Grjótkast úr glerhúsi ESB

Það er í sjálfu sér gott mál að alþjóðasamfélagið hafa vakandi auga með lýðræði og mannréttindum í heiminum. Það er hins vegar ómarktækt með öllu þegar þeir sem sjálfir sniðganga lýðræðið krefjast þess af öðrum að þeir virði það.

Talsmaður yfirmanns utanríkismála ESB, Catherine Ashton, sagði við fjölmiðla í dag að ESB muni óska eftir því við deilendur í Hondúras að þeir endurreisi lýðræðið og stjórnarskrá landsins.

Þetta kallast að kasta steinum úr glerhúsi.  

  • Breska barónessan Catherine Ashton hefur aldrei verið kosin af neinum til að gera neitt, en er nú samt utanríkisráðherra Evrópuríkisins. Handvalin í starfið af pólitíkusum, á klíkufundi bakvið luktar dyr.
  • Sama klíka handvaldi forseta fyrir Evrópuríkið, mann sem enginn þekkir og vissi ekki sjálfur að hann væri í framboði.  
  • Evrópuríkið hefur nýlega lögfest nýja stjórnarskrá, án þess að bera hana undir atkvæði þegna sinna, að Írum frátöldum. Þeir sögðu nei og voru þá látnir kjósa aftur.
  • Í Evrópuríkinu er ríkisstjórn (commission) sem fer með framkvæmdavald. Hún er ekki kjörin í lýðræðislegum kosningum.
  • Í Evrópuríkinu er þing sem fólk fær að kjósa fulltrúa á. Kjörsókn var 43% vegna þess að almenningur veit að atkvæði þess skiptir engu máli.

Ashton barónessa starfar fyrir skrifræðisbákn sem er búið að úthýsa lýðræðinu. Hún ætti að sjá sóma sinn í því að gagnrýna ekki stjórnarfar í fjarlægum ríkjum fyrr en búið er að koma á lýðræði í ESB og setja þegnum Evrópuríkisins stjórnarskrá með eðlilegum, heilbrigðum og lýðræðislegum hætti. Fyrr er hún ekki marktæk. 

 


mbl.is ESB gagnrýnir að Zelaya hafi verið hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð og gagnleg grein hjá þér að vanda Haraldur.

Við þetta um þetta svokallaða þing þeirra má reyndar aðeins bæta. Því í raun situr þetta svokallaða þing þeirra í gíslingu og uppá náð og miskunn Commízara valdsins. Cómmízara ráðin ræða hvaða mál eru tekinn þarna fyrir og þetta þing er ekkert nema stimpilstofnun fyrir ESB ráðin. Ég kalla þetta svona sýnishorn af sýndarlýðræði. Þarna sitja líka að mestu uppgjafa endurunnir pólitíkusar sem fá þetta sem sposlur frá flokksapparötunum sem þeir koma frá, því þetta þykir feitt þeir hafa nú meira en helmingi hærri laun og enn meiri sporslur en þeir höfðu þegar þeir sátu á þjóðþingum landa sinna.

Annað að á þessu þingi er stranglega bannað að gagnrýna ESB apparatið sjálft eða þá sem þar eru í Æðstu ráðunum.

Ég hef frétt að nú eigi að lögsækja einn þingmann ESB þingsins fyrir að hafa vogað sér að gagnrýna þennan ný handvalda utanríkismálaráðherra þeirra nýja, barónessuna Catherine Aston.

Þetta minnir æ meir á Æðsta ráð Sovétríkjanna gömlu þar sem sátu flokkshollir dindlar og játuðu öllu sem frá miðstjórninni kom. Ef einhverjir höfðu aðrar áherslur voru þeir bara mótþróahópur sem varða að kæfa niður. Hjá ESB þinginu er í raun heldur enginn stjórnarandstaða. Það er hættulegt aðhaldsleysi og ólýðræðislegt fyrirbæri.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 09:30

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þetta er nú nálægt Íslandsmeti í hártogunum.  Fulltrúar á Evrópuþinginu eru kosnir beint af íbúum Evrópu.  Við Íslendingar erum skyldugir til að taka í lög mikið af lagabálkum Evrópu með aðild okkar að Evrópska Efnahagssvæðinu. Íslendingar eiga ekki kosningarétt að Evrópuþinginu sem er löggjafaraðili lands okkar.

Framkvæmdavald Íslands er handvalið af pólitíkusum okkar. Það er ekki kosið beint. Það er þá hliðstætt skipulaginu í Evrópusambandinu.

Í USA er forsetinn kosinn beint. Mjög lýðræðislegt?  Nei ekki alveg. George W Bush var kosinn í seinna skiptið af minnihluta atkvæða. Kjörmannakerfið sá til þess. Þá er ekki minnst á Florida atkvæðin.

Mér finnst þú oft koma með góða gagnrýni á ESB.  Þessir punktar hjá þér missa hins vegar alveg marks.

Bestu kveðjur til þín.

Jón Halldór Guðmundsson, 4.12.2009 kl. 09:49

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka innlitið og athugasemdirnar.

Gunnlaugur; ég þekki ekki þetta mál sem þú nefnir en veit að Evrópuþingmaður hefur kært lettneskan blaðamann fyrir gagnrýni (hér). Og ég tek undir með þér að þar sem engin er stjórnarandstaðan þar er lýðræðið í hættu.

Jón Halldór; á Íslandi er framkvæmdavaldið byggt á þingstyrk samkvæmt úrslitum kosninga til Alþingis. Jóhanna, Steingrímur, Össur og hinir ráðherrarnir eru kjörnir þingmenn. Tveir ráðherrar eru utan þings, báðir skipaðir af þeim sem hafa til þess lýðræðislegt umboð.

Í ESB koma leiðtogar sér saman um forseta framkvæmdastjórnar, sem síðan skipar sitt ráðuneyti (commission). Ekkert framboð, engin stefna, engar kosningar. Ekkert beint lýðræði. Eftir Lissabon munu aðildarríkin ekki einu sinni hafa frjálsar hendur með tilnefningar kommissara.

Meintir gallar í kjörmannakerfi USA réttlæta ekki að lýðræðinu sé ýtt til hliðar í ESB. Ég veit að þingmenn Evrópuþingsins eru kjörnir, það kemur fram í færslunni. Kjörsókn sýnir hversu litla vigt þeir hafa, þeir get t.d. ekki lagt fram frumvörp. Kjör þeirra getur ekki komið í staðinn fyrir raunverulegt lýðræði.

Haraldur Hansson, 4.12.2009 kl. 13:00

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Jón Halldór er greinilega að segja að:

a) við eigum að segja EES-samningnum upp og

b) við eigum að kjósa íslenzka ráðherra beint.

Ekki slæmar tillögur.

Hjörtur J. Guðmundsson, 4.12.2009 kl. 13:36

5 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ráðherrarnir í ríkisstjórn Evrópusambandsins (framkvæmdastjórninni) eru annars álíka lýðræðislega valdir og íslenzkir sendiherrar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 4.12.2009 kl. 13:37

6 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Nei, ég er að segja að við eigum að eiga atkvæðisrétt á þingi þar sem lög okkar eru ákveðin! Auðvitað er þingræði á íslandi. Það þýðir ekki beint lýðræði samt. Ég stend fast við fullyrðingu um hártoganir.

Jón Halldór Guðmundsson, 8.12.2009 kl. 11:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband