem sannar regluna eru fáeinir vinstri grænir, sem vegna pólitískrar skákblindu vilja kosta öllu til svo halda megi lífi í sitjandi vinstri stjórn.


Þessi samfylgni er ekki nein tilviljun. Skýringin er að langflestir IceSave sinnar koma úr Samfylkingunni. Þeir eru ekki að hugsa, tala eða kjósa um IceSave heldur um það eitt að koma Íslandi inn í Evrópuríkið.

Samfylkingin er hættulegur flokkur. Alveg stórhættulegur.

 


mbl.is Stenst Icesave stjórnarskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flaggað í hálfa stöng

Dagurinn í dag er merkilegur. Runninn er upp 1. desember og við Íslendingar höldum upp á að 91 ár er liðið síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Á sama tíma verður fullveldi 27 annarra Evrópuþjóða formlega skert.

EU flagsÍ dag tekur Lissabon stjórnarskráin gildi og þar með er Evrópuríkið formlega stofnað. Það sem í gær voru aðildarríki ESB eru í dag aðildarhéröð Evrópuríkisins. Meðfylgjandi mynd er vel við hæfi, en hún sýnir fána þjóðanna 27 blakta í hálfa stöng, ásamt bláa ríkisfánanum.

Nýlega kom út endurbætt útgáfa af samningum Evrópuríkisins eins og þeim er breytt með hinni dulbúnu stjórnarskrá sem kennd er við Lissabon. Samningurinn sjálfur hefur ekkert skánað, en bókin er skýr og auðlesin.

Þessa bók (pdf) er hægt að sækja ókeypis (hér).

Ég mæli sérstaklega með því að menn kynni sér töflu fremst í bókinni, þar sem sýnt er hvernig atkvæðaréttur fámennustu aðildarhéraðanna verður því sem næst þurrkaður út.

Ég óska öllum Íslendingum til hamingju með daginn og tek heilshugar undir kröfu Heimssýnar um að draga ESB-umsóknina til baka. Ég óska þess líka að á Íslandi verði áfram hægt að flagga í heila stöng 1. desember ár hvert. Að Íslandi verði aldrei breytt í aðildarhérað í nýja Evrópuríkinu.

 


mbl.is Vilja að ESB-umsókn verði dregin til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband