Græðgin magnast - skaðlegt kerfi heldur velli

EUobserver birti áhugaverða fréttaskýringu um fiskveiðistefnu ESB, sem eru niðurstöður úr sjálfstæðri rannsókn ICIJ blaðamanna. Fyrirsögn greinarinnar er „ESB styrkir magna græðgi spænska flotans". Íslenska samninganefndir hlýtur að taka þessa rannsókn til skoðunar.


overfishOfveiði í áratugi hefur stórskaðað útgerð í ESB löndunum. Boðaðar endurbætur á sameiginlegu fiskveiðistefnunni reyndust miklar umbúðir um lítið innihald. Vindurinn er farinn úr seglunum og líklegt að engu verði breytt, eins og venjulega.

Gallað og skaðlegt kerfið heldur velli.


Hundruð milljarða fara í styrki til að byggja skip, gera þau út til veiða og loks til að úrelda þau. Spánn er stærsti styrkþeginn og ofvaxinn flotinn sogar til sín styrki í vonlausan taprekstur. Litlar 928.000 milljónir króna frá aldamótum, auk 320.000 milljóna í afslátt af sköttum á eldsneyti. Spánverjar eru stærstir en hinir engu skárri. Evrópskir skattgreiðendur borga brúsann.


Íslensk útgerð má aldrei fara inn í styrkjakerfi.
Um leið og tekið væri við fyrstu evrunum myndi atvinnugreininni byrja að hnigna. Afleiðingarnar fyrir íslenskt samfélag yrðu miklar og neikvæðar.


Vönduð greining ICIJ blaðamannanna er mjög fróðleg lesning. Lýst er inn í skúmaskot hins spillta styrkjakerfis ESB. Ekki neinn gleðilestur fyrir aðildarsinna, en þeir ættu samt að kynna sér niðurstöðuna. Kannski þeir rumski.

 


Vinsæll lýðskrumari

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, ritar kröftugan pistil á Pressuna í dag. Þar setur hann m.a. fram gagnrýni á stjórnlagaráð. Að því marki sem ég hef sökkt mér niður í texta stjórnlagaráðs get ég tekið undir þá gagnrýni. Tíunda það ekki frekar hér, kannski síðar.

Það er annar kafli í grein hans sem mér finnst magnaður.


Það er ekkert að því að fólk taki sig saman og stofni nýja stjórnmálaflokka. Það er hins vegar nauðsynlegt að það fólk deili svipaðri pólitískri hugmyndafræði og lífsýn.

Stofnun nýrra flokka kringum vinsæla frasa eins og lýðræði, frjálslyndi, jafnrétti, siðferði og umhverfisvernd er á sandi byggt og hefur aldrei reynst vel. Slíkir flokkar splundrast gjarnan á fyrsta þingi eftir kosningar.

Svo þegar betur var að gáð reyndist þetta ágæta fólk hvorki vera lýðræðissinnaðra, frjálslyndara, jafnréttissinnaðra, siðlegra né umhverfisvænna en aðrir. En það eina sem það átti kannski sameiginlegt var lýðskrum og tækifærismennska.
 

Nú veit ég ekki hvort Brynjar er að beina þessum orðum sínum að einhverjum sérstökum, en nýtt og nafnlaust afl kom strax upp í huga mér við lesturinn. Þingmanni þess gekk vel að hitta kjósendur í ræðu í gær, einmitt með frösum. "Það er nefnilega ekki það sama að vera vinsæll lýðskrumari og standa sig vel í að gæta hagsmuna lands og þjóðar" eru lokaorðin í pistli Brynjars.

Mæli eindregið með að menn lesi pistil lögmannsins. Það sem hann segir um stjórnlagaráð er áhugavert.


Excel hefur enga sál

Tölur um alvarleg vanskil og árangurslaust fjárnám segja ekki nema hálfa sögu. Þeim, sem harka af sér, líður ekki vel. En þeir borga, ennþá. Að tíunda hver fjárráða Íslendingur sé í þessum sporum er grafalvarlegt mál.

Þeir sem tekið hafa út séreignarsparnaðinn eru ósáttir. Sumir settu aurana í afborganir af lánum; greiddu inn á skuld sem hefði verið niðurfærð hvort sem er, með 110% þrældómnum. Þetta fólk sér ekkert fyrir peningana sína. Sparnaðurinn fór, réttlætiskenndinni er misboðið. Greiðsluviljinn hlýtur að fara líka.

Þótt hægt sé að reikna út bærilega stöðu með hjálp Excel eru til forsendur sem forritið þekkir ekki. Forritið getur ekki svarað spurningunni: Hvernig líður fólki? 


Excel hefur enga sál og engar tilfinningar.

Excel skilur ekki vonleysi þess vaxandi fjölda sem getur borgað af lánum og keypt í matinn, en ekki leyft sér neitt. Excel skilur ekki vanlíðan fólks sem á sífellt erfiðara með að láta enda ná saman.

Ef hér væru gerðar breytingar/leiðréttingar á lánum og framfærslukostnaði hefði það jákvæð áhrif á þjóðarsálina. Alvöru lækkun á bensínverði og almenningur yrði strax sáttari. Það væri a.m.k. verið að gera eitthvað fyrir fólk.

Sáttur maður er líklegur til að vera ánægður og bjartsýnn. Það er ekki hægt að setja "ánægju" eða "bjartsýni" inn í Excel og reikna út áhrifin á þjóðarhag. Það felst mikill kraftur í líðan þjóðar. Kraftur sem hægt er að virkja til að bæta þjóðarhag. Kraftur sem ekki er hægt að útskýra fyrir Excel.

Nú þegar séreignarsparnaður og varasjóðir ganga til þurrðar hjá mörgum fjölskyldum er hætt við að fjöldi fólks í alvarlegum vanskilum fari vaxandi. Því miður er þetta með sósíalistakreppuna rétt hjá framsóknarmanninum.

 


mbl.is „Erum stödd í sósíalistakreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Naflaframboð Guðmundar/Gnarr


Traust kjósenda á stjórnarflokkunum er svo lítið að það getur ekki talist ásættanlegt. Traustið á stjórnarandstöðunni er helmingi minna. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ný framboð.

Guðmundur Steingrímsson hefur fengið talsverða fjölmiðlaathygli vegna vinnu að nýju framboði, eftir að hafa gengið úr bæði Framsókn og Samfylkingunni. En fyrir hvað mun nýr flokkur hans standa? Ekkert, enn sem komið er.

Fyrir utan að vilja klára samningaviðræður við Evrópusambandið er með öllu óljóst fyrir hvað þingmaðurinn stendur. Hann átti hlut að einni tillögu til þingsályktunar á síðasta vetri, um bjartari morgna og seinkun klukkunnar. Hann tók sjaldan til máls og talaði lítið. Tveir töluðu minna á síðasta vetri, annar þeirra var í löngu fríi. Guðmundur hafði ekki mikið til málanna að leggja.

Þetta undirstrikaðist í fréttaviðtali nýlega. Hann nefndi frjálslyndi og lýðræðisumbætur, sem allir flokkar gætu skreytt sig með. Rétt eins og allir vilja „bæta kjör fatlaðra" í stefnuskrám sínum. Það sem hann þó nefndi var að tengja fólk og "finna nafn á flokkinn". Ekki baráttumálin, heldur nafnið. Ekki innihaldið, heldur umbúðirnar. Ef menn nýta ekki viðtal eins og þetta til að ná til fólks með baráttumál sín, þá eru málefnin ekki merkileg.

Í framhaldi af þessu má spyrja: Er Guðmundur Steingrímsson stjórnmálamaður? Það verður seint sagt að hann geisli af pólitískum metnaði.
 

Ný framboð hafa jafnan snúist um eitthvað áþreifanlegt og klofningsframboð stundum líka. Borgarahreyfingin var uppreisn gegn fjórflokknum undir kjörorðinu „Þjóðina á þing". Frjálslyndi flokkurinn átti sitt stóra baráttumál, sem var breyting á fiskveiðistjórn, en innanmein urðu honum að falli. Bandalag jafnaðarmanna var flokkur sem Vilmundur heitinn Gylfason stefndi gegn „varðhundum valdsins" og vantaði hvorki metnað né ástríðu.

Guðmundur hefur leitað til Besta flokksins. Eitt af helstu stefnumálum Jóns Gnarr var, að hans sögn, að útvega sjálfum sér þægilega innivinnu og góð laun. Kannski er einmitt við hæfi að Guðmundur Steingrímsson leiti til Jóns Gnarr. Engin sjáanleg stefnumál. Nafnlausa aflið virðast snúast um nafla Guðmundar; að tryggja honum þægilega innivinnu og prýðileg laun.

Vonandi koma fram ný framboð og nýtt fólk. Marktæk framboð sem snúast um eitthvað sem skiptir máli. Framboð sem hreyfa málum, hreyfa við fólki og verða til bóta. 

Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá Guðmundi og Gnarr til þess að „nýja aflið" verði eitthvað annað en naflaframboð. Hreyfing án baráttumála og án ástríðu er ekki svar við pólitískri kreppu og vantrausti. Naflaframboð Guðmundar og Gnarr fyllir ekki í neitt tóm. Og það er síður pláss fyrir grínframboð til löggjafarþings en sveitarstjórna.


Jæja Össur, var evran bara þýðingarvilla?

Þegar Össur kom heim af fundi í Brussel, fyrr á árinu, færði hann þjóðinni fréttir sem hann taldi góðar. Það væri að vísu erfitt sumar framundan fyrir evruna, en hún kæmi sterkari út úr þeim hremmingum strax í haust.

Og núna er komið haust. Október.

Var þetta kannski bara þýðingarvilla?Össur_Rehn

Sjálfur Olli Rehn evruráðherra fullvissaði Össur um að allt yrði í allra besta lagi. En Rehn er finnskur og Össur brusselskur og alltaf hætta á tungumálaörðugleikum.

Olli Rehn á frábæran talsmann sem er engu síðri en hann sjálfur, en ég veit ekki hvaða tungumál hann talar.

Heilsa evrunnar hefur aldrei verið verri. Hún er búin að vera og "Evra 2" í smíðum í Brussel. Reikningurinn hleypur á billjónum. Eða trilljónum. 

Mikið er nú gott að fá þennan styrk.

Össur hlýtur að nýta eitthvað af styrknum góða til að láta þýða svörin frá Olli Rehn. Þá getur hann eytt misskilningnum og útskýrt örlög evrunnar fyrir þjóðinni.

Jafnvel æft sig í að segja satt í leiðinni.

 


mbl.is Fá 233 milljón styrk frá ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuð Árna Þórs er "vondur staður"

Árni Þór þarf aðstoð til að komast á fætur. Ná áttum. Ef honum er illt í höfðinu er það ekki litlu hænueggi að kenna. Ef honum sortnar fyrir augum er það samviskan að reyna að gægjast upp á yfirborðið eftir öll sviknu kosningaloforðin. "Eggið hæfði mig á...

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband